Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Forðast okkur

Hlýja loftið virðist eiga að halda áfram að forðast okkur sem mest það má. Þetta ástand sést vel á meðalþykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga (fram til þess 21.)

w-blogg120815a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og sýna mikla háloftalægð (kuldapoll) rétt við landið. Jafnþykktarlínur eru daufar, strikaðar - en þykktarvik eru sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Bláir litir sýna hvar hiti er undir meðallagi áranna 1981 til 2010. Mikið lægðardrag liggur allt frá N-Kanada til suðausturs um Ísland til Spánar - í því öllu er hiti undir meðallagi - mest við Ísland.

Við höfum reyndar vanist enn stærri vikum áður í sumar, en þetta er alveg nóg. Talan við Vesturland (sést sé kortið stækkað) er -46 metrar. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs er meir en -2 stigum undir meðallagi. - Varla alveg svo mikið niðri í mannheimum - en nægilega mikið. 

En þetta er meðalkort - nokkrar sveiflur eru oftast frá degi til dags - en kannski minni nú en oft áður. Satt best að segja er engar teljandi breytingar að sjá á veðurlagi - þó gætu komið nokkrir þurrir dagar norðaustanlands - slíkt væri vel þegið ef býðst. 

Um helgina mun sérlega hlýtt loft fara til norðurs um Noreg allan - hvort það nægir í hitamet þar vitum við ekki enn. 


Landsynningur í vændum

Útlit er nú fyrir skammvinnan landsynning á miðvikudaginn, samfara djúpri lægð á Grænlandshafi. Landsynningur er sem kunnugt er annað nafn á suðaustanátt - en gjarnan með þeirri merkingarlegu viðbót að slagviðrisrigning og hvassviðri er með í kaupunum. - En þetta gengur fljótt hjá og nær sér sjálfsagt ekki allstaðar á strik. En látum Veðurstofuna fylgjast með því - hún gerir spár. 

Kortið gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag.

w-blogg110815a

Lægðin er hér 971 hPa í miðju - í dýpsta lagi miðað við árstíma - orðin til úr stefnumóti kuldapollsins (sem við í lausmælgi á dögunum kölluðum haustgrun fyrsta) og rakaþrungins lofts langt úr suðvestri. Hlýindin láta þó varla sjá sig hér á landi - nema í sviphending.

Lægðin á síðan að þokast til austurs fyrir sunnan land næstu daga - verst er hversu lengi hún verður að því - ekkert hlýrra kemst að á meðan - en ekkert kaldara heldur - (segja þeir nægjusömu). 


Tuttugustigaskortur

Hiti hefur ekki farið í 20 stig á landinu síðan 7. júlí - nú er 10. ágúst. Það er harla óvenjuleg rýrð. Tuttugustigadagarnir í júlí urðu ekki nema þrír. Júlímeðaltal áranna frá 1996 (skeið sjálfvirka kerfisins) er 15,1 dagur. Það var í júlí 1998 sem tuttugustigadagar sjálfvirku stöðvanna voru jafnfáir. 

En kerfin tvö, það mannaða og sjálfvirka telja ekki alveg eins - á síðari árum er sjálfvirka kerfið mun þéttara og nær fleiri dögum en það mannaða - en var frekar á hinn veginn fyrir 2004 - þar á meðal í júlí 1998, en þá náði mannaða kerfið 9 dögum. Við þurfum því sennilega að leita enn lengra aftur til að finna jafnrýran tuttugustigajúlí, kannski var það júlí 1985 þegar mannaða kerfið sagði dagana vera 2 - sömu tölu gaf júlí 1979 og í júlí 1970 var dagurinn aðeins einn. 

Sumarið 2015 - hefur líka verið afskaplega tuttugustigarýrt það sem af er - dagarnir aðeins orðnir 8 á sjálfvirku stöðvunum og aðeins 4 á þeim mönnuðu (en í stórlega grisjuðu kerfi). 

Ársmeðalfjöldi tuttugustigadaga 1996 til 2014 er 32,6 á mönnuðu stöðvunum, en 36,5 á þeim sjálfvirku. Meðaltal áranna 1961 til 1990 er 21,0 - hlýskeiðið hefur því fært okkur að minnsta kosti 12 „aukatuttugustigadaga“ á ári á landsvísu, það er 60 prósent „aukning“ - sýnd veiði en ekki gefin.

En ekki í sumar - þótt það sé auðvitað ekki búið. Meðalfjöldi tuttugustigadaga fram til 10. ágúst 1996 til 2014 er 28,3 á sjálfvirku stöðvunum - rúmir þrír fjórðu hlutar ársfjöldans eru því venjulega liðnir hjá þegar hér er komið sumars. Að meðaltali komu aðeins 8 dagar síðar á sumrinu. 

Á árunum 1961 til 1990 var meðalfjöldi tuttugustigadaga til 10. ágúst 16,7 - aðeins 4,3 dagar að meðaltali eftir það sem lifir sumars. - En meðaltöl eru bara meðaltöl - árið 2003 komu 18 tuttugustigadagar eftir 10. ágúst og á mönnuðu stöðvunum hafa þeir 11 sinnum orðið 10 eða fleiri - á tímabilinu frá 1949. En - 8 sinnum komu engin 20 stig eftir 10. ágúst. 

Næstu tíu daga eru ekki margir tuttugustigadagar í sigtinu - sé að marka spár - en þeir gætu þó orðið einhverjir. - Hin köldu meðaltöl segja að eftir séu um það bil þrír á árinu. - En erum við ekki á hlýskeiði? Meðaltal þess segir að tíu tuttugustigadagar séu eftir á árinu. - Þessi leikur er ekki á „lengjunni“ er það?

Myndin sýnir „rétthugsanlegantuttugustigadag“ - miðvikudaginn 12. ágúst - í boði þykktarkorts evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2015081000_066

En - lægðin er djúp - mikið af skýjum og brælu í lofti.


Hitinn fyrstu sjö mánuði ársins 2015 - er hann lágur?

Veðurstofan birti á dögunum yfirlit um hita í Reykjavík og á Akureyri fyrstu sjö mánuði ársins 2015. Þar kom fram að hitinn í Reykjavík er -0,3 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en +0,2 stig ofan við það á Akureyri. Þetta er auðvitað enginn óskahiti en í langtímasamhengi ekkert sérstaklega lágur.

Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að fjalla um sumarhitann fyrir norðan og austan - hann hefur verið óvenjulágur í raun og veru. 

Lítum á mynd sem sýnir meðalhita fyrstu sjö mánaða ársins í Reykjavík 1871 til 2014.

w-blogg100815a

Jú, hitinn í ár er miklu lægri en verið hefur að undanförnu - þess vegna finnst flestum hafa verið kalt - en aðeins fyrir 13 árum hefðu þessir sjö mánuðir verið taldir alveg eðlilegir hvað hita varðar. - Það eru undanfarin 12 ár sem hafa verið allsendis óvenjuleg. 

Meira að segja á hlýskeiðinu 1925 til 1965 (og maklega er rómað) voru sjö fyrstu mánuðir ársins hvað eftir annað ámóta og nú - og 1949 og 1951 töluvert kaldari. Var hlýskeiðið 1925 til 1965 búið með „kuldanum“ fyrstu sjö mánuði ársins 1931? Það var ekki heldur búið 1949 eða 1951. Það stóð í 40 ár.

Núverandi hlýskeið sýnist á þessari mynd hafa staðið í aðeins 12 ár - ríki einhver regla í „hlýskeiðasveiflum“ ætti það þá ekki að standa 28 ár til viðbótar? Nei - það er engin þannig regla - því miður (eða til allrar hamingju). Núverandi hlýskeið gæti þess vegna verið búið - það er engin fortíðarregla sem verndar það - það er heldur engin regla sem segir - að sé það búið - hljóti kuldi þess vegna að standa í áratugi - síður en svo. 

En ljóst er að árið verður ekki sérlega hlýtt. Fyrstu sjö mánuðir ársins segja mikið um meðalhita þess í heild. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg100815b

Lárétti ásinn sýnir meðalhita fyrstu 7 mánaða ársins í Reykjavík - en sá lóðrétti meðalhita ársins alls. Mikil fylgni er á milli. Lóðrétta strikalínan sýnir hita það sem af er ári 2015, hún sker rauðu aðfallslínuna við 4,3 stig. Svo kalt ár hefur ekki komið í Reykjavík síðan 1995 - en þá var meðalhitinn hins vegar talsvert lægri eða 3,8 stig.

Við sjáum að eitt ár - kaldara er þetta - náði að hala sig upp í fimm stig áður en því var lokið. Það var 1958.

Það má líka taka eftir því að árin sem voru áberandi hæst á efri myndinni (1964 og 1929) sprungu á limminu - stóðu ekki alveg undir væntingum. Það gerðu hins vegar 2003, 2014, 2010, 1941 og 1939.

Við lékum sama leik fyrir mánuði - þá gaf aðfallsspáin ársmeðalhitann 4,2 stig - en gefur 4,3 stig nú - júlímánuður hefur dregið ársspána upp um 0,06 stig. - En nú eru aðeins fjórir og hálfur mánuður til að vinna árið upp í 5 stig - eins og árið 1958 gerði - það er harla ólíklegt að slíkt takist. 

Eitt ár hlýskeiðsins gamla lenti að lokum undir fjórum stigum. Við eigum meiri möguleika á því heldur en að ná fimmu. Keppnismenn: Hvoru liðinu fylgið þið? Því hlýja eða því kalda? 


Af lágum (og háum) loftþrýstingi í ágúst

Við lítum til gamans á línurit sem sýnir lægsta og hæsta loftþrýsting á landinu á hverjum degi í ágúst og september 1949 til 2014. Línuritið sýnir vel hvað telst óvenjulegt og hvað ekki - og líka hluta árstíðasveiflu - en þrautseigir lesendur hungurdiska vita að slíkar sveiflur eru sérlegt áhugamál ritstjórans. - Ekki víst að aðrir áhugamenn séu margir - en hvað um það.

Lægsti (rautt) og hæsti (blátt) loftþrýstingur hvers dags á landinu  1949 til 2014

Lárétti ásinn sýnir dagatal - frá 1. ágúst til 30. september, en sá lóðrétti er merktur þrýstingi (í hPa). Rauða línan sýnir lægsta þrýsting sem mælst hefur hvern dag á landinu á tímabilinu 1949 til 2014. Sú bláa sýnir hæsta þrýstinginn á sama hátt.

Áberandi er hve rauði ferillinn lækkar til hægri á myndinni - lægðir verða því dýpri eftir því sem nær dregur hausti. Vel sést að allt undir 980 hPa er mjög óvenjulegt fyrstu tvær vikur mánaðarins rúmar - athugum að hér er um ítrustu lágmörk alls tímabilsins að ræða, 66 ár. Þetta táknar að við ættum að gefa lægðum sem dýpri eru en 980 hPa á þessum tíma gaum - sýni þær sig í nágrenni landsins. 

En loftþrýstingur hefur verið mældur miklu lengur hér á landi og vitum við um þrýsting á að minnsta kosti einum stað á landinu á hverjum einasta degi síðan 1. desember 1821 - það styttist í 200 ára samfelldar þrýstimælingar. 

Svo vill til að lægstu tölur ágúst- og septembermánaða alls tímabilsins falla utan þess tíma sem myndin sýnir, Ágústmetið (sýnt með stjörnu) er frá 1927, en septembermetið frá aldamótaárinu, 1900. 

Einnig má sjá árstíðabundna leitni háþrýstingsins - en ekki mikla þó. Þrýstingur ofan við 1030 hPa er frekar óvenjulegur í báðum mánuðum - algengari í september. Háþrýstimet ágústmánaðar er frá 1964, en septembermetið frá 1983 - bæði á myndinni. 

Því er á þetta minnst einmitt núna að evrópureiknimiðstöðin er að sýna okkur býsna djúpa ágústlægð í spá sinni þessa dagana - kortið hér að neðan gildir á hádegi á fimmtudag. Lægðin á þá að vera 967 hPa djúp nokkuð fyrir suðvestan land. 

w-ecm0125_nat_msl_t850_6urk_2015080812_120

Langt í frá er víst að þessi spá rætist - og á kortinu er bærilegasta veður á Íslandi - en lægðasvæði verða viðloðandi í námunda við landið næstu vikuna - nema hvað? Við gefum þessu frekari gaum síðar - ef ástæða þykir til. 


Fyrstu 15 vikur sumars

Enn tökum við stöðuna á íslenska sumrinu (að hefðbundnu tali), en nú eru liðnar af því 15 vikur. Svo vel(?) vill til - eins og margir lesendur muna - að kuldakast hófst einmitt á sumardaginn fyrsta. Segja má að það hafi staðið linnulítið síðan á landinu norðan- og austanverðu, en syðra hefur sloppið heldur betur til.

Nú er svo komið að þessi tími er á Akureyri sá þriðji kaldasti síðustu 67 árin (frá og með 1949) - en í Reykjavík er hann í 10. neðsta sæti. 

Myndin sýnir meðalhita fyrstu 15 vikna sumars á Akureyri á þessu tímabili.

Hiti á Akureyri fyrstu 15 vikur sumars 1949 til 2015

Lárétti ásinn sýnir (að vanda) árin, en sá lóðrétti meðalhita í °C. Fyrstu 15 vikur sumars 2014 voru þær langhlýjustu á tímabilinu öllu - en heldur bregður við í ár og þarf að leita allt aftur til 1993 að nokkru viðlíka - og aftur til 1979 til að finna kaldara sumar. Sumarið 1967 var einnig harla laklegt sömu vikurnar. 

Hitinn á Akureyri hefur í sumar og vor verið um -1,7 stigum undir meðallagi tímabilsins alls, en -0,8 í Reykjavík, þar sem fara þarf aftur til 1993 til að finna kaldara. 


Fyrir sunnan land

Útlit er fyrir að lægð helgarinnar fari fyrir sunnan land - sem þýðir að vætutíðin heldur áfram um landið norðaustan- og austanvert. Sjá má frumvarp evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna síðdegis á laugardag (8. ágúst) á kortinu hér að neðan.

w-blogg070815a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, hiti í 850 hPa er sýndur með mislitum strikalínum, frostmarkslínan er grænleit - en þær sem sýna hita ofan frostmarks eru rauðar - og bláar línur merkja hita neðan þess. Úrkoma er sýnd með litum - grænt yfir í blátt (sjá kvarðann). 

Lægðarmiðjan er hér beint sunnan við land á leið norðaustur - ætli veður verði samt ekki sæmilegt um meginhluta landsins mestallan laugardaginn - helst að hann blási allra syðst á landinu - og sums staðar suðaustanlands. Rigningin nær eitthvað inn á land - verður væntanlega mest á Suðausturlandi - og síðar á Austfjörðum og Norðausturlandi. 

Þetta er býsna öflug lægð miðað við árstíma - en fer að grynnast á laugardagskvöld. Þeir sem treysta sér til að rýna í kortið sjá að hiti í 850 hPa er meiri en 20 stig í Mið-Evrópu - þykktin er þar meiri en 5700 metrar - veðurstofur flagga rauðum hitamæli á viðvörunarskiltum - en lítill kuldapollur veldur úrhelli í Pýreneafjöllum og Suður-Frakklandi - evrópskir spáveðurfræðingar hafa úr nægilegu að moða næstu vikuna.

Örin efst til vinstri bendir á kuldapollinn haustgrun fyrsta - en rétt er að gefa honum gaum næstu daga. Þar má, ef vel er að gáð, sjá -5 stiga línuna. Á suðurvæng pollsins er líka mjög hlýtt loft, meir en +10 stig í 850 hPa - og sjá má mikla bleytu og orkuríkt umhverfi við Nýfundnaland. - Reiknimiðstöðvar hafa ekki ákveðið hvort eitthvað að ráði verður til úr stefnumótum eftir helgi. 


Meir af óvenjulegum júlímánuði - og áframhaldi (?)

Við lítum nú á kort sem sýnir meðalsjávarmálsþrýsting í nýliðnum júlí - og spákort um meðalþrýsting næstu tíu daga - úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg050815a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar - (með tveggja hPa bili). Vik - miðað við 1981 til 2010 eru sýnd í lit, neikvæðu vikin eru blá - en þau jákvæðu rauðlituð. 

Þrýstingur var langt yfir meðallagi við Grænland í júlí - en lágur suður og austur undan. Ávísun á norðaustanáttarauka. Ritstjórinn hefur ekki lokið við að meta hversu óvenjuleg þessi staða er í júlí - en hæglega gæti verið um að ræða einn af fimm mestu norðanáttarmánuðum frá því fyrir 1920 - og svo var austanáttin býsna stríð líka - og í toppbaráttu. Hún er reyndar enn meira áberandi í háloftunum en sést hér. 

Ekki er beinlínis að sjá lát á norðanáttinni - en þó er spá næstu tíu daga ekki eins -

w-blogg050815b

Þessi spá gildir frá þriðjudegi 4. til föstudags 14. ágúst. Hér er lægðin mun ágengari - og hæðin við Grænland komin í eðlilegt horf. En þetta er ekkert sérlega efnilegt sumarveður - þrýstingur 8 hPa undir meðallagi ágústmánaðar. 

Kannski kuldapollurinn „haustgrunur fyrsti“ og fjallað var um á hungurdiskum í pistli á dögunum komi hér eitthvað við sögu? En hann breytir e.t.v. einhverju þegar upp verður staðið? 


Haustgrunur?

Fyrst er að fylgjast með framsókn sumarsins - og einhvern tíma nær hún hámarki. Í heiðhvolfinu gerist það strax skömmu eftir sólstöður - en þar er samt langt í haust nú í byrjun ágústmánaðar - sumaraustanáttin er enn ríkjandi. Uppi við miðhvörfin (í um 90 km hæð) eru hlutirnir nokkuð öfugsnúnir - þar er kaldasti tími ársins um mitt sumar - tími silfurskýjanna. 

Þau getum við þó ekki séð (vegna birtu) fyrr en eftir 25. júlí. Svo hverfa þau mjög snögglega í ágúst - oftast um miðjan mánuð - þá er orðið of hlýtt þarna uppi til að þau geti haldist við. Segja má að brotthvarf þeirra séu þar fyrstu merki haustkomunnar.

Í Norðuríshafi bráðnar venjulega meiri ís en myndast allt til ágústloka - og í sumum árum allan september líka. En sól lækkar óðum á lofti - þannig að kuldinn á sífellt auðveldara með að ná sér á strik - fái hann frið til þess. 

Kuldapollar vetrarins á undan lifa í einhverri mynd nokkuð langt fram eftir sumri - og varla nokkur tími sumarsins sem algjör friður er fyrir þeim. - En það er segin saga að þeir fara að taka sig upp með vaxandi þunga strax í ágúst. Hringsóla um íshafið - og gera stundum útrásir suður á bóginn - og nýir myndast þá fljótlega í stað þeirra sem fara. 

Einn slíkur er nú á sveimi og sést hann vel á myndinni hér að neðan. Hún sýnir 500 hPa hæðar- og þykktarspá bandarísku veðurstofunnar sem gildir síðdegis á þriðjudaginn, 4. ágúst.

w-blogg030815a

Norðurskaut er nærri miðri mynd. Ísland alveg neðst. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim má ráða vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litirnir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hér er Ísland að miklu leyti í gula litnum - heldur sjaldgæf sjón í sumar - nærri meðallagi árstímans en ekki neðan þess eins og lengst af hefur verið. 

Blái liturinn hvarf af kortunum í nokkra daga í júlí - en er nú kominn aftur. Hugsanlega hverfur hann aftur dag og dag - en er annars kominn til að vera og fyrr en varir verða bláu litirnir aftur orðnir tveir. 

Enn er langt til hausts - en samt sjáum við til þess við ystu sjónarrönd. 


Norðaustanátt áfram ríkjandi - en lítillega hlýrri (?)

Ekki er lát að sjá á norðaustanáttinni - hún er búin að vera óþægilega köld að undanförnu (nema rétt sunnan undir vegg suðvestanlands). En strax munar ef hún gerist aðeins austlægari. Þá gætu skotist inn dagar þegar hreinsar frá inn til landsins um landið norðaustanvert auk þess sem hlýrra verður um landið sunnan- og vestanvert. 

Hér að neðan er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting næstu 10 daga. Jafnframt eru sýnd vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Meðalkort geta verið misvísandi - því auðvitað víkur mikið frá meðalstöðunni einstaka daga.

w-blogg010815a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þrýstivik (hPa) eru sýnd í lit, þau neikvæðu eru bláleit, en þau jákvæðu rauðleit. Lægð er fyrir suðaustan land - þrýstingur er nærri 13 hPa undir meðallagi þar sem mest er - og jafnframt er hæð yfir Grænlandi, þar sem þrýstingi er spáð um 12 hPa yfir meðallagi - samtals eru þetta um 25 hPa norðaustanáttarauki á svæðinu milli vikahámarkanna. 

Yfir landinu er aukinn í kringum 5 hPa. Séu vikin gaumgæfð nánar má sjá að annars vegar er norðaustanáttarauki meðfram Grænlandi - en mun austlægari fyrir suðaustan land - þetta gefur okkur von um að loftið verði af austrænni uppruma en verið hefur.

Sé úrkomuspá reiknimiðstöðvarinnar tekin bókstaflega (sem getur verið varsamt) verður úrkoma langt undir meðallagi suðvestan- og vestanlands, en meir en tvöföld meðalúrkoma eystra og þá sérstaklega á Austfjörðum og á Hornströndum. 

Norðaustanátt með hóflegu austrænu ívafi getur verið sérlega hagstæð á höfuðborgarsvæðinu - enn hagstæðari heldur en bæði í Borgarfirði og fyrir austan fjall og hiti getur komist upp í það hæsta sem veðrahvolfið getur leyft - miðað við almennan hita í neðri hluta þess. Þess vegna hafa stöku spár verið að tala um 18 til 19 stiga hita í Reykjavík á mánudag/þriðjudag og ritstjórinn fær jafnvel 20 stiga glýju.

En þá þarf líka allt að ganga upp - en slíkt hefur gengið mjög illa í sumar - tígulgosinn hefur aldrei legið fyrir svíningu. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 43
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 441
  • Frá upphafi: 2343354

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 396
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband