Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Sólmyrkvinn - og hitinn

Eins og fram kemur í frétt á vef Veðurstofunnar mátti sá greinilegt hitafall í Reykjavík á meðan á sólmyrkvanum í morgun (föstudag 20. mars) stóð. 

En við hugum að landsmeðalhita (allra almennra sjálfvirkra stöðva) á sólmyrkvamorgni og skellum landsmeðalvindhraðanum með okkur til frekari skemmtunar. Síðar verður lagst betur yfir gögnin - eftir landshlutum og ýmsum öðrum breytum - kannski helst skýjahulu og fjarlægð frá almyrkvanum. 

En lítum á hráar tölurnar á mynd. 

w-blogg210315

Lárétti ásinn sýnir tímann - vinstri lóðrétti ásinn sýnir hitann en sá til hægri vindhraða. Landsmeðalhitinn er markaður með bláa ferlinum. Hann fer hækkandi eftir klukkan hálf átta og hækkar fram undir kl.9 - þá bregður svo við að hann fer að falla aftur og nær lágmarki kl. 9:40 og 9:50. Hámark myrkvans var um kl. 9:40 - hitinn kl. 10:00 hélst svipaður en reis síðan ört.

Munurinn á meðalhitanum kl.9:00 og 9:50 er um 0,4 stig. Giska má á að heildaráhrif myrkvans séu þó heldur meiri því líklega hefði hitinn án myrkva haldið áfram að stíga frá kl. 8:40 (þegar fyrst slær á hækkunina) til 9:50. Hér giskum við ekki á tölur.

Svo er það vindhraðinn (rauður ferill - hægri kvarði). Er það tilviljun að hann er minni meðan á myrkvanum stendur heldur en fyrir og eftir? Hér verður að hafa í huga að aðeins er um brot af m/s að ræða - en á móti kemur að stöðvarnar eru 150. 

Svo eigum við stöðvar Vegagerðarinnar til samanburðar. Óhætt er að upplýsa að hegðan landsmeðalhita þeirra er svipuð (spönn myrkvadýfunnar aðeins minni). Lágmark er líka í vindhraða á vegagerðarstöðvunum - en aðeins síðar en sjá má á myndinni hér að ofan.

Þegar hitinn féll hækkaði rakastigið auðvitað - og reyndar á daggarmarkið líka landsmeðallágmark meðan á myrkvanum stóð - en ekki tímabundið hámark á undan eins og hitinn. Fræðingar munu eitthvað velta sér upp úr þessu á næstu mánuðum en við leggjum ekki í frekari greiningu hér og nú. 

Svo er gengið á móts við enn einn útsynninginn á morgun (laugardag 21. mars). 


Á norðurhveli nærri jafndægrum

Við jafndægur er greinilega farið að vora á norðurhveli. Mest áberandi er minnkandi afl stóru kuldapollanna. Þeir eru þó enn til alls líklegir og munu taka á spretti svo lengi sem vetur lifir (og lengur).

w-blogg200315a

Kortið hér að ofan sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa laugardaginn 21. mars kl.18. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í fletinum en hann er í um 5 km hæð yfir sjávarmáli á norðurslóðum, en langleiðina í 6 km suður í hitabelti. Þykktin er sýnd með litum og mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

Þeir sem reglulega fylgjast með þessum kortum taka eftir því að nú sést ekki til fjólubláu litanna (kaldasta loftið) nema á litlum bletti við Hudsonflóa - Stóri-Boli ofsækir enn strandfylki Kanada og jafnvel norðausturhluta Bandaríkjanna líka. Fjarvera fjólubláa litarins er þó tilviljun þennan daginn - svo langt er vorið ekki komið að við séum laus við hann. 

Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar yfir Íslandi enda enn eitt lægðakerfið að fara hjá á laugardag. Á undan því er mjög hlýtt í mjóum fleyg - guli liturinn (sem er sumarlitur okkar) er rétt búinn að sleikja landið á mikilli hraðferð til austurs. Kaldara loft sækir síðan að úr vestri - eins og verið hefur í vetur. 

En þessi kalda framrás laugardagsins er ekki almennilega tengd meginkuldanum vestra - en spár sem ná lengra fram í tímann gera ráð fyrir því að kalda loftið verði atgangsharðara við okkur þegar fram í sækir. Vestansnjórinn er því sennilega ekki búinn að yfirgefa okkur - við huggum okkur við það að sólarylurinn eflist dag frá degi og gengur betur og betur að bræða éljasnjóinn og hita yfirborð landsins.


Skýjafar á sólmyrkvamorgni - að sögn reiknilíkans

Erfitt er að spá um skýjafar - það reyna þó reiknilíkön. Hér að neðan er nýjasta (frá því í kvöld, miðvikudaginn 18. mars) afurð harmonie-reiknilíkansins sem gildir föstudaginn 20. mars kl.10. 

w-blogg190315a

Efst til vinstri (grænt) er heildarskýjahulan - lágskýjahulan efst til hægri - mestu máli skiptir að hún sé sem minnst þegar fylgst er með myrkvanum. Allstór hluti landsins á að vera laus við lágský, miðský (neðst til vinstri) eiga að vera nær engin - en jaðar háskýjabreiðu næstu lægðar er að slá upp á suðvesturloftið. Fyrir hinn almenna áhorfanda geta háský verið til bóta - því varlega verður að fara þegar reynt er að horfa í sólina.

En - hún er reyndar svo sterk að það þarf mjög þétta grábliku til að hægt sé að horfa á myrkvann með venjulegum dökkum sólgleraugum - við sjáum sólina stöku sinnum þannig. Gráblikan lægðarinnar á hins vegar ekki að vera mætt á svæðið - nema að líkanið sé aðeins að plata - telji gráblikuna í þessu tilviki til háskýja. 

Spá hirlam-líkansins er í aðalatriðum sú sama - og evrópureiknimiðstöðin býður líka upp á svipað - en þó eru heldur meira af miðskýjum í þeirri spá. 

En skýjahuluspár eru ekki staðfastar - breytast frá einni spárunu til annarrar - en þetta er sum sé ekki alveg vonlaust. 


Landsynningur enn á ný - en hóflegri en margir fyrri

Eftir langþráðan hæðarhrygg nálgast lægðasvæði enn á ný. Það virðist þó vera mun hóflegra heldur en þau sem hafa legið á okkur upp á síðkastið. Það er gott og rétt er að nota tækifærið til að líta á lóðrétt þversnið sem sýnir hvað ritstjórinn telur hóflegt í skaktíðinni.

Hér að neðan er nokkuð snúinn texti sem varla er við hæfi allra lesenda - en á misjöfnu þrífast börnin best (eða hvað). En það má alltaf horfa á fallegar myndir. 

Þversniðin eru ekki mesta léttmeti hungurdiska - en býsna lærdómsrík. Á laugardaginn sáum við miklar öfgar í sama sniði. Heimskautaröstin sem venjulega hlykkjast mjó og löng um norðurhvel nærri veðrahvörfum í 9 til 10 km hæð teygði hes sitt nánast niður að sjávarmáli - og veðrið eftir því. 

Á sniðinu hér að neðan rétt sést í hana alveg efst á myndinni og þar að auki er hún miklu veigaminni en var á laugardaginn 14.mars.

w-blogg180315a

Sniðið er frá suðri til norðurs eftir 23 gráðum vesturlengdar - sýnt á litla kortinu efst til hægri á myndinni. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting í hPa - og þar með hæð yfir sjávarmáli. Vindörvar sýna vindátt og vindhraða á hefðbundinn hátt - en hraðinn er líka sýndur með litum.

Við sjáum dæmigerða landsynningsröst lágt yfir sniðinu sunnanverðu (suður er til vinstri) og smáhnykkur er á henni yfir Snæfellsnesi. Fjallgarðurinn sést sem lítil grá þúst undir hnykknum og Vestfjarðafjöllin lengra til hægri. Þetta er mjög dæmigerð lágröst - (alveg slitin frá heimskautaröstinni efst á myndinni). Í miðju hennar má rétt sjá gulan lit - hann sýnir vind meiri en 32m/s - það er nokkuð mikið - en algjörir smámunir samt miðað við laugardagsástandið. 

Við erum svo heppin að sjá hvað það er sem vekur röstina. Heildregnu línurnar sýna mættishita - hann vex upp á við. Hér - eins og oft - notum við Kelvinstig í stað °C þegar mættishiti er sýndur. Bilið á milli línanna er 2K. Mættishiti er líka kallaður þrýstileiðréttur hiti - sýnir hita loftsins - EF það væri dregið úr sinni hæð niður í 1000 hPa. 

Ekki þarf að horfa lengi á myndina til að sjá að jafnmættishitalínurnar á neðri hluta myndarinnar hallast - upp til hægri. Rauðar örvar benda á 290K línuna. Hún liggur mun neðar til vinstri á myndinni heldur en til hægri - það munar um 120 hPa - meir en kílómeter. Loftið er mun hlýrra vinstra megin - þar eru ekki nema fimm línur undir 290K niður að sjávarmáli - en hægra megin eru þær átta. 

Þessi 6 stiga hitamunur nægir til að búa til austanþátt landsynningsins. Sunnanþátturinn verður til við ámóta hitamun á sniði sem liggur frá vestri til austurs (ekki sýnt hér) og samtals verður landsynningur úr.  

En við skulum líka sjá sérlega fallegt þversnið frá því kl.19 í dag (þriðjudag). Þá voru miklir éljaklakkar á stangli yfir landinu suðvestanverðu - en alveg bjart á milli - loftið vaðandi óstöðugt - en ekki alveg nægilega rakt til að búa til meiri samfellu úr uppstreyminu.

w-blogg180315b

Það er óvenjulegt að sjá vind minni en 2 m/s eins og hér er - og vind undir 8 m/s alveg upp í 4 km hæð. Heimskautaröstin æðir langt yfir ofan með sína 50 m/s. Við skulum líka taka eftir því hversu óskaplega gisnar jafnmættishitalínurnar eru neðan til í sniðinu miðað við það sem er á hinni myndinni. Því gisnari sem línurnar eru - því óstöðugra er loftið - um leið og raki þéttist losnar varmi (mættishitinn hækkar) og greið leið er langt upp í veðrahvolf - eins og klakkarnir háreistu sýndu svo glöggt. 

Jú - þetta var dálítið hart undir tönn. 


Heldur mildari svipur

Þótt lægðabiðröðin sé enn löng er samt heldur mildari svipur á ástandinu næstu daga en verið hefur að undanförnu. Kalda loftið vestur undan hefur heldur hörfað og þar með dregur úr mesta afli veðurkerfanna.

En næstu lægðir eru samt á leiðinni. Við getum litið á 500 hPa spákort sem gildir síðdegis á miðvikudaginn kemur (18. mars). 

w-blogg170315a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra - rétt yfir meðallagi árstímans hér á landi. Kanadakuldapollurinn Stóri-Boli hefur hörfað út af kortinu í bili og aðrir höfuðkuldar eru ekki í skotstöðu. 

En við sjáum þó tvær lægðir á leið til landsins - sú fyrri kemur á miðvikudagskvöld og hins hlýja aðstreymis hennar er farið að gæta á fullu á kortinu. Ætli það stefni ekki í landsynning þá um kvöldið og nóttina? 

Síðari lægðin á síðan að berast okkur með vestanáttinni síðdegis á föstudag - ekki er útséð um hvort niðurstreymið á undan henni hittir rétt í sólmyrkvann þá um morguninn. 

Ef ekki verður ekki bara að segja eins og refurinn: Þetta var hvort eð er ekki almyrkvi. 


Meir um veðrameting

Laugardagsillviðrið (14. mars) sló vindhraðamet á fjölmörgum veðurstöðvum og komst nærri þeim á fleirum. Í viðhenginu er til gamans listi sem ritstjórinn tók saman. Þar má sjá hvar vindhraðamet voru slegin - og líka í hvaða sæti vindur gærdagsins lenti - ef hann náði inn á topp tíu á stöðinni. 

Listinn er skiptur. Fyrst kemur 10-mínútna vindur á almennum sjálfvirkum stöðvum í stafrófsröð, síðan er hviðulisti. Sæti eru ekki alltaf þau sömu á listunum, t.d. var 10-mínútna meðalvindhraði á Veðurstofutúni sá næstmesti frá upphafi sjálfvirkra mælinga þar - en hviðan sú mesta. Síðan koma sams konar listar fyrir stöðvar Vegagerðarinnar og mönnuðu stöðvarnar fylgja í kjölfarið - þar voru engin met sett í veðrinu en dagurinn náði inn á topp-tíu á nokkrum stöðvanna. 

Nördum verður að góðu - en vonandi stendur listinn ekki í öðrum. Nördin geta velt sér frekar upp úr þessu - klukkan hvað var vindur mestur? - Skera einhver landsvæði sig úr?

Viðbót 16. mars kl.14

Ábending hefur borist um að íslenskir stafir skili sér ekki í viðhenginu hjá öllum fletturum. Þeir sömu gætu losnað við vandamálið með því að vista viðhengið á tölvu sína og opna skrána þvínæst í gegnum excel - þá eiga flestir að ná íslensku stöfunum.

Bætt hefur verið við öðru viðhengi - þar má sjá 20 hvössustu klukkustundir í byggð (meðaltöl vindhraða á athugunartíma, meðaltal hæsta 10-mínútna meðalvindhraða klukkustundarinnar og meðaltal mestu hviðu) frá 1996 á sjálfvirkum stöðvum. Einnig má sjá sólarhringsmeðaltöl vindhraða á sjálfvirkum og mönnuðum stöðvum.

Eins og bent hefur verið á kemur laugardagsveðrið (14. mars) hæst út í snerpunni (klukkustundargildunum) - en það stóð stutt og nær því ekki að skáka hæstu sólarhringsmeðaltölunum.

Viðbót 16. mars kl.23:40

Enn ein skráin - sú er listi mesta vindhraða og mestu vindhviða (slatta af mestu vindhviðum vantaði í fyrri skrár).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eitt versta veður síðari ára

Nú er hægt að slá á samanburð illviðrisins í dag og annarra veðra síðari ára. Annar vegar teljum við á hversu mörgum sjálfvirkum stöðvum í byggð - af öllum - vindur náði 20 m/s á athugunartíma og reiknum hlutfall. Það berum við saman við hlutfall annarra daga. 

Þá fæst eftirfarandi tafla:

röðármándagurvísitala
120011110746
21999116723
3200828705
42008127676
52015314675
620071230660
720141130594
82001127562

Taflan nær frá janúar 1996 til dagsins í dag. Veðrið í dag er í 5. sæti - á sennilega eftir að hækka aðeins - dagurinn er ekki liðinn (gert kl. 16:30). Munur á þessum veðrum er varla marktækur - en veðrið í dag er alla vega ekki verra en þau verstu.

Við getum líka reiknað meðalvindraða sólarhringsins á sjálfvirkum stöðvum í byggð og búið til þessa töflu:

röðármán dagurmvindur
1199911616,44
2201211215,46
3199622115,41
4201531415,28
51996111415,22
62001111014,94
72007113014,50
8201131414,29

Aftasti dálkurinn sýnir meðalvindhraða í m/s. Veður dagsins er hér í 4. sæti - en á væntanlega eftir að hrapa nokkuð þar til deginum lýkur (hægasti hluti sólarhringsins) er eftir. En samt - þetta er vel af sér vikið. 

Vekja má athygli á því að 30. nóvember 2007 er á öðrum listanum, en 30. desember sama ár á hinum - þetta er rétt. Þessir tveir dagar komast á sitt hvorn listann.

Fyrri listinn mælir helst snerpu veðra - en sá síðari afl og úthald. Við reynum að bera saman árangur í sprett- og langhlaupum. Sumir dagar fá verðlaun í báðum flokkum - en aðrir láta sér annan nægja. 

Breyting í lok dags:

Eins og líklegt var talið hér að ofan hækkaði dagurinn lítillega í snerpunni (efri taflan) - vísitalan endaði í 688 og þar með í fjórða sæti (en ómarktækt lægri en þrjú efstu sætin).

Hins vegar hrapaði dagurinn talsvert í úthaldskeppninni - eins og búast mátti við - meðalvindhraði í byggð endaði í 13,11 m/s og hrap niður í 24. til 25. sæti er staðreynd. 


Hárastarveður

Veðrið sem gekk yfir landið í morgun og í dag var eitt það versta á síðari árum - hvað vindhraða varðar. Lægðin var ekkert sérstaklega djúp - en lagðist þannig að skotvindur heimskautarastarinnar gat teygt sig nærri niður að sjávarmáli. Þetta kemur fyrir en illviðrin fyrr í vetur hafa ekki verið þessarar gerðar. 

Víst er að þversnið vinds frá sjávarmáli og upp í 10 km hæð (250 hPa) líta ekki oft eins illa út og sjá má á myndinni hér að neðan. 

w-blogg140315-iia

Sjá má legu sniðsins á litla kortinu uppi í hægra horni - syðsti hlutinn er lengst til vinstri - Snæfellsnes kemur fram sem lítill grár hóll neðst fyrir miðju - og Vestfjarðafjöllin aðeins hærri þar lengra til hægri.

Bleikgráu litirnir sýna svæði þar sem vindur er meiri en 48 m/s - vindur fer vaxandi upp í gegnum allt veðrahvolfið - engin lægri staðbundin hámörk er að finna. Vindáttin er svipuð uppúr og niðrúr - hallast aðeins austur fyrir suður alveg neðst - vegna núningsáhrifa.

Þeir sem vilja rýna frekar í myndina geta tekið eftir því að mættishitalínur (heildregnar) eru ekki nema tvær undir 800 hPa hæð á öllum vinstri helmingi myndarinnar - þarna er loftið orðið nokkuð vel blandað og bylgjur eru því veikar yfir Snæfellsnesi þrátt fyrir að vindáttin sé þvert á fjöllin - ofar eru mættishitalínurnar þéttari og þar ber meira á bylgjum - eins yfir Vestfjörðum - þar sem mættishitalínurnar eru þéttari. 

Síðari myndin sýnir þversnið austur eftir Norðurlandi. Þar eru mættishitalínur þéttari og bylgjur mun meiri og draga þær 50m/s nærri því niður til jarðar yfir Tröllaskaga - hes rastarinnar lafir niður undir fjöll. Harla óhuggulegt svo ekki sé meira sagt. 

w-blogg140315-iib

Strikalínan (græn) sem liggur á ská upp til vinstri sýnir svæði (halla) þar sem mættishitalínurnar liggja mjög bratt - þetta eru einhvers konar skil.

Þetta er skólabókardæmi um hárastarveður. Þau eru algengust í suðlægu áttunum - en koma líka fyrir í vestanátt - en nokkuð langt er þó síðan ritstjórinn hefur séð góð dæmi um slíkt í mjög vondu veðri. 

Afskaplega gagnlegt er að fá að sjá teikningar sem þessar úr nákvæmu veðurlíkani eins og harmonie-líkanið er. Þökk sé öllum þeim sem gerðu það mögulegt, tökum ofan fyrir harmonie-teymi Veðurstofunnar - og spávakt Veðurstofunnar. 


Mjög tætingsleg lægð - að sjá

Lægðin sem á að valda illviðri á morgun laugardag (14. mars) er óvenju tætingsleg að sjá - miðað við margar frænkur sínar. Hér verður ekki neitt rætt um spána - það kynni að valda misskilningi - við látum Veðurstofuna um að halda utan um málið.

En við skulum samt líta á tvær myndir - báðar frá miðnætti (á föstudagskvöld 13. mars). Sú fyrri er hitamynd. 

w-blogg140315a

Jú, vanir myndarýnendur sjá lægðarmiðjuna suður í hafi - en margar blikur eru á lofti harla óhefðbundnar - en greina má haus (hæsti hluti hans er kominn framúr lægðinni) - Hlýja færibandið austan lægðarmiðjunnar er sérlega tætingslegt - en þurra rifan sést. En - ætli það sé ekki vissara að líta á vatnsgufumyndina líka.

w-blogg140315b

Margt skýrara hér. Hálfgert svarthol sést nærri lægðarmiðjunni - þurra rifan -. Þetta er harla óþægilegt. En veðrið gengur hratt hjá - varla tími til að snúa sér við. 


Er þetta laugardagslægðin?

Miklum illviðrum er spáð næstu daga. Að vanda látum við Veðurstofuna um aðvaranir og þá hnykki sem nauðsynlegir eru. Þótt illu sé spáð á morgun (föstudag) virðist enn verra spáð á laugardag. Lægðin sem á að færa okkur það högg er reyndar rétt svo að verða til - þótt aðeins sé nú (um miðnætti á fimmtudagskvöldi (12. mars) rétt rúmur sólarhringur í að áhrifa hennar fari að gæta hér á landi. - Svo hratt gerast hlutirnir.

Myndin hér að neðan er fengin frá kanadísku veðurstofunni, úr ameríkuhnettinum sem kallaður er GOES-east.

w-blogg130315a

Þetta er hitamynd - lituð þannig að köldustu skýin eru gul - síðan eru þau rauðgulu lítillega hlýrri, því næst þau hvítu sem rennur svo í grátt. Grænt er hlýjast. 

Ísland er efst til hægri - en við sjáum langt suður í höf. Örin bendir á hvítan flekk. Þetta er „haus“ nýju lægðarinnar - miðja hennar við sjávarmál er nokkuð þar suðaustur af. Hausinn er líka kallaður „riðalauf“ (baroclinic leaf) meðan hann er ekki meiri en þetta. 

Annað fyrirbrigði sem við viljum líka sjá í ört dýpkandi lægðarbylgjum er „hlýja færibandið“ [hálfgert klámyrði - en hrá þýðing á „warm conveyor belt“ sem verður að duga þar til betri þýðing finnst). Hér er nýja lægðin ekki alveg búin að koma sér upp eigin færibandi - Það ætti að koma fljótlega í ljós.  

Eftir að haus og hlýtt færiband eru mætt á staðinn förum við að svipast um eftir „þurru rifunni“ (dry slot). Hún kemur fram rétt áður en hringform fer að komast á kerfið - rifan er skýlaust svæði rétt vestan við norðurenda færibandsins. - Enn síðar birtist það sem oftast er kallað snúður lægðarinnar - þar býr hin illræmda „stingröst“ (sting jet) þar sem vindur lægðar af þessu tagi er venjulega mestur við sjávarmál. 

En við bara bíðum og sjáum hvað setur. Á vef Veðurstofunnar má fylgjast með nýjum gervihnattahitamyndum sem endurnýjast á klukkustundarfresti. Þar eru hvítustu svæðin köldust - skýin eru hæst - og hægt er að fylgjast með fyrirbrigðunum sem nefnd voru hér að ofan verða til í nærri því beinni útsendingu. Skýjakerfi lægðarinnar nýju er nýkomið inn á myndina þegar þetta er skrifað (rétt upp úr miðnætti). 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 330
  • Sl. viku: 1605
  • Frá upphafi: 2350232

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1478
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband