Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Ef svo ólíklega vildi til

Ritstjórinn var spurður að því í dag (sunnudaginn 17. ágúst) hvert aska færi ef svo ólíklega vildi til að öskugos hæfist á morgun (mánudaginn 18. ágúst) úr Bárðarbungu. Þótt hann vissi reyndar að aðaláttin í háloftunum þessa dagana er úr norðvestri kom samt smáhiksti - vissara að tékka á málinu. 

Og það er gert hér og nú með því að líta á kort sem sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum kl.15 mánudaginn 18. ágúst. Sá ágæti flötur er ofarlega í veðrahvolfinu á kortinu í  um 9200 metra hæð.

w-blogg180814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindhraði og vindátt eru sýnd með hefðbundnum vindörvum, en svæði þar sem vindur er stríðastur eru lituð þannig að vindrastir sjáist vel.

Jú, það má segja að í aðalatriðum sé vindur norðvestanstæður - en þó er á kortinu nokkuð hrein norðanátt yfir Íslandi austanverðu, á bilinu 80 til 100 hnútar - eða rétt rúmlega það (athugið að kvarðinn er ekki alveg rétt merktur), litir eiga að byrja við 80 hnúta. 

Svarið er því það að aska bærist til suðurs - ef svo ólíklega færi að framboð verði á henni. Áttatíu hnútar eru um 40 m/s og 40 m/s eru um 140 km/klst. Mikið dregur úr norðanáttinni ofan við veðrahvörfin, en hún er þó til staðar, um 25 hnútar í 15 km hæð. Uppi í 23 km hæð er hins vegar mjög hæg austanátt. 

En hér er aðeins verið að svara ákveðinni spurningu sem ritstjóri hungurdiska fékk í dag (sunnudaginn 17. ágúst) - gleymum þessu síðan.  


Sýndarsnjór á landinu 15. ágúst

Í spálíkönum nútímans fellur snjór og bráðnar - rétt eins og í raunveruleikanum. Hann safnast fyrir á vetrum - en bráðnar síðan á vorin og yfir sumarið. Að því kemur - rétt eins og í raunveruleikanum að bráðnunarskeiðinu lýkur - fyrst á hæstu fjöllum og jöklum. Talsverðu munar auðvitað á hinum raunverulega snjó og líkansnjónum - þeim sem við höfum viljað kalla sýndarsnjó. Hver reitur í líkaninu er um 2 km á kant - ekkert minna sést. Það er svosem reynt að „stika“ það sem minna fer fyrir með einhverjum reiknikúnstum - en sú stikun er alltaf álitamál. - Skaflar liðins vetrar geta verið mjög stórir án þess að líkanið sjái þá. Ekki meira um það.

Eitt af því sem líkanið á e.t.v. erfitt að ráða við er endurskinshlutfall snævarins. Það skiptir mjög miklu máli hvert það er. Sé snjór nýr endurkastast mun meira af stuttbylgjugeislum sólar heldur en gerir sé hann gamall - og jafnvel rykugur. Einmitt þegar þetta er skrifað (laugardaginn 16. ágúst) snjóar á jökla um landið austanvert. Þá hækkar endurskinshlutfall yfirborðs þeirra mjög - og hreinlega gæti verið að sumrinu sé einfaldlega lokið ofantil á þeim. Hefði ekkert snjóað hefði hins vegar sumarið getað haldið þar áfram. - En þetta eru vangaveltur - ritstjóri hungurdiska fylgist ekkert með rennsli í ám og veit í raun lítið um það - aðrir vita alla vega miklu betur.  

En við skulum samt líta á sýndarsnjóhulu á landinu eins og hún var í líkaninu í gær, föstudaginn 15. ágúst.

w-blogg170814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tölur og litir sýna snjómagn, í kílóum á fermetra. Hér sést að allur sýndarsnjór sem féll í vetur og vor á hina stóru skriðjökla Vatnajökuls er bráðnaður. Það sem er skemmtilegast við þessa mynd (finnst ritstjóranum) að hér sjást ákomusvæði jökulsins vel - (eins og líkanið vill hafa það). Í sumar hefur lítið sem ekkert bráðnað á hæstu og úrkomumestu fjöllunum - en ekki heldur bæst mikið við frá því sem var í vor.

Þótt ritsjórinn hafi auðvitað lítið vit á jöklafræði rennir hann í grun um að illa verði komið fyrir Vatnajökli ef og þegar ákomusvæðið hættir að tengjast saman - sem það þrátt fyrir allt gerir nú - en hörfar inn upp til fjallanna 5 til 7 (eftir því hvernig talið er).   

Mýrdalsjökull og Drangajökull eru mjög vel staddir eftir sumarið og kannski Hofsjökull og Eyjafjallajökull líka. 

En fyrir alla muni skoðið tölurnar - kortið batnar talsvert sé það stækkað (smella á kortið - og smella síðan aftur á þá mynd sem fyrst birtist). En munið líka að þetta er líkan - raunveruleikinn kann að vera allur annar. 


Enn af háloftum [næstu tíu daga]

Næstu viku til tíu daga er spáð óvenjulegum hlýindum yfir Grænlandi og þar vestan við - en miklum kulda á Bretlandseyjum og löndum næstum Norðursjó. Við lítum á meðaltal næstu tíu daga - eins og evrópureiknimiðstöðin segir það muni verða. - Textinn hér að neðan er ekki sérlega auðveldur - en alla vega má stara á fallegt kortið. 

w-blogg160814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir svæðið frá Hudsonflóa í austri til Eystrasalts í austri. Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru gráar og strikaðar, en þykktarvik lituð. Kvarði og kort skýrast við stækkun.

Lituðu fletirnir stinga mjög í augu. Á rauðu, brúnu og gulu svæðunum er þykktin meiri heldur en að meðallagi og þar með er hiti í neðri hluta veðrahvolfs yfir meðallagi. Á bláu svæðunum er þykktin undir meðallagi. 

Nú er það svo að kortið er meðaltal langs tíma - tíu daga. Lítið segir af háloftavindafari og hita einstaka daga - vel má vera að þetta ástand standi ekki nema hluta tímans - aðra daga sé allt vægara að sjá.

Við rýnum samt í kortið. Köld þykktarvik skila sér vel í hita niðri í mannabyggðum - leiðindakuldi mun greinilega heimsækja norðursjávarsvæðið - miðað við það sem venjulegt er á þessum árstíma. Hámarksvikið er um -100 metrar. Það þýðir að hiti verður 4 til 5 stig undir meðallagi. 

Hlýju (jákvæðu) þykktarvikin eru erfiðari viðfangs og verður stundum ekki vart í mannabyggðum. Yfir sjó er það vegna kælingar sjávaryfirborðsins - sé það á annað borð kaldara heldur en loftið. Yfir landi er einkum við neikvæðan geislunarbúskap að eiga - nú eða þá kalt sjávarloft. Oftast eru því nokkuð sterk hitahvörf ríkjandi undir mjög hlýju lofti sem ofan á liggur. Hlýindin eru tilkomin vegna niðurstreymis í veðrahvolfinu - niðurstreymið er mjög skýjafjandsamlegt og þar með eru nætur heiðar. Þótt ágústsólin geti á bestu dögum verið býsna öflug að brjóta hitahvörf fer afl hennar ört minnkandi hér á norðurslóðum og nóttin lengist. 

Sé vindur lítill verður þar við að sitja. Sé hvasst blandast hlýja loftið saman við loftið undir hitahvörfunum og hiti verður hár í mannabyggðum - þó ekki eins hár og þykktarvikið gefur til kynna - nema í miklum vindstrengjum handan fjalla.

Minni líkur eru á að stór jákvæð þykktarvik njóti sín nærri Grænlandi heldur en yfir Skandinavíu eða Bretlandseyjum. Þar munar mest um að yfirborð lands og sjávar er hlýrra á meginlandi Evrópu heldur en er á láglendi Grænlands og Baffinlands.

En það má samt óska sér einhvers - tíu daga 150 metra þykktarvik segja að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verði um 7 stigum ofan meðallags. Hér á landi er meðalhámarkshiti á þessum tíma árs um 14 stig. Viðbót um 7 stig væru þá 21 stig (reyndar er sú tala ekki fjarri meðalhámarkshita á landinu í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004). 

Eins og sjá má á kortinu er þykktinni hér á landi næstu tíu daga spáð nærri meðallagi árstímans, lítillega yfir því vestast á landinu - en lítillega undir eystra. Við getum líka séð að hornið á milli stefnu jafnhæðar- og jafnþykktarlína er þannig að vindurinn er að meðaltali að bera til okkar kaldara loft. Við getum líka reiknað með því að kalda loftið sé ágengara niður í mannheimum heldur en í 2 til 5 km hæð - kalda loftið getur stungið sér undir það hlýja - en ekki öfugt. 

Meðalvindáttin er úr norðnorðvestri. Það er fremur þurrbrjósta vindátt - helst að slíti úr honum austast á landinu.

Munum að þetta er spá um meðalástand - einstakir dagar geta orðið allt öðruvísi og ólíklegt að spáin rætist í smáatriðum til enda tíu daga tímabilsins.  


Norðvestanbylgjurnar

Nú liggur hann í norðvestanátt í háloftunum. Það er frekar óþægileg vindátt. Henni fylgja bylgjur sem koma að Grænlandi úr vestri - fara yfir jökulinn og stingast síðan til suðausturs yfir Ísland - eða öðru hvoru megin við það. 

Séu bylgjurnar sem eiga að koma þessa leið næstu vikuna rúma í nýjustu spá evrópureiknimiðstöðvarinnar taldar - kemur í ljós að þær eru einar sjö. - Ekki verða lesendur þreyttir með því hér að telja þær allar upp - enda verða þær ekkert endilega þetta margar - spá er bara spá og hvað á að telja sem fullgilda bylgju og hvað ekki?

Ein bylgjan fór hjá landinu í dag (fimmtudag) - nánast hávaðalaust - þótt henni fylgdu ský og dálítil úrkoma var vestanlands síðdegis. Sú næsta kemur strax á morgun (föstudag) og er - ef marka má spárnar - sú mesta í syrpunni. Henni fylgir allmyndarleg lægð sem fer yfir landið sunnanvert síðdegis og annað kvöld. Töluverð úrkoma fylgir og mun rigna um mestallt land. Síðan á að ganga í nokkuð snarpa en skammvinna norðanátt - sem stendur þó mestallan laugardaginn. Þessi norðanátt er þó ekki sérlega köld - en þó snjóar á jöklum og í háfjöll - sérstaklega þar sem úrkoman helst fram á sunnudag, en þá á kaldasta loftið að fara hjá. Spurning hvort sléttan á miðhálendinu sleppur alveg. 

Síðan koma smábylgjurnar hver á fætur annarri. En lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á laugardag.

w-blogg150814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, norðurskautið þar ofan við. Dökkbrúna svæðið lengst til hægri á myndinni er yfir Arabíuskaga og Persaflóa, en Mexíkó er lengst til vinstri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur sem blæs samsíða línunum með lægri flatarhæð á vinstri hönd. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Kvarði og kort batna mjög við stækkun. 

Mörkin á milli grænu litanna og þeirra gulu og brúnu er við 5460 metra. Eindregið sumar er á gulu hliðinni. Við viljum frekar vera þar. Það er þó ekki á þessu korti - því grænir litir umlykja landið - enda er norðanátt. Þetta er þó enginn metkuldi. 

Við Suður-Grænland má sjá hæðarsvæði - kannski köllum við þetta fyrirstöðuhæð vegna þess að hún á að endast í nokkra daga og heldur norðvestanáttinni við. Í henni er sérlega hlýtt loft - í skjóli Grænlands á þykktin að fara upp undir 5640 metra - en sú tala er í hitabylgjustíl. Ekki munu þó margir njóta þess hita - kaldur Austurgrænlandsstraumurinn og bráðnandi ís í fjörðum Suðaustur-Grænlands koma trúlega í veg fyrir það. Ef fjöldi veðurstöðva væri í grænlandsfjörðum eru þó líkur á því að einhver þeirra yrði fyrir miklum hitaskotum - kannski 20 til 25 stigum - en það sér enginn.

Ísland verður í útjaðri þessa hlýja lofts - framanvert í norðvestanbylgjunum - en í bakhluta þeirra  nær kalt loft að streyma frá Norðaustur-Grænlandi til suðurs um landið - alla vega það austanvert.

En staðan er þannig að trúlega verður frekar svalt - miðað við þann góða hita sem líður hjá í háloftunum. Skúffelsi? Eða þakklæti yfir því að norðanáttin skuli vera af skárri gerðinni?

Það má taka eftir því á kortinu að bláu svæðin (þykkt minni en 5280 metrar) eru mjög lítil um sig - sjást raunar varla. Meðan svo er er sumrinu ekki lokið á norðurslóðum - og ekki fer að votta fyrir vetri fyrr en við förum að sjá þykkt minni en 5100 metra fara að festast á svæðinu.  


Hin raunverulega hafgola

Í síðasta pistli var litið á nokkur kort þar sem sjá mátti spá harmonie-líkansins um aðsókn hafgolunnar síðdegis miðvikudaginn 13. ágúst. Ekki er annað að sjá en að spáin hafi í aðalatriðum gengið eftir - alla vega við veðurstöðina Kálfhól á Skeiðum - varla er hægt að segja að nokkru hafi skeikað í tíma. Rakastigi og hita var einnig vel spáð. Við lítum á tvö línurit sem sýna þessa veðurþætti eins og stöðin skráði þá.

w-blogg140814b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Fyrst er það vindurinn. Lárétti ásinn sýnir tíma sólarhringsins 13. ágúst - frá miðnætti til miðnættis. Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir vindhraða. Blár ferill sýnir 10-mínútna meðalvind á 144 tíu mínútna tímabilum. Sá rauði sýnir mestu vindhviðu hverra tíu mínútna. Kvarðinn til hægri sýnir vindátt í hefðbundnum stefnugráðum. Græni ferillinn sýnir áttina á 10-mínútna fresti.

Mestalla nóttina er vindur ekki fjarri 6 m/s, en vex nokkuð snögglega um kl. 8 - en eftir kl. 11 dregur úr honum aftur þar til hann nær lágmarki milli kl. 14 og 16 og er hann þá 2 til 3 m/s. Vindhviðurnar fylgja svipuðum breytingum - breytingarnar eru þó ekki eins snöggar. Kl. 17. vex vindur snögglega aftur - þetta er hafgolan - og nær hámarki um kl.18. Síðan dregur úr aftur.

Vindáttin er nokkuð stöðug af norðnorðaustri (30°) fram til þess að vindhraðinn breytist um áttaleytið og fer í austnorðaustur (60°). Á hæga tímanum frá 14 til 16 er hann ívið breytilegri - en snýst síðan mjög snögglega yfir í suðvestur (220°) kl. 17. Það er hafgoluáttin.

Þá eru það hiti og raki.

w-blogg140814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lárétti kvarðinn sýnir eins og áður hvað klukkan er. Lóðrétti kvarðinn til vinstri sýnir hita og daggarmark. Hitinn er sýndur með bláum ferli, en daggarmarkið með rauðum. Hitinn er í lágmarki um klukkan fjögur - fellur þangað til en rís síðan - sérstaklega eftir klukkan 7. Hann hækkar síðan ört fram yfir kl.12 en þá hægir smám saman á hlýnuninni - en hún heldur samt áfram allt þar til kl. 17 að hitinn fellur snögglega um 2 stig - [1,8 stig á 10 mínútum] og síðan jafnt og þétt fram á kvöld. 

Höfum í huga að hafgolan hefur þegar hér er komið farið langa leið yfir hlýtt land inn frá ströndinni og upp á Skeiðin - það kemur í veg fyrir að hitafallið sé enn meira. 

Hegðan daggarmarksins er önnur (rauður ferill). Það liggur í um það bil 2 stigum fram á morgun - en hækkar þá dálítið fram yfir klukkan 10. Daggarmarkið mælir magn vatnsgufu í lofti - til að breyta því þarf raki annað hvort að bætast í loftið með uppgufun frá jörð eða með úrkomu - eða þá þéttast með áfalli (dögg myndast). Nú - síðan getur daggarmark á stað breyst mikið ef það skiptir alveg um loft - loft að öðrum uppruna streymir að með vindi.

Við sjáum að eftir kl. 11 lækkar daggarmarkið lítillega. Þá hlýtur ívið þurrara loft að hafa streymt yfir Skeiðin með austnorðaustanáttinni (og/eða með blöndun að ofan). Daggarmarkið fór lægst kl. 16:40, þá var það -0,2 stig. Þegar sjávarloftið tók völdin kl. 17 hækkaði daggarmarkið um 8,5 stig. Rakt sjávarloftið ruddi þurra loftinu burt. Eftir það lækkaði daggarmarkið dálítið þegar á kvöldið leið. 

Græni ferillinn sýnir rakastigið. Rakastig mælir hversu mikið vantar upp á að loft sé mettað - en ekki magn vatnsgufu í lofti. Við megum taka eftir því að hita- og rakaferillinn um það bil spegla hvorn annan alla nóttina og þar til klukkan 17. Þegar hitinn lækkar fellur rakastig, þegar hann hækkar lækkar rakastig. Þetta fallega samband riðlast lítillega með hafgolunni. Við tökum eftir því að rakastig kvöldsins er hærra heldur en það var þegar hiti var sambærilegur nóttina áður. Við enda dags var hitinn 8,4 stig en rakastigið 95 prósent - nóttina áður var rakastigið ekki nema 67 prósent við sama hita. 

Kálfhóll fer inn í nóttina með meiri raka - en var síðustu nótt, daggarmarkið er 7,6 stig - en var 2,7 stig við miðnætti næst á undan. Það er ágætt í björtu veðri í ágúst - dregur mjög úr líkum á næturfrosti - en það er stöðug ógnun í bjartviðri síðla sumars - jafnvel eftir hlýjan dag. Daggarmark seint að kvöldi segir nokkuð til um frosthættuna undir morgun. Þegar hiti fellur hratt - hægir mjög á fallinu þegar hitinn kemst niður að daggarmarki - þá fer raki að þéttast (og daggarmarkið lækkar) og skilar miklum dulvarma til loftsins sem getur haldið ívið hitafallið og jafnvel tafið eða hindrað frost þar til sólin getur tekið við að morgni. 


Skemmtileg hafgoluspá

Þá er það hafgolan á Suðurlandsundirlendinu miðvikudaginn 13. ágúst. Í nýjustu háupplausnarveðurlíkönum koma fram mikil smáatriði - stundum e.t.v. um of - fleiri en líkanið getur í raun staðið við. En býsna sannfærandi samt.

Hér er dæmi um slíka smáatriðaspá - hún er fengin úr spárunu harmonie-líkans Veðurstofunnar frá því kl. 18 í dag, þriðjudag 12. ágúst og á við um landið suðvestanvert kl. 17 síðdegis á miðvikudag, 13. ágúst. Fyrsta myndin sýnir einmitt vindátt og vindhraða í 10-metra hæð frá jörðu.

w-blogg130814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flestir ættu að átta sig á legu landsins. Litlar örvar sýna vindstefnu en litirnir vindstyrk í m/s. Athuga þarf að tölurnar á kvarðanum hafa hliðrast um eitt bil til hægri. Blái liturinn byrjar við 8 m/s en ekki 6 eins og virðist mega ráða af kvarðanum. Stóra örin bendir á stað rétt austan við Þjórsá. Þar má ef vel er að gáð (kortið batnar heldur við stækkun) sjá bæði skipti í vindátt og vindhraða á mjög þröngu belti. Við skulum til hægðarauka kalla þetta hafgoluskil (með óbragð í munni). Þau ná alveg frá Selvogi í vestri austur eftir Suðurlandsundirlendinu og að því er virðist upp á hálendið austan Rangárvalla. 

Það er dálítið álitamál að ákveða nákvæmlega hvar og hvenær hafgolan byrjar að ráðast á land, en fyrri kort sýna að hún ræðst inn á strönd Árnessýslu rétt um kl. 14 en gengur síðan lengra og lengra inn á land og er kl. 17 komin þar sem kortið sýnir. Ef trúa má spánni gengur hún hraðar yfir austanverða Árnessýslu heldur en vestanmegin - Laugarvatn sleppur þannig lengur heldur en Skálholt og jafnvel lengur en Gullfoss og Geysir. 

En við skulum muna að þetta eru allt saman sýndarvindar - raunveruleikinn getur orðið annar. En það er samt skemmtilegt að þessi sama hafgola var líka í miðvikudagsspánni sem reiknuð var í gær, mánudag - eitthvað er það í stöðunni sem líkanið trúir á.

Ef farið er í fleiri smáatriði má m.a. sjá að önnur vindaskil ganga upp með Þjórsá þar sem mætist suðaustlægur og norðvestlægur vindur. Við getum víst ekki kallað það hafgolu - en sennilega einhver sólfarsvindur samt.

Á höfuðborgarsvæðinu er líka hafgola - hún sést þó illa í hinni almennu norðanátt sem ríkir á svæðinu - meira að hún komi fram sem snúningur á vindi úr norðaustri til norðvesturs. Líkanið segir að hún víki ekki undan landvindi fyrr en um miðnætti.

En við skulum líta á fleiri kort. Þau eru teiknuð í minni upplausn heldur en vindkortið að ofan og þola minni stækkun. Skoðum þau samt. Fyrst er hitakort.

w-blogg130814b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Litirnir sýna hita í 2 m hæð, hver litur nær yfir 1 stig. Örin bendir á hafgoluskilin yfir Suðurlandi. Við getum séð að hiti fellur um 3 stig um leið og hafgolan kemur. Ekkert óskaplega mikið - en samt mjög greinilegt. Hitinn fellur síðar í uppsveitunum.

Svo er það rakinn.

w-blogg130814c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ekki sjást hafgoluskilin síður vel á þessari mynd. Litafletir og tölur gefa rakastig til kynna í prósentum. Lágmarkið í landloftinu sem víkur undan hafgolunni er ekki nema 32 prósent - en í græna litnum er rakastigið á milli 60 og 70% - um kvöldið hækkar rakastigið enn - þegar kólnar er sól lækkar á lofti.

Næsta kort sýnir vind í 850 hPa fletinum í líkaninu - vindörvar sýna lárétta þætti vindsins en litirnir þann lóðrétta.

w-blogg130814d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum á hefðbundnu vindörvunum að vindur í 1400 metra hæð er af norðaustri yfir suðvestanátt hafgolunnar - innan við hafgoluskilin er vindátt óráðin. Hafgoluskilin koma hér fram sem snögg lyfting á loftinu fyrir ofan þau. Grænu litirnir sýna uppstreymi - en þeir gulu og brúnu niðurstreymi. Þar sem mest er er uppstreymið um 0,6 m/s. Á þessu korti má líka glögglega sjá samstreymið upp með Þjórsá - þar er líka snögg lyfting.  

Ekkert svona sést í hafgolunni á höfuðborgarsvæðinu - þar er líka norðanátt í 850 hPa-rétt eins og við jörð.

Eitt kort lítum við á enn - fyrir hvern það er er ekki gott að segja. Ritstjórinn heldur upp á svona kort sem sýnir svokallað í- og úrstreymi. Ístreymi er þar sem meira loft kemur inn í rúmmál heldur en fer út úr því - úrstreymi er hið gagnstæða. Ístreymi er blátt á kortinu, en úrstreymi rautt. 

w-blogg130814e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið á við um 1000-hPa flötinn - nærri jörð. Hefðbundnar vindörvar sýna vind í 10 metra hæð - rétt eins og sást á fyrsta kortinu. Hafgolan sést vel á stefnu vindörvanna. Við hafgoluskilin er töluvert ístreymi - það er það sem veldur uppstreyminu í 850 hPa og við sáum á fyrra korti - meira loft treðst lárétt inn við skilin - hraðar heldur en streymt getur burt - við það verður loftið að lyftast til að jafnvægi náist. Við sjáum hér líka í- og úrstreymismynstur á Faxaflóa. Með því að horfa á vindörvarnar má ráða í það af hverju það stafar - einnig er gott að hafa í huga afleiðingar þeirrar snöggu núningsaukningar/minnkunar sem á sér stað þegar vindur streymir á land/af landi.

Alla vega ættu þeir sem um Suðurlandsundirlendið fara á morgun (miðvikudag 13. ágúst) að gefa hafgolunni gaum - alls ekki er víst að líkanið reikni rétt.  


Heldur kólnar?

Ætli dagurinn í dag (mánudagur 11. ágúst) hafi ekki verið einna besti dagur sumarsins (það sem af er) á höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis var mjög hlýtt og gott á Suðurlandsundirlendi - en þar eru fleiri dagar með í keppninni um þann besta. Það er hollusta í að horfa á þykktarkort dagsins - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Svo lítum við líka á þykktarspá morgundagsins (þriðjudags 12. ágúst) og að lokum eitt rakaþversnið - kannski í uppeldislegum tilgangi.

w-blogg120814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5560 metra jafnþykktarlínan sem hringar sig um Suðvesturland - hugsanlega hefur þykktin náð 5570 metrum þegar best lét. Standi vindur af hálendi getur hiti við þessi skilyrði farið vel upp fyrir 20 stig - það verður þó erfiðara og erfiðara þegar sól lækkar á lofti - nema þá með aðstoð vinds - en hann er ekkert mjög skemmtilegur á sólardögum.

Hér liggur belti af hlýju lofti frá Skandinavíu í austri og vestur fyrir Grænland. Hlýjasta loftið á kortinu er skammt frá Hvarfi á Grænlandi. Þar er þykktin heldur meiri en hér - og hiti í 850 hPa-fletinum talsvert hærri en hér, 14 stig - en er um 8 stig yfir Íslandi suðvestanverðu. Flöturinn er í dag í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi Grænlandshlýindi fá aukahnykk við niðurstreymi af hálendi Grænlands, ef vel er að gáð má líka sjá töluna 10 yfir Íslandi, í skjóli Vatnajökuls. Þar tekst jöklinum að pína hitann í 850 hPa upp um um það bil 2 stig miðað við það sem almennt er. 

Eins og fjallað var um í pistli hungurdiska í gær kemur nú dálítið lægðardrag úr norðvestri og fer framhjá Íslandi síðdegis á morgun (þriðjudag). Þetta er dálítið skemmtilegt drag að því leyti að þess sér lítt stað við jörð - áhrifin á þrýstifar við sjávarmál eru sáralítil - en samt verður það til þess að það kólnar nokkuð - alla vega ef trúa má þykktarspánni sem gildir kl. 18 á morgun (þriðjudag).

w-blogg120814b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér hefur þykktin fallið um 80 metra frá því í dag - grófa þumalfingursreglan segir að það séu um 4 stig og hitinn í 850 hPa hefur lækkað um um það bil 3 stig. Kannski tekst sólinni að koma í veg fyrir að svo mikið kólni niðri hjá okkur - en ef henni tekst það kemur upp hætta á síðdegisskúrum - þá helst þar sem vindur er hægur, t.d. á Suðurlandi austanverðu.

Þótt hann kólni telst loftið samt alls ekki kalt, 5480 metrar er ekkert til að hafa áhyggjur af og ekki heldur þótt þykktin falli niður í þá 5420 metra sem eru rétt norðan við land á kortinu. 

En síðan kemur annað lægðardrag - mun öflugra - frá Grænlandi á fimmtudag. Það mun sjást á sjávarmálsþrýstikortum og mun síðan færa okkur talsvert kaldara loft fyrir helgina. Vonandi samt ekki alveg jafnkalt og það sem heimsótti okkur um mánaðamótin.

Hér kemur erfiðara efni - því við lítum á rakasnið úr harmóní-líkaninu og gildir það kl. 16 á morgun (þriðjudag 12. ágúst). Ekki fyrir alla.

w-blogg120814c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum á smámyndinni í hægra efra horni að sniðið liggur í suður-norðurstefnu eftir 23 gráðum vestlægrar breiddar - rétt við vesturströndina. Það nær frá sjávarmáli og upp í 250 hPa-hæð, um það bil 10 kílómetra. Lóðrétti ásinn sýnir hæð sem þrýsting - því lægri sem hann er því hærra erum við. Gráu fletirnir neðst á myndinni sýna Snæfellsnes og Vestfirði. 

Litafletirnir sýna rakastig - kvarðinn og myndin batna við stækkun. Gulir og brúnir litir sýna þurrt loft, en þeir bláu rakt. Jafngildismættishitalínur eru heildregnar. Jafngildismættishiti - (enska: equivalent potential temperature) er sá sem kæmi fram á mæli ef allur dulvarmi loftsins væri losaður og loftið síðan dregið niður að sjávarmáli. Venja er að tilgreina þennan hita í Kelvinstigum - mest til þess að minna veðurfræðinga á að ekki er um venjulegan hita að ræða (varla veitir af). 

Einnig má á myndinni sjá hvítar örmjóar strikalínur - þær sýna rakamagn í lofti í grömmum í kílói. 

Fremur auðvelt er talið að lesa (skilyrtan) stöðugleika lofts af rakasniðum eins og þessu. Því gisnari sem línurnar eru því minni er stöðugleikinn (ef rakinn þéttist). 

Margt er fróðlegt á þessari mynd - en hér lítum við aðeins á eitt meginatriði. Oft sjáum við lítið til mið- og háskýja vegna þess að lágský byrgja sýn. Þegar við sjáum háskýin finnst okkur þau gjarnan vera frekar tilbreytingasnauð - einhverjar hvítar fjaðrir eða linsur. En háskýin eru heimur út af fyrir sig. Þar geta myndast alls konar bólstrar og úrkomuslæður sjást oft greinilega falla niður úr þeim - þótt úrkoman sú nái ekki til jarðar. 

Myndin sýnir útkomu úr reiknilíkani - sem ekkert endilega er rétt. En sé það rétt gæti sitthvað skemmtilegt verið á seyði í mið- eða háskýjum dagsins. Við sjáum að niður undir jörð er rakastig víðast 60 til 80 prósent. Kannski verða einhver lágský þar að flækjast. Þar fyrir ofan er mjög þurrt lag sem á vinstri hluta myndarinnar nær upp í um 700 hPa (um 3 km) - en upp í tæp 600 hPa (4 km) til hægri. 

Fyrir ofan þurra lagið er mjög rakt lag - þar eru nokkuð þykk mið- eða háský, rakinn er um 100 prósent. Það sem meira er - hitalínurnar ganga þar í miklum bylgjum. Þar er raki að þéttast og úrkoma að myndast - við gætum hugsanlega séð litla bólstra - miðskýjabólstra. Þeir heita flestir netjuskýjaborgir (altocumulus castellanus) eða netjubrúskar (altocumulus floccus). Kannski sjáum við ekkert vegna þess að skýin verða of þykk. Ekkert af þessari upphæðasnjókomu nær til jarðar (snjókoma er það). 

Þeir sem nenna - ættu að gefa mið- og háskýjaheimum gaum. Þar er margt skemmtilegt og jafnvel glæsilegt að sjá. Hvítir brúskar eru ekki bara hvítir brúskar. 


Umskipti í háloftunum?

Eftir til þess að gera hlýja austan- og norðaustanátt á mánudegi (11. ágúst) virðist sem norðvestanveðurlag verði ríkjandi í háloftunum í komandi viku (12. til 18. ágúst). Bylgjur koma þá hver á fætur annarri úr norðvestri í háloftunum yfir Grænland, fara til suðausturs yfir Ísland og til Bretlandseyja eða sunnanverðrar Skandinavíu. Þetta veðurlag hefur ekki verið algengt í sumar - en hefur kosti og galla. Kosturinn (þykir flestum) er að stundum fylgja því bjartir og góðir dagar - en aðalgallinn (þykir líka flestum) að oft koma leiðinlega kaldir norðanáttardagar á milli. 

Fyrsta lægðardragið er veigalítið - fer hjá á þriðjudaginn. Það sést vel á kortinu hér að neðan.

w-blogg110814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið gildir kl. 18 þriðjudaginn 12. ágúst og eru jafnhæðarlínur heildregnar en hiti í fletinum er sýndur í lit. Ekki munu margir taka eftir því þegar þetta lægðardrag fer hjá til suðausturs - þess gætir ekki svo mjög við jörð - og er þurrbrjósta. 

En næsta lægðardrag er öllu veigameira og á að fara hjá annað hvort á fimmtudag eða föstudag. Spennandi verður að sjá hvort það nær að draga kulda úr norðri til landsins.

Í vesturjaðri kortsins má sjá gríðarlega hlýtt loft - það kemst að því er virðist ekki til okkar - því miður. Mjög hlýtt loft hefur verið allt um kring í sumar - en hefur einhvern veginn tekist að forðast okkur. Við höfum ekki enn séð 25 stig á landinu - hvað þá meira.  


Hafgolan á Húsavík

Þessi pistill er ef til vill lítt við hæfi almennra lesenda - en hvað um það. Við horfum á hafgoluna á Húsavík - í tilefni af umræðum um óvenjulega marga hlýja daga þar í júlí síðastliðnum. Bent var á það í athugasemd við síðasta pistil (þar sem fjallað var um mun á hita við Húsavíkurhöfn og almennu sjálfvirku stöðina) að hafgola hefði verið minni í síðastliðnum júlí heldur en yfirleitt er. Hér verður sýnt að svo er í raun og veru. 

Við lítum á fjórskipta mynd. Hún batnar við stækkun - en einstaka hluta hennar má einnig sjá mun betur í viðhengjum sem fylgja þessum pistli. Áhugasamir gætu litið á þær.

w-blogg100814-husav-hafgola-5

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrst myndin efst til vinstri. Þar má sjá dægursveiflu meðalvindhraða í júlí á Húsavík í m/s. Lárétti ásinn sýnir klukkustundir - en sá lóðrétti vindhraða. Blái ferillinn sýnir meðalvindhraða á klukkustundarfresti allan sólarhringinn og er meðaltal 12 júlímánaða (2003 til 2014). Rauði ferillinn sýnir hins vegar meðalvindhraða í nýliðnum júlí (2014). Hér sést greinilega að vindhraðinn í ár er talsvert minni heldur en að jafnaði. Hafgola júlímánaðar 2014 var varla hálfdrættingur á við það sem venjulegt er. Hún var bæði lengur í gang - og sérstaklega - hún datt fljótar niður heldur en venjulegt er.

Myndin efst til hægri sýnir svokallaða áttfestu. Því hærri sem hún er því fastari er vindurinn á áttinni ef vindáttin væri alltaf sú sama fær áttfestan tölugildið einn. Hún er lítil að næturlagi - hægur vindur reikar til og frá á áttinni. Blái liturinn sýnir meðaláttfestu í júlí. Þegar sól hækkar á lofti og hafgolan byrjar verður áttfestan smám saman meiri - og nær hámarki á þeim tíma sem hafgolan er áköfust - um kl. 16 - fellur eftir það hratt niður.  Í júlí 2014 hélt áttfestan meðallagi fram til kl. 10 en fór þá að víkja frá meðaltalinu, hún náði hámarki frekar snemma á venjulegum hafgolutíma - en datt síðan mun hraðar niður heldur en venjulegt er. Þetta þýðir einfaldlega að hafgolan hefur „brugðist“ marga daga - sérstaklega þegar á leið.

Neðri myndirnar sýna dægursveiflu vigurvinds, sú til vinstri sýnir meðaltal allra júlímánaða áranna 2003 til 2014 - en sú til hægri meðaltal júlímánaðar 2014. Lóðréttu ásarnir sýna norðanþátt vindsins. Norðanáttin er því meiri sem punktur liggur ofar á myndinni, neðan strikalínunnar er áttin suðlæg (neikvæð norðanátt). Láréttu ásarnir sýna austanþátt vindsins. Punktar hægra megin við strikalínuna sýna austanátt - en vestanáttin er vinstra megin. Tölurnar sýna tíma dagsins - hverja klukkustund frá kl. 1 til kl. 24. 

Dægursveiflan er gríðarlega regluleg á vinstri myndinni. Austanátt (mjög hæg að meðaltali) ríkir frá kl. 21 að kvöldi til kl. 7 á morgni. Hafgolan byrjar til þess að gera vestarlega en snýst síðan meira og meira til norðvesturs - og er í hámarki rétt vestan við norður á tímanum frá því kl. 14 til 16. 

Myndin til hægri sýnir það sama nema fyrir júlímánuð 2014. Næturástandið er svipað á myndunum báðum - en austanáttin ríkir frá kl. 20 að kvöldi til kl. 8 að morgni. Yfir daginn er mynstrið frekar óreglulegt - hér sést hringurinn fallegi sem einkenndi meðalmyndina mun síður. Sé rýnt í smáatriði má einnig merkja að hann liggur ekki í sömu stefnu - auk þess að vera allur minni um sig.

Já, hafgolan var mun minni á Húsavík í júlí 2014 heldur en venjulegt er. Kannski er skýringin sú að skógurinn hafi vaxið upp fyrir vindáttarmælinn - til að greina á milli þeirrar skýringar og annarra væri kannski gagnlegt að líta á hafgoluhringinn í Flatey, á Mánárbakka eða í Ásbyrgi. Það verður sennilega ekki gert á þessum vettvangi. En er ekki dálítið skrýtið ef tré skýla betur fyrir hafgolunni síðdegis heldur en um hádegið?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Frá Húsavík

Efni er í langa framhaldssögu - en aðeins ein mynd birtist að þessu sinni. Sú sýnir mun á hita á sjálfvirku veðurstöðinni í einum af blómlegum görðum Húsvíkinga og stöðvar við höfnina. Í gagnagrunni Veðurstofunnar eru athuganir ekki til frá hafnarstöðinni nema í fáein ár, 2005 til 2008 - mikið vantar þó í. Aftur á móti er garðstöðin mun heillegri og nær yfir lengri tíma. 

En hér lítum við aðeins á hitamun stöðvanna í júlímánuði - og einbeitum okkur að meðalhita á heila tímanaum allan sólarhringinn.

w-blogg090814-husavik-a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tveir lóðréttir ásar eru á myndinni. Sá til vinstri sýnir meðalhita - en sá til hægri hitamun stöðvanna tveggja (athugið að skrefin eru misstór). Lárétti ásinn sýnir tíma sólarhringsins. Blái ferillinn sýnir hita á garðstöðinni - en sá rauði hitamun stöðvanna. 

Neðan strikalínunnar er hlýrra við höfnina heldur en í garðinum - það er frá því um kl. 22 að kvöldi og til klukkan 6 að morgni. Yfir nóttina fer munurinn í -0.9 stig á kvarðanum. Að deginum er mest 1,8 stigum hlýrra í garðinum heldur en við höfnina. 

Nú vitum við ekki hvort þessi munur hefur breyst eftir því sem gróður í garðinum hefur aukist. Kalla yrði aðrar stöðvar til aðstoðar. Samanburður við Ásbyrgi gæti bent til þess að í júlí í sumar hafi garðurinn á Húsavík um 0,3 til 0,4 stigum hlýrri á tímabilinu frá því um kl. 11 til kl. 18 heldur en meðalmunur milli stöðvanna í öðrum júlímánuðum. Tilviljun getur ráðið þessum mun - rétt eins og hugsanlegur aukinn gróður. Nýliðinn júlí var óvenjuhlýr á annesjastöðvum norðanlands - hefur aldrei verið eins hlýr í Grímsey og sennilega (uppgjöri ekki lokið) á Mánárbakka ekki heldur. Húsvíska hafgolan hefur því ábyggilega verðið hlýrri en yfirleitt er.

Þetta gæti orðið löng framhaldssaga um (...)  en klukkan er orðin allt of margt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 101
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1850
  • Frá upphafi: 2348728

Annað

  • Innlit í dag: 91
  • Innlit sl. viku: 1621
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband