Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Inni á topp tíu (í milliriðli)

Hitinn í janúar er nú kominn inn á topp-tíu listann - varlegt er þó að trúa því að hann haldi það út. En er á meðan er. Við lítum fyrst á Reykjavíkurlistann frá 1949 að telja:

 

röðármánmhiti
1197214,91
2196414,66
3197314,40
4200214,08
5199613,44
6195013,06
7201313,04
8201412,84

Núlíðandi janúarmánuður er í 8. sæti. Sá í fyrra í því sjöunda. Hér er i öllum tilvikum liðnir 19 dagar af 31. Við getum líka virt fyrir okkur lokalista janúarmánaða allt aftur til 1871 (því við eigum ekki dægurmeðaltöl nema aftur til 1949). 

 

ármánmhiti
196413,52
194713,26
198713,14
197212,96
197312,96

Þrír af þessum fimm eru líka á efri listanum, en 1987 hefur átt góðan endasprett upp í topp 3 en 1947 er eini eldri janúarmánuður á topp fimm listanum.

Svipað er á Akureyri.

 

STODármánmhiti
1197214,10
2197314,04
3200213,17
4196413,00
5195712,16
6201411,74

Núlíðandi janúar er í 6. sæti en á fleiri keppinauta frá fyrri tíð, það er 1933, 1935, 1946 auk 1947 sem er hlýjastur allra norðanlands.  

En við þökkum fyrir þó þetta. Segja má að mánuðurinn sé rétt eins og handboltalandsliðið komið í milliriðil - en eins og þar er spurning um úthald á lokasprettinum.


Norðaustanstrengurinn gefur sig ekki - í Grænlandssundi

Norðaustanáttin er að sjálfsögðu á heimaslóðum í Grænlandssundi. Algengasta vindátt þar stóran hluta ársins. Aðalstrengurinn hefur hins vegar hörfað í bili út á Hala eða lengra. Norðaustan- og austanbelgingurinn á sér líka uppáhaldsbólstað við suður- og suðausturströnd Íslands og þar var hvassast í dag (föstudag). Æðey í Ísafjarðardjúpi þrjóskast líka við - þar komst 10-mínútna vindur í dag í 18,7 m/s en sá vindhraði nægir til að valda vandkvæðum í ónefndum sveitum.

Fleiri uppáhaldsbæli norðaustanáttarinnar á landinu mætti nefna - en látum það vera að sinni því enginn staður á Íslandi kemst nálægt Grænlandssundinu á vinsældalista norðaustanstormsins.

Hér að neðan er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vind í 100 metra hæð yfir líkanlandslaginu kl. 18 á laugardag.

w-blogg180114a

Hér má sjá storminn í Grænlandssundi (bleiksvalur á lit) og þannig á hann að vera alla helgina - langt fram í næstu viku - og kannski bara til vors. En við þökkum fyrir meðan hann heldur sér til hlés gagnvart okkur.

Við rétt sjáum í annan býsna sterkan streng - gægist inn á kortið við Hjaltland - við hægri jaðar þess. Hann mun blása illa um olíuborpalla í Norðursjó næstu daga. Strengurinn verður til þegar hlýjar bylgjur vestan af Atlantshafi lenda á köldu austrænu lofti sunnan við fyrirstöðuna góðu (góð fyrir okkur það er að segja) - sem enn heldur.

Ekki er gott að setja sig í spor meginlandsbúa - en ætli fjölmargir íbúar Noregs og Svíþjóðar séu ekki ánægðir með snjóinn úr austri - þótt illt sé á olíumiðum. Danir kvarta hins vegar um frostrigningu - og hafa þeir alla samúð okkar klakabúa í þeim efnum - enda megum við aldrei gleyma glerhálkunni - hvað sem hita líður. Bretar eru að renna í sundur í bleytu og furðukalt verður í Frakklandi - þótt sunnanátt sé. Og Stóri-Boli byltir sér yfir heimskautaauðnum Kanada og horfir enn girndaraugum á Bandaríkin.


Smávegis um árstíðasveifluna

Við förum aðeins út fyrir þægindarammann (rétt einu sinni) og lítum á árstíðasveiflu hæðar 500 hPa-flatarins og þykktarinnar yfir landinu. Hér verða fyrir meðaltöl allra mánaða frá janúar 1995 að telja og til nýliðins desember. Fyrst er það þykktin.

w-blogg170114a 

Lárétti ásinn sýnir árin - merkt er með tveggja ára bili. Lóðrétti ásinn er þykktin í dekametrum (1 dekametri = 10 metrar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Af eðlilegum ástæðum er hún miklu meiri að sumarlagi heldur en á vetrum. Hér er auðvelt að telja hvort sem er toppa eða dældir - allt er með reglulegum hætti. Andardráttur sumars og vetrar leynir sér ekki.

En í myndinni eru líka mörg smáatriði. Neðstu dældir (gjár) ritsins eru kaldir mánuðir. Allra lengst til vinstri eru þrír mánuðir í röð undir 5200 metrum. Þetta eru janúar til mars 1995, mars sjónarmun kaldari en hinir. Í samkeppni um neðsta sætið eru líka febrúar 2002 og desember 2011 - góðkunningjar meðalhitanörda.

Efst teygir sig ágúst 2006 - einn af mjög hlýjum ágústmánuðum nýrrar aldar, en þó ekki sá hlýjasti hér í niðurheimum lofthjúpsins. En mun verra samband er á milli mánaðarmeðalþykktar og mánaðarmeðalhita að sumarlagi heldur en er á vetrum. Sambandið er reyndar lakast í ágúst (en nokkuð gott samt). Það er einmitt frá miðjum júní, í júlí og ágúst sem sjávarloftið er ágengast við landið og líklegast til að kæla það - án íhlutunar háloftanna.

Við skulum líka taka eftir vöntun mánaða með þykkt undir 524 dekametrum 2003 og 2004.

En þá er það 500 hPa hæðin:

w-blogg170114b

Hér er líka auðvelt að greina að sumar og vetur - en veturnir eru mun breytilegri heldur en á þykktarmyndinni, t.d. var veturinn 2012 til 2013 hálfmisheppnaður - þar er enginn mánuður áberandi lágur. Desember síðastliðinn nær góðu máli - rétt eins og hinn kaldi bróðir hans 2011. Að sumarlagi var hikstinn á tímabilinu mestur 2001. Þá var hæðin í júní og september meiri heldur en í júlí og ágúst. Dálítið misheppnað - ef ritstjórann misminnir ekki var sumarið sérlega skúrasælt á hálendinu. Sólin að reyna að bæta úr skorti á hlýjum háloftum. Síðastliðið sumar (2013) er toppurinn fremur mjósleginn heldur en stýfður - en er þarna samt.

Það er ágætt að stara aðeins á þessar myndir - en varist að láta þær valda spennu.


Enn á hlýju hliðinni

Þegar janúar er hálfnaður er hiti enn talsvert yfir meðallagi á landinu. Sömuleiðis er meðalhiti síðustu 30 daga yfir meðallagi síðustu tíu ára. Hann lítur svona út:

stöðmhitivik  
11,500,85 Reykjavík
1780,500,45 Stykkishólmur
2520,040,52 Bolungarvík
4220,511,58 Akureyri
6202,290,98 Dalatangi

Akureyri er komin nærri 1,6 stig upp fyrir meðaltal, en landið norðvestanvert liggur neðar - þar hefur norðaustanáttin verið þrálátust.

En meðalhitinn fyrstu 15 daga janúarmánaðar gerir enn betur. Sé búinn til listi yfir meðalhita þann tíma í Reykjavík frá 1949 að telja lendum við nú í 14. sæti að ofan (af 65). Það verður að teljast gott miðað við ríkjandi vindátt - en auðvitað er langt upp í hlýjasta fyrri hlutann. Mikil hlýindi koma aðeins í suðlægum áttum.

 

stöðár tímabilmhiti vik6190vik0413   
12014 1. til 15. janúar2,482,971,94  Reykjavík
1782014 1. til 15. janúar1,072,291,10  Stykkishólmur
4222014 1. til 15. janúar1,313,492,38  Akureyri
6202014 1. til 15. janúar2,862,561,45  Dalatangi
7052014 1. til 15. janúar3,714,343,12  Höfn
          
stöðár tímabilúrkomaúrkvikloftþrýsvik  
12014 1. til 15. janúar14,3-21,1989,2-12,4 Reykjavík
1782014 1. til 15. janúar8,1-24,0993,3-10,3 Stykkishólmur
4222014 1. til 15. janúar53,827,2995,7-8,0 Akureyri
6202014 1. til 15. janúar146,583,7993,6-9,6 Dalatangi
7052014 1. til 15. janúar116,578,0990,4-13,5 Höfn

Efri hluti töflunnar að ofan sýnir meðalhitann 1. til 15. janúar á nokkrum stöðvum bæði miðað við 1961 til 1990 og 2004 til 2013 - vikin eru stór.

Úrkomu er misskipt á landið - afleiðing eindreginnar austan- og norðaustanáttar. Úrkoman í Reykjavík er aðeins 40 prósent af meðallagi 1961 til 1990 og þurrkurinn er enn meiri í Stykkishólmi. Á Akureyri er úrkoman tvöfalt meðallag. Loftþrýstingur er enn langt undir meðallagi.

Úrkoman hefur verið mest á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði - þar hafa mælst 314,2 mm það sem af er mánuði. Þurrkur hefur verið mestur um landið vestanvert. Ekki hefur frést af nema 0,2 mm á Brúsastöðum í Vatnsdal - en þar vantar reyndar fréttir af tveimur dögum. Sú vöntun er auðvitað bagaleg.

Tölvuspár gera ráð fyrir hita ofan meðallags næstu daga (að vísu ekki alveg samfellt) - en engin raunveruleg hlýindi eru sjáanleg - né mikill kuldi. En það má komast langt á seiglunni. Janúar í fyrra endaði í 2,72 stigum í Reykjavík og 1,04 stigum á Akureyri. Lengra er í hlýjustu janúarmánuðina og varla nokkur von til þess að við komumst nú í námunda við þá.


Sumar við Suðurskautslandið

Við horfum í dag á 500 hPa hæðar- og þykktarkort frá suðurhveli jarðar. Þar er nú hásumar.

w-blogg150114a 

Suðurendi Suður-Ameríku er hægra megin á myndinni en Ástralía við vinstri jaðarinn. Rétt sést í Suður-Afríku neðst á myndinni. Þessa dagana er mikil hitabylgja í Ástralíu. Þykktin er þar mest á smábletti (dökkum) við norðvesturströnd meginlandsins. Þar fer hún í 5880 metra - það virðist nægja í 45 stig inn til landsins á þeim slóðum.

Þykktin nær upp fyrir 5820 metra bæði í Suður-Afríku og í Suður-Ameríku. Þar má þó hafa í huga að hálendi er þar sem þykktin er mest og hiti því e.t.v. ekki alveg jafn hár og þykktartölurnar gefa tilefni til einar og sér.

Þegar sumar er á Íslandi viljum við helst vera inni í gula litnum - þeir grænu eru þó oft viðloðandi - því miður. Við sjáum að Falklandseyjar og Eldlandið eru í grænum lit. Sömuleiðis strýkst græni liturinn við Nýja-Sjáland (alveg efst - hægra megin miðju) en það er af völdum öflugs lægðardrags sem er á hraðri leið til austurs. Ástandið á Falklandseyjum virðist meira viðvarandi.

Ljósasti blái liturinn (þykkt á bilinu 5220 til 5280 metrar) ríkir yfir ört bráðnandi rekís yfir hafsvæðinu undan ströndum Suðurskautslandsins. Þarna fer þykkt og hiti ágætlega saman. Núll stig við sjávarmál fylgja oftast þykkt á bilinu 5200 til 5240 metra á okkar slóðum - ætli það sé ekki svipað syðra.

Þykktin yfir hálendi Suðurskautslandsins sýnist minni - dekksti blái liturinn er þar sem þykktin er minni en 5040 metrar. Hvort það er raunverulegt vitum við ekki - ameríska gfs-líkanið sem hér er notað sýnir gjarnan of lága þykkt yfir Grænlandsjökli. Kannski líka þarna.


Fyrirstaðan virðist ætla að halda - en er óþarflega langt í burtu

Fyrirstaðan sem fjallað var um í pistli um miðja síðustu viku - þegar hún var að myndast - virðist ætla að halda. Hún er hins vegar óþarflega langt í burtu frá okkur. En samt - hún hindrar verulegar árásir kulda.

Við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag (15. janúar).

w-blogg140114a 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindur í fletinum (tölur í dekametrum). Þykkt er sýnd í lit, en hún segir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri þykkt - því hlýrra. Mörkin á milli grænna og blárra lita er við 5280 metra. Ísland er mestallt í grænu og það þýðir að hiti er 2 til 3 stig yfir meðallagi. Hitavikið er þó minna í neðstu lögum - kalt loft fleygar sig undir það hlýja. Skipt er um liti á 60 metra bili.

En við sjáum fyrirstöðuna - hún hefur miðju við Norður-Noreg. Sjá má kalda lænu liggja til vesturs fyrir sunnan hana. Vindur er af suðaustri í 500 hPa (í rúmlega 5 km hæð) yfir landinu og er ekki tiltakanlega sterkur. Þegar vindur er af norðaustri við jörð en snýst til suðausturs með vaxandi hæð er aðstreymi af hlýrra lofti að eiga sér stað. Það sést líka á því að suðaustanáttin liggur þvert á jafnþykktarlitina og dregur hlýrri liti í átt til landsins.

En norðaustanáttin úti af Vestfjörðum og norður með Norðaustur-Grænlandi er býsna sterk. Þar eru þykktarlitirnir þéttir. Þar má sjá lítinn kuldapoll - liturinn gefur til kynna að þykktin í honum sé rétt innan við 5100 metra - mun hlýrra heldur en við mætti búast miðað við árstíma. Þessi kuldapollsóværa hreyfist til norðausturs og fjarlægist okkur.

Allur raunverulegur kuldi er langt vestur í Kanada og við norðurskautið og ógnar okkur ekki í bili.

Fyrirstaðan virðist eiga að halda - en er óþarflega langt í burtu. Það þýðir að við verðum í viðvarandi lægðabeygju á jafnhæðarlínum - háloftalægðardrag verður að flækjast í kringum landið í að minnsta kosti nokkra daga til viðbótar. Það er þó vonandi að suðaustanáttin nái sér frekar á strik heldur en að norðaustanþræsingurinn haldi áfram.

Þótt til þess að gera hlýtt loft verði áfram yfir landinu má þó ekki gleyma því að um leið og lægir og léttir til fer hitinn inn til landsins í frjálst fall niður í -10 til -15 stiga frost - eða jafnvel meir. Það gerði hann á stöku stað á laugardaginn var. Hitinn dettur hraðast niður þar sem mjöll er á jörð.


Gervihnattarmynd

Nú kemur pistill í flokknum bullað um gervihnattamyndir (49. þáttur) - en hann telst frekar hóflegur að þessu sinni. Tilefnið er innrauð mynd sem fengin er af vef Veðurstofunnar og var numin á miðnætti föstudagskvöldið 10. janúar.

w-blogg110114a 

Ísland og Grænland eru efst á myndinni. Yfir Íslandi er hægfara skýjabakki, hlý suðaustanátt er í bakkanum - en kalt loft stingst inn undir. Kalda loftið er komið frá Kanada. Töluvert snjóar í hægum vindi á Suður- og Vesturlandi - trúlega eitthvað fyrir norðan líka. Úrkomusvæðið hreyfist til norðausturs - en allmikið af köldu lofti er fyrir sunnan og suðaustan land. Eðli þess sést best á skúra- og éljaklökkunum (bókstafurinn K).

Óvenjuvond akstursskilyrði voru í snjókomunni - sérstaklega óvenjuleg vegna þess hversu veðrið var í sjálfu sér gott. Þétt hundslappadrífa settist á allar vegstikur og huldi veglínur - það var nánast eins og afturblik um 40 ár að aka á óupplýstum vegum í nágrenni við höfuðborgina - og sjálfsagt víðar. Ritstjórinn man (eða misminnir) að vegstikuöld hafi hafist í Borgarfirði 1966 - sáust reyndar áður í stöku beygju (ásamt hinni hallandi zetu - sem var næstum því eina umferðarmerkið fyrir umferðarlagabreytinguna 1958 - þá sem færði okkur merkin, stefnuljósin og nýmóðins vinstribeygju (sem þá var reyndar hægribeygja í vinstrihandarakstri). Beygjubreytingin var mörgum snúin - hennar sá lengi stað í aksturslagi - ekki síst í höfuðborginni. Veglínur birtust hins vegar ekki fyrr en svonefnt fast slitlag (sem ekki er alltaf fast) kom á þjóðvegi. Á þessari stiku- og línuleysisöld var oft harla bágt í vondu skyggni hundslappadrífunnar - en nær enginn ók þá hraðar við þessar aðstæður en 30 km/klst - nema auðvitað Bjössi á mjólkurbílnum - og kannski Sjana síldarkokkur líka.

En aftur að myndinni. Suður í hafi er mjög myndarleg lægð og dýpkar hún hratt. Fyrir tíma evrópureiknimiðstöðvarinnar og ofurtölva hennar var erfitt að horfa á mynd sem þessa án þess að fá spáskjálfta - en núna róar reiknimiðstöðin okkur aðeins. Lægðin kemur til með að valda austanstormi síðdegis á sunnudag (segir stöðin) - en við bendum á spár Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra aðila í því sambandi.

En lægðin er með það sem við köllum hlýtt færiband (rautt) - það stefnir að vísu beint í norður sem er dálítið erfitt - berist ekki hjálp úr vestri og norðvestri - en myndarlegt er það samt. Við sjáum líka það sem stundum er kallað kalt færiband (blámerkt) - en ritstjórinn hefur tilhneigingu til þess að nota orðið undanskot um þetta (hann er aleinn um það sem og margt annað). Hér virðast undanskotin vera tvö.

Bláu örvarnar benda til suðurs - og það er í raun og veru norðanátt undir skýjum vestan lægðarinnar - en aðalatriðið er að það sé norðanátt frá sjónarhóli lægðarinnar sjálfrar. Hún getur jafnvel vaxið þótt sunnanátt sé í undanskotinu (í skýjahæð) - en norðanátt verður það að vera eftir að við höfum dregið stefnu og hraða lægðarmiðjunnar frá öllum vindi umhverfis hana. Allt skýjakerfið hreyfist þá til norðurs - en vestasti hlutinn dregst meira og meira aftur úr. Við það sýnist snúningur komast á kerfið - sveipur verður til.

Vesturbrún háskýjakerfis hlýja færibandsins (hvít) er mjög skörp. Þar nærri má kannski sjá hina illræmdu þurru rifu sem einkennir lægðir í hröðum vexti.

Reiknimiðstöðin segir lægðina rétt slefa að dýpka um þá 24 hPa á sólarhring sem dugar í ameríska miðann (bomb) - en þetta er engin ofurlægð. Við skulum samt ekki fyrirframvanmeta hvassviðrið sem hún færir okkur á sunnudagskvöld.


Hlýindi síðustu daga

Þótt við séum langt frá öllum metum má vel geta þess að hiti síðustu 30 daga er nú að komast upp fyrir meðaltal síðustu tíu ára - langt ofan meðaltalsins 1961 til 1990.

Þetta er svona á fáeinum stöðvum:

stöðmhitivik nafn
11,000,11 Reykjavík 
1780,25-0,30 Stykkishólmur
252-0,30-0,44 Bolungarvík
422-0,130,51 Akureyri
6202,220,76 Dalatangi

Reykjavík er rétt ofan við meðaltalið en Akureyri komin 0,5 stig upp fyrir það og Dalatangi 0,8 stig. Norðvesturhluti landsins þar sem veðrið hefur verið verst upp á síðkastið liggur enn neðan hlýindaárameðaltalsins.

En lítum líka á fyrstu níu daga janúarmánaðar:

stöðár tímabil mhitivik6190 stöð
12014 1. til 9. janúar  2,843,45 Reykjavík 
1782014 1. til 9. janúar  1,162,54 Stykkishólmur
4222014 1. til 9. janúar  1,854,35 Akureyri
6202014 1. til 9. janúar  3,193,11 Dalatangi
7052014 1. til 9. janúar  4,455,4 Höfn
         
      vik0412  
12014 1. til 9. janúar  2,842,02 Reykjavík 
1782014 1. til 9. janúar  1,160,66 Stykkishólmur
2522014 1. til 9. janúar  0,090,1 Bolungarvík
4222014 1. til 9. janúar  1,852,34 Akureyri
6202014 1. til 9. janúar  3,191,53 Dalatangi
7052014 1. til 9. janúar  4,453,96 Höfn

Efri taflan sýnir samanburðinn við 1961 til 1990 - Höfn er 5,4 stigum ofan þess meðallags, en nærri 4 stigum ofan við hlýindaárin. Bolungarvík liggur í því meðaltali (það er opinberlega ekki til fyrir þá stöð 1961 til 1990 - en er auðvitað til samt).

Janúar fer þannig vel af stað í hita. Ekki er spáð sérstökum hlýindum næstu daga en ekki miklum kuldum heldur þannig að breytingar verða varla miklar á þessum tölum fyrr en síðar.

Úrkomuleysið suðvestanlands heldur áfram - en varla mikið lengur. Það er því nokkur spenningur að byggjast upp.

Tvær stöðvar hafa á fyrstu 9 dögum mánaðarins náð í land meiri úrkomu heldur en er að meðaltali allan janúar. Það eru Sauðanesviti og Tjörn í Svarfaðardal - þó hefur úrkoma áður mælst meiri á báðum stöðvum þessa fyrstu níu daga. Úrkoman á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði er nú komin upp í 290 mm frá upphafi mánaðarins.


Mátuleg fyrirstöðuhæð í undirbúningi?

Fyrirstöðuhæðir verða til þegar hlýtt loft úr suðri „lokast inni“ á norðurslóðum - eða alla vega mun norðar heldur en hlýindi venjulega ná. Séu hæðirnar mjög fyrirferðarmiklar eða óvenju hlýjar valda þær miklum öfgum í veðri og hita. Óvenjuhlýtt er þá í vestur- og oftast líka norðurjaðri hæðanna en sérlega kalt austan við þær og jafnvel sunnan við líka.

Fyrirstöðuhæðir eru algengar á okkar slóðum, valda hlýindum séu þær yfir Skandinavíu eða Bretlandseyjum - oftast góðviðri (hitum á sumrin) séu þær yfir landinu eða í næsta nágrenni þess, en geta valdið miklum kuldum og þræsingum búi þær um sig yfir Grænlandi eða þar suður og vestur af.

Það er sömuleiðis nokkuð algengt að miklar hæðir sem byrja líf sitt austan við landið færist smám saman vestur fyrir. Þannig verða til ákveðnar áhyggjur hjá hlýindasinnuðum veðurnördum séu hæðirnar stórar og miklar - jafnvel þótt þær séu að búa til hlýindi (í bili).

Hóflegar fyrirstöður eru mun heppilegri heldur en þær stóru - þær halda lægðum í skefjum en eru engar æsingakenndar dramadrottningar. Jú, fyrir kemur að þær eru leiðinlega staðsettar - en sjaldan eru allir hlutir jákvæðir í senn.

Þetta er gert að umræðuefni hér vegna þess að nú gæti mátuleg fyrirstöðuhæð verið að myndast á mjög hagstæðum stað - fyrir norðan og norðaustan land. Enn er þetta sýnd veiði en ekki gefin en við skulum líta á háloftastöðuna um hádegi á föstudag - 10. janúar (í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg090114

Hæðin er efnileg á kortinu - staðsett norðarlega við norðausturströnd Grænlands - örin sem merkt er með bókstafnum a bendir á miðju hennar. Jafnhæðarlinur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn í 500 hPa-fletinum. Af þeim má einnig ráða vindstefnu - rétt eins og á hefðbundnu sjávarmálskorti. Litafletir sýna þykktina - hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - meðallag janúar hér á land er um 5240 metrar eða svo. Á föstudaginn er hiti ofan við meðallag við Ísland.

Mörkin milli litanna eru á 60 metra bili þannig að við sjáum að þykktin í fyrirstöðunni er meiri en 5340 metrar - langt yfir meðallagi við Norðaustur-Grænland. Innsta jafnhæðarlínan er þarna 5340 metrar líka - í dramahæðunum er hæðin mun meiri - við sjáum tölur jafnvel yfir 5700 metra á okkar slóðum í janúar - en þykktin er mest í kringum 5500 metrar - reyndar sjaldan svo mikil í hæðarmiðjunum sjálfum.

En á föstudaginn verður ekki alveg útséð með áhrifamátt þessarar hæðar hér við land því einmitt þá sækir kalt loft að úr suðvestri - ættað frá Kanada, ör merkt bókstafnum b bendir á mjög snörp kuldaskil sem eiga að fara norður yfir land á föstudagskvöld. Þá gæti gert skammvinna vestanhríð á Suðvesturlandi - en bara kannski.

Þriðja örin á kortinu, merkt bókstafnum c, sýnir litla lægðarbylgju - við sjáum að litafletirnir taka smásveigju til norðurs. Sé spá evrópureiknimiðstöðvarinnar rétt mun þessi lægð ná í nýjar birgðir af hlýju lofti sem þá færi norður yfir landið á sunnudag - ef til vill með suðaustanstormi. Fari svo styrkist hæðin svo að hún gæti veitt okkur skjól frá illviðrum fram undir þarnæstu helgi. En fyrir það þarf að greiða með suðaustanáttinni - vonandi verður það gjald ekki of hátt.


Næsta lægð

Nú virðast verða dálítil kaflaskil í veðri - það er reyndar ekki fullljóst hvert verður efni næsta kafla - kannski fer allt í sama farveg eftir stutt millispil. En næsta lægð er þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi 7. janúar) í foráttuvexti nyrst í Labrador. Evrópureiknimiðstöðin segir hana fara niður í 941 hPa í nótt - en hún grynnist síðan fljótt aftur. Þessi lága tala er óvenjuleg á þessum slóðum - en þó langt í frá einsdæmi.

En um hádegi á fimmtudag hefur lægðin grynnst verulega (972 hPa í miðju) á nánast sama stað en hefur sent á undan sér úrkomusvæði átt til okkar. Þetta sést vel á kortinu a neðan sem er úr smiðju hirlam-líkansins.

w-blogg070114a

Lægð hefur myndast skammt austur af Hvarfi á Grænlandi eins og iðulega gerist þegar stór lægðakerfi rekast á Grænland úr vestri. Strikalínurnar á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum. Lægstu tölurnar eru yfir Labrador - sunnan við lægðina - þar má sjá -35 stiga jafnhitalínuna - ekki alveg óvenjulega á þeim slóðum.

En kalda loftið breiðist eins og blævængur til austurs út yfir Atlantshafið (bláu örvarnar). Vegna þess að framrásin dreifist á lengri og lengri línu að baki skilanna (falin í græna beltinu) á undan hægja þau á sér og er ekki enn útséð um það hvenær úrkoman byrjar hér á landi. Ekki er heldur ljóst hvers konar veður er að baki skilanna - þar gæti verið býsna mikil snjókoma. En á undan er hlýrra loft, af jafnhitalínunum má ráða að þar er hiti í 850 hPa aðeins rétt neðan frostmarks. Sé það rétt mun rigna á undan skilunum.

Framtíðin er ekki ljós. Lægðardrag er þar sem x-merkið er sett lengst til vinstri á myndinni og við y-ið má sjá einhvers konar úrkomubakka - efniviður í nýja lægð sem e.t.v. veldur illviðri hér þegar kemur fram á sunnudag eða mánudag - en jafnframt gæti háloftafyrirstaða verið að byggjast upp norðan við land. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 53
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 544
  • Frá upphafi: 2343306

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 495
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband