Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Þá og nú - septembernorðanveðrin 2012 og 2013

Norðanillviðrið sem gengið hefur yfir undanfarna daga rifjar upp illviðri ársins í fyrra. Þá urðu eins og menn muna miklir fjárskaðar og línuskemmdir. Vonandi er að skaðarnir í veðrinu í ár hafi orðið minni en í fyrra - enda höfðu menn trúlega meiri vara á. En voru þetta lík veður - að öllu tjóni slepptu? Hér verður brugðið ljósi á nokkur atriði. Við lítum á vind og hita - yfir landið allt. Úrkomusamanburður verður að bíða betri tíma, en þó má nefna að í báðum veðrunum snjóaði niður í byggðir inn til landsins norðaustanlands.

Lítum fyrst á meðalvindhraða á landinu á klukkustundarfresti um þriggja sólarhringa skeið frá upphafi veðranna.

w-blogg180913a

Blái ferillinn á þessari mynd og þeim sem eftir fylgja á við illviðrið á þessu ári en sá rauði á við veðrið í fyrra. Blái ferillinn byrjar kl.1 aðfaranótt 15. september 2013 - en sá rauði kl. 1 á aðfaranótt 9. september 2012. Við gætum hliðrað ferlunum um 10 klst þannig að upphaf veðranna félli saman en þá kæmi í ljós að veðrið í ár stóð um hálfum sólarhring lengur en það í fyrra.

Í veðrinu í ár náði meðalvindhraðinn hámarki um kl. 21 þann 15. og var þá um 15,4 m/s. Í almennum illviðrasamanburði telst þetta mikið, þótt verstu vetrarveður fari að vísu ívið ofar. Í veðrinu í fyrra var hámark meðalvindhraðans um 14,7 m/s það var þann 10. september kl.14. Veðrið í ár entist aðeins lengur og gerði smá aukahnykk í kringum og upp úr hádegi þann 17.

w-blogg180913d

Þessi mynd sýnir nokkurn veginn það sama og sú fyrri en lóðrétti kvarðinn segir til um það hlutfall allra stöðva þar sem vindhraði var meiri en 17 m/s og er í prósentum. Í veðrinu í ár náði hlutfallið rétt rúmlega 50 prósentum. Það er mikið. Í veðrinu í fyrra komst hlutfallið í 44 prósent. Austasti hluti landsins slapp betur í fyrra heldur en nú og má vera að það valdi muninum.

w-blogg180913c

Hér má sjá meðalvigurvindátt á landinu. Hún giskar oftast vel á meðalvindátt - sérstaklega þegar vindur er stríður. Lóðrétti ásinn sýnir áttavitagráður, núll táknar norður, sé áttin pósitíf er vindáttin austan við norður, en sé hún negatíf er áttin vestan norðurs - eins og sjá má til hægri á myndinni.

Hér kemur fram nokkur munur á veðrunum. Veðrið í fyrra (2012) byrjar í austnorðaustri (en þá var vindur hægur) en snýst smám saman til norðurs og að lokum í norðnorðvestur en sjá má að sú vindátt er ríkjandi þegar veðrið er hvað mest. Veðrið í ár (2013) er hins vegar nær því að vera af sömu átt allan tímann. Þegar það er verst er vindáttin einnig af norðnorðvestri eins og í fyrra.

w-blogg180913b

Þessi mynd sýnir meðalhita á landinu (hálendi með). Í veðrinu í ár (blái ferillinn) er greinileg dægusveifla alla dagana - en ekki er hún stór. Veðrið í fyrra (rauði ferillinn) er öðru vísi, þar er myndarleg dægursveifla fyrsta daginn (enda veðrið rétt að byrja) og nokkur sveifla síðasta daginn en þó ekki eins stór. Miðdaginn - þegar veðrið var verst er dægursveiflan nær alveg bæld niður. Lítið hefur verið um sólskin á landinu þann dag og úrkoma þar að auki dregið úr dægursveiflunni.

Loftþrýstingur var ívið lægri í nýliðnu veðri heldur en því í fyrra (ekki sýnt hér). Þegar upp er staðið verður að telja þessi veður furðulík.

Áhugasömum lesendum er bent á viðhengi þessa pistils til frekari glöggvunar á veðrunum tveimur. Þar má í pdf-skjali sjá þrjú veðurkort fyrir hvort veðranna, nokkuð hefðbundið sjávarmálskort, 500 hPa hæðar- og þykktarkort auk korts sem sýnir svokallaðan þykktarvind en hann er góður mælikvarði á hitabratta neðan til í veðrahvolfinu. Vindar í 500 hPa gefa auk þykktarvindsins góða hugmynd um eðli veðursins. Lesendum skjalsins er bent á að stækka myndirnar - þær þola talsverða stækkun og verða skýringartextar og litakvarðar þá auðlesnari.

Kortasamanburðurinn gefur svipaða niðurstöðu og línuritin hér að ofan - þetta eru furðulík veður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Alþjóðaósondagurinn 16. september

Jú, sérstakur dagur er frátekinn á dagatalinu fyrir lofttegundina óson. Þess er minnst 16. september ár hvert að þennan dag árið 1987 var skrifað undir Montrealyfirlýsinguna svonefndu en hún inniheldur samkomulag um takmarkanir á losun ýmissa ósoneyðandi efna.

Rokið var í að gera þennan samning þegar í ljós kom að á hverju hausti var farið að gæta vaxandi ósonrýrðar á suðurhveli - mest nærri Suðurskautslandinu og yfir því síðla vetrar og að vorlagi (í ágúst til október). Illa leit út með framhaldið - en samningurinn er talinn hafa bjargað í horn - hvað sem svo síðar verður. Enn útlitið er þó talið hafa batnað síðan 1987. Hungurdiskar fjölluðu lítillega um óson í pistli í apríl 2011. Finna má umfjöllun um samninginn á vef umhverfisráðuneytisins.

En lítum af þessu tilefni á ósonkort bandarísku veðurstofunnar í dag. Við sleppum hitabeltinu, en lítum bæði á norður- og suðurhvel. Fyrst norðurhvelið.

w-blogg170913a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd - kortið skýrist mjög við stækkun. Hér við land er hámark ósonmagns seint að vetri en lágmarkið í skammdeginu. Á þessum tíma árs (í september) fer ósonmagn hægt minnkandi á norðurhveli. Á grænum svæðum myndarinnar er meira óson heldur en á þeim bláu.

Einingarnar eru kenndar við Gordon Dobson (1889 til 1976) en hann var frömuður ósonmælinga á sinni tíð. Ein dobsoneining (DU) samsvarar 10 míkrómetra þykku lagi af ósoni væri það allt flutt niður að sjávarmáli og 0°C hita. Við sjáum (já, stækkið myndina) að talan við Austurland er 348 dobsoneiningar, þar væri ósonlagið um 3,5 mm þykkt væri það allt flutt til sjávarmálsþrýstings.

Talað er um ósonrýrð (ozone depletion) fari magnið niður fyrir 200 DU. Suðurhvelskort dagsins í dag sýnir einmitt slíka rýrð þar um slóðir.

w-blogg170913b

Suðurskautið er rétt ofan við miðja mynd. Á fjólubláa svæðinu er ósonmagnið á bilinu 125 til 150 DU. Freistandi er að tala um ósongat á dekkstu svæðum myndarinnar. Séð frá þessu sjónarhorni er það samt varla rétt því ósonmagnið yfir Suðurskautslandinu er nú um 35% af því sem það er nú austan við Ísland - en alls ekki núll.

Hið eiginlega ósongat kemur hins vegar fram í lóðréttum þversniðum af ósonmagninu. Styrkur ósons er að jafnaði langmestur í 20 til 30 km hæð. Á þeim tímabilum sem ósoneyðing er sem mest hverfur það nærri því alveg á þessu hæðarbili eða hluta þess - en eitthvað situr eftir ofan og neðan við - gat er að sjá á styrkleikaferlinum lóðrétta. Hvort rýrnunin sem sést greinilega á þessu korti er þessa eðlis - eða hvort hún deilist jafnar á hæðina veit ritstjórinn ekki - enda á hálum ís þegar að ósonmálum kemur. Ættu lesendur ekki að styðja sig alvarlega við þennan pistil en fletta upp traustari heimildum vilji þeir vita meira um óson.


Veðrið gengur smám saman niður

Norðanveðrið sem plagað hefur landsmenn i dag (sunnudag) fer að ganga niður - gangi spár eftir. Það gerist að vísu ekki snögglega og víða um land verða leiðindi allan mánudaginn. En á kortinu hér að neðan má sjá að þrýstingur stígur mun meira austan við land heldur en vestan við þegar spáin gildir, það er ki. 6 á mánudagsmorgni (16. september). Við þetta fækkar jafnþrýstilínum yfir landinu.

w-blogg160913

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting með 4 hPa bili. Blálituð svæði sýna hvar þrýstingur hefur stigið síðastliðnar þrjár klukkustundir en rauð hvar hann hefur fallið. Yfir Austurlandi hefur hann stigið um 2 til 4 hPa frá kl. 3 en lítið vestanlands.

Ef við teljum jafnþrýstilínurnar kemur í ljós að þrýstimunur á milli Austfjarða og Vestfjarða er hér um 25 hPa en var 32 hPa kl. 21 í kvöld (sunnudag) og 30 hPa á miðnætti. Þrýstibrattinn dettur þar með niður um 7 hPa og jafnaðarþrýstivindur minnkar úr rúmum 30 m/s niður í um 25 m/s. Það munar um það - þótt í reynd sé þrýstivindurinn í þessu tilviki mun meiri yfir landinu Austanverðu heldur en þessar jafnaðartölur sýna.

Kl. 21 á mánudagskvöld á þrýstimunurinn yfir landið að vera kominn niður í 18 hPa og jafnaðarþrýstivindur því niður í um 15 m/s. En þetta er bara landsmeðaltal - vindstrengir munu þrjóskast við hærri tölur en þetta.


Enn ein kraftlægðin

Nú er enn ein kraftlægðin að dýpka suðaustur af landinu. Frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudag á hún að dýpka úr 998 hPa niður í 966 eða um 32 hPa á sólarhring. Þótt níuhundruðsextíuogeitthvaðlægðir sjáist oft í september er það samt í dýpra lagi.

Þrýstibrattinn fyrir vestan lægðina er líka með þeim öflugri sem sjást á þessum árstíma. Við sjáum hann vel á spákorti úr harmonie-líkaninu sem gildir kl. 21 á sunnudagskvöldi (15. september).

w-blogg150913a

Jafnþrýstilínurnar eru dregnar á 2 hPa bili og er um 32 hPa þrýstimunur á milli Austfjarða og Vestfjarða. Kortið verður mun skýrara sé það stækkað. Lituðu svæðin sýna úrkomuna og kvarðinn segir frá úrkomu á klukkustund. Mörk á milli blárra og grænna lita er sett við 5 mm/klst. Það er hellirigning, þar sem úrkoman er mest á hún að verða meir en 10 mm/klst. Frostlaust er við sjávarmál en hér verður ekki giskað á í hvaða hæð fer að snjóa.

Við sjáum líka ótrúlega þéttar jafnþrýstilínur yfir Vatnajökli og þar blæs vindur þvert á línurnar. Þetta sýnir fallvind á jöklinum sunnanverðum. Við látum aðra um að giska á hvort hann nær niður á  þjóðveg eða í byggðir en Veðurstofan nefnir meir en 40 m/s í hviðum.

En aftur að þrýstibrattanum. Hann er eins og áður sagði um 32 hPa yfir landið, það eru rúm 6 hPa á hverja 100 kílómetra. Sé það slumpreiknað yfir í þrýstivind fást út um 60 hnútar (30 m/s). Gömul þumalfingursregla segir að með því að reikna þrýstimun yfir eina breiddargráðu fáist þrýstivindur í hnútum með því að margfalda útkomuna með tíu. Í slumpi okkar dugar að segja að breiddargráðan sé 100 km (breið).

Næsta þumalfingursregla segir að mestu vindhviður séu varla mikið meiri en þrýstivindurinn, í þessu tilviki 60 hnútar eða 30 m/s. Við sjáum að þrýstilínurnar eru þéttari austanlands heldur en yfir Vesturlandi. Ef við sleppum ósköpunum í fallvindinum sýnist sem um 9 hPa munur sé yfir 100 kílómetrabilið frá mynni Eyjafjarðar austur á Melrakkasléttu. Samkvæmt þumalfingri gefur það um 45 m/s sem þrýstivind (90 hnúta).

En hvað með vindinn við jörð? Yfir sjó er gjarnan miðað við að meðalvindur sé um 50% af þrýstivindi eða heldur meir - hér þá um 23 m/s. Skoðum við kortið og lítum á vindspána sést af örvunum að vindi úti af Norðurlandi er spáð á bilinu 20 til 23 m/s - ekkert fjarri þumalfingursreglunum. Þar sem vindur blæs framhjá skögum eða yfir hæðir á ströndinni gæti hann verið meiri.

Yfir landi er vindur yfirleitt minni en 40% af þrýstivindi - oftast mun minni. En í raun er mjög erfitt að segja til um það hvert hlutfallið er hverju sinni á hverjum stað. Það er á mörkunum að líkönin ráði við það. Reyndar er það almennur sjúkdómur að líkön spá stríðum vindi yfir landi ekki vel - svokallað hrýfi segir til um núning á milli lands og lofts. Hrýfi í líkönum er oftast miðað við skóg, þéttbýli eða vel gróið land, en ekki berangur eins og algengur er hérlendis. Landslag hefur líka gríðarleg áhrif sem oft eru vanmetin af líkönum. Nú gætu lesendur borið saman þann vindhraða sem líkanið spáir kl. 21 á sunnudagskvöld og raunvindhraðann þar sem þeir eru staddir.

En mölum aðeins meir um vindinn og lítum á 500 hPa kort sem einnig gildir kl. 21 á sunnudagskvöldið 15. september. Þetta er tyrfnari texti og ekki víst að allir vilji lesa lengra.

w-blogg150913b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum en hiti í lit. Grænu svæðin og þau bláu eru kaldari en þau brúnu og rauðu. Kvarði og vindörvar skýrast mjög sé kortið stækkað.

Vindur úti fyrir austanverðu Norðurlandi er svipaður að styrk og er við jörð á kortinu að ofan og þar af leiðandi nokkru minni heldur en þrýstivindurinn í neðstu lögum. Hitafar undir fletinum á kortinu ræður því hvort eða hvernig vindar verða neðar. Við sjáum að á suðvesturhluta kortsins er gríðarlegur vindur, 35 til 45 m/s. Hans gætir ekki við jörð vegna þess að hitasviðið jafnar hann út, aukinni hæð fylgir aukinn hiti.

Þetta sama á sér stað austan Íslands en þar hækkar flöturinn til vesturs og hitinn gerir það líka. Hitabrattinn dregur úr vindi þannig að hann er lítill orðinn við jörð. Frá strönd Austfjarða og vestur fyrir land fellur hiti hins vegar á sama svæði og hæðin vex. Það þýðir að vindur vex niður á við.

Að lokum skulum við taka eftir því að á efra kortinu stóð þrýstivindurinn úti af Norðausturlandi beint úr norðri (úr norðnorðvestri við sjó vegna núnings) en í 500 hPa stendur hann af norðnorðaustri eða jafnvel norðaustri. Snýst sólarsinnis með hæð - það þýðir að hlýrra loft er í framsókn.


Örsmár moli um hita (kulda öllu heldur)

Ritstjórinn var spurður um það á dögunum hvenær að hausti hiti hefði fyrst farið niður fyrir -10 stig hér á landi. Svarið er 9. september. Árið var 1977 og lágmarkið, -10,2 stig, greip veðurstöðin í Sandbúðum á Sprengisandi. Þá gerði merkilegt landsynningsillviðri þann 27. ágúst sem hreinsaði sumarið út af borðinu. Vindur snerist síðan til norðurs og komið var harðahaust.

En Sandbúðir eru hátt á fjöllum. Hvenær er fyrstu -10 stigin að finna í byggð? Svarið er 18. september. En langt er síðan, 121 ár, í september 1892 og á Raufarhöfn. Ekki var lágmarkshitamælir á staðnum og því er líklegt að hitinn hafi farið enn neðar en þau -10,5 sem rituð voru í athugunarskýrsluna. Árið 1892 var eitt hið kaldasta sem mælst hefur hérlendis og ekkert jafnkalt eða kaldara hefur komið síðan.

En með fjölgun veðurstöðva á fjöllum ýtir undir það að við eigum eftir að fá að sjá enn lægri tölur um miðjan september í framtíðinni því kuldamet mánaðarins eru miklu lægri. Á botni lágmarka eru -19,6 stig sem mældust í Möðrudal þann 27. árið 1954 og -16,1 stig í Reykjahlíð við Mývatn 26. september 1943. Þetta eru stöðvar í byggð.


Á heyönnum (fjórða mánuði sumars)

Heyannir eru fjórði mánuður sumars í gamla íslenska tímatalinu. Í ár hófust þær 28. júlí en lauk 26. ágúst. Allir mánuðir tímatalsins eru 30 daga langir. Það er ekki nógu mikið til að búa til 365,25 daga ár. Rúmlega fimm daga vantar upp á. Fjórum þeirra er á hverju ári skotið inn á milli sólmánaðar og heyanna og heita aukanætur.

En til hvors mánaðarins teljast þá aukanæturnar? Hér veltum við ekki vöngum yfir því - heldur sleppum þeim úr mánaðareikningunum og lítum á sérstaklega. Til að fullt samræmi haldist á milli gregoríanska tímatalsins og þess íslenska þarf hið síðara frekari leiðréttingar við. Á fimm til sex ára fresti er skotið inn aukaviku, 7 dögum - svonefndum sumarauka. Hann er einnig settur inn á miðju sumri, á eftir aukanóttum og á undan heyönnum. Þetta virðist frekar flókið - en munum að við búum við ótrúlegt rugl í lengd mánaða í okkar hefðbundna ári, „ap, jún, sept ..“ - þá er gott að hugsa til hinna jafnlöngu íslensku mánaða.

En hvað um það - komið er að hitanum á heyönnum. Fulltrúi hans er morgunhiti í Stykkishólmi 1846 til 2013.

w-blogg130913a 

Lóðrétti ásinn sýnir hita, sá lárétti árin. Súlurnar sýna þá meðalhita heyanna einstök ár tímabilsins. Hér má taka eftir því að hlýindaskeiðinu fyrir miðja öldina lýkur upp úr 1950 og kuldinn tekur við. Kaldasti mánuðurinn er þó á 19. öld, það er 1850. Hlýjast var á heyönnum 2010. Mjög hlýtt var einnig í þessum mánuði 1870 og 1872. Þau sumur voru þó ólík á Vesturlandi, óþurrkar 1870 en blíða 1872. Eitthvað ýjuðu menn þá að veðurfarsbreytingum á Íslandi - veðurlagið þótti svo óvenjulegt.

Heyannir ársins í ár koma ekkert sérstaklega illa út þótt þær liggi í lægra lagi miðað við það sem verið hefur á þessari öld.

Eftir 1949 voru heyannir kaldastar 1983 og næstkaldastar 1993, hlýjast var í Reykjavík á heyönnum 2010 - rétt eins og í Stykkishólmi. Nærri því eins hlýtt var 2003, 2004 og 2012.

Aukanæturnar eru aðeins fjórar á hverju sumri þannig að breytileiki milli ára er umtalsvert meiri heldur en er í 30-daga meðaltölum mánaðanna. En lítum samt á Stykkishólm.

w-blogg130913b

Hér er hlýjast 1936 en kaldast 1906 og 1921. Hlýinda- og kuldaskeiðin koma vel fram þótt ekki séu teknir nema fjórir dagar á ári inn í meðaltalið. Annars er lítið um þetta að segja. Í Reykjavík (frá og með 1949) voru aukanætur hlýjastar 2005 en kaldastar 1983. Næstkaldast var 1963 (eins og sumir muna).

Frá því að mælingar hófust í Stykkishólmi hafa ár 30 sinnum státað af almanakssumarauka. Hann var hlýjastur 1939 var hlýjastur, næsthlýjastur 1990 og síðan fylgir 1883. Kaldast var á sumarauka 1911 og næstkaldast 1906. Frá 1949 var sumaraukinn 1990 sá hlýjasti í Reykjavík.

Sólskinsstundir á heyönnum voru 139,8 að þessu sinni í Reykjavík.

w-blogg130913c

Lóðrétti ásinn sýnir sólskinsstundafjöldann en sá lárétti vísar í árin. Það eru heyannir 1960 sem eru langt fyrir ofan alla aðra keppinauta. Fæstar voru stundirnar rigningasumarið fræga 1955 og síðan koma 1945 og 1947 - það síðarnefnda er einnig þekkt rigningasumar - og auðvitað má hér finna hið illræmda sumar 1983 - slæmt á heyönnum sem og öðrum mánuðum. Heyannir í ár, 2013, standa sig bara vel miðað við hörmungarnar, en eru samt um 21 stund undir meðallagi allra ára myndarinnar.


Skæð lægð - en skammvinnt veður

Lægðin sem nú (um miðnætti á miðvikudagskvöldi) er skammt suðvestan við landið fer yfir það í nótt og fyrramálið. Hún verður komin yfir þegar flestir lesendur berja þennan texta augum. Hér er aðeins bent á það að litlar færslur á lægðarmiðju geta skipt verulegu máli varðandi hvassviðri og hugsanlegt tjón. 

Í pistli gærdagsins litum við á kort sem sýndi vísun á kviku og þar með vindhviður. Við lítum á nýtt spákort sem gildir á sama tíma og kort gærdagsins.

w-blogg120913

Kvarðann má sjá mun betur sé kortið stækkað. Einingarnar segja fæstum neitt - en þó að því hærri sem talan er því meiri er kvikan. Á kortinu í gær var lægðarmiðjan við Hornstrandir en hér yfir Dalasýslu. Hún hefur sum sé aðeins hægt á sér miðað við spána í gær. Á kortinu í gær voru hviður á sama tíma sagðar verða yfir Tröllaskaga og Norðurlandi - en hér eru þær víðar um land.

Lægðin hefur ekki aðeins hægt á sér - heldur dýpkaði hún hraðar en gert var ráð fyrir. Það þýðir að í þessari spá nær vestanstormur sér á strik suðvestan við land - en í gær var lægðin ekki orðin alveg nógu djúp til þess að meginstrengur lægðarsnúðsins næði að myndast áður en upp á land var komið.

En hvernig sem fer verður lægðin að teljast óvenjuleg miðað við árstíma. Ofsaveður af fullum vetrarstyrk hefur að vísu gert í september - en þau eru þá mun sjaldgæfari heldur en um hávetur.


Dýpkar hratt?

Eftir suðaustanslagviðrið í dag (þriðjudag) þar sem 10-mínútna meðalvindhraði í Ólafsvík komst í 28,8 m/s (og 49,8 m/s hviða mældist á Miðfitjahól á Skarðsheiði) er nú mun hægari suðvestanátt með skúrabreyskju. En það er spurning með næstu lægð.

Þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil á þriðjudagskvöldi) sést ekki neitt af lægðinni nýju á hefðbundnum sjávarmálsþrýstikortum, en hún leynist vart reyndum augum í háloftunum. Þessi reyndu augu geta þó ekki með nokkru móti séð hvað úr verður nema með aðstoð tölvureikninga -eins og venjulega eru þeir ekki sammála. Bandaríska gfs-líkanið gerir heldur minna úr en þeir sem byggja á evrópureiknimiðstöðinni. Við skulum líta á útkomu dönsku veðurstofunnar.

w-blogg110913aa

Þetta kort gildir um hádegi á miðvikudag. Lægðin er að verða til - hefur varla komið sér upp sjálfstæðri jafnþrýstilínu en samt er um greinilega miðju að ræða - 1006 hPa. Rétt er að muna að úrkoman (sem litirnir sýna) er sú sem fallið hefur síðastliðnar þrjár klukkustundir - úrkomusvæðið sýnist af þeim sökum vera liggja aðeins á eftir lægðinni.

En 18 klst síðar, á fimmtudagsmorgni kl. 6 er lægðin komin alla leið norður fyrir land og orðin 977 hPa djúp.

w-blogg110913a

Hún hefur því dýpkað um 29 hPa á 18-klukkustundum og gerir betur en að falla undir skilgreininguna amerísku um „sprengilægð“. Æ-íslenska þýðingin lætur standa á sér (en kemur vonandi síðar).

Evrópureiknimiðstöðin er nokkurn veginn sammála hirlam en lægðin fer þó ekki nákvæmlega sömu leið að hennar mati. En ljóst er að loftvog hríðfellur á undan lægðinni og hrekkur upp aftur á eftir henni. Um vindinn er best að segja sem minnst og hvetja þá sem þurfa á vindaspá að halda að fylgjast með því sem Veðurstofan segir um málið. Enn er ekki fullvíst að lægðin verði svona snörp eins og hér er sýnt.

Við skulum líka líta á kvikuábendikort (sjá færslu í fyrradag) harmonie-líkansins sem gildir á sama tíma og síðara kortið hér að ofan (kl. 6 að morgni fimmtudags).

w-blogg110913c

Kortið og kvarði batna mjög við stækkun. Vindörvar sýna vindstefnu og vindhraða en lituðu svæðin sýna mat líkansins á kviku í lofti. Ritstjórinn er að feta sig áfram með þýðingu á enska heitinu turbulent kinetic energy(TKE). Einingin sem fylgir er einkennileg og hægt að lesa hana á ýmsa vegu [metrar í öðru veldi á sekúndu í öðru veldi - eða hverfiþungabreyting á sekúndu]. Síðari lesturinn gæti gefið til kynna að kalla ætti þetta kvikuþunga eða hverfiskrið - en það kemur allt i ljós þegar búið er að skrifa og segja orðin hundrað sinnum eða svo.

En kvikuþunginn er langmestur yfir fjöllum norðanlands - þar er vindur líka mestur. Kannski að vestanáttin rífi sig niður á þeim slóðum og reyti upp lausamuni sem menn hafa gleymt að koma í skjól. Flestir munu þó sofa í ró á sínu eyra meðan lægðin gengur hjá.


Þrýstibreytingar

Fyrir tíma tölvuspánna þurfti að fylgjast mjög náið með breytingum á loftþrýstingi þegar spáð var um veður. Enn þann dag í dag er vissara að láta þær ekki framhjá sér fara því alvarlegar villur í tölvuspám koma gjarnan fram sem óvæntar breytingar á þrýstingi. Nú (seint á mánudagskvöldi) nálgast lægðakerfi úr suðvestri og loftþrýstingur fer að falla í nótt af þess völdum.

Fallið vex og stendur allt þar til kuldaskil fara hjá einhvern tíma síðdegis á þriðjudag.

w-blogg100913a

Litirnir á kortin sýna þrýstibreytingar milli kl. 12 og 15 síðdegis á þriðjudegi. Sé kortið stækkað ætti að sjást að þrýstingur við Snæfellsnes á kl. 15 að hafa fallið um 7,1 hPa frá því klukkan 12. Ef eitthvað að ráði bregður út af því hefur spáin brugðist. Rauðu svæðin sýna þrýstifall en á þeim bláu hefur þrýstingur stigið. Þegar úr þrýstifallinu dregur er stutt í skilin eða þau að fara yfir. Veðurathuganir á klukkustundarfresti eru birtar á vef Veðurstofunnar og þar er hægt að fylgjast með þrýstibreytingum - en auðvitað er miklu meira gaman að fylgjast með þrýstibreytingunum nánast frá mínútu til mínútu á heimilisloftvoginni - eða á sinni einkaveðurstöð.

Flestar nútímaeinkaveðurstöðvar mæla þrýsting - en ekki er víst að allir eigendur þeirra gefi honum þann gaum sem vert er. Reynslan kennir mönnum að meta hvað breytingarnar merkja.

Ástæður þrýstifalls eru einkum tvær - (i) að hlýrra loft sækir að, (ii) að veðrahvörfin séu að lækka og þrýstingur stígur vegna þess að (i) kaldara loft sækir að, (ii) að veðrahvörfin séu að hækka.

Hitabreytinganna verður ekki alltaf vart á þeim stað sem athugað er, t.d. vegna þess að hitahvörf verja hann. Þess vegna er stundum erfitt að greina þessar ástæður að. En aðalvandinn er sá að lækkandi veðrahvörfum (fallandi þrýstingi) fylgir oftast kaldara loft (hækkandi þrýstingur) og með hækkandi veðrahvörfum (hækkandi þrýstingi) fylgir oftast hlýrra loft (lækkandi þrýstingur).

Hækki þrýstingur í hlýnandi veðri er það yfirleitt merki um að eitthvað „stórt“ sé að gerast í háloftunum og sömuleiðis þegar þrýstingur lækkar í kólnandi veðri.

Þetta má útfæra nánar með því að fylgjast með skýjum - þau gefa stundum til kynna mismun á vindstefnu eftir hæð. Við reynum að muna að snúist vindur sólarsinnis með hæð er hlýtt loft á leiðinni en snúist hann andsólarsinnis er það kalda loftið sem er í framsókn.

Á myndinni að ofan má sjá jafnþykktarlínur strikadregnar. Með því að rýna í þær kemur í ljós að hlýtt loft er í framsókn undir rauða litnum - þar fellur loftþrýstingur í hlýnandi veðri - vindur við jörð er af suðaustri en snýst þá í suður eða suðvestur með hæð, með sól. Undir bláa flekknum er vestanátt við jörð þar sem kalt loft (minni þykkt) er í framsókn þar snýst vindur líka til suðvesturs með hæð - en þá á móti sól.

Jæja. Heldur varð þetta lengra en ætlað var.


Greiðar leiðir

Sú staða er nú uppi að lægðir ganga mjög greiðlega hver á fætur annarri til norðausturs- og austurs um Atlantshafið í nágrenni Íslands. Auðvitað eru brautir þeirra aldrei alveg eins og misjafnt hvort þær fara norðvestan við landið, yfir það eða suður af. Sömuleiðis eru þær misdjúpar - en virðast ekki ná að breyta mynstri háloftavinda svo heitið geti og flestar eru þær á svipuðu aldurs- og þroskaskeiði þegar hingað er komið. Þessu ástandi linnir auðvitað en framtíðarspár sjá engin merki þess þegar þetta er skrifað - seint á sunnudagskvöldi 8. september.

Við lítum á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir mánudaginn 9. september kl. 18.

w-blogg090913a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum (kvarði og kort skýrast mjög við stækkun). Greið leið liggur frá Kanada í vestri um Ísland og norðaustur til Svalbarða - fyrirstöður og afskornar lægðir ríkja hins vegar yfir Evrópu norðanverðri. Þessi kerfi hrökkva aðeins til þegar lægðabylgjur greiðu leiðarinnar skjótast hjá.

Þriðjudagslægðin okkar liggur í snörpu lægðardragi sem má kortinu er rétt norðaustur af Nýfundnalandi og sú sem væntanleg er á fimmtudag er að verða til yfir Hudsonflóa. Síðan er minnst á lægð á sunnudag og aftur á miðvikudag í næstu viku - en framtíðin utan við fjóra daga eða svo er í raun mjög óviss í líkanheimum - og breytingar yfir í eitthvað allt annað auðvitað hugsanlegar. Munum líka að lægðirnar fara aldrei alveg sömu leið.

Eins og sjá má eru óvenjuleg hlýindi í Norður-Noregi rétt eins og í mestallt sumar. Meðalhiti í Vardö var að sögn þremur stigum ofan meðallags. Það er eins og Reykjavík fengi tæplega 13 stiga sumar - þrjá mánuði í röð. Mælingar í Vardö byrjuðu 1840 og hefur sumarið aldrei verið jafnhlýtt eða hlýrra þar um slóðir. Hiti var mjög óvenjulegur í Noregi í dag (sunnudag) og fór yfir 25 stig bæði á Mæri og í Þrændalögum. Eftir kortinu að ofan að dæma gæti það gerst aftur á morgun - þykktin er yfir 5580 metrum á allstóru svæði.

Annars er blái liturinn farinn að breiða úr sér á kortinu en hann sýnir það svæði þar sem þykktin er minni en 5280 metrar. Bláminn nær yfir stærra svæði heldur en hann gerði sama dag í fyrra en tökum eftir því að bláu litirnir eru ekki nema tveir. Það þýðir að þykktin er á kortinu hvergi lægri en 5160 metrar. Þetta er hlýrra lágmark heldur en var lengi vel í ágústkuldapollinum yfir Norðuríshafi. Við fylgjumst spennt með komu vetrar á norðurslóðum.

Óvenjuleg hlýindi eru í norðanverðum miðvesturríkjum Bandaríkjanna þar sem þykktin á að skjótast upp fyrir 5820 metra síðdegís á mánudag (að staðartíma). Eitthvað velta menn fyrir sér metum þar um slóðir - en við getum ekki velt okkur upp úr því.  

Hér á landi var hámarkshitinn í dag rúm 19 stig á Skjaldþingsstöðum - og fór þar og víðar yfir 20 stig í gær það er harla gott og mánuðurinn þar með kominn í hóp tuttugustigaseptembermánaða. Búist er við skammvinnu hlýindaskoti með þriðjudagslægðinni - en það fer mjög fljótt hjá og því óvíst með 20 stigin þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1753
  • Frá upphafi: 2348631

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1534
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband