Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Ákafasta júníúrkoman?

Fyrir nokkrum dögum minntust hungurdiskar á mikla dembu sem gerði á Kirkjubæjarklaustri laugardaginn 16. júní. Þá mældist úrkoman þar 22,4 mm á einni klukkustund, milli kl. 10 og 11 um morguninn. Þetta er óvenjumikil ákefð en hversu óvenjuleg er hún í júnímánuði?

Þótt ákefðarmælingar hafi verið gerðar í Reykjavík í meir en 60 ár var það ekki fyrr en sjálfvirkir úrkomumælar komu til sögunnar að gögn fóru að safnast um þennan þátt veðursins á landsvísu. Úrkomumælingar eru erfiðar og þótt farið sé yfir gögnin með skipulegum hætti hefur það verið regla að þurrka ekki út aftök nema að mjög vel athuguðu máli. En mörg þau háu gildi sem enn lifa í skránni eru örugglega ekki rétt. Okkur er því nokkur vandi á höndum  - og við skulum þess vegna láta okkur nægja að líta á júnímánuð einan og sér.

Fljótlegt er að búa til lista yfir mestu klukkustundarúrkomu á öllum mælistöðvum og tímum í skránni. Í ljós kemur að talan á Kirkjubæjarklaustri frá því á laugardaginn er sú næsthæsta í júní í allri skránni. Sú hæsta er úr Ólafsvík þann 7. júní 2008, 42,8 mm. Hún er nærri því örugglega röng en við höfum samt varla vald til að slá hana af hér og nú.

Síðan kemur talan frá Klaustri, 22,4 mm og þar næst mæling úr Hellisskarði við Hellisheiði syðra frá 8. júní 2003, 21,4 mm. Það getur því vel verið að nýja mælingin sýni mestu úrkomuákefð júnímánaðar á sjálfvirkum stöðvum.

Hér á landi er úrkoma að jafnaði gerð upp á sólarhringsgrundvelli, færð kl. 9 þann dag sem mælitíminn endar. Úrkoman á Klaustri er því tilfærð þann 17. Sólarhringsúrkoman á sjálfvirku stöðinni mældist 38,2 mm - en 39,2 mm á þeirri mönnuðu. Mjög líkar tölur.

Þennan sama sólarhring mældist úrkoman hins vegar 102,0 mm í Vík í Mýrdal og 90,3 mm í Kerlingardal þar skammt frá. Sú óþægilega spurning hlýtur að koma upp hvort hæstu klukkutímagildin á þessum stöðvum hafi verið hærri heldur en á Klaustri - það fæst aldrei upplýst - því miður.

En eftir að hafa haft fyrir því að búa til lista um hámarksákefð í júní fyrir allar tiltækilegar stöðvar skulum við líta á klukkan hvað ákefðarmetin eru sett.

w-blogg200612

Lárétti ásinn sýnir klukkustundir sólarhringsins en sá lóðrétti fjölda stöðva. Stöðvarnar eru 66 og klukkustundirnar 24, að meðaltali ættu að vera um 3 stöðvar á hverri klukkustund. Svo er ekki. Áberandi hámark er kl. 16 (13 stöðvar) og mun fleiri stöðvar eiga hámörk síðdegis heldur en að nóttu eða að morgni.

Þetta túlkum við svo að slatti af skammvinnum dembum sé inni í gagnasafninu, líklega vilja þær fremur falla síðdegis heldur en á öðrum tímum sólarhrings. Loft er óstöðugast síðari hluta dags, þá er óskastund skúraklakkanna. Úrkomu sem tengist skilakerfum eða áhrifum fjalla ætti að vera meira sama um hvað klukkan er.

Suðausturland virðist vera eini landshlutinn þar sem úrkoma það sem af er júní er nokkurn veginn í meðallagi. Í Reykjavík er hún 12% af meðallagi það sem af er, í Stykkishólmi aðeins 2%, 27% á Akureyri, 54% á Dalatanga, 102% á Kirkjubæjarklaustri og 30% á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Teiti Arasyni er þökkuð ábending.


Eru þurrir júnímánuðir í tísku?

Þótt langt sé í frá að útséð verði með júní 2012 hafa þurrkar einkennt mánuðinn fram að þessu (um mikinn hluta landsins). Víðast hvar var einnig þurrt í maí - en við fjöllum samt aðeins um júní í þessum pistli.

Samanburður úrkomu til lengri tíma er alltaf erfiður - hún er ótrúlega staðbundin og tiltölulega litlir flutningar á stöðvum eða breytingar á mælitækjum og mæliháttum geta haft mikil áhrif á mæliraðir. Samt sem áður hefur verið ráðist í gerð úrkomuvísa af ýmsu tagi í því skyni að auðvelda samanburð. Hér er litið á tvo og ná þeir báðir til landsins alls. Annar segir til um úrkomutíðni, en hinn er magnbundnari. Beggja vísanna hefur verið getið áður á hungurdiskum en rétt er samt að rifja þá lauslega upp.

Fyrst er það tíðnivísirinn. Hann er einfaldlega skilgreindur þannig að taldir eru saman allir úrkomumælidagar í mánuði (fjöldi stöðva sinnum dagafjöldi mánaðar) þegar úrkoma á stöð er 0,5 mm eða meira reiknað hlutfall milli þeirra og allra mælidaga mánaðarins. Einingin er þúsundustuhlutar. Talan 500 þýðir því að úrkoma hafi verið 0,5 mm eða meiri á helmingi allra mælidaga.

Meðaltal júnímánaða áranna 1981 til 2010 er 354 þúsundustuhlutar. Röðin nær aftur til 1926. Hæsta gildið hefur júní 1969, 570 þúsundustuhlutar - úrkomusamasti júní á landinu. Lægstur er júní  1971, með 167 þúsundustuhluta.

Þarnæstur er magnvísirinn. Hann er fenginn þannig að fyrst er landsmeðalúrkoma áranna 1971 til 2000 reiknuð. Síðan er meðaltal hvers júní reiknað sem hlutfall af þessu landsmeðaltali.

Meðaljúnímánuðurinn á árunum 1981 til 2010 átti 5,4 prósent af meðalársúrkomu. Af þessu má sjá að júní er tiltölulega þurr miðað við aðra mánuði. Það þarf nærri 19 júnímánuði til að ná ársmeðalúrkomu. Þessi vísaröð nær aftur til 1857 - ekki er þó mikið að marka fyrstu áratugina - en við látum það samt gott heita.

Úrkomusamasti júnímánuður þessa langa tímabils er júní 1868 með 12 prósent - varla hægt að treysta því - og júní 1861 nærri því eins hár? Þarnæstur er síðan 1992 með 10,7 prósent - nærri tvöfalda meðalúrkomu júnímánaðar. Sá þurrasti er hins vegar júní 1860 - en okkur er hálfilla við að treysta því - en júní 1916 er aðeins meira treystandi. Eftir 1925 er júní 1991 sá þurrasti eins og tíðnivísirinn stakk upp á.

Gott og marktækt samband er á milli vísanna tveggja. En reynum nú að snúa okkur að spurningunni í fyrirsögninni. Lítum á mynd sem sýnir vísana báða. Það þarf að rýna dálítið í smáatriðin en stækka má hana til nokkurra bóta.

w-blogg190612-urkomuvisar

Tíðnivísirinn er sýndur í bláum lit (vinstri kvarði) en magnvísirinn í rauðum (hægri kvarði). Það sem skiptir máli hér er að síðustu fimm punktar hvors vísis um sig liggja mjög lágt í myndinni (það eru þeir sem liggja lengst til hægri). Allir þessir júnímánuðir eru þurrari heldur en að meðaltali.

Það er býsna sérstakt að þetta skuli gerast mörg ár í röð - án innskots - en sjálfsagt innan marka tilviljunar. En nú virðist sem sjötti þurri júnímánuðurinn sé hugsanlega að bætast við.

Já, þurrir júnímánuðir eru í tísku. Sé horft á myndina má sjá að þetta tíðarfar í júní er sérlega ólíkt því sem var algengast 1960 til 1980 - þá var aðeins einn júnímánuður mjög þurr, 1971. Ámóta júníþurrka er helst að finna milli 1940 og 1950 og einnig á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. En á báðum tímaskeiðum komu þó meðalúrkomujúnímánuðir inn á milli.

Nei, þetta segir ekkert um afgang sumarsins.


Áframhald

Sú mynd sem veðurlag tók á sig í maí virðist ekki ætla að gefa sig. Háloftahæðarhryggur situr sem fastast einhvers staðar nálægt Grænlandi en er ýmist vestan við, yfir því eða austan við. Meginlægðabraut liggur til austurs langt suður í hafi og inn yfir meginland Evrópu. Þetta sést sérlega vel á meðalhæð 500 hPa-flatarins fyrstu 14 dagana í júní eins og síendurgreining (ncep) bandarísku veðurstofunnar (noaa) sýnir á kortinu hér að neðan.

w-blogg180612

Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins. Það er 5580 metra línan sem snertir Vestfirði. Það er um 60 metrum ofan meðallags. Það er mikill hæðarhryggur sem teygir sig frá Labrador norðaustur til Grænlands en myndarleg háloftalægð er langt suður í hafi og önnur enn meiri yfir Skandinavíu.

Græna örin sýnir meginlægðabraut síðustu tveggja vikna, beint inn yfir vestanverða Evrópu. Farið er að bera á mæðu hjá íbúum þessara landa. Hæðarhryggurinn yfir Grænlandi er líkastur þeirri gerð hryggja sem kallaðir eru framhallandi. Þeir hallast til austurs miðað við þann stað þar sem þeir teygja sig út úr meginvindum vestanvindabeltisins og eru sérlega þrásetnir.

En auðvitað hefur breytileiki verið talsverður í legu hryggjarins og styrk hans í þennan hálfa mánuð. Næstu tíu dagana á undan var miðjan búin að vera nær Íslandi - enda muna menn enn hlýindin og blíðuna meðan á því stóð.

Síðan hefur landið verið inn í þrenns konar norðanátt. Í fyrsta lagi til þess að gera hlýrri hæðarbeygju þegar hryggurinn - eða hæðarútskot úr honum hefur verið næst okkur (rauðgula örin). Þurrt er þá um land allt að kalla. Í öðru lagi frekar kaldri norðanátt - en þó aðallega með hæðarbeygju (ljósblá ör). Þá er þurrviðrasamt um meginhluta landsins og lengst af bjart veður - en dægursveifla hita mikil. Í þriðja lagi er síðan bláa örin en á henni er lægðarbeygja og þar af leiðandi óstöðugt loft - svipað og allra síðustu daga.

Lægðarbeygjan fylgir litlum kuldapollum sem rúlla hjá, hver um sig á 1 til 3 dögum - en hæðarbeygjuástandið vill taka ívið lengri tíma - og ræður því frekar útliti meðalkorta.

Fyrir helgina var því spáð að hryggurinn teygði sig aftur til austurs síðar í þessari viku og þá með hlýindum hér á landi. Í gær (laugardag) og í dag (sunnudag) sýna spárnar ekki þetta ástand heldur eiga kuldapollarnir enn um sinn að rúlla yfir okkur úr norðri hver á fætur öðrum. Reyndar eru þeir ekki mjög öflugir - en það hlýnar ekki á meðan. Eina úrkoman sem fellur í stöðu sem þessari er skúraskyns - þá í kuldapollunum - hún dreifist mjög ójafnt. Lítilsáttar úrkoma fellur einnig áveðurs í norðanáttinni austast á landinu.

Lægðir með hefðbundnum skilakerfum lifa illa eða alls ekki í austur- og suðurjaðri framhallandi hryggja.

Næsti kuldapollur á að koma úr norðri á miðvikudag eða þar um bil. Nokkur átök verða þá á milli hans og hæðarhryggjarins og við fáum e.t.v. að sjá frekar óvenjulega gerð veðurs þegar vindur verður um tíma suðvestlægur við jörð en úr norðaustri í háloftum - yfirleitt eru hlutverkin öfug - þ.e. norðaustanáttin er við jörð en suðvestanáttin uppi. Satt best að segja trúir (reynslubólginn?) ritstjórinn þessu varla. - En smáatriðin lifi.


Enn um skúrir og haglél

Í dag (laugardag) gerði haglél sums staðar um landið sunnanvert. Það er ekki svo óalgengt að sumarlagi hér á landi. Í leiðbeiningum um veðurathuganir er greint er á milli þriggja tegunda hagls.

(i) Snæhagl er hvítt og frauðkennt, yfirleitt 2 til 5 mm í þvermál (krækiberjastærð). Höglin eru oftast mjúk, en skoppa á jörðinni þegar þau falla. Snæhagl er algengast þegar hiti er ekki fjarri frostmarki eða í frosti, þá gjarnan á undan eða eftir snjókomu (snjóéli).

(ii) Hagl ,sem er venjulega gljáandi, myndað sem ís utan um snæhaglskjarna, 2 til 5 mm að stærð. Það er oftast blautt og skoppar ekki áberandi þegar það fellur á harða fleti. Hagl fellur venjulega samfara regnskúrum í frostlausu veðri. Þetta er algengasta sumarhaglið.  

(iii) Íshagl, það er sárasjaldgæft á Íslandi. Í því skiptast yfirleitt á glær og hvít lög og stærðin er 5 til 50 mm, jafnvel enn stærra. Lendi menn í slíku hagli hérlendis ættu þeir sé þess kostur að taka myndir af haglkornunum ásamt einhverjum kunnuglegum hlut til viðmiðunar og senda Veðurstofunni.

Það má telja víst að hagl hafi borist marga kílómetra upp eftir skúraskýi áður en það fellur til jarðar. Íshagl hefur farið tvær eða fleiri ferðir upp og niður skýið.

Mjög algengt er að sjá éljatauma niður úr skúraklökkum en að sumarlagi bráðnar ísinn yfirleitt áður en úrkoman nær til jarðar.

Í morgun (laugardag) mældist aftakaúrkoma á Kirkjubæjarklaustri (22 mm/klst). Svo mikil úrkoma á skömmum tíma getur valdið stórtjóni en þegar þetta er skrifað hefur ekkert frést af slíku að þessu sinni. 

En að lokum lítum við á kort sem sýnir spá um mættishita í veðrahvörfunum á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 17.júní. Hungurdiskar hafa sýnt kort af þessu tagi áður. Hér er það gott dæmi um mjög einfaldan hlut. Óvanir eru þó varaðir við textanum - það þarf ekkert að lesa hann.

w-blogg170612

Litafletirnir sýna mættishitann og tölurnar sömuleiðis, þær eru í Kelvinsstigum. Mættishiti sýnir hve hlýtt loftið yrði ef það væri dregið niður til sjávarmáls. Lægsta talan sem við sjáum er 291K það eru 18°C. Á kortinu er skipt um lit við hver 5 stig. Mörkin milli blárra og grænna lita eru við 305K en milli grænna og gulra eru við 320K.

Mættishiti vex ætíð upp á við - geri hann það ekki rís loft nánast samstundis þar til að það finnur jafnháan hita. Loft sem er 19 stiga heitt við jörð undir kuldapollinum verður því að rísa allt að veðrahvörfum - gríðarlegir skúraklakkar myndast.

Í nótt er loft í neðstu lögum kaldara heldur en 18 stig - og lítið gerist - en það sem er í gangi getur haldið áfram (sjá neðar). Það gerist líka lítið yfir sjó sem alls ekki er nægilega hlýr til að koma lofti upp í veðrahvörf.

En - þegar élin gerði í dag var mættishiti við veðrahvörf yfir Suðurlandi um 295K (22°C). Ekki var svo hlýtt við jörð, hámarkshiti á þeim slóðum aðeins 13 til 14 stig. Þá kemur dulvarminn til sögunnar.

Mættishiti í 850 hPa (um 1500 metra hæð) var 12 til 13 stig - svipaður og hámarkshitinn. Greið leið var því fyrir loft upp í 850, það nægði til þess að raki fór að þéttast í uppstreyminu og dulvarmi að losna. Evrópureiknimiðstöðin reiknar einnig út fyrir okkur hversu mörgum stigum dulvarminn í dag skilaði. Þau voru um 10 - einmitt nóg til að mættishitinn yrði jafn 22 stiga mættishitanum uppi við veðrahvörf.  

Ef við lítum aftur á kortið sjáum við töluna 343K á Grænlandshafi. Mættishitnn þar er 70 stig. Það er svo há tala að ekki er neinn grundvöllur fyrir tengslum veðrahvarfa- og yfirborðslofts.

Kuldapollurinn sjálfur (blái kjarninn yfir Vestfjörðum) er hins vegar svo kaldur að síðdegisskúrir laugardagsins hafa enst fram á nótt yfir landinu (vegna dulvarmalosunar) þrátt fyrir að yfirborðið sé orðið kalt. Um miðnætti (laugardagskvöld) var mikill úrkomubakki skammt austur af Reykjavík og þá hellirigndi á Þingvöllum. Mikið haglél var í Svínahrauni og einnig fréttist þar af þrumum og eldingum (sunnlenska.is) - komu einnig fram á eldingaskráningakerfi.

En kuldapollurinn hreyfist hratt til suðurs og verður komin suður af eftir miðjan dag (17. júní). Þá nær uppstreymi að neðan ekki veðrahvörfum - en þó e.t.v. nægilega hátt til að mynda úrkomu. Ekki skal spáð um það.


Í heiðhvolfinu um miðjan júní

Hungurdiskar hafa að undanförnu litið til heiðhvolfsins um það bil einu sinni í mánuði. Veðurnördum er hollt að fylgjast með árstíðasveiflunni þar. Kortið er úr gfs-líkani bandarísku veðurstofunnar.

w-blogg160612

Það sýnir mestallt norðurhvel norðan 30 breiddarstigs. Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar (merkingar í dekametrum) en litaðir fletir sýna hita. Með því að stækka kortið má sjá hitakvarðann mun betur.

Af massa lofthjúpsins eru aðeins 3% ofan við 30 hPa-flötinn. Þar er þó margt á seyði. Hér er allt kortið undirlagt af einni hæð. Miðja hennar er ekki langt frá norðurskautinu. Þar skín sól nú allan sólarhringinn og tekst henni að hita loftið upp í -40 til -50 stig. Sunnar er hitinn heldur lægri - en ofar er hann enn hærri, nær jafnvel frostmarki við svokölluð heiðhvörf - mörk heiðhvolfs og miðhvolfs. Þar fyrir ofan er hins vegar mjög kalt á sumrin - á slóðum silfurskýja.

Sýnilegt geislaróf sólarinnar á greiða leið gegnum lofthjúpinn og hitar hann að mestu óbeint - með því að hita fyrst yfirborð jarðar. Loftið í heiðhvolfinu stöðvar hins vegar útfjólubláa hluta sólargeislanna að miklu leyti. Sérstaklega eftir að þeir eru búnir að mynda óson. Hungurdiskar hafa áður gefið ósoni gaum og verður það ekki endurtekið nú.

En kortið sýnir að 30 hPa flöturinn er nú í meira en 24 km hæð (= 2400 dekametrar). Við tökum sérstaklega eftir því að austanátt er ríkjandi um allt norðurhvel í þessari hæð. Ef eldgosaafurðir ná upp í þessa hæð að sumarlagi berast þær til vesturs. Þessa dagana er verið að minnast aldarafmælis gossins í Novarupta eldstöðinni við Katmaifjall í Alaska snemma í júní 1912. Þetta er talið mesta eldgos utan hitabeltisins á 20. öld. Öskuskýið hefur örugglega sést hér á landi nokkrum dögum eftir megingosið - þá væntanlega komið úr austri.

Við munum trúlega sjá svipað ástand í 30 hPa-fletinum eftir mánuð - en síðan fer hæðin að brotna niður. Það verður reyndar eitt fyrsta merki þess að sumarið sé ekki endalaust. Athyglisvert veður að fylgjast með því.

Meðan austanáttin er ríkjandi í heiðhvolfinu er fréttaflutningur á milli þess og veðrahvolfsins lítill. Að vetrinum er því öfugt farið þegar vestanátt ríkir í öllum hæðum (nema niður undir jörð). Þá grípur veðrahvolfið upp fyrir sig og togar og aflagar heiðhvolfið á ýmsa lund. Sömuleiðis geta atburðir í heiðhvolfinu þá truflað veður neðar.

Sumaraustanáttin nær ekki alveg niður úr heiðhvolfinu þannig að oftast er vestlæg átt að meðaltali ríkjandi við veðrahvörfin á sumrin. 


Kuldaskúrir

Í dag (fimmtudag 14. júní) féllu loksins fáeinar skúrir um landið sunnanvert. Úrkomumagni var þó mjög misskipt - sums staðar var þurrt allan daginn, víða féllu dropar en dembur á fáeinum stöðum. Þrumur heyrðust í Reykjavík og víðar.

Eins og fastir lesendur vita spá hungurdiskar engu um veður, en ræða stöðumöguleika og spár annarra. Meginástæða þess að dembur voru miklu meiri í dag heldur en í gær (miðvikudag) er sú að kólnað hefur í háloftunum yfir landinu - meira heldur en niður við jörð. Loftið er orðið óstöðugra en það var fyrr í vikunni.

Hér að neðan er vaðið á súðum og trúlega missa margir lesendur fótanna í froðunni. Eru þeir beðnir velvirðingar á ósköpunum.

Stundum má ráða í (lóðréttan) stöðugleika með því að horfa annars vegar á þykktina (hún er mælikvarði á meðalhita neðri hluta veðrahvolfs) en hins vegar á hámarkshita á landinu (sem segir eitthvað um það hversu hlýtt neðsta lagið er). Sé hámarkshitinn lágur miðað við þykkt er loft stöðugt og lítil hætta á skúrum - en sé hámarkshitinn hár (miðað við þykkt) er loft líklegra til að vera óstöðugt.

En þetta er frumstæð spáaðferð - ekki síst vegna þess að við vitum ekki hver hámarkshiti á landinu er fyrr en eftir að hann hefur verið mældur. En látum ekki alveg hugfallast. Við getum með því að skoða samband þykktar og hámarkshita fundið hver sé hæsti hiti sem ákveðin þykkt hefur borið í áranna rás.

Höldum áfram að vera frumstæð. Í júnímánuði er sól hátt á lofti og í léttskýjuðu veðri og hægviðri er dægursveifla hita mjög stór - inn til landsins gjarnan á bilinu 12 til 20 stig. Ef hiti er t.d. 5 stig snemma að morgni í léttskýjuðu og hægu veðri má gera ráð fyrir að hann geti síðdegis farið í 17 til 20 stig. Það er einkum tvennt sem getur truflað það, annars vegar hafgolan - hún bælir dægursveifluna - leiðinlega. Hins vegar eru það ský. Á höfðuðborgarsvæðinu kemur hafgola að jafnaði í veg fyrir mikla dægursveiflu.  

Ský myndast ekki nema í uppstreymi og til þess að uppstreymi verði í hægviðri þarf loft að vera óstöðugt að minnsta kosti upp í skýjahæð. Ef skýin fletjast út að ofan um leið og þau myndast er hlýrra loft fyrir ofan - loftið er stöðugt. Ef við tökum mark á því sem sagt var að ofan má gera ráð fyrir því að hámarkshiti verði þá lægri heldur en þykktin gefur til kynna.

Í dag (fimmtudag) var þykktin yfir skúrasvæðinu á Suðurlandi 5340 metrar. Söguleg gögn segja okkur að svo lág þykkt beri vart meira en 15 til 16 stiga hámarkshita. Allt umfram það þýðir að loft sé orðið óstöðugt. Enda var það svo að þessu sinni.

Í raunveruleikanum eru flækjur meiri, oftast er t.d. einhver vindur með puttana í stöðugleikanum. Þannig var það í dag (fimmtudag) en látum það alveg liggja milli hluta.  

En hver verður þróunin næstu daga? Á föstudag er þykktinni spáð 5330 metrum - trufli vindur ekki sólarvarmann með hafgolu eða kulda úr norðri - eða þá annarlegum háskýjabreiðum er líklegt að skúrasaga fimmtudagsins endurtaki sig.

Á laugardag er þykktin 30 til 40 metrum meiri. Þá gæti hámarkshiti orðið 1 til 2 stigum hærri án þess að til síðdegisskúra komi. Á þjóðhátíðardaginn (sunnudag 17. júní) á þykktin hins vegar að detta alveg niður í 5300 metra (kuldapollurinn sjálfur fer yfir). Til þess að engar skúrir verði þann dag má hámarkshiti á Suðurlandi helst ekki fara yfir 13 til 14 stig.

Séu þykktarspárnar réttar verður að borga fyrir heiðríkju með kulda - alla vega svalri hafgolu. Ef við viljum hærri hita fer greiðslan fram með skúradembum.

En munið enn að hungurdiskar spá ekki um veður - leita verður eitthvað annað til að finna slíkt. En veðuráhugamenn ættu að skemmta sér í sumar með því að fylgjast með dægursveiflu skýjafars. Mjög margt er þar að sjá - meira en flestir hyggja.


Norðurhvel um miðjan júní

Við lítum á norðurhvelskort okkur til heilsubótar. Það er að vísu ekkert sérlega uppörvandi - engin hlýindi að sjá - frekar kulda. Þetta er spá frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir um hádegi fimmtudaginn 14. júní.

Að venju sýnir kortið hæð 500 hPa-flatarins (svartar, heildregnar jafnhæðarlínur) og þykktina sem liti. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Því þéttari sem jafnhæðarlínur eru því meiri er vindurinn. Kortið batnar talsvert sé það stækkað með því að smella á það (og aftur).

w-blogg140612

Ör bendir á Ísland og önnur á Ítalíu. Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd. Gulu litirnir og þeir brúnu sýna hlýindi, við segjum gróflega að sumarið byrji við mörk grænu og gulu svæðanna við 5460 metra, en enn lifi af vetrinum á nokkrum litlum bláum svæðum í kringum norðurskautið. Einn af þessum blettum stefnir beint til landsins (blá ör) og á að vera yfir því á þjóðhátíðardaginn (sunnudag). Þá á þykktin að fara niður fyrir 5280 metra. Við þolum það svo sem en svo lág þykkt þýðir vaðandi næturfrostahættu - sé léttskýjað.

Ferðir kuldapollsins valda því að hlýr hæðarhryggur sem á kortinu er yfir Vestur-Grænlandi kemst aldrei hingað. Þar vestur af er annar kuldapollur sem þokast austur og stuggar hryggnum líka suður á bóginn. Spár eru síðan ekki sammála um frekari ferðir hans - en rétt er að fylgjast með þeim.

Norðvestanverð Evrópa er svipað sett og við - lengst af í kalda loftinu næstu daga en til þess að gera öflugar lægðir ganga um Bretlandseyjar með mikilli úrkomu. Hlýrra er sunnar í álfunni. Einnig er kalt í vestanverðu Kanada. Mikil hlýindi eru víða í Asíu norðanverðri - þó ekki allstaðar.

Það þrengir smám saman að kalda loftinu í 6 til 7 vikur í viðbót - en það sem eftir er sullast fram og aftur um norðurslóðir og enginn óhultur norðan við 45°N.


Þurrkahugleiðing (en tilefnislítil)

Það er í raun tilgangslítið að tala um þurrkamet löngu áður en þau falla. Þau byggjast upp á löngum tíma - þrásetu veðurs þarf til. Þetta er eins og útsláttarkeppni í íþróttum. Mikið er fyrir því haft að ná langt, en ekki þarf nema einn tapleik (rigningardag) til að vinningsvon sé úr sögunni. En er á meðan er.

Hér í Reykjavík hefur ekki rignt nema rétt rúma 20 mm síðan í maíbyrjun. Hversu oft hefur slíkt gerst á umliðnum áratugum? Það er sjaldan. Í reykvísku mæliröðinni hafa á stangli komið mjög þurrir maí og júnímánuðir. Það hefur gerst fjórum sinnum að úrkoma í maí öllum hefur verið minni en 10 mm. Þurrastur var maí 1931 þegar ekki mældust nema 0,3 mm allan mánuðinn. Ekki keppum við við það því úrkoma í nýliðnum maí var 19,4 mm.

Tveir júnímánuðir eru undir 10 mm, 1971 mældust aðeins 2,1 mm allan mánuðinn. Hinn er 1916 með 3 mm - en varasamt er að telja hann með í keppninni því þá var mælt á Vífilsstöðum og stundum var þar lítið hirt um millimetrabrotin - sem munar um þegar keppt er í þurrki. Tölulega á núlíðandi júní enn möguleika á að verða þurrari heldur en báðir - en telja verður með ólíkindum ef úr slíku yrði. Við skulum því halda okkur við ívið raunhæfari möguleika.

Lítum því á maí og júní saman. Við eigum ekki möguleika í minni úrkomu heldur en 1916 því þá fóru saman þurr maí og júní. Teljum Vífilsstaði ekki með. Næstir í röðinni eru maí og júní 1946 með samtals 26,4 mm og síðan 1931 með 27,8 mm. Ekki er líklegt að við verðum svo neðarlega að þessu sinni. Öll þessi skrif eru því sennilega tilefnislaus og komin í hring.

En skreytum pistilinn með einni mynd. Hún sýnir heildarúrkomu maí og júnímánaða í Reykjavík frá upphafi mælinga 1885 (nokkur ár vantar fyrir 1920).

w-blogg130612

Rauða strikið neðarlega til hægri markar stöðuna þegar þessi pistill er skrifaður. Þarna sjáum við líka rigningamánuðina. Langefst er 1887 með 222 mm. Ritstjórinn var svo heppinn að hitta fáeina menn sem mundu hrakviðrin miklu vorið 1914 og nefndu þeir sérstaklega að þá hefðu menn gert samanburð á tíðarfarinu þá og vorið 1887 - og talið fyrra vorið enn verra. Það staðfestist með mælingum.  

Það má taka eftir því á myndinni að árin undir 40 mm eru ekki mörg.

Til stóð að fjalla í pistli dagsins um ástandið í heiðhvolfinu í júnímánuði - en það bíður næstu daga.


Fer að verða óvenjulegt

Lítið hefur rignt um landið suðvestan- og vestanvert í maí og það sem af er júní. Þetta eru mikil viðbrigði eftir alla úrkomuna í vetur. Við minnumst þess t.d. að í febrúar var aðeins einn dagur úrkomulaus í Reykjavík.

Meðalúrkoma í maí og fyrstu tíu dagana í júní er í kringum 60 mm í Reykjavík, en nú hafa aðeins um 20 mm fallið á sama tíma, þar af aðeins 0,9 mm í júní. Þetta er að jafnaði þurrasti tími ársins og enn vantar upp á að um metþurrk sé að ræða. En vert er að fara að gefa þessu gaum.

Síðustu árin hefur oft verið einkennilega þurrt seint á vorin og nokkuð fram eftir sumri, sérstaklega um landið vestanvert.

Spár sem ná viku til tíu daga fram í tímann eru aldrei sammála um úrkomumagn en lítið er að hafa í þeim flestum um þessar mundir. Evrópureiknimiðstöðin setur þó skúraveður inn á sunnanvert landið næstu dagana - en er mjög þurrbrjósta gagnvart Vesturlandi. Bandaríska langtímaspáin er með 3 til 4 mm í Reykjavík næstu tíu daga.

En heldur kaldara - og óstöðugra loft leitar nú til landsins og þá aukast líkur á skúraveðri - en engar afgerandi lægðir eru í nánd. En hér er engu spáð - en lesendum bent á vef Veðurstofunnar.

Svo í framhjáhlaupi:

RÚV bauð upp á óvænta endursýningu að afloknum fréttatíma kl. 22 í kvöld (mánudag 11. júní). Þá fengum við að sjá - í heilu lagi - veðurfréttir frá 23. ágúst 2011. Hversu margir tóku eftir þessu? Er hugsanlegt að fréttatíminn hafi verið jafngamall líka? Voru þetta allt gamlar fréttir? Væri hægt að sýna gamlan fréttatíma (eða fótboltaleik) án þess að nokkur taki eftir því? Reika gráðugar gamlar veðurfréttir um í kerfinu tilbúnar að stökkva fram og gleypa þær nýju með húð og hári.


Hlýjustu júnídagarnir

Hér koma listar um hlýjustu júnídaga síðustu 63 ára - það er frá og með 1949 til og með 2011. Við getum enn vonað að degi eða dögum úr núlíðandi júnímánuði takist að troða sér inn á listana. Reyndar er ekki útlit fyrir að það gerist alveg næstu vikuna - sé að marka spár. Nú vill svo til að sá dagur sem fært hefur landsmönnum hæsta hita sem vitað er um í júní (og allt árið) er utan tímabilsins. Upplýsingar um daglegan hita eru ekki enn til í tölvuskrám fyrir allt landið nema aftur til 1949. Vonandi stendur það til bóta.

En fyrsti listinn sýnir þá daga þegar meðalhiti á landinu var hæstur. Allar tölur eru í °C.

röðármándagurmeðalh.
1194962014,61
2194962214,61
3194962114,00
4198662813,68
5195362413,61
6199961113,48
7197462313,39
8200362613,30
920026913,21
10200062912,86
11200962912,80
12199662412,75
13197462212,73
14195362512,61
15200362512,58

Í ljós kemur að þrír samliggjandi dagar í sama mánuði eiga þrjú efstu sætin. Þetta var í júní 1949. Ekki man ritstjórinn svo langt aftur en man hins vegar að um þessa hita var enn mikið talað þegar áhugi hans á veðri vaknaði fyrir alvöru tíu til fimmtán árum síðar. Vorið 1949 hafði verið óvenju skítlegt - svo slæmt reyndar að rætt var um að nú væri hlýindasyrpan mikla sem byrjaði á þriðja áratugnum fyrir bí. Veður hefði aftur snúist til hallæra 19. aldarinnar. Snjór var á jörð langt fram eftir júnímánuði - en þá gerðist það á nokkrum dögum að skipti um. - En svo varð sumarið ekkert sérstakt.

Í júní 1986 var rigningasamt á Suður- og Vesturlandi en hlýtt og gott norðaustanlands. Flestir voru vissir um að nú væri enn eitt rigningasumarið í undirbúningi - en það varð ekki þrátt fyrir blauta byrjun. Hrökk nú veðurlag í þann gír að bjóða upp á hálf rigningasumur í stað heilla sem hafði verið tíska frá 1969 að telja. Flestum þótti það framför.

Sumarið 1953 sem á daginn í 5. sæti júnílistans þótti mjög hagstætt og kærkomið eftir þrjú mjög lakleg sumur á Norðausturlandi - enda var blíðan ekki á kostnað Suðvesturlands. Allir voru því ánægðir.

Nokkrir nýlegir dagar eru á listanum, sá nýjasti 29. júní 2009. Muna einhverjir eftir honum?

Þá kemur að listanum yfir hæsta meðalhámarkshita á landinu.

röðármándagurmeðalhám.
1194962219,48
2194962019,37
3194962119,32
4197462318,43
5194961917,73
620026917,70
7194962317,63
8198662817,43
9200261017,36
10200962917,01

Sömu þrír dagarnir eru á toppnum og neðar (í 5. og 7. sæti) eru tveir dagar til viðbótar úr sömu syrpu í júní 1949 - þessi eina hitabylgja tekur því helming listans. Hér er 23. júní 1974 maklega í fjórða sæti. Þá lá við að 30 stiga múrinn væri rofinn - hiti komst í 29,4 stig á Akureyri.

Hlýjustu næturnar eru áhugaverðar. Þær finnum við með því að reikna lágmarkshita allra stöðva og athuga þá daga sem hann er hæstur.

röðármándagurmeðallágm
1195362411,04
2195362510,91
3199961110,67
4200962910,57
5201061910,53
6200362610,42
7200362710,26
8194962610,11
920026910,09
10199662410,07

Þarna eru breytingar. Tveir dagar úr júní 1953 eru efstir og síðan koma sex frekar nýlegir. Þá fyrst er dagur úr júní 1949 - en það er sá 26. en enginn þeirra sem efstir voru á fyrri listum. - Ágæt tilbreyting.

Eins og áður sagði nær þessi metingur aðeins aftur til 1949. Leiða má líkur að því í hvaða júnímánuðum helst muni að leita ámóta hlýrra daga. Það er gert með því að athuga hversu hátt hlutfall veðurstöðva hefur náð 20 stiga hita í viðkomandi mánuði. Það getum við gert gróflega aftur til 1924 og reyndar lengra aftur ef við sættum okkur við ört vaxandi óvissu eftir því sem aftar dregur. En til gamans er hér listi yfir þá tíu júnímánuði sem eiga hæst 20 stiga hlutfall. Mælist 20 stig á öllum stöðvum í mánuðinum fær hann töluna 100.

röðárhlutfall
1193975,00
2200271,19
3194970,97
4193463,16
5199958,73
6192554,55
7193652,63
8199745,71
9198845,00
10193742,31

Hér er júní 1939 hæstur - með sitt Íslandsmet í hita. Líklegur til að eiga fulltrúa á lista hlýjustu júnídaganna. Síðan koma 2002 og 1949 - við könnumst við þá og eins 1999, en 1997 og 1988 birtast líka. Einnig sjáum við nokkur eldri ár, 1934, 1936 og 1937 - fjórði áratugurinn var mjög hlýr og einnig á júní 1925 greinilega einhverja góða daga. Vel má vera að síðar takist að negla niður hvaða dagar þetta nákvæmlega eru og hvar þeir myndu lenda á listunum þremur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 20
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 511
  • Frá upphafi: 2343273

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 463
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband