Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Svalir dagar framundan?

Hungurdiskar kveðja nú kuldapollinn frá Svalbarða að sinni - eftir að sýna af honum eina mynd enn. Það er þykktarspá hirlam-líkansins sem gildir um hádegi á laugardag. Heildregnu línurnar sýna þykktina, en lituðu fletirnir hitann í 850 hPa (um 1300 m hæð).

w-blogg210511a

K-ið er við miðju kuldapollsins. Ég hef sett rauða línu sem sýnir því hversu litlu munar frá spám um leið hans snemma í vikunni. Aðeins munar um 200 km, jafnvel minna. Við sjáum að innsta þykktarlínan er 5100 metrar - vetrarkuldi - og allmikill bratti er austur til Íslands, 5280 metra línan liggur yfir Reykjavík. Hér munar 180 metrum eða um 9°C. Hefði pollurinn farið austar hefði þykktin í miðju hans verið nokkru hærri en hér er sýnt, hlýr sjór nær Íslandi hefði kynt undir. En við sleppum sum sé við úrkomugusu hér suðvestanlands - eða þannig hljóma spárnar. Kuldamet eru varla í hættu. Annars hefur ekkert mjög oft orðið kaldara í kringum 20. maí. Við getum kíkt á það ef kuldinn þrjóskast við fram eftir næstu viku.

Þeir sem fylgst hafa með pistlunum undanfarna daga hafa séð vestrænu kuldapollana veslast upp á leið austur yfir hafið. Síðustu leifarnar eru við Austurland. Rigningin eystra á fimmtudag og föstudag á trúlega uppruna sinn í raka sem gufaði upp undir vestankuldanum og var síðan sturtað niður, m.a. í úrkomumæla. Annars er ekki alltaf auðvelt að greina hvaðan raki kemur sem veldur úrkomu og verður að hafa fyrirvara á þeim einföldunum sem hér er varpað fram - þetta virðist bara blasa við.

En nú taka við nokkrir dagar þar sem leifar vestan- og norðankuldanna sullast í hringi hér á N-Atlantshafi. Loftið hlýnar, en jafnframt dregst eitthvað af nýju köldu lofti inn í kerfirn úr norðri. Getur það orðið flókinn söguþráður. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort fylgst verður með sullinu hér á hungurdiskum. Næsta stóra úrkomugusa á að lenda á Norðausturlandi á mánudag (þann 23.). Spár um framhaldið á því eru ekki efnilegar - en auðvitað mjög óvissar.

Í næsta pistli verður sennilega birtur listi um mestu úrkomu á veðurstöðvum í maí - fyrir okkur metafíklana.   


Heldur kalt fyrir flestra smekk

Nú er kalt aðstreymi lofts að ná hámarki í þessu kuldakasti - það á þó eftir að kólna aðeins meira. Lítum fyrst á kort sem sýnir vind og hita í 925 hPa-fletinum nú í kvöld (fimmtudaginn 19. maí 2011). Sá flötur er í um 600 metra hæð og sýnir veðurlag á fjöllum oft vel. Myndin er fengin af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg200511a

Við sjáum vindhraða og vindstefnu sem venjubundnar vindörvar, hvert þverstrik táknar 10 hnúta vind (5 m/s), stuttu strikin 5 hnúta og veifurnar 50 hnúta (25 m/s). Jafnhitalínur eru dregnar með 2°C-bili og eru táknaðar með línum sem hér segir: Bláar strikalínur tákna frost, heildregna, græna, línan er frostmark, en þær rauðu heildregnu sýna hita yfir frostmarki.

Frostmarkslínan liggur nú um landið þvert, enda er nú snjór niður í miðjar hlíðar á Skarðsheiði héðan úr Reykjavík séð. Við sjáum línuna taka smávegis sveig meðfram suðausturströndinni. Landið stíflar framrás kalda loftsins að nokkru leyti. Kaldasta strikalínan (skammt undan NA-Grænlandi) er -12°C og þéttar línur eru á milli Íslands og Grænlands. Við sjáum að víðast hvar er horn á milli vindstefnu og legu línanna norður af landinu þannig að vindurinn ýtir línunum sunnar. Austur af landinu eru jafnhitalínuarnar nær því að vera samsíða vindinum.

Við sjáum hér vel það sem reynt var að skýra hér á hungurdiskum í gær, kalt loft að norðan fleygast í átt til Íslands og í þessu tilviki veldur hitamunurinn vindinum, [hér stafar þrýstibratti við jörð af hitabratta í kuldafleygnum].

Það kólnar aðeins í viðbót þar til aðstreymi af köldu lofti hættir. Það þýðir þó alls ekki að kalda loftið hverfi á braut, en vindur hægist og þá léttir til. Þá tekur varmaútgeislunin völdin og það kólnar enn meir, en aðeins yfir landinu. Spár gera ráð fyrir því að kaldast verði undir morgun á laugardaginn (21. maí). Síðan virðist vera ráð fyrir því gert að hlýrra loft að austan sæki að í bili, þá vex úrkoma norðaustanlands. Sé hiti þar yfir frostmarki þegar úrkoman hefst, kólnar niður í frostmark verði hún mikil.

Ekki er annað hægt að segja en að evrópureiknimiðstöðin hafi staðið sig afburða vel. Kuldapollurinn kom úr Karahafi og hefur síðan hreyfst í átt til okkar meira og minna eins og spáð var í upphafi vikunnar. Útlit er fyrir að ekki muni nema um 200 til 300 kílómetrum á braut hans hér fyrir vestan land á laugardaginn. Hann er, sem þessu munar, lengra frá landi en fyrst var spáð. Lítum á annað spákort. Það gildir á hádegi á föstudag (20. maí). Þetta er 500 hPa-kort sem lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að kannast við. Jafnhæðarlínur (í dekametrum) eru heildregnar, en þykktin er táknuð með rauðum strikalínum.

w-blogg200511b

Kuldapollurinn er merktur með K-i á myndinni. Hann verður við Scoresbysund á morgun og hreyfist síðan til suðurs skammt fyrir vestan land. Innsta þykktarlínan er 5100 metrar, mun kaldara heldur en er í kerfinu suðaustur af landinu. Nú er hægt að tala um átök milli þeirra, í gær var þykktarmunur kerfanna lítill, en á morgun á hann að vera orðinn meir en 180 metrar (meir en 20 hPa).

Örin á myndinni tákna leið pollsins fram á sunnudagsmorgun. Þá verður hann kominn nokkuð suðvestur fyrir land. Ekkert hlýnar meðan hann er í nánd við okkur. Ef hann fer nær landi en hér er sýnt skapast möguleiki fyrir úrkomu á suðvesturlandi, þá sleppum við betur varðandi næturkulda en nú er spáð - en hvít korn gætu flogið fyrir glugga.

Við litum einnig á þriðju myndina en hún sýnir hæð 500 hPa-flatarins eins og henni er spáð á laugardaginn á stórum hluta norðurslóða.

w-blogg200511c

Ég skýrði út línurnar á kortinu í tveimur fyrri pistlum í vikunni. Bláar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, sú þykka, rauða er 5460 metra línan. K-ið merkir kuldapollinn sem hér hefur verið til umfjöllunar, L-in eru háloftalægðir. Hér lítum við sérstaklega á rauðu, þykku línuna, á vorin viljum við helst vera sunnan hennar. Flest svæði norðan við línuna (þó ekki alveg öll) eru kalsasöm á þessum árstíma.

Erfitt er að sjá hvernig rauða línan á að komast norðurfyrir okkur næstu daga eða viku. Ef hægt er að finna sökudólg fyrir ástandinu má benda á óvenjukröftuga hlýja fyrirstöðuhæð yfir N-íshafi norðan Alaska. Þar er allt í hæstu hæðum, flöturinn er yfir 5700 metrum og þykktin nærri 5500 metrar - fáum til gagns því hiti niður undir ísi þöktu hafinu fer ekkert mikið yfir 0°C - sama hve hlýtt er ofan við. Jú, hluti af Alaska og Yukon-svæðinu og nágrenni nýtur sín. Þar var hiti um 18 stig við ströndina þar sem landáttar gætti í dag.

Þessi hlýi hóll (algjör andstæða kuldapollanna) er svo fyrirferðarmikill að kalda loftið hrekst til suðurs á öllu svæðinu kringum N-Atlantshaf. Erfitt er fyrir heimskautaröstina að ná svo góðu taki á hlýja loftinu suður og vestur af okkur að það dugi til að grípa 5460-línuna og flytja hana til okkar. Ég hef merkt lægðardrag á kortið með rauðgulum lit sem sumar langtímaspár segja að eigi að taka höndum saman við lægðina yfir Ameríku og byggja upp hrygg sem nær til Íslands. Það versta er að hann á að brotna saman strax aftur rétt eins og fúin brú.

En við getum ekki enn tekið mark á spám sem ná langt fram í næstu viku. Ég hef enn orðið var við það að sumir telja hungurdiska vera að spá einhverju. Það er ekki rétt - hér er aðeins fjallað um spár. 


Enn um kuldakast (dragsíðir kuldapollar)

Það skal upplýst strax í upphafi að ekkert nýtt hefur gerst frá því í gær. Spár halda sínu striki - kannski sjónarmun hlýrri. Ég ætla því að hjakka í því sama og undanfarna tvo daga - fjalla um þykktarkort og nota að venju spá um þykkt morgundagsins til þess. Ég reyni enn á þolinmæði lesenda með þungum texta - en örvæntið ekki.

w-blogg190511

Fastir lesendur hungurdiska ættu að kannast við kort af þessu tagi. Þeim óvissu bendi ég á síðustu málsgreinina hér að neðan. Undanfarna daga hafa nokkrir kuldapollar (lág þykkt) farið til austurs fyrir sunnan land. Þeir mynduðust yfir Kanadískum heimskautaslóðum. Þegar þeir ganga austur yfir hlýjan sjó vex þykktin eftir því sem loftið hlýnar.

Á kortinu sést einnig í jaðar annars kuldapolls við Norðaustur-Grænland. Um hann hefur verið fjallað á hungurdiskum undanfarna daga, enda hreyfist hann í átt til Íslands og verður fyrir vestan land á laugardag.

Lærdómur dagsins á að felast í tölunum tveimur á kortinu. Fyrir sunnan land er talan -5°C og -13°C sjást við Norðaustur-Grænland. Ef rýnt er í þykktarkortið (svörtu línurnar) má sjá að tölurnar báðar eru settar nærri 520 dekametra línum. Þykktartalan 520 er mjög örugg vísbending um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfsins. Þó sýna tölurnar 8 stiga mun á hita í 850 hPa metra hæð á kortinu. Flöturinn er í um 1250 metrum þar sem talan er -5, en í um 1400 metrum þar sem talan er -13. Þarna munar um 150 metrum, það gæti skýrt um 1,5 stig af stigunum 8.

Þar sem meðalhitinn upp í 500 hPa er sá sami á báðum stöðum hlýtur að vera hlýrra í 5 km hæð yfir Norðaustur-Grænlandi heldur en fyrir sunnan Ísland. Og þannig er það. Hita í 500 hPa er spáð -38°C fyrir sunnan land (yfir -5 stigum), en aðeins -30°C yfir Norðaustur-Grænlandi. Upplýsingar þessar má einnig finna á brunni Veðurstofunnar ef vel er leitað.

Á sama stað má finna hæð 500 hPa-flatarins og við getum borið saman hitafall yfir þessum tveimur stöðum. Fjarlægðin milli 850 hPa og 500 hPa er svipuð yfir báðum stöðum, rúmir 3900 metrar. Ef við nú reiknum, sjáum við að hiti sunnan við land fellur um 33 stig á 3900 metrum, það er 0,8 stig á hverja 100 metra. Í fullkomlega blönduðu lofti fellur hiti um 1,0 stig á hverja hundrað metra. Ástandið er þarna ekkert fjarri slíku, loft sem er hitað lengi að neðan blandast vel.

Við Norðaustur-Grænland fellur hiti ekki nema um 17 stig á milli 850 og 500 hPa-flatanna eða 0,4 stig á hverja 100 metra - miklu minna en á hinum staðnum. Þar má ef vel er leitað finna öflug hitahvörf - einhvers staðar ofan við 1400 metra hæð. Til að sjá í hvaða hæð þau eru verður að rýna meira en verður ekki gert hér.

Þannig er það oftast með kuldapolla á upprunaslóðum - þeir stinga lágskreiðu, köldu lofti út frá sér þar sem tækifæri gefst*. Við sjáum ekki enn sjálfan kjarna kuldapollsins við Norðaustur-Grænland, hann enn er ekki kominn inn á kortið - en sést væntanlega á spákorti sem gildir á föstudag. Við lítum hugsanlega á það á morgun. Loftið beint undir honum er ekki mikið kaldara heldur en það sem þegar er komið inn á kortið, en mun kaldara er þar í 500 hPa hæð. Þar er því möguleiki á mikilli blöndun og miklu uppstreymi þegar sá kuldi kemur út yfir hlýjan sjó.

Kortið: 

Heildregnu, svörtu línurnar sýna þykktina (þ.e. fjarlægðina milli 500 hPa og 1000 hPa þrýstiflatanna) í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir meðalhita milli flatanna, hún er því meiri eftir því sem hlýrra er í laginu. Hærri flöturinn, 500 hPa, er yfirleitt í rúmlega 5 km hæð, nálgast 6 km þegar mest er, en sá lægri, 1000 hPa, er nálægt yfirborði jarðar. Litirnir á myndinni sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann er í um 1300 metra hæð frá jörðu (mishátt þó frá degi til dags).


Kuldakastið - Evrópureiknimiðstöðin heldur sama striki og í gær

Ég ætti eiginlega að benda aðeins á pistilinn frá í gær - og segja mönnum að lesa hann aftur. En það er samt freistandi að rekja stöðuna áfram þótt þráðurinn fari að vera bæði langur og loðinn. Við kíkjum því á svipaða mynd og birtist í gær - einnig úr smiðju reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa. Tilbrigðið er þó það að í gær sýndi ég greiningu, en nú sjáum við 24-stunda spá. Vonandi átta menn sig á landaskipan og má greina Ísland skammt frá þar sem standa tölurnar 4 og 5. Höfin eru bláir fletir á myndinni.

Rétt er að endurtaka að bláu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum, þykka rauða línan er 546 dam (= 5460 metrar) - við viljum helst vera sunnan við hana á þessum árstíma - en það er ekki í boði í bili. Ég hef sett bókstafinn L í stað tveggja háloftalægða (eða kuldapolla), þær hreyfast báðar austur - en verða samt á róli suður og austur af landinu næstu daga.

w-blogg180511a

Þriðja L-ið ætti að vera þar sem er tölustafurinn einn (1) - nærri Norður-Svalbarða. Þar er einnig kuldapollur og fjallaði ég um hann í pistlinum í gær. Tölurnar tákna staðsetningu hans (eins og reiknimiðstöðin spáir honum) nokkra daga fram í tímann. Talan 1 táknar því miðvikudag 18. maí, 2 standa fyrir fimmtudaginn, 3 fyrir föstudag og 4 fyrir laugardag.

Þetta er í rauninni ekkert sérstaklega merkilegur kuldapollur meðal annarra slíkra - aðeins óþægilegur. Við skulum því ekki vera að gera allt of mikið úr honum svona marga daga fyrirfram og því síður dreifa upphrópunarmerkjum. Sérstaklega á að hafa í huga að brautin sem merkt er á kortið er enn aðeins raunveruleg í þeim ofboðslega flókna tölvuleik sem reiknimiðstöðin spilar öllum stundum. En spáin gæti orðið rétt - ekki neita ég því.

Hér að neðan fylgir torfær textasamsetningur - þeir sem ekki vilja vaða elginn geta stokkið yfir mýrina og aftur í næstsíðustu málsgreinina án þess að missa af neinu.

Tekið skal fram að myndin er mikil einföldun. Vonandi að hún varpi samt einhverju ljósi á eitthvað. Kortagrunnurinn er gerður af Þórði Arasyni.

w-blogg180511b

Þetta er að nokkru endurtekning á mynd sem ég sýndi í fyrradag, sýnir brautir sem kalt loft fer um á leið til Íslands í maí. Háu tölurnar tákna þykkt. Vestræna loftið byrjar í 5040 metrum (mjög kalt) fer síðan yfir hlýtt haf á leið til Íslands og endar þar í 5240 metrum. Hefur því hlýnað um 20 dekametra (200 metra), það jafngildir um 10°C. Þegar loft hlýnar að neðan lyftist það og blandast lofti ofan við ef mögulegt er. Úr verður mjög djúpt lag af óstöðugu lofti.

Norræna loftið er ekki eins kalt í byrjun - við setjum það í 5160 metra, á leið sinni suður fer það yfir ís og mjög kaldan sjó og hlýnar lítið fyrr en rétt síðasta spölinn til Ísland, þó nóg til þess að koma þykktinni upp í 5240 metra - meðalhlýnun frá jörð upp í 5 km hæð er um 4°C (8 dam).

Hvað gerist svo þegar þessir tveir loftstraumar mætast? Ég get reyndar almennt ekki verið viss um það því raunveruleikinn er auðvitað ekki svona einfaldur - en ég bý til dæmið og hlýt því einhverju að ráða. Líklegast er að norðanloftið fleygist undir það sem komið er að vestan. Kalda norðanloftið er nefnilega grunnt. Vestanloftið nær vel blandað upp í 8 kílómetra hæð, sama loftið er þar við jörð og langleiðina upp í veðrahvörf.

Þykktin í þeirri sérstöku merkingu að vera fjarlægðin milli 500 og 1000 hPa-flatanna sýnir meðalhitann í laginu. Hitamælirinn er réttur í vestanloftinu, en í norðanloftinu er langkaldast neðst. Þar er því kaldara heldur en þykktarhitamælirinn segir. Þykktin getur verið hin sama þótt talsverður eða mikill munur sé á hitanum upp í gegnum lagið.

En hvað þýðir þetta fyrir veðrið næstu daga? Jú, norræni kuldapollurinn er talsvert stærri um sig að neðan heldur en 500 hPa-kortið sýnir. Kuldinn sem er á leið að norðan (séu spár réttar) kemur á undan sjálfum kuldapollinum. Fylgist með spám Veðurstofunnar varðandi það.

Á Vestfjörðum og undan Norðurlandi fer að hvessa og kólna degi áður en kuldapollurinn fer yfir. Það breytir litlu fyrir norðlendinga hvort þeir sitja í grunnum eða djúpum kulda - skítaveðrið er svipað. Jú, úrkoma er meiri í djúpum kulda heldur en grunnum.

Sunnlendingar eru í norðangjóstri í hvoru tilvikinu sem er, í grunna kuldanum skín þó sólin og yljar sunnan undir vegg. Þeir sem þar dvelja geta meira að segja gleymt kalsanum um stund. Djúpi kuldinn leyfir ekki jafnmikið sólskin. Rætist spár reiknimiðstöðvarinnar á að verða kaldast sunnanlands aðfaranótt laugardags (frost auðvitað). Komist kuldapollurinn í heilu lagi vestur fyrir land gæti meira að segja snjóað suðvestanlands á sunnudagsmorgni - en á þessu stigi málsins ætti ekki að minnast á það. - Munið að hungurdiskar spá engu - en fjalla samt um veðurspár.

Ég er hræddur um að ég sé ekki laus allra mála en verði að halda áfram einhvern næstu daga.


Meira um vestrænt eða norrænt kuldakast

Veðurspámenn gefa það nú almennt í skyn að kuldakast sé í uppsiglingu. Ég ætla ekki að segja neitt ákveðið um það en ætla samt að halda áfram umræðunni í gær hér á hungurdiskum um vestræn og norræn kuldaköst - enn með veður þessa dagana í forgrunni.

Lítum nú á frekar erfiða mynd. Ég biðst enn afsökunar á myndgæðum - en það er erfitt að finna skýr kort sem ná bæði Íslandi og norðurpólnum. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, í dekametrum að vanda, eins og hún kom fram í greiningu reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa um hádegi mánudaginn 16. maí 2011. Það verður að rýna í kortið - en ég reyni að skýra það út sem þar sést og skiptir máli.

w-blogg170511b

Kortið sýnir landaskiptan (höfin blá), greina má Skandinavíu og Grænland og Ísland er ekki langt frá þar sem talan 5 stendur, bókstafurinn L er við vesturströnd landsins. Bláu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins, þrjár þeirra eru hafðar rauðar til að mynstrið sjáist betur. Þykkasta línan er 5460 metrar (546 dam), sú sem er syðst á kortinu er 5820 metrar og sú sem hringar sig norður af Síberíu er 5100 metra línan. Einnig má sjá lítinn rauðan hring undir bókstafnum K yfir Baffinslandi.

K-ið er margkunnur kuldapollur. Hann sendir enn frá sér hverja bylgjuna á fætur annarri austur um Atlantshaf. Ein þeirra var yfir Íslandi í dag og undir henni er kuldapollur sem olli svölu veðri á landinu. Næsta bylgja er suður af Grænlandi og fer mjög hratt til austurs fyrir sunnan land á þriðjudag. Hér á landi fylgir henni enn einn skammtur af vestrænum kulda, en samt hlýrri heldur en fylgir þeirri sem nú er yfir landinu. Kuldapollurinn stóri fer síðan sjálfur á skrið til austurs, en grynnist jafnframt. Þá tekur 2 til 3 daga fyrir enn nýjan að taka við völdum á Baffinslandi.

Allur þessi vestræni kuldi er þrátt fyrir allt ekki svo mjög kaldur þegar til Íslands kemur, þykktin er á bilinu 5220 til 5340 metrar - skítt að búa við slíkt í maí, en samt ekki afleitt. Lægsta þykkt sem ég veit um yfir landinu í maí er 5060 metrar. Talsvert langt er nú í það og til að þessir köldu dagar framundan geti talist alvörukuldakast þarf meira til heldur en bein áhrif þess vestankulda sem nú er á lager.

Óbein áhrif þá? Já, ef mikið hvessir af norðaustri eða þá að úrkoma verður áköf getur snjóað. Vel má vera að það gerist þegar þarnæsta lægðabylgja fer hjá síðar í vikunni. Spár reiknimiðstöðvarinnar hafa öðru hvoru undanfarna daga gefið kost á norrænum kulda til viðbótar - sama má segja um amerísku gfs-spárnar sem sjá má á wetterzentrale.de og ýmsir skoða. En taka má eftir því að reiknimiðstöðin gefur út spár tvisvar á dag og ameríska spáin er endurnýjuð fjórum sinnum á dag. Norðankuldamöguleikinn er enn ekki stöðugur í þessum spám - hann er stundum með í leiknum - stundum ekki.

Spá reiknimiðstöðvarinnar á hádegi á mánudag (16. maí) inniheldur norðankuldakast á 5. degi (frá mánudagshádegi) - föstudag/laugardag. Ég hef sett atburðarásina inn á kortið hér að ofan og rýnið nú í það.

Norður af Síberíu var í dag tvískiptur kuldapollur, nyrðri helmingur hans er þar sem talan núll er á kortinu. Þessi hluti kuldapollsins á nú að halda til vesturs og síðan suðvesturs í átt til Íslands, ein tala er sett á hvern dag, talan 1 er við þriðjudag og síðan koll af kolli að tölu 5 á laugardag.

Takið eftir því að hér er um mjög litla bylgju að ræða - hún er mestöll innan strikalínuhringsins rauðgula sem ég hef reynt að setja í kringum hana. Það er raunar með nokkrum ólíkindum ef þetta fer nákvæmlega svona - langt mið tekið á Grænlandssund og síðan stikað þangað - á að giska 800 kílómetra á dag án hiks að kalla. Það skiptir máli fyrir niðurstöðuna hvar ferðin endar. Hliðrast hún til vesturs eða austurs? Er hraðaágiskunin rétt? Er þessi litla bylgja í raun og veru svona stöðug?

Það má segja með nokkurri vissu að atburðarásin verður varla nákvæmlega svona - trúlega er þetta missýning, þetta eru trúlega nokkrar smábylgjur í þyrpingu að berjast um völdin, hver þeirra vill halda sína leið.

En hér gæti verið kaldara loft á ferðinni heldur en það vestræna, í þessari ákveðnu spá er 5160 metra þykktarlínan send nærri Íslandi og 5100 metrarnir voma norðurundan - þó mun lengra frá landi heldur en í spánni sem gerð var 12 tímum fyrr. Kannski spáin á morgun verði hætt við þessa heldur ólíklegu atburðarás?

 


Vestrænn eða norrænn kuldi?

Það má víst einu gilda hvort það er kuldi af norrænum eða vestrænum uppruna sem plagar okkur. En á þeim bræðrum er samt bragðmunur. Við þurfum fyrst að ræða hvað átt er við þegar talað er um annars vegar blandað loft, en hins vegar lagskipt.

Þegar loft er lagskipt liggur hlýtt loft ofan á kaldara lofti, gjarnan eru hitahvörf á milli kalda loftsins og þess hlýrra ofan við. Þetta merkir þó ekki að efra loftið þurfi endilega að vera svo hlýtt. Þegar loft er blandað eru engin hitahvörf finnanleg í blandaða laginu, það er þá kallað óstöðugt. Einnig má segja að loftið sé vel hrært.

w-blogg160511a

Grunnurinn á kortinu er eftir Þórð Arason. Vestræni kuldinn fer leið sem merkt er 1. Í upphafi ferðar sinnar er þetta loft lagskipt, en blandast vel á leið sinni yfir hafið þegar það hlýnar að neðan og eyðir smám saman þeim hitahvörfum sem voru ofan við. Á endanum er hingað komið djúpt lag af köldu lofti. Þegar sagt er að loftlag sé djúpt er átt við að langt sé frá efra borði þess til jarðar, djúp er tjörnin sú. Á sama hátt er loftlag talið grunnt eða grunnstætt þegar stutt er frá hitahvörfunum ofan lagsins niður að jörð undir því.

Norræni kuldinn kemur suður með austurströnd Grænlands, leið 2 á kortinu. Hann er lengst af yfir ís á sínum heimaslóðum eða þá mjög köldum sjó. Það er aðeins síðasta spölinn til Íslands sem hann fær varma úr hlýjum sjó og byrjar að éta af hitahvörfunum ofan við. Berist þetta kalda loft alveg til Bretlandseyja er það orðið djúpt og Bretar upplifa svipað veðurlag og við gerum í vestankuldanum.

Sé norðankuldinn grunnur munar um hlýnunina sem verður á milli hafíss og Íslandsstranda, sömuleiðis munar um sólarvarma yfir Íslandi að deginum. Því fer fljótt versta bitið úr grunnum norðankulda. Sé kalda lagið grunnt - tekur ekki mjög mikinn tíma að hita það allt. Sé norðanáttin hvöss og aðstreymi kalda loftsins ákaft er verra við að eiga. Verst er þó ef norðankuldinn er djúpur (og hvass).  

Á kortið er einnig merkt leið 3 - yfir Grænland. Hún er erfið - og ólíkleg á þessum tíma árs. Ég fjalla síðar um slík tilvik ef hungurdiskar halda skriði sínu.

Þykktarspá morgundagsins (16. maí 2011) er tilefni þessara skrifa. Þar má sjá bæði djúpan vestrænan kulda, sem og grunnan norrænan - ágætt dæmi. Kortið er af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg160511b

Kuldapollurinn sem yfir Íslandi verður er kominn að vestan - hefðbundna leið. Þykktin er hér táknuð með svörtum, heildregnum línum, tölur eru í dekametrum. Þykktin í miðju pollsins er aðeins 5200 metrar. Þetta er óþægilega lág tala fyrir maímánuð, en við sjáum að naprasti kuldinn nær ekki nema yfir tiltölulega lítið svæði og verður fljótt úr sögunni þegar pollurinn hreyfist áfram til austurs. Myndarlegar síðdegisskúrir verða oft til (tilviljanakennt) í stöðu sem þessari. En hungurdiskar iðka ekki veðurspár.

Ámóta kuldapollur rétt utan við myndina (þar sem stendur K2) á síðan að fara hratt til austurs (ásamt myndarlegri lægð) næstu 1 til 2 daga. Kjarna hans er þó ekki spáð yfir Ísland.

En lítum nú á litina á myndinni. Þeir sýna hitann í 850 hPa hæð (um 1300 metrar), kvarði lengst til hægri. Bláar örvar eru teiknaðar ofan í svæði þar sem hitinn er neðan við -8 stig. Þegar nánar er að gáð sjáum við að þetta svæði teygir sig frá Scoresbysundi, suður um í stefnu rétt vestan við Vestfirði þar sem það breiðir úr sér. Þetta loft er svo kalt að það getur í bili stungið sér undir vel blandaða vestanloftið í kuldapollinum. Sól og sjór þurfa þá fyrst að hita þetta lag áður en þau geta snúið sér að því að hita vestanloftið. En kalt verður að sögn Veðurstofunnar á Vestfjörðum á mánudag (16. maí). Hér sunnanlands er spáð sæmilegum yl í skjóli, sunnan undir vegg, að deginum næstu daga.

En þetta norræna loft er grunnt og austanátt næstu lægða lokar fljótt fyrir uppsprettu þess. Næsti alvörumöguleiki á norrænni útrás verður eftir nokkra daga - og vonandi þá ekki.


Mættishiti - hvað er það? (úr fræðabrekkunni)

Mættishiti er eitt þeirra tæknilegu hugtaka sem sífellt er á sveimi í veðurfræðitextum. Íslenska orðið er bein þýðing á alþjóðaheitinu potential temperature. Allir komast auðveldlega í gegnum lífið án þess að kannast hið minnsta við mættishitann. Notkun hugtaksins auðveldar hins vegar umræður um veður og veðurfræði, sérstaklega þegar fjallað er um stöðugleika lofts. Vel má vera að ég laumi mættishitanum inn við og við á hungurdiskum (við litlar vinsældir).

Það tók mig nokkurn tíma að venjast orðinu. Skylt er að geta þess að orðið varmastig hefur einnig verið notað sem þýðing á alþjóðaorðinu. Ég hef áður lýst því hér á blogginu hversu illa mér er við ofnotkun orðsins hitastig þar sem einfaldlega á að nota orðið hiti.

Í lofthjúpnum liggur hlýtt loft ætíð ofan á köldu, en samt kólnar oftast upp á við. Hér er algengur hiti í  5 km hæð um -30°C. Ef hægt væri að færa þetta loft niður til yfirborðs yrði hiti þess um +20°C vegna áhrifa þrýstings, en hann vex eftir því sem neðar dregur. Til að ná beinum samanburði á hita lofts í mismunandi hæð þurfum við að leiðrétta hann fyrir þrýstingi. Eftir að við höfum mælt hita og þrýsting í loftböggli getum við sagt fyrir um það hver hiti hans yrði ef hann er fluttur upp eða niður svo lengi sem honum bætist ekki varmi utanfrá né hann týni varma til umhverfisins. Við getum þá auðveldlega reiknað út hver hiti hans yrði sé honum lyft í heilu lagi frá sjávarmáli upp á fjallstind eða öfugt.

Velja mætti hvaða þrýsting sem er til samanburðarins, en venja er að miða hann við 1000 hPa (sem er þægileg tala nærri meðalþrýstingi við sjávarmál). Við mælum hita loftsins (í °C) með hitamæli og þrýstinginn (í hPa) með loftvog og flytjum loftið niður í 1000 hPa. Þá mælum við hitann aftur, sá hiti er nefndur mættishiti loftsins. Reikningurinn er auðveldur því hiti í niðurstreymi hækkar alltaf um 1°C fyrir hverja 100 metra niður á við.

Með samanburði við mættishita nágrannaböggla sést strax hver flotstaða böggulsins yrði, hvert sem við flytjum hann. Sé hann kaldari en þeir fellur hann niður, hann heldur ekki floti. Sé hann hlýrri flýtur hann sjálfkrafa áfram upp.  Á þennan hátt er hægt að meta hvort loft er í „raun og veru” hlýtt eða kalt og bera saman flotstöðu mishátt í gufuhvolfinu. Við tölum því um mjög hlýtt loft í 5 km hæð þótt hiti á mæli sé aðeins -20 stig. Bætum 50 við (fjölda hundrað metra í 5 km) og fáum út +30°C - það er mættishiti loftsins - ansi hlýtt?.

Mælieining mættishitans er sú sama og hitans sem við mælum á mæli - hér á landi í °C. Samt er algengast að tilfæra mættishitann í Kelvingráðum, en 0°C = 273,16 stig á Kelvin (K). Þetta er til að forðast rugling í þeim tilvikum þar sem talað er um bæði hita og mættishita í sömu andrá.

Lítum á dæmi:

Ef hiti í 900 m hæð uppi á Esju mælist 5°C er mættishitinn þar 14°C (5+9). Sé hitinn á sama tíma á Mógilsá 9°C er að skilningi veðurfræðinnar kaldara þar heldur en uppi á fjallinu, jafnvel þó hitinn sé fjórum stigum hærri. Mættishiti við fjallsræturnar er aðeins 9°C, fimm stigum lægri en er ofan við. Neðra loftið á því ekki nokkurn möguleika á því að fljóta upp fjallið, nema að það sé hitað upp sem mættishitamuninum nemur. Efra loftið getur ekki sigið niður nema það kólni meira og hraðar en loftið niður við fjallsræturnar.

Að slepptu örþunnu 1 til 2 m þykku lagi alveg niður undir jörð er óhætt að setja fram þá reglu að mættishiti fellur aldrei með hæð. Þetta er það sama og að segja að kalt loft liggi aldrei ofan á hlýju. Geri það það - tekur náttúran snarlega í taumana. Í blönduðu (óstöðugu) lofti breytist mættishiti ekki með hæð.

Hryllilegur þessi mættishiti - ekki satt?


Vestrænn svali

Við höfum nú sloppið við svalann að vestan að mestu leyti frá því í snjókomunni 1. maí. En nú gerist hann nærgöngull að nýju en auðvitað hálfum mánuði hlýrri heldur en þá. Mikið hlýnar á norðurslóðum á þessum tíma árs, sérstaklega þar sem snjór hefur bráðnað. Snjóhula á norðurhveli er nú komin niður fyrir meðallag árstímans eftir að hafa verið ofan við það í mestallan vetur fram til sumardagsins fyrsta.

En lítum á hirlam-spákort sem gildir á laugardagsmorgni, 14. maí kl. 9. Það er að venju fengið af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg140511b

Við erum í 500 hPa hæð, heildregnu, svörtu línurnar eru hæð flatarins frá jörðu í dekametrum (dam=10 metrar). Rauðu strikalínurnar sýna þykktina milli 500 og 1000 hPa-flatanna, hún er því meiri því hlýrra sem loftið er. Það er 5340 metra línan sem liggur um Ísland þvert. Háloftalægð - meðalstór kuldapollur - er á vestanverðu Grænlandhafi á leið beint í austur yfir Ísland (rauðgula örin).

Háloftalægðinni fylgir líka lægð við jörð, en hún færir ekkert hlýtt loft til landsins þótt vindur blási úr suðri þegar hún nálgast land - heldur kemur kaldara loft með lægðinni. Ekki er mjög mikið misgengi þykktar- og hæðarlína í kringum lægðina - hún á því litla möguleika á vexti um það leyti sem þetta kort gildir, en þó vottar fyrir köldu aðstreymi bæði sunnan og suðaustan við lægðarmiðjuna. Ég hef sett inn nokkrar bláar örvar sem sýna hvernig vindurinn (sem fylgir hæðarlínunum) ýtir þykktarlínunum þannig að kalt loft kemur í stað hlýrra.

Við sjáum að það er nærri því ómögulegt að við sleppum við að fá þykktina svölu - 5220 metra - yfir landið. Það þýðir að einhver hvít korn sjást detta úr lofti að næturlagi - og sjálfsagt gránar í fjöll og jafnvel á heiðum. Ekki er þó spáð mikilli úrkomu svo ég viti.

Bylgja sú sem hefur miðju í háloftalægðinni er á austurleið eins og áður sagði. Það þýðir að hún á litla möguleika á vexti, meira segja liggur við borð að hún strauist - eins og ég kalla. Þá slitnar þykktarbylgjan (hlýi geiri lægðarinnar) frá háloftabylgjunni og lægðin við jörð tognar eða flest út - eyðist nema hún finni betri vist austar - eða fái kuldaspark að norðan. Við fjöllum ekki meira um þann möguleika.

Á myndinni má sjá aðra háloftalægð, sú er við norðurodda Labrador, þar er þykktin nú innan við 5160 metra. Lægðin hreyfist til suðausturs og er það mun vænlegri hreyfistefna fyrir háloftalægðir í vexti heldur en að stefna tilgangslítið til austurs eins og sú fyrri. Enn láta hungurdiskar nægja að segja að háloftalægðir styrkja hringrás sína við hreyfingu til suðausturs - en minnast ekki á hvers vegna.

Vesturlægðin á einnig að koma hér við sögu síðar, en spár eru óljósar um það hvernig hún ætlar að taka það. Við fylgjumst með ef ástæða reynist til - en þetta ástand er reyndar algengt í maí.


Hvað getur orðið kalt í maí?

Það skýtur  nokkuð skökku við að fara að ræða um kulda núna þegar fyrstu 12 dagar maímánaðar hafa að meðaltali verið þeir hlýjustu í Reykjavík að minnsta kosti síðan 1948, hitinn er nú 8,5 stig, 3,7 stig yfir meðallagi. rétt sjónarmun hærri en fyrstu 12 dagarnir 1961. Yfir til nimbusar með þau mál.

Ég er afskaplega tregur til þess að láta eitthvað frá mér fara um framtíðina en samt má segja að sá vestræni kuldi sem var að sleikja sér upp við okkur þar til nýlega virðist helst ætla að líta við aftur. Meir um það - ef eitthvað verður úr, en það er langt í frá víst.

En hér lítum við á dægurlágmörk maímánaðar bæði á landsvísu sem og í Reykjavík og á Akureyri.

w-tn-mai-allarst

Bláa línan sýnir stöðvar í byggð, en rauð allar stöðvar. Stöðvar á háfjöllum eru smám saman að ryksuga upp öll dægurmet maímánaðar og sumarmánaðanna einnig. Köldustu byggðastöðvarnar eru samkeppnishæfari yfir veturinn. Það stafar af mismunandi eðli vetrar- og sumarlágmarka. Á vetrum verður kaldast á flatlendi ofan við hálendisbrúnina og þar með einnig í efstu byggðum á landinu norðaustanverðu. Þetta gerist í björtu veðri og hægu.

Við sömu skilyrði getur einnig orðið mjög kalt á nóttum að sumri og sömu stöðvar grípa þá oft lægstu lágmark einhverrar tiltekinnar nætur og eru kaldari heldur en háfjallastöðvarnar. En nóttin er stutt og þótt útgeislunin sé öflug getur sá kælingarháttur ekki keppt við þann kulda sem verður á fjallatindum í hvössum vindi sem kældur hefur verið af áköfu þvinguðu uppstreymi í fjallshlíð.

Þessi síðastnefndu skilyrði eru frekar sjaldgæf en samt - stöðvarnar á Gagnheiði og á Brúarjökli verða láglendismetunum yfirsterkari.

Það er áberandi á þessari mynd hversu miklu kaldari dagar í byrjun maí hafa orðið heldur en þeir síðustu. Leitnilínurnar sýna 9 stiga hækkun (rauð og blá punktalína) frá upphafi til enda mánaðar. Myndin tekur strangt tekið aðeins til tímabilsins 1924 til 2010. Ég hef skimað eftir lægri tölum í eldri mælingum en sú grófa leit skilaði ekki nema einu dægurlágmarki. Lágmarkið þann 18. (-12,2°C) er frá því í maí 1888 og var mælt á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi. Það var Séra Valdimar Briem, alþekkt sálmaskáld á sinni tíð, sem athugaði. Sálmar hans eru enn sungnir. Hann athugaði fyrst í Hrepphólum en sú stöð gekk um hríð undir nafninu Ørebak Indlandstation í bókum dönsku veðurstofunnar.  

En lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í maí er -17,4 stig, þann 1. árið 1977. Það vekur athygli á myndinni hversu mikið frost mældist þann 19. 1979, -17,0 stig á Brú á Jökuldal. Talan er 7 stigum undir bláu leitnilínunni og „samsvarar“ þannig -23 stigum þann 1. - vel að merkja í byggð. Hversu lengi megum við bíða þess dags? Kannski að Gagnheiði eða Brúarjökull útvegi hann á næstu árum - en ég vil sem minnst hugsa um það afleita hret með hvössum -14 stigum á Héraði.

Lægsti hiti í Reykjavík mældist -9,1 stig þann 9. árið 1892 og á Akureyri er metið -10,4 stig, þann 1. árið 1968. Frost hefur orðið alla daga maí í Reykjavík, hæsta lágmarkið er orðið gamalt, -1,4 stig, þann 28. árið 1921 - það met hlýtur að falla fljótlega. Hæsta lágmark á Akureyri er líka gamalt, -1,5 stig þann 31. árið 1915. Það hret er merkilegt fyrir þær sakir að tuttugustualdarendurgreiningin sem stundum er vitnað í á hungurdiskum reiknar hæstu þykkt maímánaðar aðfaranótt þess 30., 5577 metra. Vel má vera að það sé nærri réttu lagi.

Metalistinn er í viðhenginu. Þar má einnig finna dægurlágmarkshita Reykjavíkur og Akureyrar í maí. Akureyrarlistinn er í vinnslu og þar verður að hafa í huga að engar lágmarkshitamælingar voru gerðar á Akureyri fyrr en 1937 og eldri tölur eru því lesnar á athugunartímum. Það flækir einnig málið að athugunartímar voru misjafnir - mislangt frá líklegum lágmarkshitatíma sólarhringsins, röðin er því langt í frá einsleit en það eiga svona raðir strangt tekið að vera. En listinn er reyndar mest hugsaður til gamans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvenær er sumarið?

Enn skal róið á árstíðamiðin - og ekki í síðasta sinn haldist hungurdiskar á lífi. Ég hef lengi velt vöngum yfir einhverju sem kalla má náttúruleg árstíðaskil - þegar eitthvað í veðurfari vendist snögglega. Áður hef ég minnst á höfuðdaginn, 29. ágúst, sem vendipunkt af þessu tagi, sú vending tengist loftþrýstingi. Auðvitað má þó ekki taka nákvæma dagsetningu of hátíðlega.

Sömuleiðis hef ég minnst á 1. apríl í þessu sambandi, þá verða þau tímamót að meðalhiti tekur á rás upp á við á móts við vorið.

Ég er sífellt að leita dagsetninga af svipuðu tagi og hef óformlega safnað nokkrum - en er ekki alveg tilbúinn með það verk. Hér ætla ég þó að rifja upp sígilda mynd af árstíðasveiflu hitans hér í Reykjavík á árabilinu 1971 til 2000 úr safni mínu.

w-blogg120511

Hér má sjá meðalhita allra daga 1971 til 2000 sem rauða línu og miðað við hægri kvarða myndarinnar (°C). Hún er dálítið óróleg og markast það af því að mjög kaldir dagar ná ekki að jafnast út þótt deilt sé með þrjátíu. Á myndinni er einnig blá lína sem sýnir sólarhæð á hádegi í Reykjavík, vinstri kvarði (í gráðum). Hún liggur lægst á vetrarsólstöðum, 22. desember og hæst á sumarsólstöðum 21. júní.

Athuga ber að merki mánaðanna er sett við þann 15. hvers þeirra.

Hér hef ég einnig merkt inn 15 gráðu sólarhæð með punktalínu. Þegar sólin er lægra á lofti en það má hún heita gagnslaus í að hita lárétta fleti. Heildregna bláa línan og punktalínan mætast seint í febrúar. En vorið byrjar varla fyrr en sólin hefur náð 30 gráðu hæð á hádegi. Sólin dettur niður fyrir 15 gráðurnar um miðjan október, en er fer undir 30 gráður fyrir miðjan september.

Eftirtektarvert er að við 30 gráðurnar á vorin er meðalhiti við frostmark, en á haustin er hitinn um 8 stig í þann mund að sólin dettur niður fyrir 30 gráðurnar. Njótum við þar góðs af vinnu sólarinnar allt vorið og sumarið. Um fimm vikur eru frá sólstöðum yfir í hitahámarkið sem á myndinni er 24. júlí.

Veturinn er á myndinni merktur með grænum flötum línum (örvum). Á myndinni byrjar hann 16. desember en endar í marslok.

Ég hef einnig sett græna línu við tímabilið frá 28. júní til og með 13. ágúst. Þetta er kjarninn úr sumrinu. Hitinn rís mjög ört fram að sólstöðum og á myndinni viku betur, þá gerist það að hitinn hættir að hækka jafnhratt og áður og stefnir í jafnvægi. Frá 1. til 28. júní hlýnar um 2 stig.

Hitahámarkið er eins og áður sagði 24. júlí, en síðan gerist mjög lítið frá 24. júlí til 13. ágúst. Mestallan þann tíma er sjórinn ennþá að hlýna og nær sjávarhiti hámarki á bilinu frá 5. til 15. ágúst. Síðan sígur ört á ógæfuhliðina og frá 13. ágúst til 1. september kólnar um 2,2 stig - ískyggilegt það.

Hásumarið er eini tími ársins hér við land þegar sjór er að meðaltali kaldari en loft. Þetta er einnig sá tími þegar sjávarþoka er algengust við Suður- og Vesturland. Í útsveitum nyrðra og við Austurland er tíminn sem sjór er kaldari en landið heldur lengri en annars staðar. Þetta með mismun sjávar- og lofthita gæti gefið tilefni til frekari vangaveltna.

En er tíminn frá 28. júní (svona nokkurn veginn) til 13. ágúst sérstök árstíð? Hvað skyldu slíkar árstíðir vera margar á Íslandi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 37
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 528
  • Frá upphafi: 2343290

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 480
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband