Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Háloftakort - í rólegri stöðu

Ólíkar eru þær tvær vikurnar þessi og sú síðasta. Í fyrri viku var hér í pistlum fjallað um lægðir sem bornar voru frá vöggu til grafar í fremur stuttum bylgjum af hlýju lofti með ískalt kanadaloft í bakið. Að minnsta kosti tvær þeirra dýpkuðu sem ólmar væru, um 30 og upp í 50 hPa á sólarhring. Hærri talan er með því mesta sem sést.

Nú er lengri bylgja á ferðinni. Samkvæmt umferðarreglum hreyfist hún mun hægar en þær stuttu og tekur marga daga að mjakast um Atlantshafið. Inni í henni eru þó margar smábylgjur á sveimi sem hreyfast hratt andsólarsinnis í kringum miðjuna og toga hana þar með og teygja. Lítum fyrst á háloftakort úr hirlam-spálíkaninu sem er eins og oftast fengið af brunni Veðurstofunnar. Það gildir á miðnætti (aðfaranótt föstudags 18. febrúar).

w-hirlam500-170211-18-06

Eins og venjulega sýna svörtu línurnar hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam=10 metrar), en rauðu strikalínurnar sýna þykktina milli 500 og 1000 hPa-flatanna, einnig í dekametrum. Rauða örin sýnir það svæði þar sem hlý tunga er í framrás, hlýtt aðstreymi sem leitar í kringum lægðina, en berst jafnframt mjög hægt til norðausturs. Bláa örin sýnir það svæði þar sem kalt loft streymir framhjá og inn í bylgjuna. Að öðru leyti fylgjast hæðar- og þykktarlínur allvel að.

Þarna hef ég einnig sett svartan hring. Þar sjáum við allsnarpa bylgju og er þar horn á milli þykktar- og hæðarlína. Þessi bylgja hefur reyndar litla vaxtarmöguleika en spár segja samt að hún muni taka við hlutverki meginlægðarmiðjunnar þegar hún hefur farið sína leið.

Af kortinu má vel ráða að ekki er mikið að gerast á þessum stóra kvarða og við skulum ekki gera meira úr því. En ef við lítum á gervihnattamynd blasir miklu flóknari sýn við. Myndin er af vef Kanadísku veðurstofunnar.

w-canada-goes13-170211-2215

Ísland er efst á myndinni, undir bókstöfunum IR (en þeir segja að þetta sé hitamynd af innrauðu sviði rafsegulrófsins). Ef rýnt er í myndina má sjá tölustafi, frá 1 og upp í 9 og eru tilraun til talningar á smásveipum inni í bylgjunni stóru. Allir sveipirnir, nema e.t.v. númer 9 eiga uppruna sinn í snúningnum í kringum stóru bylgjuna. Þeir sem trúa á samskilahugtakið teikna örugglega í þetta einhvern illskiljanlegan skilahrærigraut. Ekki á að taka þetta þannig að ég sé orðinn trúlaus en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Sveipur númer 9 er sá sem tengist lægðardraginu snarpa við Nýfundnaland og mun sennilega lifa í einn til tvo daga, aðrir sveipir lifa skemur - en ég treysti mér ekki til þess að meta ævilíkur hvers þeirra um sig. Grófa gervihnattamyndin sem endurnýjast á klukkustundarfresti á vef Veðurstofunnar sýnir þróunina mjög vel og hægt að fylgjast með sveipunum þar. Sumir sveipirnir lifa varla nóttina af. 

Rauðgulu svæðin sýna mikinn skýjabakka sem fylgir hlýja aðstreyminu norðaustan við lægðina. Allra köldustu skýin eru í uppstreyminu yfir Grænlandi. Þar eru ský sífellt að myndast og eyðast og spurning hvort hið skapandi eða eyðandi afl hefur betur næstu 2 til 3 daga. Spennandi að fylgjast með því?

Sömuleiðis er spennandi að fylgjast með suðurbrún skýjabakkans þar geta smábylgjur skotist undan og myndað króka, e.t.v. eru sveipir númer 7 og 8 þannig tilkomnir. Sveipur 5 gæti galdrað fram slíkan bakka undan stóra skýjabakkanum og tengst honum. Sveip 5 má kalla pólarlægð af riðagerð, en sveipur 3 er á mörkum þess að vera að eyðast eða að verða að pólarlægð með hlýjum kjarna - hvort er sé ég ekki. Sveipur 4 er e.t.v. fullnálægt sveip 5 til að geta átt sér framtíð.

Séu eldri myndir skoðaðar virðist sveipur 3 (sem áður var nefndur) vera, eins og sveipir 1 og 2 orðinn til þegar gömul lægðarmiðja grynnist ört, í slíkum tilvikum fæðist stundum hver sveipurinn á fætur öðrum út úr því sem stundum er kallað lægðarsnúður og einkennir öflugar lægðarmiðjur sem eru við það að ná fullum þroska.

Samkvæmt spám á stóra bylgjan að mjakast ofurhægt til norðausturs, um 1200 km á þremur dögum. Þá á önnur bylgja að sparka í hana úr vestri og hugsanlega éta hana með húð og hári.

Veðurlag sem þetta er algengt á öllum árstímum, eitt hið allradæmigerðasta sem hægt er að nefna. Hálfdauð lægð suðvestur eða suður í hafi með skýjabakka sem kannski eða kannski ekki kemst til Íslands. Meðan ég var á vöktum að spá veðri þótti mér þetta veðurlag sérstaklega tilbreytingalaust og óspennandi, en hef síðar skipt um skoðun og vildi helst að staðan héldist til vors.  

Það skal tekið fram að sveipagreining sú sem gerð var hér að ofan er ábyggilega ekki rétt. Rétt greining verður ekki gerð nema með nokkurri yfirlegu og skoðun á fjölmörgum myndum í tímaröð. Hafið það í huga.


Lítum aftur til austurs

Ein af þeim vefsíðum sem ég skoða oft ber yfirskriftina „Short-term climate outlooks“ eða veðurfar - skammtímaútlit. Þar eru kort sem sýna hvaða hita er spáð á ýmsum svæðum jarðar næstu tvær vikurnar. Hitakortin segja reyndar ekki svo mikið nema að lesandinn hafi meðaltölin á hreinu. Þeir lesendur eru víst fáir. Eitt kortanna fyrir hvert landsvæði sýnir þó væntanleg vik frá meðaltali eins og það reiknast í bandaríska spálíkaninu gsf næstu sjö daga. Að sögn er viðmiðið meðaltal síðustu 100 ára úr safni CRU við háskólann í East Anglia í Englandi.

Mín reynsla er að vísu sú að líkanið sé langoftast að spá hita undir meðallagi hér á landi jafnvel í fyrra, árið 2010, sem var eitt hið hlýjasta sem um getur á okkar slóðum. En fróðlegt er samt oft á tíðum að skoða myndirnar. Þannig er t.d. um þessar mundir - kortið hér að neðan var reiknað í dag (16. febrúar).

w-cola-vik16-230211

Myndin er fengin af undirsíðu þeirrar sem vitnað var í hér að ofan. Kvarðinn er undir myndinni. Við sjáum að hér á landi er hita spáð nærri meðallagi en á stóru svæði er hita spáð meir en 10 stigum undir meðallaginu. Það er ansi mikið og nær kuldinn vestur í Skandinavíu, Danmörk og Þýskaland eru á jaðrinum.

Kuldapollurinn sem ég minntist á í pistli fyrir nokkrum dögum hefur heldur styrkst og þykktin í honum miðjum (skammt vestur af Úralfjöllum) um 4960 metrar og þykktin yfir Austur-Finnlandi er litlu meiri. Talan 4960 er ekki svo óskaplega lág miðað við stað og árstíma, en sjálfsagt eru öflug hitahvörf í neðstu lögum þannig að kaldara er heldur en af þykktinni einni má ráða.

Kuldapollar styrkjast yfir meginlöndum yfir háveturinn fái þeir frið til að liggja um kyrrt, svipað er að segja um fyrirstöðuhæðir á sumrin, þær styrkjast þá yfir meginlöndunum fái þær frið til að koma sér fyrir. Þannig var það í Rússlandi síðastliðið sumar.

Í annarri viku héðan í frá gerir sama spálíkan ráð fyrir því að kalda loftið hörfi heldur til austurs þannig að heldur hlýni í Skandinavíu. En vesturevrópubúar verða enn um sinn að horfa órólegum augum til kuldans í austri sem enn bíður færis.


Lægsti hiti á veðurstöðvum í febrúar

Listi yfir hæsta hita á einstökum veðurstöðvum í febrúar hékk á hungurdiskapistli í fyrradag. Hér með fylgir listi yfir lægsta hita á stöðvunum í febrúar. Gallinn er sá að hann er aðeins fullgerður aftur til 1924. Til eru lægri, eldri gildi á nokkrum stöðvum t.d. bæði í Reykjavík og á Akureyri. Vonandi verður búið að bæta úr þessum ágalla áður en febrúar 2012 rennur upp. Það er vonandi einhver huggun í því að lægsta talan -30,7 stig, frá Möðrudal 4. febrúar 1980 er alla vega lægri en allar aðrar febrúartölur allt frá 1874.

Lægstu tölurnar eru:

upph.ár endaár metár metdagur met stöð

1961 2010 1980 4 -30,7 Möðrudalur

1993 2010 2008 2 -30,3 Veiðivatnahraun

1939 1960 1955 10 -29,5 Möðrudalur

1994 2010 1995 8 -29,1 Kolka

1994 2010 2008 2 -29,1 Þúfuver

2004 2010 2009 12 -29,0 Svartárkot sjálfvirk stöð

1997 2010 1998 12 -27,5 Mývatn

1997 2010 2009 7 -27,5 Mývatn

1938 1960 1955 10 -27,4 Reykjahlíð

1998 2010 2002 24 -27,3 Setur

1966 2004 1969 6 -27,2 Hveravellir

Sjálfvirka stöðin við Mývatn er í Neslandatanga. Tvær af tölunum eru nærri því nýjar, frá því í miklu kuldakasti í febrúar 2009.

Lægsta febrúartalan í Reykjavík er eldri en taflan, -18,3 stig frá 15. 1886, lægsta febrúarlágmark á Akureyri er frá 27. 1882. -24,0 stig. Jón Þorsteinsson landlæknir mældi 20 stiga frost í Reykjavík 18. febrúar 1839, en hans mælir var of lágt frá jörðu til þess að vera samanburðarhæfur, auk þess var mælirinn óvarinn. Sama má segja um mælingu Rasmusar Lievog frá Lambhúsum á Álftanesi -18,8 stig þann 6. febrúar móðuharðindaveturinn 1783 til 1784. Svo mældi vonScheel -32,0 á Akureyri 6. febrúar 1808. Líka fulllágt frá jörð með óvörðum mæli.

Eins og venjulega er listinn fjórskiptur: Fyrst koma sjálfvirku veðurstöðvarnar. Síðan eru sjálfvirkar stöðvar vegagerðarinnar og mannaðar stöðvar á tímabilinu 1961 til 2010. Að lokum eru mannaðar stöðvar á tímabilinu 1924 til 1960. Hugsanlega er eitthvað af villum í listunum.  Fyrsti ársdálkurinn sýnir upphaf tímabilsins sem miðað er við á hverri stöð, annar dálkurinn síðasta ár safnsins (oftast 2010) og síðan koma metár og metdagur (sem hér er auðvitað í febrúar). Athugið að stöku stöð hefur aðeins verið starfrækt mjög stuttan tíma eða er þá nýlega byrjuð. Nýju stöðvarnar eiga oft eftir að slá sín „met“ á næstu árum og eru jafnvel að því þessa dagana.

Marga athyglisverða atburði má sjá þegar rýnt er í listana, t.d. hvað landslag hefur mikil áhrif á lágmarkshitann og hve mikill munur er á inn- og útsveitum.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikið lægðakerfi á síðustu snúningum

Dauða lægðakerfa ber að með ýmsum hætti. Það kerfi sem bjó okkur illviðri síðustu viku er farið að sýna ellimerki og við lítum á þau á gervihnattamynd frá því kl. 22 í kvöld (mánudag 14. febrúar).

w-seviri-140211-22

Myndin er fengin af vef Veðurstofunnar, en ég hef bætt inn nokkrum örvum og bókstöfum. Ísland er ofarlega fyrir miðri mynd. Bleiku beltin eru leifar lægðakerfa, það sem er fyrir norðan land var tengt lægð sem sendi okkur hógvært hvassviðri á laugardaginn. Það sem er langt suður í hafi er tengt síðustu bylgjulægð illviðrakerfisins - hún komst aldrei hingað. Leifar hennar eru sveipur þar sem merkt er með gulu L-i. Það má taka eftir því að skýjasveipurinn í kringum hana er ekki lengur hringlaga heldur eins og klesstur hringur eða sporaskja. Mig minnir að ég hafi í fyrri pistli nefnt hana B6.

Stóri bókstafurinn F sem er efst til hægri á myndinni er þar sem er fyrirstöðuhæð við Svalbarða. Hún er ein af drjúgöflugum fyrirstöðum sem stundum myndast langt norðan heimskautarastarinnar.

Heimskautaröstin er nú langt suður í hafi, liggur til austnorðausturs við Asóreyjar, þar sem stóra, gula örin er á myndinni. Svona lítur skýjakerfið sem fylgir röstinni venjulega út á hitamyndum, þykkur hvítur borði þar sem stundum má greina örmjó reipi eins og sjá má vestast á myndinni, ofan gulu örvarinnar eða mjög fínar þverbylgjur og fleiri form. Það er enn nokkur kraftur í þessum hluta kerfisins.

Á myndinni má einnig sjá bókstafinn K á tveimur stöðum. Við þann syðri hef ég sett langa, bláa ör sem stefnir til Spánar. Þetta er reyndar kunningi okkar sem við kölluðum B5 fyrir helgina (minnir mig) og hélt aftur af B6. Hér sést lítill lægðasnúningur í augnablikinu en hann er falinn í allstórum kuldapolli sem nú hreyfist hratt í austsuðaustur (bláa örin). Þetta kerfi mun grípa B5 og snúa því sem eftir er af henni í kringum sig. Allt mun síðan enda í krappri lægð við norðvestanverðan Spán eftir 1 til 2 daga. Spænska veðurstofan spáir þar bæði miklu brimi og hvassviðri. Ég veit ekki hvort þetta er nægilega slæmt veður til að þess verði getið hér í fréttum - varla er það nú.

Hitt K-ið á myndinni sunnan við Ísland er klesst á milli bleiku kerfanna og markar kuldapoll eða fyllu sem gefur smásveipum tækifæri til að myndast í hlýrra lofti norðaustan við. Einn sveipurinn er á leið til landsins og á að ganga vestur yfir Suðurland annað kvöld (þriðjudagskvöld).

Öll þessi samsuða kerfa er á fallanda fæti nema fyrirstaðan við Svalbarða. Ýmsir möguleikar eru svo á framhaldi en um það má e.t.v ræða síðar.


Hæsti hiti á veðurstöðvum í febrúar

Hér á landi virðist veður nú ætla í einskonar biðstöðu eftir að þrjár mjög djúpar og krappar lægðir hafa gengið hjá. Sú fjórða (sem ég kallaði B6) er nú upp á sitt besta suður í hafi, en kemur ekki beinlínis hér við sögu. Þótt ekki verði veðurlaust næstu daga munum við samta hvíla okkur aðeins á fjölskyldusögu Stóra-Bola II og lítum þess í stað til hæsta hita á einstökum veðurstöðvum á landinu í febrúar. Ekki er þó ætlunin að sleppa alveg tökum á Bolafjölskyldunni en í ævintýrunum kom gjarnan setning sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Hélt svo fram um skeið að ekki bar til tíðinda. Svipað á við hér.

En listinn yfir hæstu hámörkin er í viðhenginu. Hann er eins og fyrri slíkir listar í fjórum hlutum. Fyrst koma sjálfvirku veðurstöðvarnar. Síðan eru sjálfvirkar stöðvar vegagerðarinnar og mannaðar stöðvar á tímabilinu 1961 til 2010. Að lokum eru mannaðar stöðvar á tímabilinu 1924 til 1960. Hugsanlega er eitthvað af villum í listunum, t.d. er hæsta talan í Breiðavík í Rauðasandshreppi 15,0 stig og þykir það heldur grunsamlegt. Fyrsti ársdálkurinn sýnir upphaf tímabilsins sem miðað er við á hverri stöð, annar dálkurinn síðasta ár safnsins (oftast 2010) og síðan koma metár og metdagur (sem hér er auðvitað í febrúar). Athugið að stöku stöð hefur aðeins verið starfrækt mjög stuttan tíma eða er þá nýlega byrjuð. Nýju stöðvarnar eiga oft eftir að slá sín „met“ á næstu árum og eru jafnvel að því þessa dagana.

Ef við nú blöndum öllu saman kemur í ljós að hæstu tölurnar eru:

upph.ár endaár metár metdagur met stöð
2002     2010    2005 21 18,3   Hvammur undir Eyjafjöllum
1961     2010    1998 17 18,1   Dalatangi
1990     2010    2006 21 17,2   Sauðanesviti
1949     1960    1960  8  17,0   Dalatangi
1958     1960    1960  8  16,9   Seyðisfjörður
1996     2010    2006 21 16,2   Seyðisfjörður sjálfvirk stöð
1998     2010    2005 21 16,2   Steinar undir Eyjafjöllum
2001     2010    2005 21 16,1   Hvalnes
1961     2002    1984 24 16,0   Seyðisfjörður
2000     2010    2005 21 15,8   Lómagnúpur

Seyðisfjörður á hér þrjár línur, þar er sjálfvirk stöð og þar voru mannaðar athuganir á báðum tímabilunum sem listarnir ná yfir. Vegagerðarstöðin Hvammur undir Eyjafjöllum á hæsta gildið. Eyjafjallastöðvarnar hafa verið dálítið ódælar á köflum og erfitt að kveða úr um það hvort telja eigi þessa tölu 18,3 stig sem opinbert Íslandsmet. En ef við skoðum listann sjáum við að Hvammur er ekki eina stöðin með mjög hátt gildi þennan dag (21. febrúar 2005) heldur eru þrjár aðrar stöðvar með sama dag á topp-10 listanum, Steinar, Hvalnes og Lómagnúpur. Enda var gríðarlegt fyrirstöðuháþrýstisvæði í námunda við landið og mikil hlýindi efra.

En nördin geta velt sér upp úr listanum í viðhenginu og raðað honum á alla vegu. Hæsti hiti sem mældist í febrúar á landinu fyrir 1924 er 14,6 stig á Seyðisfirði þann 16. 1913.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Beinum nú augum okkar til norðausturs

Undanfarna daga höfum við aðallega horf til veðurkerfa í vestri og suðvestri. En lítum nú í gagnstæða átt - til norðausturs. Myndin sýnir greiningu reiknimiðstöðvar Evrópuveðurstofa (ecmwf) á 500 hPa fletinum og hita í 850 hPa á hádegi á laugardag (12.2.2011). Miðja hennar er sett á Svalbarða. Því miður er hún heldur óskýr - reiknimiðstöðinni er uppálagt að halda upplýsingum fyrir sig og útvalda.

w-ecmwf_120211-1200

Heildregnu bláu línurnar eru jafnhæðarlínur 500 ha í dekametrum. Litirnir eru hiti í 850 hPa, ljósgrænt og gult er hlýjast, dökkfjólublátt kaldast. Við sjáum kunningja okkar, Stóra-Bola II á sínum stað helfjólubláan að lit. Kröpp lægð er suðvestur af Íslandi (bylgjan B3) en fyrirstöðuhæð er að myndast við Svalbarða. Þetta er venjuleg norðurslóðafyrirstaða - miklu vægari en þær ofurfyrirstöður sem réðu öllu hér um daginn. Miðjuhæð í Svalbarðafyrirstöðunni er um 5350 metrar, en ofurfyrirstöðurnar voru yfir 5700. Fyrirstaðan mun sennilega lifa marga í marga daga.

Allkröftugur kuldapollur er skamms suðaustur af Finnlandi og annar yfir Síberíu. Mjög kalt er í þessum kuldapollum - þó kuldinn skáki ekki Stóra-Bola. Næsta vika eða svo verður spennandi í Skandinavíu. Tekst kuldapollinum að skjóta anga vestur til Danmerkur eða munu brotnandi bylgjur Atlantshafsins halda honum í skefjum?. Norður fer hann ekki - Svalbarðahæðin fóðrar hann hins vegar á lofti úr norðaustri - frá Síberíu. Hann gæti hörfað til austurs, hann gæti farið vestur um Danmörku, en hann gæti líka skotist suður um Balkanlönd og valdið usla þar um slóðir.

Spár eru mjög ósammála um framhaldið og hrökkva fram og tilbaka. Fá Vesturevrópubúar yfir sig enn eitt stórkuldakastið í vetur?

 


Illviðrin: Tölur úr föstudagsveðrinu auk samanburðar

Í viðhenginu er listi þar sem tíundaður er mesti vindhraði og mesta vindhviða á sjálfvirku stöðvunum í föstudagsveðrinu (því sem í undanförnum pistlum hefur verið kallað B2). Sams konar listi fyrir veðrið á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags fylgdi pistli fyrir nokkrum dögum.

Mesti vindhraði í föstudagsveðrinu:

dagur klst vindátt maxfx maxfg stöðvarnafn
11         7     152     46,9   51,7 Jökulheimar
11         7     124     41,3   51,2 Vatnsfell
11       12     142     37,6   43,7 Þúfuver
11         6     105     36,9   48,6 Stórhöfði sjálfvirk stöð
11         9     109     35,9   45,4 Veiðivatnahraun

Tölurnar eru í metrum á sek og vindátt í veðurgráðum. Tvö hæstu gildin eru hærri en hæsta gildið í þriðjudagsveðrinu. Mesta vindhviðan mældist á Miðfitjahól í Skarðsheiði 56,2 m/s en þar var mesti meðalvindhraði mun lægri, aðeins 23,4 m/s.

Mesta vindhviða á vegagerðarstöð mældist 56,1 m/s í Hvammi undir Eyjafjöllum. Það var eina gildið yfir 50 m/s á vegagerðarstöð í föstudagsveðrinu, en í þriðjudagsveðrinu fóru hviður yfir 50 m/s á 5 stöðvum.

Tíu-mínútna meðalvindur náði 21 m/s á 79 stöðvum en í þriðjudagsveðrinu voru stöðvarnar 90. Fjörutíu og átta vegagerðarstöðvar náðu 20 m/s í föstudagsveðrinu, en á þriðjudag(miðvikudag) voru þær 45.

Sé litið á 30 m/s voru veðrin einnig mjög sambærileg, 17 stöðvar náðu því marki í föstudagsveðrinu en 16 í því fyrra. Þrjár vegagerðarstöðvar náðu 30 m/s í báðum veðrum. Hvaða stöðvar þetta voru geta menn séð í viðhengjunum hér og með fyrri pistli.

Lítum að lokum á mynd sem sýnir vindáttir í veðrunum.

w-d-B0-B2-feb2011

Hér hefur vindáttum verið skipt á 10-gráðu bil, talan 9 stendur því fyrir 90° (austur), 12 fyrir 120° (austsuðaustur). Þriðjudagsveðrið (B0) er merkt blátt, en föstudagsveðrið er rautt. Við sjáum að dreifing vindátta er ekki mikil fellur í báðum veðrum á um 40 til 50 gráða bil. Algengasta hámarksvindhraðaátt í þriðjudagsveðrinu var á bilinu 90 til 100 gráður, en 110 til 120 gráðum í föstudagsveðrinu. Þessi litla hreyfing á áttinni getur munað miklu hvað mesta vindhraða varðar á einstökum veðurstöðvum. Sjálfsagt gefa viðhengislistarnir einhverjar bendingar um það.

Bæði veðrin skora allhátt á lista yfir verstu veður undanfarinna ára - alvöruillviðri.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Illviðrin: B3 fullþroskuð

Lesendur bloggsins undanfarna daga er sjálfsagt farið að renna grun í að saga B-fjölskyldunnar heldur áfram í það endalausa - rétt eins og Ísfólkið og Lost. Það er því varla nema þá allra áhugasömustu að fylgjast með framhaldinu. En ég ætla þó að halda spunanum áfram í dag - á morgun hafði ég hugsað mér að gefa yfirlit um illviðrið í morgun - með lista yfir mesta vindhraða á stöðvunum rétt eins og fyrir B0 fyrir nokkrum dögum. Hvort fjölskyldunni verður síðan fylgt síðan verður bara að koma í ljós.

w-env-can_goes13-110211-2145

Sjónarhornið er það sama og áður, Ísland efst, Kanaríeyjar neðst til hægri og austurströnd Bandaríkjanna lengst til vinstri. Myndin er frá kanadísku veðurstofunni (Environment Canada).

Bylgjan B3 er nú fullþroskuð, í lægðarmiðjunni er þrýstingur kringum 945 hPa - verður e.t.v. lítillega lægri í nótt (aðfaranótt laugardags) eða í fyrramálið. Mun hreinni svipur er yfir B3 heldur en bæði B0 og B2. Glæsileg lægð. Skýjabakkinn framan við lægðina stefnir til Íslands og þar undir er mikið hvassviðri. Nú sem stendur gefa spár til kynna að mesti krafturinn verði úr veðrinu áður en hingað kemur, en hvasst verður samt. Þeir sem eiga eitthvað undir veðri athuga auðvitað vef Veðurstofunnar eða hlusta á spár með gamla laginu.

En nú kemur ókunnug bylgja til sögunnar. Ég kalla hana B5. Hún er nú alveg í jaðri kjarna kuldapollsins Stóra-Bola, mun kaldari en aðrar bylgjur sem við höfum fjallað um undanfarna daga. Ef við horfum grannt á B5 má sjá að hún er með haus rétt eins og B3 var í gær og einnig má greina vindröst úr suðvestri sunnan- og suðvestan við hausinn. B5 hreyfist til suðausturs og veldur því að nýja bylgjan B6 mun neyðast til að líta um öxl ef svo má segja.

B6 er varla sjáanleg enn - ský sjást - en lægðarmiðja við jörð er ekki orðin til en verður það á morgun - þá á mjög svipuðum slóðum og B3 í gær. Hún á líka að verða hraplægð (sprengilægð) sem dýpkar um meira en 24 hPa á 24 tímum. Krafturinn verður, ef marka má reiknispárnar, aðeins minni en í B3. Auk þess á hún að líta um öxl þegar B5 nálgast hana úr vestri - í misheppnuðu (?) stefnumóti.

B5 á einnig að gera annað - hún dregur hluta Stóra-Bola II á eftir sér þannig að hann mjakast suður og veikist. Sumar spár gera ráð fyrir því að hann fari síðan út á Atlantshaf og slakni.

En við sjáum til hvort framhald verður á lýsingu fjölskyldusögu Stóra-Bola II hér á hungurdiskum- en gervihnattamyndir og tölvuspár munu auðvitað halda áfram og má fylgjast með þeim þar til Stóri-Boli II er allur - og auðvitað sögunni um Stóra-Bola III og áfram til eilífðarnóns.  


Illviðrin: Lægðin búin að kippa útlitinu í lag

Nú er haldið áfram pistlinum frá í gær þar sem ég kynnti til sögunnar bylgjur á jaðri Stóra-Bola II. Þær nefndi ég einfaldlega B0 til B4. B0 (illviðrið í fyrrinótt) er úr sögunni. B2 náði í skottið á B1 og hefur kerfið nú fengið afar hraustlegt útlit eftir tætinginn meðan bylgjurnar tókust á.

w-goes13-env_kanada_100211

Myndin er með sama sjónarhorn og ég kynnti í gær og er eins og sú mynd fengin af vef Kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada). Við sjáum svæðið allt frá Íslandi suður til Kanaríeyja og vestur til norðausturríkja BNA.

Lægð dagsins (B2) er afar stór um sig, óvenju stór miðað við að hún var enn að dýpka þegar myndin var tekin. Ísland er komið inn í mitt skýjakerfið á undan lægðinni. Verst mun veðrið sennilega vera á undan kuldaskilunum sem eru á myndinni nærri 60 gráðum norðlægrar breiddar. Sömuleiðis er jafnvel enn verra veður sunnan lægðarmiðjunnar, en það illviðrasvæði nær ekki til landsins.

Bylgjan B3 er að taka á sig form, lægðarmiðja hennar er suður af Nýfundalandi á leið austnorðaustur. Við skulum líta nánar á hana - í uppeldisskyni.

w-goes13-env-canada100211hluti

Þetta er hluti af efri myndinni og sýnir bylgjuna B3. Í gegnum hana liggur skotvindur, hluti heimskautarastarinnar, gulmerktur. Norðvesturjaðar háskýjabakkans er mjög skarpur. Ég hef einnig sett á myndina svartar örvar sem sýna bogamynduð form suður úr meginbakkanum.

Sömuleiðis hef ég merkt sérstaklega blikuhaus þann sem einkennir hratt dýpkandi lægðir og á myndum liggur hann oft eins og lauslega tengdur þar ofan við meginskýjabakkann þar sem hæðarbeygjan er einna mest í röstinni. Sömuleiðis hef ég merkt inn fyrirbrigði sem kallað er þurra rifan (e. dry slot). Ég er reyndar ekki sérlega ánægður með íslenska heitið - en á íslensku skal það samt vera.

En hvaða fyrirbrigði eru það sem ég er að merkja? Hvaða bogar eru þetta? Haus og þurr rifa?  En fyrst er að nefna hugtökin - síðan má reyna við skýringar. Það kemur að þeim síðar ef mér endist bloggþrekið. Hvar eru svo kulda-, hita- og samskilin? Jú, jú, skilin eru þarna einhvers staðar undir, kyrfilega merkt á kortum bresku veðurstofunnar og víðar.

Núna í kvöld (fimmtudag) taldi hirlam-spálíkanið að lægðin (B3) væri um 995 hPa í lægðarmiðju. Klukkan 21 á morgun (föstudag) segir sama líkan að dýptin verði þá orðið 945 hPa, 50 hPa dýpkun á einum sólarhring. Þetta er með því allra mesta sem sést. Ameríkumenn (í stríðshugarheimi sínum) kalla lægðir sem þessar sprengur (bomb), freistandi er að kalla þær sprengjulægðir, en mér þætti orðið hraplægð eða eitthvað ámóta betra, orðið heljarlægð væri full mikið af því góða. En trúlega vinnur enskan orrustuna við íslenskuna eins og oftast í tilvikum sem þessum.

En orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins segir að hraplægð (bomb) sé sú sem dýpkar um að minnsta kosti 1 hPa á klst yfir 24 klukkustunda tímabil. Í skilgreiningunni segir jafnframt að hraplægðir myndist einkum yfir hafi að vetrarlagi, 750 km eða þar um bil framan við öldudal í stuttri bylgju í vestanvindakerfinu. Þessar stuttu bylgjur myndist sem innlegg í stórbylgjum, rétt norðan heimskautarastarinnar.

Þessi skilgreining virðist falla nákvæmlega að staðháttum við bylgjuna B3. Stórbylgjan er í þessu tilviki kuldapollurinn Stóri-Boli II. Eins og spáin er nú á lægðin að valda hvassviðri á laugardaginn (12. febrúar) en flest líkön gera ekki mjög mikið úr veðrinu hér á landi. En mikið fárviðri verður á Grænlandshafi. B3 er ekki eins stór um sig og B2 var. Ég hvet þó þá sem eiga eitthvað undir veðri að fylgjast með spám Veðurstofunnar og annarra.


Illviðrin þessa dagana - aðeins víðari sýn

Nú ganga illviðrin hjá eitt af öðru. Veðrið sem gekk yfir síðastliðna nótt (aðfaranótt miðvikudags) var býsna slæmt víða á landinu. Næsta veður kemur annað kvöld eða aðra nótt (segja spár), ég vil ekkert segja um hversu slæmt það verður. Enn eitt veður á síðan að ganga yfir á laugardag en spár eru enn mjög óvissar um hvort við verðum illa fyrir því eða ekki. Í gær og fyrradag var útlit fyrir það, en nú eru spár ekki eins vissar.

En við höldum áfram að líta á bakgrunn illviðranna og lítum á tvær skýringarmyndir. Sú fyrri er hefðbundin innrauð gervihnattamynd - að vísu lituð og skorin af Kanadísku veðurstofunni (Environment Canada). Hin er 500 hPa-greining frá evrópsku veðurreiknimiðstöðinni frá hádegi í dag.

w-blogg102011-m1

Myndin er tekin kl. 21:45 í kvöld og sýnir ástandið við norðvestanvert Atlantshaf. Ég hef merkt nokkra staði inn á myndina til að lesendur átti sig betur á því undir hvaða horni við horfum. Neðri hluti myndarinnar nær allt vestan frá New-York og austur til Kanaríeyja en sá efri frá Hudsonflóa í vestri og nærri því til Noregs í austri. Ísland er efst á myndinni og Grænland þar til vinstri.

Græni liturinn er sá hlýjasti á myndinni, grátt og hvítt kaldara og appelsínugult og rautt er kaldast. Ég verð að játa að uppeldislegt gildi myndarinnar er ekki það besta vegna þess hversu flókið skýja- og lægðakerfið suður af Grænlandi er. Einhvern veginn geta vanir menn samt klínt einhverjum skilakerfum inn í súpuna - en ég er ekkert upprifinn yfir því. Þó súpan sé þykk má samt greina tvo skýjasveipi, þeir eru merktir B1 og B2 og ofan við þá eru tvö háloftalægðardrög - óþægilega nærri hvort öðru. Auk þessa má sjá einhver brot úr heimskautaröstinni í skýjunum - en ógreinilega. Mælingar í dag sýndu mikið þrumuveður í rauðgulu klessunni austan við B1.

Ekki eru mjög mörg ár síðan tölvulíkön fóru að ná góðu taki á svona flóknum kerfum. Tökin í dag virðast allgóð - því til staðfestingar má skoða svonefndar gervi-gervihnattamyndir en þær eru reiknaðar út úr líkönunum (undarlegt - ekki satt). Þessar gervimyndir sýna í dag kerfi þar sem eitthvað ámóta kemur fram og á hinni raunverulegu mynd. Við skoðum svona myndir ekki að sinni en e.t.v. má einhvern tíma sýna þær sem dæmi.

Ef við horfum stíft á myndina má sjá lægð gærdagsins sem sveip við suðausturströnd Grænlands, sömuleiðis sjáum við nýtt skýjakerfi (rauðgular klessur) nærri New York á myndinni. Hvort þær tengjast laugardagslægðinni veit ég ekki ennþá.

Ég hef einnig merkt kuldapollinn Stóra-Bola II (S_B II) með miðju nærri suðurenda Baffinseyju. Hann hreyfist lítið sem ekki neitt. Hin myndin í dag á að sýna veldi hans vel. Henni er hnuplað af vef evrópsku reiknimiðstöðvarinnar eins og áður sagði. Hún sýnir hæð 500 hPa-flatarins á hádegi í dag (miðvikudag). Litirnir marka hita í 850 hPa-fletinum.

w-blogg100211-m2

Þessi mynd nær yfir meginhluta vesturhvels jarðar norðan hitabeltis, miðjuð á Norður-Ameríku. Við sjáum varla í Ísland við efsta jaðar myndarinnar og hún nær langt vestur á Kyrrahaf og suður til Suður-Ameríku. Kuldapollurinn Stóri-Boli II þarf enga sérmerkingu við sjáum helbláan kjarna hans í kringum Hudsonflóann. Hann stýrir vindum allt frá vesturströnd Bandaríkjanna norður til norðurskauts og austur að vesturströndum Evrópu.

Í dag sjást að minnsta kosti fimm bylgjur á leið í kringum kjarna pollsins. Sú sem fylgdi illviðri gærdagsins er ómerkt við Suður-Grænland. Hún verður trömpuð til bana á morgun af sameinuðum bylgjum B1 og B2 í illviðri því sem gengur yfir síðdegis á fimmtudag og aðfaranótt föstudags. Þetta eru sömu bylgjurnar og þær sem við merktum á gervihnattamyndinni.

Bylgja B3 er ekki mjög greinileg en er þarna samt - eins og við sáum á gerfihnattarmyndinni sem skýjakerfi yfir New York, skýin eru við austurjaðar bylgjunnar. Hún sést mun betur á því samblandi þykktar- og hæðarkorta sem við höfum skoðað að undanförnu.

Bylgja B4 olli í dag (fimmtudag) mjög skæðu hríðarveðri í Bandaríkjunum. Veðurbloggarinn góði, Jeff Masters, fjallar um veðrið undir fyrirsögninni: Winter storm dumps 2 feet of snow on Oklahoma, Arkansas. Blogg Jeffs er eitt það besta í veðurbransanum með ótal fróðleiksmolum inn á milli greina um veður dagsins.

Við sjáum að allar þessar bylgjur eru mjög stuttar og hreyfast því hratt til austurs og síðan norðausturs í kringum stóru bylgjuna, Stóra-Bola II, sem nær yfir um 140 lengdarstig. Hringurinn er 360 stig og bolabylgjan er meir en þriðjungur hringsins að lengd, e.t.v. bylgjutala 3 við 50 gráður norðlægrar breiddar.

Ég veit ekki hver örlög B3 og B4 verða, það verður bara að sýna sig. Sömuleiðis verður að sýna sig hvort bylgjan stóra suður af Alaska muni þrengja sér í gegnum hæðarhrygginn mikla vestan Klettafjalla og sparka í kvið Stóra-Bola þannig að hann hristi sig, hreyfist eða lendi í alvarlegum veikindum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 1771
  • Frá upphafi: 2348649

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1551
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband