Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Leifar fellibylja við Ísland

Fyrir um 30 árum kannaði ég tíðni tjónaveðra tengdum fellibyljaleifum við Ísland. Um niðurstöður þeirrar könnunar má lesa í tuttugu ára gamalli grein í Náttúrufræðingnum (aðgengileg gegnum timarit.is). Mér finnst greinin reyndar úrelt þannig að ég er ekki með tengil á hana hér. Þeir sem engu að síður vilja finna hana geta fundið tilvísun í lok þessa pistils.  

Nú er ítarleg skrá yfir fellibylji á Atlantshafi aðgengileg á heimasíðu bandarísku fellibyljastofnunarinnar, National Hurricane Center. Skráin er ekki stór (1,1mb) en talsvert pillerí er að fara í gegnum hana til að finna þá fellibylji sem okkur varða. Ég hef gert það og borið saman við hérlenda atburði.

Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir en gróflega má segja að leifar um 35 fellibylja hafi, síðan 1874 valdið einhverjum atburðum hér á landi. Oftast er um minniháttar foktjón að ræða, sem tilviljun ræður. Stundum hafa þó orðið stórfelldir skaðar, t.d. eins og árið 1900 og fjallað var um hér í fyrri pistli. Í stöku tilviki eru það vatnavextir og úrfelli sem er óvenjulegt, eins og t.d. 17. september 2008 þegar úrkomumet voru slegin (fellibylurinn Ike) eða 27. ágúst 1927 þegar lægsti loftþrýstingur í ágúst á landinu mældist í Hólum í Hornafirði, 960,9 hPa.

Í ágústveðrinu 1927 fór lægðin yfir landið suðaustanvert og í kjölfarið fylgdi mjög hvöss norðanátt með miklu hreti og varð flekkótt af snjó sums staðar á Vestfjörðum og í útsveitum á Norðurlandi. Helsta tjón: Bryggjur brotnuðu í sjávargangi á Siglufirði, síldveiðiskipin misstu báta. Norskt skip fórst á Grímseyjarsundi. Þetta voru leifar fyrsta fellibyls ársins, hann var nafnlaus.

Í fellibyljaskrá NHC er getið 435 fellibylja sem komust alla leið norður fyrir 45. breiddargráðu eða svo 1874 til 2008. Líkur eru á að einhverja vanti í skrána.

Trausti Jónsson (1990), Fellibyljir. Náttúrufræðingurinn 60 (2), bls. 57-68

 

Nýrri fróðleik minn um fellibylji almennt má sjá á vef Veðurstofunnar, fróðleikspistlarnir fellibyljir, sjö stúfar um fellibylji, tengillinn er á þann númer 7. Auðvelt á að vera að finna hina.


Meira um skaðaveðrið 20. september 1900

Fyrir nokkru fjallaði ég um lægsta loftþrýsting sem mælst hefur á Íslandi í september. Það var þegar leifar fellibyls skutust sunnan úr höfum til Íslands. Einar Sveinbjörnsson fjallar nú um fellibylinn Igor og möguleika hans á að komast úr fellibyljaham sínum yfir í lægðahaminn. Svo vill til að skilyrðin fyrir 110 árum voru nákvæmlega þau sem Einar lýsir. Mjög hlýtt loft gekk fyrir krassandi djúpan kuldapoll við Suður-Grænland. Þetta má sjá á veðurkortum dagana 19. og 20. september árið 1900. Í fyrra bloggi nefndi ég fellibylinn Boða, til að kalla hann eitthvað. Hann var alla vega annar fellibylur þess hausts og hefði nú fengið upphafsstafinn B.  

 r20thc_19-09-1900-12_1000

Kortið sýnir þrýstifar yfir Norður-Atlantshafi um hádegi 19. september 1900, daginn áður en veðrið skall á. Þeir sem eru veðurkortavanir ættu að átta sig á þessu korti. Lægðasvæði er á Grænlandshafi og norðan við Ísland. Austur af Nýfundnalandi er lægðarmiðja, leifar fellibylsins Boða, en eitthvað af honum situr einnig eftir sunnan Nýfundnalands. Tölurnar eru hæð 1000 hPa flatarins, þar sem línan núll liggur er þrýstingur 1000 hPa, síðan eru línur fyrir hverja 40 metra, en það samsvarar 5 hPa. Lægðin Boði er því um 1000 hPa í lægðarmiðju samkvæmt þessari greiningu.

 r20thc_20-09-1900-12_1000

Þetta kort sýnir að Boði dýpkaði um nærri 50 hPa á einum sólarhring, greiningin fer nokkuð nærri um það og staðsetningin er rétt. En kortið sýnir veðrið um hádegi 20. september. Algengt er að svona grófar greiningar nái ekki versta vindsveipnum inni við lægðarmiðjuna og þannig er það á kortinu. Innsta línan sem við sjáum er 955 hPa jafnþrýstilínan (-360 metrar).

Kortin eru fengin úr 20-aldar endurgreiningu bandarísku veðurstofunnar. Þau skána aðeins ef smellt er á þau með músinni.

Helsta tjón í veðrinu var þetta:

Tuttugu og átta fórust (og einn lést síðar af áverkum), bátur barónsins á Hvítárvöllum fórst og með honum tveir menn. Mest manntjón varð við Arnarfjörð þar fórust nokkrir bátar, 17 sjómenn drukknuðu. Tvö börn á bænum Rauðuvík við Eyjafjörð börðust til bana þegar íbúðarhúsið fauk.    

 

 

Timburhús á Hillum á Árskógsströnd fauk, ný kirkja á Borgarfirði eystra fauk, sömuleiðis kirkjur á Ufsum og Urðum í Svarvaðardal og brotnuðu í spón, kirkjan á Völlum skaddaðist. Kirkjan á Möðruvöllum skekktist. Mikið tjón varð á skipum á Akureyrarpolli og þar urðu miklar skemmdir. Tveir færeyskir sjómenn fórust á Seyðisfirði er þrjú skip sleit þar upp. Skip slitnuðu einnig upp á Vestfjörðum og miklar skemmdir í höfnum, fimm skip rak á land í Skutulsfirði, þar af voru tvö gufuskip. Maður varð undir bát sem fauk í Arnardal við Ísafjörð og lést hann af sárum, maður fauk og slasaðist illa í Siglufirði.    

 

Þök tók af húsum, m.a. í Skutulsfirði, baðstofa fauk að Tindum í Tungusveit á Ströndum, hús rauf í Byrgisvík. Þak tók af steiníbúðarhúsi á Stóruvöllum í Bárðardal, og hreinsaðist allt timbur innan úr húsinu. Þak tók af góðtemplarahúsinu á Borgarfirði eystra. Tvö bæjarhús fuku á Reykjaströnd, víða í Skagafirði skemmdust bæir og peningshús og bátar brotnuðu, baðstofa fauk á Hólkoti í Sæmundarhlíð, heyhlaða fauk á Sjávarborg, brú á Héraðsvötnum vestri fauk út í buskann. Flutningabát sleit upp á Sauðárkróki og brotnaði hann. Skip löskuðust og eitt sökk á Reykjavíkurhöfn.  

Skriðuföll urðu í ofsaregni á Ísafirði (stór hluti Eyrarhlíðar hljóp fram), Súgandafirði og Önundarfirði. Á Hesti í Önundarfirði drápust 9 kindur sem urðu fyrir skriðu, engjar spilltust á nokkrum bæjum í nágrenninu.

Veður þetta er eitt hið versta sem vitað er um hér á landi í september. Önnur ámóta eru: Veðrið 15.-16. september 1936 þegar franska hafrannsóknaskipið Pourquoi Pas? fórst við Mýrar og stórkostlegt tjón varð víða um land. Gríðarlegt tjón varð þegar leifar fellibylsins Ellenar náðu til Íslands 23. til 24, september 1973. Litlu minni veður gerði 11. september 1884 og 12. til 13. september 1906. Síðastnefnda veðrið átti einnig uppruna sinn í fellibyl sem kom sunnan úr höfum. Nokkur ofsafengin norðanveður hefur einnig gert í september, en látum þau bíða betri tíma.

 

 

 


Árstíðasveifla hafíss

Nú virðist hafísinn í norðurhöfum vera í lágmarki þannig að ekki er úr vegi að troða inn lítilsháttar fróðleik honum tengdan Fyrir um 10 dögum virtist lágmarkinu náð, en svo mikið er af þunnum í N-Íshafi að vindar náðu að hreinsa þá aukningu aftur burt um tíma. En nýmyndun er byrjuð.  

Lágmarkið í ár mun hafa orðið það þriðja minnsta síðan samanburðarhæfar mælingar hófust 1979. Útbreiðslan fer á hverjum vetri upp í 13 til 15 milljónir ferkílómetra. Í meðalárferði er sumarlágmarkið um 7 milljónir ferkílómetrar en á síðari árum hefur það farið niður fyrir 5 milljónir og þannig var það nú.  

Helmingur vetraríssins eða meira bráðnar á hverju sumri. Gamall ís er því í minnihluta og sagt er að hlutur hans hafi aldrei verið minni en nú. Á vetrum þekur ísinn stóran hluta innhafa norðurhvels þó sjór sé auður norður með Noregi öllum og allt til Svalbarða. Straumar og ríkjandi vindáttir verða til þess að við vestanvert Atlantshaf nær innhafaísinn suður á Lárentsflóa við Kanada og til Norður-Japan vestast í Kyrrahafi.  

Á suðurhveli er árstíðasveiflan enn stærri. Meðalútbreiðsla á vetrum er þar milli 15 og 16 milljónir ferkílómetra en fer niður í 2 til 3 milljónir á sumrin. Þar nær samfelld ísþekja á vetrum norður undir 60°S, en á sumrin fer hann lítið norður fyrir 70°S. Hámarkið er nærri jafndægrum á vori (september á suðurhveli), en lágmark við jafndægur að hausti (mars á suðurhveli).  

Hafísinn í suðurhöfum hefur lítið aðhald, vindur er sífellt að mynda vakir í honum og eru þær fljótar að frjósa á vetrarhelmingi ársins. Hann breiðir því mjög fljótt úr sér, gjarnan um 2,5 milljón ferkílómetra á mánuði. Þegar kemur fram yfir sólstöður hægir heldur á nýmyndun, en hún heldur þó áfram og er samtals um 4 milljónir ferkílómetra síðustu tvo mánuðina fyrir jafndægur. 

Síðustu árin hefur hafís verið heldur meiri í í suðurhöfum en meðaltalið segir til um, sérstaklega á haustin og fram að árstíðarhámarki útbreiðslunnar. Ég veit ekki með vissu hver skýringin er, margt kemur þó til greina. Hafi vestanvindabelti suðurhvels t.d. þokast til suðurs á kostnað austanvindanna næst Suðurskautslandinu veldur það aukinni dreifingu íssins og stuðlar þannig að aukinni nýmyndun. Rekstefna hafíss er til vinstri við vindáttina á suðurhveli. Meira er þá af opnum í ísnum til að frjósa meðan sól er lægst á lofti. Ástæða hniks vestanvindabeltisins gæti verið hlýnun jarðar á síðustu árum. Fleiri skýringar koma til greina, sjálfsagt er einhver þeirra líklegri en sú sem ég nefni.

Á norðurhveli er vöxturinn líka langákafastur að hausti, frá miðjum október fram að sólstöðum, jafnvel er aukningin yfir 4 milljónir ferkílómetra í nóvember einum. En land takmarkar talsvert útbreiðslu íssins þannig að tiltölulega minna myndast af ís síðustu tvo mánuði fyrir vorjafndægur heldur en á suðurhveli. Síðustu tvo mánuði fyrir jafndægur bætast aðeins 2 til 3 milljónir ferkílómetra við ísþekjuna en á suðurhveli er viðbótin kringum 4 milljónir eins og áður sagði.  

Fyrir rúmum 150 árum þótti vísindamönnum ótrúlegt að hafís gæti náð mjög langt út frá ströndum eyja og meginlanda. T.d. var sú skoðun ríkjandi að ef ekki væri land við norðurskautið væri þar enginn ís. Margir leiðangrar fóru því inn í ísinn með það fyrir augum að komast í gegnum hann og í auðan sjó fyrir norðan. Nú vitum við að þetta var tálsýn.  

Hið eiginlega N-Íshaf milli Grænlands og Kanada annars vegar og Síberíu er hins vegar þakið ís mestallt árið. Á síðustu árum, hafa stór svæði þó orðið alveg íslaus seint á sumrin og siglingar óvenjugreiðar bæði meðfram Síberíuströndum og það sem óvenjulegra er, einnig á milli kanadísku heimskautaeyjanna. Rétt er þó að benda á að þótt leiðirnar hafi opnast er það aðeins í fáeinar vikur á ári. Norðvesturleiðin norðan við Kanada er sérstaklega erfið því þar er ekki langt í þann gamla ís sem enn er í Íshafinu og getur hann rekið inn í sundin. Ef það gerist gætu liðið nokkur ár þar til leiðin opnaðist aftur jafnvel þótt ís héldi áfram að minnka annars staðar í Íshafinu.  

Enn skal minnt á að útbreiðslutölur hafíss eru tvenns konar: Annars vegar greinir gervihnöttur ísútbreiðsluna sjálfvirkt og sér ekki mun á auðum sjó og ís sem þakinn er vatni (e. ice area = ísflatarmál), hins vegar er reiknuð heildarútbreiðsla þar sem reynt er að hafa síðarnefndu svæðin með (e. ice extent = ísútbreiðsla).


Skaflarnir í Skarðsheiði

Fyrir 44 árum, um miðjan september 1966, var ég ungur maður í vegavinnu skammt frá Valbjarnarvöllum í Borgarfirði. Verið var að leggja nýjan veg í gegnum holt og mýrar. Þetta var á þeim tíma sem manni þótti landslag fallegra sem skorið var af snyrtilegum skurðum og beinum veglínum heldur enn hið náttúrulega. Ekki löngu síðar skipti ég um skoðun en man samt þá fyrri sem ekkert allt of þægilega bernskuminningu. En þetta er útúrdúr.

Það var aðallega gott veður þessa daga og Skarðsheiðin blasti við í öllu sínu veldi. Úr holtinu sá ég aðeins fjóra skafla í Heiðinni, sjálfsagt hafa einhverjir til viðbótar leynst í skuggasælum austurgiljum Skessuhorns. Ég ákvað að festa þessa mynd í huga mínum og töluna fjórir. Það sem mér þótti merkilegt við skaflana var að þeir voru ekki hvítir heldur grásvartir, ís þakinn möl og sandi.

Ekki datt mér í hug að 44 ár ættu eftir að líða þar til ég sæi ámóta lítinn snjó á þessum stað. Ég hef fylgst með Skarðsheiðinni á hverju ári síðan, ekki nema á stangli skráð í (vondum) myndum en alltaf borið saman við september 1966. Nú er ástandið svipað, skaflarnir eru minni en alltaf síðan og reyndar er ég ekki frá því að þeir séu nú heldur minni en 1966. En þeir eru ekki eins svartir og þá.

Að undanförnu hefur ekki gefið mjög vel til myndatöku úr fjarlægð, í dag var t.d. talsvert mistur þó bjart væri í lofti að öðru leyti. Ég gerði tilraun til myndatöku frá svipuðum slóðum og ég var staddur á 1966 en hún tókst ekki. En tækifærið mátti ekki alveg líða hjá og því fékk ég hjálparmann á Hvanneyri, Borgar Bragason til að ganga út fyrir og smella nokkrum myndum af fjallinu. Það skal tekið fram að hér eru myndirnar rýrðar - nokkuð langt frá fullri upplausn.

 

IMG_3247-1

Þessi mynd sýnir tvo meginskafla í austurhluta Skarðsheiðar (og örþunnan fyrsta snjó haustsins á brúninni). Ekki sést af myndinni hvort skaflinn til hægri hefur í raun slitnað í sundur eða þá að svarta röndin sé grjóthrun frá liðnum áratugum, svipað og ég sá 1966. Það upplýsist vonandi þegar ég skoða myndina í betri upplausn sem og fleiri myndir sem Borgar tók fyrir um viku er hann hljóp upp á Skessuhorn.

 IMG_3246-1

Hér má sjá Skessuhorn til vinstri og skaflinn í Skessusæti rétt til vinstri við miðja mynd. Skaflinn situr í raunverulegu sæti sem ísavirkni óratíma hefur búið til og líkist jökulbóli. Kannski lá smájökull einhvern tíma í bólinu. Skessan í sætinu.

Ég reyndi talsvert á sínum tíma til að fá upplýst hvort snjórinn í heiðinni hefði horfið haustið 1941 en enginn hefur með vissu getað upplýst mig um hvort svo hafi verið. Sjálfur hef ég vel séð á fyrri sumrum (þegar sjónin var betri) að kjarni skaflanna er úr ís, blágrænum eins og í jöklum. Ekki hef ég burði til að giska á aldur íssins, en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að hann sé ekki nema nokkurra áratuga gamall.

Í ferðabók Eggerts og Bjarna er talað um jökulmyndun í Heiðinni ofan Mófellsstaða um 1750. Ég er ekki með þann texta mér við hlið svo ég sleppi því að ræða hann frekar. En þetta er engu að síður merkileg stund fyrir nördið í mér og vonandi fleiri slík.


Lágmarkshiti allra stöðva í september

Fyrst búið er að birta hér lista um hæsta hámarkshita í september og mestu sólarhringsúrkomu er við hæfi að bæta lágmarkshitanum við. Sem fyrr ná töflurnar aftur til 1924 og mælitímabili mönnuðu stöðvanna er skipt í tvennt, 1961 til 2009 og 1924 til 1960. Sjálfvirku stöðvarnar eru í belg og biðu. Þeim sem opna excel-skjalið er auðvitað í lófa lagið að raða stöðvunum í stafrófsröð eða þá eftir lágmörkunum sjálfum til nánari skoðunar.

Í töflunum kemur í ljós að frost hefur mælst á öllum mönnuðum stöðvum í september sé litið á töflurnar saman. Fáeinar sjálfvirkar stöðvar eiga enn eftir að mæla frost, en langflestar þeirra byrjuðu á þessu ári, þannig að það er ekkert að marka. Margar þeirra slá met á hverjum degi í þessu væga kuldakasti sem nú gengur yfir.

Tvær sjálfvirkar stöðvar hafa þó starfað í meir en 10 ár án þess að hafa mælt frost. Það eru Papey, Seley, Vattarnes og Hvalnes. Á öllum þessum stöðvum er úthafsloftslag hvað mest á Íslandi. Á Straumnesvita hefur hiti farið niður í frostmark, en ekki neðar. Sú stöð er þó erfið, mikið vantar af athugunum, hugsanlega er frost í september þar á meðal.

Á mönnuðu stöðvunum eru septemberlok 1975 og 1969 áberandi sem mikil kuldaköst. Í eldri listanum er það kastið seint í september 1954 áberandi. Fleiri köst má einnig sjá.

Enn nær listinn ekki til tímans fyrir 1923 en unnið er að undirbúningi hans. Meðal eldri meta má nefna -11,2 stig í Grímsey 21. sept. 1911, ekki er víst að metið það standist nánari skoðun, sama má segja um -10,5 stig á Raufarhöfn 18. sept. 1892.

Flest lágmarksmetin eru eins og vænta má sett á síðustu dögum mánaðarins enda eru þeir kaldastir að meðaltali. Í fyrra og hitteðfyrra (2009 og 2008) komu mjög snörp kuldaköst snemma í október og voru dagamet slegin. Hvað verður nú?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikil úrkoma norðaustanlands

Þegar upp var staðið í morgun kom í ljós að úrkoma norðaustanlands var óvenju mikil síðasta sólarhring, svo mikil að met voru slegin. Eins og venjulega bendi ég á umfjöllun Sigurðar Þórs Guðjónssonar en því til viðbótar eru hér upplýsingar um eldri met á þeim stöðvum á Norðausturlandi sem enn eru í rekstri.

Dálkarnir eru: Stöðvarnúmer, ársmet (mm), hvaða ár, hvenær úrk.mæling byrjar og loks nafn stöðvar.

 Stöðvarnr      ársmet(mm) metár   stöð byrjar        nafn

40086,419941990 Sauðanesviti
406123,019881987 Kálfsárkot
40957,320041969 Tjörn
41292,719951995 Hrísey
42048,120041997 Auðnir
42291,819461928 Akureyri
42536,320012000 Torfur
42735,220071997 Gullbrekka
43765,720041997 Þverá í Dalsmynni
44863,919951979 Lerkihlíð
46258,819732001 Mýri
46340,720051990 Svartárkot
46852,720061936 Reykjahlíð
47398,519711961 Staðarhóll
47965,219631956 Mánárbakki/Máná
49542,620011934 Grímsstaðir

 

Hér er einnig tengill á mánaðamet september til þessa á öllum stöðvum, gömlum og nýjum. Listinn er í tvennu lagi, annars vegar tímabilið 1961 til 2009, en hins vegar eru eldri mælingar. Þarna má sjá nákvæmar dagsetningar metanna. Ítrekað er að listinn nær eingöngu til septembermánaðar en taflan hér að ofan til alls ársins.

Skoða má úrkomu liðins sólarhrings á korti á vef Veðurstofunnar. Sú siða er framleidd á morgnanna og endurnýjuð eftir því sem fleiri stöðvar bætast við all fram yfir kl. 17. Athugið sérstaklega að oft þarf að styðja á ctrl + f5 á lyklaborði tölvunnar til að allar innkomnar tölur birtist á kortinu, stundum birtist það fyrst ranglega fullt af plúsmerkjum sem tákna að athugun hafi ekki borist. Einhver villa er á korti dagsins því hæsta talan á því (94,6 mm) er rituð við stöðina á Auðnum í Öxnadal en ekki Hrísey. Málið verður kannað betur.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fáeinar staðreyndir um borgarís

Það er í september, að jafnaði, sem flestar tilkynningar um borgarís berast Veðurstofunni. Myndin (ég er ekki alveg búinn að ná tökum á myndafræði bloggsins) á að sýna fjölda tilkynninga alls í mánuði hverjum frá 1984 til 2006. Sjá má að langflestar eru þær í september og litlu færri í ágúst. Einhver raunveruleiki er á bakvið þessa mynd.

borgaris_arstid

Líklega á allur borgarís hér við land uppruna sinn í jöklum á Norðaustur-Grænlandi. Mun meira myndast þó af borgarís við Vestur-Grænland.

Jöklar A-Grænlands ganga flestir í sjó í fjarðarbotnum og er ekki alltaf greið leið fyrir þá á haf út. Bæði eru þeir svo djúpskreiðir að þeir stranda utarlega í fjörðunum sem þar að auki eru frosnir mikinn hluta ársins. Á Austurströnd Grænlands liggur lína milli kelfandi skriðjökla og þeirra sem bráðna mest að neðan, frosnir inni á fjörðum, nú nærri 77°N (Reeh, 2004). Þessi mörk virðast færast til við langtímabreytingar á veðurlagi og færist þau norðar við hlýnandi veðurlag gætu jöklarnir norðan þeirra farið að kelfa og aukið framboð á borgarís í Austur-Grænlandsstraumnum. Við kólnandi veðurlag myndu mörkin færast sunnar og framboð borgaríss minnka. Þegar borgarísinn kemst á haf út lendir hann oftast í rekís sem heldur að honum.

Svo virðist sem borgarís berist ekki síður til Íslands þegar hafísútbreiðsla er lítil en þegar hún er mikil. Vindur hefur lítil sem engin áhrif á hreyfistefnu borgaríss heldur hreyfist hann með straumi.   Á yfirborði Grænlandsjökuls bráðna um 300 rúmkílómetrar af ís árlega (Reeh, 2004), auk þess losnar hann við mikinn jökulís (rúmlega 260 rúmkílómetra) í formi kelfingar á borgarís þar sem skriðjöklar ná til sjávar. Ef jökull gengur í sjó er talað um að hann kelfi (kastar af sér borgarís – e. calving). Um 35 rúmkílómetrar bráðna neðan af jöklum sem eru lokaðir inni á fjörðum, en kelfa lítið sem ekkert. Alls rýrnar Grænlandsjökull um í kringum 600 rúmkílómetra á ári, álíka bætist á hann en mælingar þykja benda til þess að rýrnunin hafi aukist meira en ákoma á síðustu 15 árum. Það væri í samræmi við hitaþróun á svæðinu.   

 

Mælt er með greininni:Reeh, N. (2004). Holocene climate and fjord glaciations in Northeast Greenland: implications for IRD deposition in the North Atlantic. Sedimentary GeologyVolume 165, Issues 3-4, 15 March 2004, Pages 333-342

 


Septembermet (þetta efni endist og endist)

Sumri hallar og í morgunsárið munu margir nú sjá hvíta fjallakolla. Héðan frá Reykjavík séð var efsti hluti Skarðsheiðar vel hvítur um miðjan dag í dag (mánudag) og mér sýndist að kollur Esjunnar væri grár (en ég sé ekki mjög vel). Kalda loftið er þó ekki mjög kalt enda komið úr vestri en ekki norðri. Norðanáttin næstu daga er heldur hlýrri þó um síðir valdi hún trúlega næturfrosti víða um land.

Þegar þetta er skrifað (rétt eftir miðnætti) virðist ekki ómögulegt að það verði ekki bara fjallakollar sem verða hvítir á þriðjudagsmorgunn heldur gæti líka snjóað niður í byggð þar sem illa stendur á. En komi snjór hverfur hann nær samstundis.

En veðurspáin er ekki aðalefni þessa pistils heldur snjóamet septembermánaðar. Mesta snjódýpt sem mæld hefur verið á veðurstöð í september er 55 cm. Það var á Sandhaugum í Bárðardal 24. dag mánaðarins árið 1975, það var rigningahaustið mikla í Vestur-Noregi þar sem ég var þá staddur.

Mesta snjódýpt í september í Reykjavík var 8 cm, það var 30. dag mánaðarins árið 1969. Þá var ég fastur í skafli norður í Langadal í Húnavatnssýslu, ég og aðrir farþegar í Norðurleiðarútunni hörfuðum um síðir í skjól á Hótelinu á Blönduósi í blindhríð og frosti.

Fyrst er vitað um alhvíta jörð í Reykjavík að hausti þann 9. dag september 1926, mikið rigningasumar sunnanlands og vont haust um land allt. Það varð þó varla nema rúmlega grátt í rót á athugunartíma.

Því miður er heldur óljóst með fyrsta hvíta dag hausts á Akureyri, en um þann heiður keppa reyndar 7. og 10. september 1940. Það sumar var umhleypingasamt og slæmt um mestallt land, innan um  gæðasumur þeirra tíma. Tíð batnaði mjög um miðjan október þetta haust - meir um það síðar?

Á Akureyri er í eldri heimildum vitað um hvíta jörð í ágúst, en það var fyrir tíma Veðurstofunnar. Ef til vill má líta á það mál síðar. Sömuleiðis er í eldri heimildum nokkrum sinnum getið um alhvíta septemberjörð í Reykjavík, en ekki fyrir þann 9. Misminni mitt rámar þó í dagbókarfærslu frá Álftanesi um 1820 en þar sem ég finn hana ekki er viðbúið að hún sé bara ímyndun. Hins vegar er það ekki misminni að ég sá sjálfur alhvíta jörð í Reykjavík snemma að morgni 14. september 1979, en hann var horfinn á athugunartíma. Þá festust bílar í snjó við Búðardal í Dalasýslu.


Ísinn á norðurslóðum nálgast árlegt útbreiðslulágmark

Útbreiðsla hafíss á norðurslóðum er venjulega í lágmarki í september. Stundum er það snemma í mánuðinum að lægstu útbreiðslu ársins er náð en fyrir hefur komið að það hefur dregist allt til mánaðamóta september/október.

Hægt er að fylgjast með útbreiðslunni frá degi til dags á nokkrum vefsíðum. Vinsælastar eru síðurnar Cryosphere today (freðhvolfið um þessar mundir) og síða bandarísku snjó- og ísstofnunarinnar (nsidc). Á síðarnefndu síðunni er fjallað um ísútbreiðsluna í alllöngum texta sem endurnýjaður er einu sinni til tvisvar í mánuði og er það fróðleg lesning.

Á línuritum beggja aðila má sjá að stutt mun nú í lágmark þessa árs, 2010. Því er jafnvel náð í dag, en vindáttir í Íshafinu geta þó tafið það í nokkra daga, sérstaklega þar sem allstór hluti íssins sem lifir sumarið af er mjög þunnur. Svo virðist sem lágmarkið í ár verði það þriðja lægsta sem um getur síðan gervihnattamælingar hófust 1979. Samt er rétt að fullyrða ekkert um það fyrr en ísinn er greinilega farinn að vaxa aftur.

Benda verður á að tölur þær sem sjá má á þessum tveimur vefsíðum eru ekki alveg sambærilegar. Annars vegar greinir gervihnöttur ísútbreiðsluna sjálfvirkt og sér ekki mun á auðum sjó og ís sem þakinn er vatni (e. ice area = ísflatarmál), hins vegar er reiknuð heildarútbreiðsla þar sem reynt er að hafa síðarnefndu svæðin með (e. ice extent = ísútbreiðsla). Á þessum tíma árs er mikill munur á þessum tveimur framsetningarháttum og er svo einnig nú. Freðhvolfið segir flatarmálið um 3,1 milljón ferkílómetra, en nsidc segir útbreiðsluna rúmlega 5 milljónir ferkílómetra.

Ekki er gott að greina af orðanna hljóðan (e. extent eða area, ísl. útbreiðsla eða flatarmál) hvort er hvað. Ég þarf alla vega mjög að gæta mín, þótt ég viti af þessum mikla mun.  

Á vetrum er munurinn miklu minni á aðferðunum tveimur. Þeir sem fylgjast reglulega með ísútbreiðslu ættu að hafa þetta í huga svo komist verði hjá misskilningi.

Listi yfir hámarkshita á veðurstöðvum í september

Fyrir nokkru gaf ég í skyn að fljótlega yrði til listi yfir hæsta hita sem mælst hefur á veðurstöðvum í september. Hér reyni ég að hengja við excel-skjal með slíkum lista. Listarnir eru þrír og koma í belg og biðu hver niður undan öðrum:

1. Sá fyrsti sýnir hæsta hita á mönnuðum stöðvum á tímabilinu 1961-2009, metin 10 frá því á dögunum eru ekki með. Dálkarnir eru stöðvarnúmer, ártal sem sýnir hvert er elsta árið í listanum fyrir viðkomandi stöð, ártal sem sýnir síðasta ár sem er með. Þessi dálkur sýnir hvenær síðast var athugað í september á stöðinni. Síðan koma upplýsingar um ár og dagsetningu metsins (mánuður er alltaf september), síðan metið sjálft og nafn stöðvarinnar.

2. Hæsti hiti á mönnuðum stöðvum 1924 til 1960. Alveg sömu dálkar.

3. Hæsti hiti á sjálfvirkum stöðvum 1994 til 2010. Hér eru nýju metin með. Athuga ber þó að fáeinar stöðvar eru innan við eins árs gamlar og hæsta hámark í núverandi september verður þá einnig met, þannig met er auðvitað marklítið. Næstsíðasta stóra hlýindakast í september var 2002. Yngri met eru því ekki mjög marktæk hafi stöðin byrjað eftir september 2002.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1752
  • Frá upphafi: 2348630

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1533
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband