Um meðalvindhraða á Akureyri

Við lítum nú á vindhraðamælingar á Akureyri - aðeins ársmeðaltöl. Þau getum við reiknað aftur til 1936 og til okkar daga. 

Meðalvindhraði á Akureyri 1936 til 2016

Lárétti ásinn sýnir árin - sá lóðrétti ársmeðalvindhraðann í metrum á sekúndu. Þrepin sýna ársgildin, rauða línan er 7-árakeðja, en sú græna sýnir ársmeðalvindhraðann á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbraut. 

Enginn vindhraðamælir var á stöðinni þar til 1964. Athuganir voru við símstöðina fram til 1943 en þá tók lögreglan við athugunum, fyrst við Smáragötu - heimilisfangi síðan breytt í Glerárgötu (án flutnings), en 1968 var flutt í Þórunnarstrætið þar sem athugað hefur verið síðan. 

Vindhraði virðist hafa aukist heldur eftir að vindhraðamælirinn var settur upp (ekki þó alveg strax að sjá á þessu línuriti) - síðan var hann breytilegur frá ári til árs eins og eðlilegt er þar til 2005 - en þá var skipt um mæli- og mæligerð. Mikið þrep er þá í röðinni. 

Það er ljóst að hún er lituð af mælum. Það er almenn reynsla að logn var oftalið fyrir tíma vindhraðamæla, en að öðru leyti er samræmis að vænta milli sjónmats og mælinga. Þetta á ábyggilega við Akureyri þar sem logn var stundum algengasti vindhraði ársins í athugun á árum áður. 

Við skulum athuga hvernig meðalvindhraða á Akureyri ber saman við meðalvindhraða á landinu öllu. 

Ársmeðalvindhraði á landinu og á Akureyri

Þessi mynd sýnir slíkan samanburð. Akureyrarvindhraðinn er á lárétta ásnum, en landsmeðalvindhraðinn á þeim lóðrétta. Punktar raðast lengst af snyrtilega í kringum aðfallslínu sem sýnd er með bláum strikum. Fylgni há. - Nema hvað punktarnir fara upp fyrir línuna á síðari árum (rauður hringur) - fylgja ekki langtímaaðfallinu. En þegar búið verður að athuga á þennan hátt í lengri tíma (verði það gert) kemur ef til vill í ljós nýtt aðfall - líka snyrtilegt, en ekki alveg á sama stað og það eldra. 

En þetta er ekki alveg öll sagan.

Stormdagafjöldi á Akureyri

Síðasta mynd dagsins sýnir stormdagafjölda á Akureyri - það er fjöldi daga á ári þegar vindhraði fer að minnsta kosti einu sinni (í 10-mínútur) yfir 20 m/s. Meðaltalið fyrir vindhraðamæli er á bilinu 1 til 2 dagar á ári. Þá verður mikið stökk - alveg um leið og mælirinn mætir - en síðan dregur hægt úr. Svo sýnist sem aðaltoppurinn sé meðan mælirinn var við Smára-/Glerárgötu - en heldur hafi dregið úr eftir flutninginn til Þórunnarstrætis. - Svo dregur úr - og klippist af að mestu eftir að breytt var til 2005. - Jú stormdagar eru ívið fleiri við Krossanesbrautina eftir 2005 heldur en við Þórunnarstrætið, en ekki samt svo mjög - ekkert afturhvarf til fyrri tíðar. 

Trúlega hafa stormar verið frekar vantaldir á Akureyri á fyrri tíð - mikil illviðri þar í sveit eru gjarnan einhver skammvinn ofsaskot sem vilja týnast milli athugana - enda eru athugunarmenn í bæjum gjarnan uppteknir innivið - ekki hægt að ætlast til þess að þeir grípi allt - . Menn missa síður af slíku til sveita þar sem útivera er meiri og tengsl við vinda meiri og samfelldari. 

Nú má geta þess að aðaltoppurinn á línuritinu er býsna nærri dvalartíma ritstjóra hungurdiska á staðnum - lesendur eru þó fullvissaðir um að engin tengsl eru þar á milli. En - honum (ritstjóranum) þótti Akureyri mun vindasamari heldur en sögur hermdu og oft lenti hann þar í miklum vindi. Kannski þessi ár hafi bara einfaldlega verið afbrigðileg við Pollinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 1794
  • Frá upphafi: 2348672

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1572
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband