Fárviðrið 21. janúar 1925

Nú er komið að síðasta pistlinum í reykjavíkurfárviðraröðinni. Fjallar hann um sunnanveðrið mikla þann 21. janúar 1925. - Veturinn 1924 til 1925 var skakviðrasamur, en samt kaflaskiptur. Milli jóla- og nýárs varð töluvert sjávarflóð nyrðra og eystra og í snjóþungum febrúarmánuði gerði hið fræga Halaveður. Síðari hluti janúarmánaðar einkenndist hins vegar af miklum sunnanáttum og hlýindum. 

Slide1

Pistill í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 22. janúar segir frá veðrinu í Reykjavík og nágrenni daginn áður. Víðar varð þó tjón, bæði vegna veðurofsa sem og sjávarflóðs.

Slide2

Tveimur dögum áður, þann 19., var líka sunnanstormur. Staðan ætti nú að vera orðin föstum lesendum þessara fárviðrapistla kunnugleg. Djúp og hægfara lægð við Suður-Grænland veldur illviðri hér á landi en dælir jafnframt jökulköldu lofti frá Kanada út yfir Atlantshaf til móts við lægð- eða lægðarbylgju suður- eða suðaustur af Nýfundnalandi. Nýja lægðin er rétt í jaðri þessa korts sem sýnir stöðuna um hádegi þann 19. Jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins eru sýndar á kortinu sem er fengið úr bandarísku c20v2-endurgreiningunni. Línurnar eru dregnar með 40 metra bili en það jafngildir 5 hPa. Gríðarmikil hæð er yfir Norðursjó.

Slide3

Staðan í 500 hPa fletinum er enn skýrari. Heimskautaröstin liggur um kortið þvert, sunnan við Nýfundnaland, sveigir norður til Íslands og þaðan austur til Norður-Noregs.

Slide4

Daginn eftir er nýja lægðin að komast í ham langt suður í hafi - og stefnir til norðurs. Hæðin yfir Evrópu náði nú 1051 hPa í miðju (við vitum ekki hvort greiningin er rétt). 

Slide5

Svo má sjá kortið sjálfan illviðrisdaginn. Lægðin er ekkert ofboðslega djúp - sé að marka greininguna - við vitum þó af almennri reynslu að það gæti hæglega munað 10 til 20 hPa á raunveruleikanum og henni. Vindhraðinn bendir til þess að svo sé. Þrýstingur yfir landinu er þó nærri lagi. 

Slide6

Með samanburði við 500 hPa kortið á sama tíma erum við varla í vafa um að þetta er svonefnt hárastarveður - það kæmi enn betur í ljós ef við létum eftir okkur að reikna þykktarmynstrið og bera það saman við háloftakortið. 

Slide7

Veðrið var hluti af nokkurra daga illviðrasyrpu. Loftþrýstingur var á mikilli hreyfingu og fór hver lægðin á fætur annarri hjá landinu. Þrýstiritið í Reykjavík á myndinni hér að ofan nær yfir hálfan mánuð, efra blaðið frá þeim 12. til 19. janúar, en það síðara frá 19. til 26. Fyrsta lægðin - sú sem fór hjá þann 13. og 14. var stærri um sig en hinar og fylgdi norðanátt henni. - Illviðri þeirra sem síðan fylgdu voru af suðlægum og vestlægum áttum.  

Slide8

Klippa úr veðurbók Reykjavíkur hér að ofan færir okkur athuganir kl.12 og 17 dagana 14. til 25. janúar og sýnir auk þess veðurtáknmálsfærslur (sem fjallað var lítillega um í síðasta pistli). Á þeim má sjá að vindur náði stormstyrk (9 vindstigum) þann 15., 17., 18., 19. 20. og loks 21., bókstafurinn „p“ táknar eftir hádegi, „a“ hins vegar fyrir hádegi og „n“ nóttina. Við sjáum líka að athugunarmenn hafa séð norðurljós að kvöldi 14., 16., 17., 21. og 23. (kórónutákn). Þess er sérstaklega getið að vindur hafi talist 12 vindstig um kl.14 þann 21. 

Slide9

Hér er önnur síða sömu bókar og sýnir athuganir kl. 21 (síðasta athugun dagsins) auk dagssamantektarinnar þar sem er listi um hámarks- og lágmarkshita, úrkomumagn og snjóhulu. Sjór er lítill, mest 5 cm þann 18. Snjóhula er táknuð með 0 eða rómverskum tölum, I til IV, þar sem IV er alhvítt. Ísþykktar á Reykjavíkurtjörn er einnig getið - hún er þó ekki mæld daglega. Við þann 21. er eftirfarandi athugasemd: „Fád. rok (fárv.) þá braut upp ísinn á tjörninni að 2/3 hlutum að „hólma““. 

Í þessu veðri verð víða mikið tjón - bæði af völdum vinds og sjávargangs. Vegna þess að loftþrýstingur var ekki mjög lágur þar sem sjávarflóðin urðu gæti stærð þeirra vakið nokkra furðu. Þetta þýðir einfaldlega að enn stærri flóða er að vænta í framtíðinni þegar svipaðar vindaðstæður koma upp í enn lægri loftþrýstingi.

Listinn hér að neðan sýnir það tjón sem getið var um í blöðum: 

Víða skemmdust hús og önnur mannvirki og skip og bátar brotnuðu inni í höfnum. Þök fuku af fjórum húsum í Reykjavík og þremur í Hafnarfirði, þar varð einnig tjón í höfninni. Skúrar brotnuðu, þakhellur tók af Alþingishúsinu. Fjöldi girðinga brotnaði. Tvo báta sleit upp á Reykjavíkurhöfn, rak þá að Örfirisey þar sem þeir sködduðust nokkuð. Gríðarmiklar skemmdir urðu á síma og raflínum, þar á meðal innanbæjar í Reykjavík. Skemmdir urðu við Loftskeytastöðina.

Þök fuku af hlöðum og húsum á Skeiðum, Grímsnesi, Hrunamannahreppi og einnig austur í Rangárvallasýslu. Foktjón varð einnig á Stokkseyri, heyhlaða fauk á Holti, hlaða í Vorsabæ og sömuleiðis á Brúnavöllum. Í Grímsnesi fauk heyhlaða og baðstofuþak á Miðengi og fjós og hlaða í Hraunkoti. Símaskemmdir urðu á þessum slóðum. Hlöður fuku í Varmadal og á Geldingalæk í Rangárvallasýslu. Í Herdísarvík fuku svo að segja bæjarhúsin öll nema baðstofan, geymsluhús tók upp í heilu lagi og skall á fjósi.

Þök fuku á Kjalarnesi, í Kjós og í Mosfellssveit. Þak rauf á íbúðarhúsi í Saurbæ á Kjalarnesi og þak tók af hlöðu á Tinnastöðum. Þak fauk af íbúðarhúsi á Kársnesi í Kjós svo fólk varð að flýja húsið. Þak rauf af hlöðu á Hálsi og brotnaði á annarri. Járnþak fauk af hlöðu á Hurðarbaki. Nokkrar járnplötur fuku af húsum á Akranesi, en skaðar ekki taldir verulegir.

Skaðar urðu einnig í Borgarfirði, hlaða fauk á Miðfossum og skólahúsið á Hvanneyri skemmdist eitthvað. Þak fauk af fjárhúsi í Álftártungu. Skemmdir urðu í Borgarnesi, en ekki taldar stórvægilegar, þó reif þök af húsum til hálfs og plötur brutu rúður og karma. Hálft þak tók af sláturhúsi Sláturfélags Borgfirðinga, einn maður slasaðist þegar brotin rúða fauk á hann. Þök og fleira fauk einnig á sunnanverðu Snæfellsnesi, t.d. í Mýrdal í Hnappadal, og á Hjarðarfelli.

Á Ísafirði, í Hnífsdal og Álftafirði brotnuðu 6 bátar. Smíðahús fauk í heilu lagi í Hnífsdal, fjöldi smáskemmda varð á Ísafirði. Skaðar urðu á Akureyri og í Eyjafirði og einnig eitthvað á Austfjörðum. Að sögn Íslendings brotnuðu gluggar víða á Akureyri, bátar fuku og skemmdust. Veðrið var síðar á ferð fyrir norðan en syðra. Hús rofið og úr lagi gengið í Papey. Símastaurar brotnuðu í Hornafirði, í Lóni, Fagradal í Vopnafirði og víðar eystra. [Sagt er (Austurglugginn 20.9. 2009) að kirkjan í Möðrudal hafi fokið 1925 - þetta er líklegasta veðrið, en hafa má auga með frekari upplýsingum]

Mestar skemmdir urðu þó af völdum sjávargangs við suðurströndina. 

Sjór braut og eyddi sjávarvörnum við Stokkseyri, Eyrarbakka og Grindavík, gekk langt upp á land og gerði þar mikið tjón (talið um 120 þúsund krónur á landinu öllu) og bátar brotnuðu. Tvær eða þrjár jarðir í Járngerðarstaðahverfi taldar að mestu eyðilagaðar auk túnbletta og matjurtagarða. Eitt íbúðarhús í Grindavík eyðilagðist algjörlega og annað skemmdist stórkostlega - sagt vera um 150 metra frá venjulegu stórstraumsflóðmáli, bjarga varð fólki á bátum. Sjór gekk í fjölda kjallara og eyðilagði allt sem í þeim var. Sjórinn braut 12 saltskúra og eyðilagði það sem í þeim var. Fjöldi fjár drukknaði bæði í húsum og á fjörum.

Tvö hús á Eyrarbakka eyðilögðust og mikill skaði varð á jörðum. Stokkseyrarsjógarðurinn brotnaði allur meira og minna frá Stokkseyri og vestur að Hraunsá. Alls skemmdist garðurinn á 4 km svæði. Bjarga tókst hagapeningi vegna þess að þetta gerðist um miðjan dag. Fólk flúði úr húsum undan sjóganginum. Flóðið gekk upp undir tún á Syðra-Seli. Skemmdir urðu þó ekki á húsum nema á rjómabússkálanum á Baugsstöðum. Öll hús við sjó í Selvogi eyðilögðust í briminu.

Sjór gekk í baðstofu sem stóð 200 m frá sjó í Herdísarvík áður en veðrið þar varð hvað mest. Fólk flúði hana - ekki urðu þarna skemmdir á landi né tjón á fénaði. Sjávarflóð nokkuð gerði í Vík í Mýrdal - en án tjóns.

Mikil leysing varð á Akureyri svo lækir runnu eftir götum, bæði Torfunes- og Gillækirnir hlupu úr farvegum sínum, brutu brýrnar og gerðu spjöll á eignum. Höphnersverslun varð fyrir búsifjum af Gillæknum er vatn flóði inn í vörugeymsluhús og Torfuneslækurinn hljóp í nokkra kjallara og skemmdi vörur. (Íslendingur)

Eins og áður sagði er þetta síðasti Reykjavíkurfárviðrapistillinn en í þeim hefur verið fjallað um illviðri sem náð hafa fárviðrisstyrk í reykvískum veðurbókum - 12 stigum eftir ýmist nýrri eða fyrri gerð Beaufort-vindkvarðans. Fyrir þennan tíma (1925) var sá kvarði ekki notaður upp í 12 stig í athugunum í Reykjavík. Skortur var þó ekki á fárviðrum í þann tíma. 

Næst verður snúið til Akureyrar og rifjuð upp veður tengd 12-vindstigatilvikum þar á bæ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 359
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 1933
  • Frá upphafi: 2350560

Annað

  • Innlit í dag: 276
  • Innlit sl. viku: 1725
  • Gestir í dag: 262
  • IP-tölur í dag: 260

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband