Fárviðrið 29. janúar 1966

Þessi pistill er í flokknum fárviðri á veðurstöðinni í Reykjavík og er nú farið rétt rúm 50 ár aftur í tímann og janúarveðrið mikla 1966 rifjað upp. 

Janúar 1966 var óvenjulegur, alveg tvískiptur að veðurlagi. Fyrri hlutinn var lengst af hlýr - jafnvel óvenjuhlýr, en sá síðari aftur á móti sérlega nítjándualdarlegur í kulda og illsku sem náði hámarki í miklu norðaustanveðri sem stóð í marga daga í lok mánaðar. 

Slide1

Í Reykjavík er veðrið gjarnan kennt við bílaumboðið Heklu - en þak af húsi þess fauk af í heilu lagi ofan í portið sunnan þess. Myndin sýnir baksíðu Vísis mánudaginn 31. janúar 1966 (af timarit.is). Trúlega muna allmargir enn eftir þessu. Ritstjóri hungurdiska var unglingur í Borgarnesi og man vel eftir veðrinu, en það var þó ekki sérlega slæmt þar - norðaustanveður af þessari gerð valda þar sjaldan tjóni - kemur þó fyrir. 

Á Akureyri fauk hins vegar mestallt þak af prentsmiðju Odds Björnssonar - og olli tjóni. Þetta er þó ekki aðalfoktjónsáttin á Akureyri - og ekki varð ofboðslega hvasst á veðurstöðinni þar - sem þá var í Smáragötu. Greinilega eitthvað sjaldgæft á ferð - en þó var enn um þetta veður talað á Akureyri þegar ritstjórinn hóf dvöl sína þar skömmu síðar - en það tal þurrkaðist nokkuð út eftir svonefnt Linduveður 1969. 

w-blogg141016b

Eins og áður sagði stóð veðrið í marga daga. Það má glögglega sjá af línuritinu sem sýnir þrýstispönn yfir landið síðustu viku janúarmánaðar 1966. Ef við þekkum vindáttina má slá á vindhraða. Illviðrið þann 26. kemur fram sem óttalegur dvergur miðað við það stóra sem byrjar að gæta undir kvöld þann 27., jókst jafnt og þétt allan þann 28 og náði hámarki að morgni þess 29. - síðan dró hægt úr, en var ekki orðið gott fyrr en undir kvöld þann 31. (Eftir það hvessti hins vegar aftur - en það er önnur saga). Segja má að veðrið hafi staðið í nærri því fjóra sólarhringa. 

Slide2

Fyrsta kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 27. Þá voru allmiklir vindstrengir bæði fyrir norðan og sunnan land - ákveðin og ört vaxandi norðaustanátt á landinu. Gríðarkalt er við Norðaustur-Grænland, meir en -30 stiga frost í 850 hPa-fletinum. Kortið er úr safni japönsku endurgreiningarinnar jra-55. 

Slide3

Hér má sjá háloftakort síðdegis þennan sama dag. Hér verður að benda sérstaklega á að nokkuð ákveðin suðvestanátt er í háloftunum norðan Íslands - yfir þeirri hvössu norðaustanátt sem þar er við sjávarmál. - Þetta köllum við öfugsniða (heitir „reverse shear“ á alþjóðatungu). Öfugsniðalægðir eru í sérstöku uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska - og nokkrar slíkar mynduðust á svæðinu dagana áður og komu ungum veðurspírum á óvart. - Ein þessara lægða náði að snúa upp á sig að mestu og var þegar hér er komið sögu fyrir sunnan land - mjög sterkur vindstrengur norðan við lægðina - en nær engin vestanátt sunnan við.

Háloftakortið sýnir svo einnig mjög hlýtt loft sem leitar til norðausturs vestur af Bretlandseyjum. Þar er venjulegri lægð sem dýpkaði og nálgaðist svo landið. 

Slide4

Á þessum árum birti Morgunblaðið veðurkort reglulega - mjög uppfræðandi fyrir þá sem reglulega fylgdust með. Birting þeirra hætti upp úr því að veðurfregnir tóku að birtast í sjónvarpi 1967. Hér er kort sem kom í sunnudagsblaðinu 30. janúar og sýndi stöðuna snemma að morgni laugardags þess 29. Knútur Knudsen teiknaði kortið. 

Við getum séð af línuritinu að um þetta leyti var þrýstibratti nærri hámarki. Lægðin er rétt um 960 hPa í miðju, en hæðin yfir Grænlandi meiri en 1040 hPa - meir en 80 hPa á milli og þar af meir en 30 í kippu yfir Íslandi. 

Slide5

Japanska endurgreiningin er nokkuð sammála - nema hvað hin eilífu veikindi flestra tölvulíkana varðandi hæðina yfir Grænlandi koma vel fram. Hér er hún sett í 1066 hPa - ætli rétt gildi eigi ekki að vera tæplega 1050 hPa. Þetta er reyndar einkum snyrtifræðilegt (kosmetískt) atriði - það er ekkert sjávarmál yfir Grænlandsjökli og það loft sem þessum mikla þrýstingi er að valda er ekki til - og líkönin vita það. En þetta er samt truflandi fyrir augað. 

Hörkufrost var í upphafi veðursins, víða meir en 10 stig - en linaðist nokkuð er á leið. 

Slide6

Eðli veðursins kemur alveg sérlega vel fram á háloftakortinu sem gildir á sama tíma og sjávarmálskortið að ofan, um hádegi laugardaginn 29. janúar. Sáralítill vindur er í 5 km hæð og þá af suðsuðaustri, yfir norðaustanfárviðrinu. Við sjáum að yfir landinu er hins vegar gríðarlegur þykktarbratti sem býr fárviðrið til. Hlýtt loft úr suðri þrengir að kalda loftinu - en Grænland heldur á móti - stífla myndast og kalda loftið leitar út í gegnum þrengslin. 

Stífluveðrin eru langt í frá öll eins þótt vindhámark (lágröst) neðarlega í veðrahvolfi einkenni þau. Þessi ætt á drjúgan hluta af slæmum norðaustanillviðrum hér á landi. - Þykktarbrattann mikla eiga þau sameiginlegan. - Þetta dæmi er sérlega „fallegt“ og stílhreint.

Slide7

Myndin sýnir hluta af vindriti frá Reykjavíkurflugvelli 29. janúar. Þar má sjá skrifað að vindmælir hafi bilað um stund - gæti hafa leitt út vegna seltu (?). Veðrið varð verst um klukkan 10 um morguninn og komst 10-mínútna meðalvindhraði þá upp í 36,6 m/s - og náði aftur fárviðrisstyrk í kringum kl.12. Vindátt var af norðnorðaustri. Frostið var í kringum -6 stig um sama leyti og vindurinn var mestur, en eftir klukkan 15 fór að hlýna og frostlaust var orðið um kvöldið - vindur varð þá örlítið austlægari.

Daginn eftir var frostlaust í Reykjavík - en vindur rauk upp öðru hverju - eins og alengt er í „Esjuskjólinu“.  

Slide8

Á þrýstiritinu frá Reykjavík má sjá töluverðan óróleika um það leyti sem veðrið var verst - en samt má taka eftir því að hér vottar lítið fyrir þeim stórgerðu bylgjum sem sáust svo vel á þrýstiritinu sem fylgdi pistlinum um fárviðrið 29. apríl 1972. Ritstjórinn ímyndar sér að það stafi af ólíku eðli þessara veðra - þar kom háloftavindröst við sögu - en ekki hér. 

Þetta veður er einkennilega líkt öðru veðri sem gerði nánast sömu daga 85 árum áður, 1881 og er kennt við póstflutningaskipið Phönix sem þá fórst við Skógarnes á Snæfellsnesi. Frostharka var þó meiri það sinnið. 

En lítum á helsta tjón í þessu eftirminnilega veðri:

Fárviðrið olli gríðarlegum skemmdum í flestum landshlutum og er eitt versta norðaustanveður sem vitað er um. Þök og þakplötur fuku víða og rúður brotnuðu. Nokkrir menn slösuðust. Gríðarlegt tjón varð á rafmagns- og símalínum vegna ofsaveðurs og ísingar og selta olli miklum rafmagnstruflunum. Óvenjuleg var ísing og slit á raflínum vegna særoks á Suðurnesjum. Mjög víða var rafmagns- og símasambandslaust dögum saman. Fólk varð sums staðar að grafa sig út úr húsum vegna snjóþyngsla.

Miklar skemmdir urðu í Reykjavík, þak Hekluhússins við Suðurlandsbraut fauk af í heilu lagi, miklar þakskemmdir urðu á Héðinshúsinu. Skúr fauk við Árbæjarsafn. Tvær flugvélar fuku á Reykjavíkurflugvelli, járnplötur fuku af fjölmörgum húsum í bænum, togari slitnaði upp á sundunum.

Tuttugu járnplötur tók af húsi á Akranesi. Allt járn fauk af íbúðarhúsi á Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd, þak fauk af fjárhúsi á Svarfhóli í Svínadal. Kerra fauk ofan á ökumann dráttarvélar við Sandlæk í Gnúpverjahreppi, maðurinn slasaðist illa.

Miklar skemmdir urðu í Staðarsveit, nýtt fjárhús fauk í Lýsudal, hlöðuþök fuku á Görðum, í Hoftúni og Kirkjuhóli, þak af viðbyggingu í Böðvarsholti og margar plötur fuku af Búðahóteli. Þak tók af íbúðarhúsi í Vatnsholti. Vörubifreið fauk við Garðaholt þar í sveit og fór margar veltur. Mikið tjón varð einnig í Breiðuvík, þök á íbúðar- og útihúsum á Syðri-Tungu stórskemmdust, þak tók af íbúðarhúsinu, vélageymslu og bílskúr á Knörr, geymsluskúr fauk á Malareyri og vöruflutningabifreið fauk við Miðhús.

Hluti af fjósþaki fauk í Fremri-Hundadal í Miðdölum og á Hvolsvöllum fauk þak af hlöðu. Mikið tjón varð í Saurbæ í Dölum, rúður brotnuðu í kaupfélagshúsinu á Skriðulandi og vörur fuku út í buskann, þakjárn tók þar af vöruskemmu, hlaða brotnaði í Stóra-Holti. Tveir vinnuskúrar rafmagnsveitunnar fuku í Ármúla og brakið lenti á íbúðarhúsinu, planki fór framhjá húsfreyju í eldhúsi og stakkst þar í vegg. Mikið fauk af þaki prestsetursins á Hvoli, þar fauk einnig bifreið og gjöreyðilagðist, þök tók af tveimur íbúðarhúsum í Hvítadal, allt járn fór af nýbyggðu fjósi í Litla-Múla og mikið af nýrri hlöðu, fjósi og fjárhúsum í Máskeldu. Mikið tjón varð þar einnig í Bessatungu járn fauk af íbúð, hlöðu og fjárhúsum og jeppi fauk niður fyrir tún.

Mikið tjón varð í Reykhólasveit, fjós og smíðastofa fuku á Laugalandi, þak af fjárhúsi á Svarfhóli og Gillastöðum, braggi fauk á Hafrafelli og þak af íbúðarhúsi á Hábæ. Þak fór af verslunarhúsi kaupfélagsins í Króksfjarðarnesi.

Gömul kirkja í Saurbæ á Rauðasandi fauk, hlaða fauk í Gröf þar í sveit og maður slasaðist, sömuleiðis fauk hlaða í Kirkjuhvammi, á Móbergi gereyðilögðust fjós og hlaða, fjölmargar rúður brotnuðu þar í íbúðarhúsi, veggfóður rifnaði af veggjum og loft rifnuðu. Víðar fuku hús og húshlutar. Mikið tjón varð á Patreksfirði og fuku þar skúrar og þök í heilu lagi auk þess sem járnplötur fuku af mörgum húsum á sjó út og rúður brotnuðu og hrökklaðist fólk úr tveimur húsum, mannlausan togara rak út á fjörðinn og breskur togari strandaði í innsiglingunni. Þak fauk af fjárhúsi og hlöðu á Fossi á Barðaströnd, þar fauk jeppi af vegi, bílstjórinn slasaðist, járn tók af þökum íbúðarhúss og útihúsum á Litlu-Hlíð og miklar skemmdir urðu í Hrísnesi. Bryggja skemmdist á Bíldudal og járn fauk af fiskverkunarhúsi og niðursuðuverksmiðju.

Bensínsöluskúr fauk á Hrafnseyri við Arnarfjörð, mikill hluti íbúðarhúsþaks á Brekku á Ingjaldssandi fauk, þar í sveit fauk hluti hlöðuþaks á Hrauni. Útihús á Tröð í Bjarnadal í Önundarfirði urðu illa úti. Hluti hlöðuþaks fauk í Bæjum á Snæfjallaströnd. Miklar fokskemmdir urðu í Nauteyrarhreppi, þak tók af íbúðarhúsi á Vonarlandi, þak af hlöðu í Ármúla og 100 ára gamalt bænahús á Melgraseyri fauk. Þak fauk af íbúðarhúsi á Borg í Skötufirði og mikið af þaki skólahúss í Reykjanesi.

Þak tók af íbúðarhúsi á Djúpavík, hlöðuhluti fauk í Naustavík og vélageymsla í Norðurfirði, fjós og hlaða fuku í Munaðarnesi og geymsluhjallur í Ingólfsfirði. Nokkrar járnplötur fuku af húsum á Hvammstanga. Á Skagaströnd fuku mörg hundruð járnplötur af húsum, rúður brotnuðu og þök tók af með sperrum og öllu. Bátur sökk í höfninni og mikið tjón varð á Síldarverksmiðjunni og allt þakið af Lifrarbræðslunni. Snjór safnaðist þar í fjölmörg íbúðarhús um brotnar rúður.

Mikið tjón varð á bænum Stapa í Lýtingsstaðahreppi, þar tók vegg úr fjárhúsi, gluggar og hurðir brotnuðu í fjósi, 11 kindur drápust og ein kýr, fjögurra tonna bíll fauk og sömuleiðis jeppi. Þak fauk af fjárhúshlöðu á Úlfsstöðum í Akrahreppi og skemmdir urðu á peningshúsum í Sólheimagerði.

Þök tóku ýmist af íbúðarhúsum eða gripahúsum í Stórholti, Hvammi, Berglandi, Stóru-Reykjum og Skeiðfossi. í Fljótum. Þar í sveit urðu einnig miklu fleiri skemmdir af völdum óveðursins. Hey tóku á tveim til þrem bæjum. Á Siglufirði varð fjöldi húsa fyrir skakkaföllum, bæði íbúðarhús og opinberar byggingar. Hús Síldarverksmiðjunnar skaddaðist mikið og stálþil í höfninni gliðnaði.

Á Akureyri fauk mestallt þak prentsmiðju Odds Björnssonar með sperrum og öllu og olli talsverðu tjóni í nágrenninu, sömuleiðis fauk af þaki Gagnfræðaskólahússins, geysileg ófærð var í bænum. Fjórir enskir togarar leituðu hafnar á Akureyri, nokkuð laskaðir. Á Grenivík fauk þak af íbúðarhúsi og hjuggu járnplötur raflínu í sundur, í Höfðahverfi tók járn og viði af gamalli hlöðu og járn af fjárhúsþaki, skaddaði það síma- og raflínur, verkfærageymsla fauk í Fagrabæ.

Minniháttar fokskemmdir urðu á Breiðdalsvík. Mjög miklar símabilanir urðu á Norðaustur- og Austurlandi og þorpin á Norðausturlandi urðu sambandslaus um hríð. Enskur togari var hætt kominn við Vestfirði og missti út mann.

Snjóflóð féll á býlið Reykjarhól í Austur-Fljótum og tók íbúðarhúsið af grunni og braut niður fjárhús. Tvær kindur drápust, en skaði varð ekki á fólki.

Skemmtileg (og óvenjuleg) grein birtist um veðrið í Vísi 26. febrúar - þar hefur verið talað við veðurfræðing um veðrið - en ekki kemur fram hver það er. Greinin er í viðhenginu (var nappað af timarit.is). 

Tólf ár voru liðin frá síðasta fárviðri á undan í Reykjavík - um það verður fjallað í næsta pistli í röðinni. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 516
  • Frá upphafi: 2343278

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband