Flóðaveðrið 15. til 20. október 1965

Víða á landinu er október úrkomusamasti mánuður ársins að meðaltali. Skemmtireikningar ritstjóra hungurdiska sýna 15. október sem úrkomuþrungnasta dag ársins á landinu að meðaltali (1949 til 2015) og 2. október í 2.sæti. 

Listi yfir flóð og skriðuföll í október er bæði langur og bólginn og nær til allra landshluta og margra gerða veðurs - af norðri, austri, suðri og suðvestri. Fer mjög eftir áttum og eðli veðranna hvort stórir landshlutar eða minni verða fyrir.

Hér verður ekki gerð nein tilraun til greiningar - aðeins rifjað upp eitt mjög mikið sunnanúrkomuveður frá því í október 1965. Ástæðan er einfaldlega sú að veðurlag þá minnir nokkuð á veðurlag þessa dagana - meira að segja mátti (með góðum vilja) tengja mestu úrkomugusuna við leifar fellibyls - sá hafði borið nafnið Elena. 

Október 1965 var mjög hlýr mánuður - eindregnar sunnanáttir ríktu mestallan mánuðinn. Mikið háþrýstisvæði var fyrir austan land - og lægðir gengu til norðurs fyrir vestan. Ekki hefur jafnhlýr eða hlýrri október komið síðan og er mánuðurinn í 6. sæti hlýrra októbermánaða - á landsvísu - og einnig mjög ofarlega á úrkomulistum. 

Lítum á kort japönsku endurgreiningarinnar frá því kl. 18 þriðjudaginn 19. október 1965. Þá hafði úrkoman reyndar staðið í nokkra daga og veðurstaðan verið nokkuð svipuð. 

w-blogg121016a

Mikil hæð yfir Norðursjó - gríðarleg sunnanátt yfir Íslandi - lægðabylgjur gengu svo ört yfir þessa daga að erfitt er að segja hver þeirra tengdist Elenu best.  

w-blogg121016b

Háloftakortið gildir morguninn eftir, kl.6 miðvikudag 20. október 1965. Sérlega hlýtt er yfir landinu - alveg við methlýindi ef trúa má greiningunni. Hiti komst í 18,9 stig á Garði í Kelduhverfi þann 19. - októberhitamet þar - einnig var sett októberhitamet á Raufarhöfn. 

Ekki varð mikið tjón af völdum vinds - þótt ritstjóranum sé særokið í Borgarnesi þessa daga einkar minnisstætt - en því meira af völdum vatnavaxta - enda stóð kastið í um það bil 5 daga. Þó er getið um eftirfarandi tjón af völdum vinds: 

Þann 18. eða 19. fuku járnplötur af húsum við Skjóltröð og Neðstutröð í Kópavogi, þar slitnaði upp bátur við höfnina. Vélbátur frá Siglufirði fórst út af Grindavík, mannbjörg varð naumlega. Þann 20. fauk þak af hænsnahúsi í Hnífsdal og drápust margar endur. Tvær bátskektur skemmdust einnig í Hnífsdal.

En vatnavaxtatjónið varð meira. Lítum á:

Miklar vegarskemmdir urðu í stórrigningum dagana 18. til 20. Ár flæddu yfir bakka sína og spilltu vegum, fjöldi skriða féll á vegi. Brúin á Jökulsá á Sólheimasandi brotnaði niður á kafla og varð ófær, Brúin á Múlakvísl skemmdist og V-Skaftafellssýsla einangraðist. Klifandi í Mýrdal og Skógaá undir Eyjafjöllum skemmdu einnig vegi. Eitt fet vantaðu upp á að vatn færi yfir Markarfljótsbrúna eða varnargarða við hana. Vatn rauf vegi við brýr við Njálsbúð og Álfhólahjáleigu í Landeyjum, sömuleiðis fór vegur í Fljótshlíð í sundur.

Hvítá í Borgarfirði gerði stórspjöll á vegum. Miklar skemmdir urðu við Reykjadalsá á Svínadal í Dölum. Skriða teppti veginn um Bröttubrekku. Hörðudalsá rauf Skógarstrandarveg á tveimur stöðum. Skriður féllu við Hvítanes í Hvalfirði og í Óshlíð og Eyrarhlíð við Ísafjörð. Vegir skemmdust í Hrútafirði og Hjaltadalsá braust yfir bakka sína og flæddi yfir nýræktarlönd á Hólum.

Þann 20. féll mikil skriða á bæinn Arnþórsholt í Lundareykjadal, skriðan braust inn á gólf í íbúðarhúsinu, eyðilagði fjárhúsin og dráttarvél.

Úrkoma sló októbermet allvíða - eða var mjög nærri því, m.a. mældist sólarhringsúrkoma á Hveravöllum 109,4 mm, það næstmesta allt mælitímabilið þar. 

Listi yfir heildarúrkomu þessa daga og sólarhringshámark er í viðhenginu. Þar skal sérstaklega bent á að úrkomumagn á stöðvunum við Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul er ekkert ofboðslegt miðað við það sem stundum gerist þar um slóðir - en samt verða þar þessir gríðarlegu vatnavextir. Þetta gæti bent til þess að úrkomumagnið hafi verið miklu meira uppi í fjöllunum - auk þess sem jökulís hefur bráðnað. Spurning hvað reiknilíkön nútímans hefðu gert við veðrið þessa daga. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1524
  • Frá upphafi: 2348769

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 1329
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband