Hlýtt sumar - á landsvísu

Þá er veðurstofusumarið liðið, en það nær yfir tímabilið júní til september ár hvert. Þar sem formlegra frétta af niðurstöðutölum er ekki að vænta frá Veðurstofunni fyrr en eftir helgi skulum við drepa tímann með því að líta á meðalhita í byggðum landsins í heild og bera hann saman við fyrri ár.

Taka verður fram að reikningarnir eru ekki opinber og vottuð niðurstaða - heldur ættaðir úr fiktskúffu ritstjóra hungurdiska. Ef aðrir reiknuðu dæmið fengju þeir eitthvað annað út. Einnig verður að veita því athygli að meðaltölin verða því óvissari sem lengra dregur aftur í tímann og sumarið raunar óvissara heldur en aðrir hlutar ársins vegna minni breytileika hitans. Því ber frekar að líta á línuritin sem skemmtiatriði heldur en naglfastan sannleika - sérstaklega á það við tímabilið fyrir 1874. 

w-blogg011016a

Hér má sjá ártöl á láréttum ás - en hita á þeim lóðrétta. Súlurnar sýna meðalhita hvers sumars, en rauða línan er tíu-ára keðja. Svo virðist sem hitinn þokist heldur upp á við í heildina litið, en auk breytileika frá ári til árs er áratugabreytileiki mikill. 

Við lifum nú greinilegt hlýsumraskeið - þótt sumarið 2016 sé ekki í hæstu hæðum er það þó í 11. sæti tímans frá og með 1874. Núverandi hlýskeið er þegar búið að sýna betra úthald heldur en helsti keppinauturinn - sérstaklega vegna þess að breytileikinn frá ári til árs virðist heldur minni en áður. Þótt munur á hlýjustu sumrum hlýskeiðanna tveggja sé í raun ómarktækur hefur samt ekkert sumar núverandi hlýskeiðs slegið þau gömlu alveg út af kortinu. 

Þótt við lifum nú gott hlýskeið - og allt hafi verið á uppleið segir mynd sem þessi ekkert um framtíðina - hún er alveg frjáls frá okkar ætlan. 

Í leiðinni skulum við líka líta á meðalhita fyrstu 9 mánaða ársins í byggðum landsins.

w-blogg011016b

Á þessari mynd má sjá að núverandi hlýskeið hefur slegið hið fyrra út - en enn er auðvitað óvíst með úthaldið. Hlýskeiðið um og fyrir miðja öldina síðustu átti betra úthald á öðrum tímum árs heldur en á sumrin - þau voru fljótari að gefa hlýindin eftir heldur en vetur, vor og haust. 

Fyrstu 9 mánuðir ársins 2016 eru á landsvísu í 17. sæti listans frá 1874. Hlýjastir voru mánuðirnir 9 árið 2003 sællar minningar - en kaldastir 1866 (ef við tökum mark á svo gömlum tölum). Mjög illa leit út í septemberlok 1979 - eiginlega blasti afturhvarf til 19. aldar - ef ekki eitthvað enn verra - við í hugum ungra veðurnörda. En síðustu þrír mánuðir ársins drógu aðeins úr kuldanum. - Hvað gerist nú? Hefur árið úthald í eitthvað hærra en 17. sætið? - Það er 0,1 stig upp í 15. sæti - en 0,1 stig niður á við er fall niður í 24. sæti. Það eru 0,3 stig upp í 10. sæti - en jafnlangt (í hita) er niður í 32. sæti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1794
  • Frá upphafi: 2348672

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1572
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband