Lágþrýstingur

Þessa dagana eru djúpar lægðir á sveimi í námunda við landið - en útlit fyrir að við sleppum samt furðuvel. Helst að hann rigni mikið í sumum landshlutum - en bara sumum. Það verður að teljast hlýtt - og munar það miklu hvað veður varðar. Svipuð staða veðurkerfa um hávetur getur verið mjög óhagstæð og erfið viðfangs - því þá er hiti nærri frostmarki á láglendi og snjór á heiðum.

En við lítum á norðurhvelsspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (11. september). 

w-blogg100916a

Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd, Ísland þar ekki langt fyrir neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari eru háloftavindar. Litirnir sýna þykkt - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og gulu litanna er við 5460 hPa.

Meðalþykkt í september hér á landi er 5400 metrar - á mörkum ljósasta græna litarins og þess í miðið (grænu litirnir eru þrír). Þeir sem stækka kortið munu sjá að sunnudagsþykktin verður ekki fjarri þeirri tölu. Mun hlýrra loft er fyrir sunnan land og beina vindar því til norðnorðausturs - aðallega framhjá landinu.

Þannig á það svo að ganga næstu vikuna að raunverulega kalt loft - það bláa - virðist ekki eiga að komast nærri okkur. - En það kemur auðvitað um síðir. 

Við sjáum að það er sérlega hlýtt í Evrópu, þykktin er meiri en 5640 metrar á stórum svæðum - alveg norður undir Danmörku - og þessi miklu hlýindi eiga eftir helgina að komast langt norður eftir Noregi, 5700 metra jafnþykktarlínan á jafnvel að komast norður á England á þriðjudaginn, en það er óvenjulegt í september og reyndar ekki svo venjulegt um hásumar heldur.

Kuldinn í Norður-Íshafi er nú aðallega vestanmegin - sérleg hlýindi ná langt norður fyrir Síberíu. Dekksti blái liturinn á þessu korti sýnir svæði þar sem þykktin er minni en 5100 metrar. Það er ívið kaldara en algengast er á þessum tíma árs - við getum sagt - svona gróflega - að þessi kuldapollur sé byrjunin á vetrinum. Fyrirferð bláu litanna fer nú vaxandi á næstu vikum - og þar með aukast líkur á því að þeir skjóti klóm sínum til okkar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 384
  • Sl. sólarhring: 508
  • Sl. viku: 1700
  • Frá upphafi: 2350169

Annað

  • Innlit í dag: 344
  • Innlit sl. viku: 1547
  • Gestir í dag: 334
  • IP-tölur í dag: 322

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband