Hæstu veðurstöðvar landsins - og smávegis meir

Þótt veðurathuganir á hálendi og fjöllum Íslands séu í mun betra horfi á síðustu árum en áður var eru hálendisstöðvar samt fáar miðað við heildarflatarmál hálendissvæða. Í tilefni af því að um miðjan júní var stöð komið fyrir ofarlega á Dyngjujökli skulum við líta á lista yfir þær stöðvar sem eiga einhverjar færslur í gagnagrunni Veðurstofunnar og eru í meir en 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Sumar þessara stöðvar athuguðu aðeins um skamma hríð og eru nú aflagðar.

Skylt er að geta þess að Raunvísindastofnun Háskólans (ritstjórinn hefur löngu týnt þræðinum í nafnabreytingum stofnana og deilda og biðst velvirðingar á því) hefur að sumarlagi rekið stöðvar víðs vegar á Vatnajökli - en þau gögn eru ekki í fórum Veðurstofunnar - en eru væntanlega í góðu lagi. Sömuleiðis hafa ýmsir framtakssamir aðilar aðrir rekið stöðvar á hálendi - og er það vel - en ekkert hefur ritstjórinn frétt af reglubundinni gagnasöfnun þeirra. 

nafnhæð yfir sjó  júlíhiti °C
Dyngjujökull1689  0,2
Gagnheiði949  3,7
Nýibær890 hætt 
Tindfjöll870 hætt 
Sauðahnjúkur855 hætt 
Brúarjökull845  2,5
Jökulháls825 hætt 
Sandbúðir820  6,8
Hágöngur819  7,6
Snæfellsskáli810 hætt 
Stórisandur797 hætt 
Sáta785  6,8
Skálafell771  6,8
Þverfjall753  5,6
Innri-Sauðá750  5,9
Brúaröræfi748  6,4
Jökulheimar726  6,9
Eyvindarstaðaheiði711 hætt 

Taflan sýnir nafn stöðvar, hæð yfir sjó og meðalhita í júlí 2016. Dyngjujökulsstöðin er ofarlega á jöklinum - ekki langt þar frá söðli þar sem fer að halla niður til Grímsvatna. Hún er langhæst stöðvanna hér að ofan - enda var þar langkaldast í nýliðnum júlí. Hafa verður þó í huga að uppsetning stöðvarinnar er ekki eftir almennum staðli. Skynjarar eru ekki í 2 metra hæð eins og forskrifað er heldur eru þeir nær „jörðu“, það er yfirborði jökulsins. Þessar sérstöku aðstæður valda því að erfitt er að bera hitann á stöðinni saman við hinar stöðvarnar af öryggi. 

En við tökum líka eftir því að kaldara er á Brúarjökli heldur en á Gagnheiði - þó Gagnheiðarstöðin sé 100 metrum hærra yfir sjó. Líklegasta skýringin er sú að á Brúarjökli fer mikil aðkomin orka í snjóbræðslu - yfirborðið verður varla nokkurn tíma heitara en 0 stig - það getur því ekki hitað loftið á sama veg og klappirnar á Gagnheiði gera. 

Aftur á móti er að tiltölu miklu kaldara á Gagnheiði heldur en t.d. í Sandbúðum - það munar meir en 3 stigum þótt hæðarmunurinn sé ekki nema rúmir 120 metrar. Að einhverju leyti kann þetta að stafa af áðurnefndri snjóbræðslu - en meiru munar þó væntanlega vegna tveggja annarra þátta. Annars vegar þokumyndun á Gagnheiði umfram Sandbúðir - þokan dregur úr upphitun sólar, en hins vegar því að stöðin á Gagnheiði er mun oftar í lofti á uppleið heldur en það loft sem um Sandbúðastöðina leikur - það er meira komið frá hlið.

Síðara atriðið á einkum við þegar einhver vindur er. Loft á uppleið kólnar alltaf - fjallatindar í vindi hafa því tilhneigingu til að vera kaldari heldur en slétta í sömu hæð - sömuleiðis í sólskini og hægum vindi. Aftur á móti er sléttan kaldari í hægum vindi þegar bjartviðri er - en sólaryls nýtur ekki - á nóttum að sumarlagi og oftast að vetrarlagi. 

Júlímeðaltalið á Dyngjujökli er það lægsta sem sést hefur á íslenskri veðurstöð, í hinum kalda júlí í fyrra (2015) var meðalhitinn á Gagnheiði ekki nema 1,6 stig (2,1 stigi lægra en nú). Það var þá lægsta júlímeðaltal sem sést hefur hér á landi. - En við vitum ekki hvað hæð mælisins yfir jökulyfirborðinu hefur lækkað meðalhitann í júlí á Dyngjujökli miðað við 2 metra staðal. - Við getum því varla að óathuguðu máli viðurkennt Dyngjujökulsjúlíhitann sem nýtt júlímet fyrir landið. Við getum það e.t.v. síðar ef það tekst að reka stöðina áfallalítið næstu árin. 

Það er líka athyglisvert að frá því að Dyngjujökulsstöðin byrjaði um miðjan júní hefur lágmarkssólarhringshiti hennar alltaf verið sá lægsti á landinu. - Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvenær dagar fara að detta út á þeim hreina metaferli. Kannski má líta á það sem einskonar haustmerki þegar að því kemur. Við vitum það þó varla - en vitum kannski eftir svosem eins og 7 til 10 ár.

Dyngjujökulsstöðin hefur líka sett fjölda landsdægurlágmarksmeta í sumar, 25 alls á 67 dögum. Þar á meðal er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí, -7,2 stig, en við látum samt vera að færa þessi met formlega til bókar.

Það hefur alltaf farið í fínu taugar ritstjórans (ef hægt er að segja slíkt um eitthvað sem er slitið og trosnað) þegar verið er að tíunda lágmarkshita í 3000 metra hæð á Grænlandsbungu (stöðinni sem nefnd er Summit) sem þann lægsta á norðurhveli í þessum mánuðinum eða hinum og sleppa þar með mun athyglisverðari tölum annarra stöðva í byggðum eða „venjulegum“ óbyggðum. Röðin frá Grænlandsbungu verður fyrst athyglisverð til samanburðar þegar stöðin hefur verið starfrækt um áratugaskeið. - Svo er spurning hvort allt sé með feldu á stöðinni - er hún sett upp samkvæmt stöðlum (vonandi)? - En það þýðir víst lítið að kveina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það gæti verið sniðugt ef að Trausti myndi sýna okkur MEÐAL-HITANN Í REYKJAVÍK frá árinu 1979-2016 í línuriti.

Hugsanlega gæti slíkt línurit gefið okkur raunsærri mynd af því hvort að meðalhitinn á jörðinni sé að hækka.

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2160421/

Jón Þórhallsson, 24.8.2016 kl. 10:19

2 identicon

Fróðlegt og athyglisvert. Getur þessi hái hiti við Hágöngur staðist þó hlýtt hafi verið í sumar?

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 25.8.2016 kl. 12:44

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Jón - línurit sem sýna meðalhita í Reykjavík eða öðrum stöðum landsins aftur í tímann hafa mjög oft birst á síðum hungurdiska. Í vor voru t.d. hugleiðingar í nokkrum pistlum um heimshita og hita hér á landi. Einn þeirra er þessi hér:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/2171719/

Fleiri línurit sem sýna hita munu birtast síðar.

Hjalti - Þessi hiti við Hágöngur í júlí er reyndar lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára og vikið þar er mjög svipað og á öðrum stöðvum í nágrenninu. Líklega er þetta því rétt.

Trausti Jónsson, 25.8.2016 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 22
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 513
  • Frá upphafi: 2343275

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband