Lofthiti, sjávarhiti

Hér við land er sjávarhiti að meðaltali hærri en lofthiti mestallt árið. Að sjálfsögðu bregður mjög út af einstaka daga og um skamma hríð yfir hásumarið er sjórinn við landið víðast hvar kaldari en loftið yfir honum og talsvert kaldari heldur en síðdegishiti inni í sveitum. Þetta kaldsjávartímabil er þó mislangt eftir landshlutum auk þess sem breytileiki er nokkur frá ári til árs.

Í síðustu pistlum var lítillega fjallað um langtímabreytingar sjávarhita hér við land. Nú skulum við kanna hvernig sjávarhiti og lofthiti hafa fylgst að við Norðurland síðan um 1880.

Fyrst er mynd sem sýnir ársmeðalhita í Grímsey aftur til 1874. 

w-blogg240716d

Eins og venjulega sýnir lárétti ásinn árin, en sá lóðrétti hitann. Nærri 6 stiga munur er á meðalhita kaldasta og hlýjasta ársins og sé leitni reiknuð kemur í ljós að ársmeðalhiti í Grímsey virðist hafa hækkað um nærri 2 stig á tímabilinu. 

Breytileikinn á 19. öld er eftirtektarverður og sömuleiðis virðist greinilegt að breytileiki frá ári til árs er mun meiri á köldum heldur en hlýjum skeiðum. 

Eins og fram kom í fyrri pistli hefur sjávarhitinn ekki hækkað alveg jafnmikið. Síðari myndin sýnir mismun sjávarhita fyrir Norðurlandi og ársmeðalhita í Grímsey. 

w-blogg240716e

Það er eftirtektarvert að munur á sjávar- og lofthita hefur farið minnkandi - hefur að jafnaði minnkað í kringum 0,5 stig. Ársmeðaltal sjávarhitans er alltaf hærra en lofthitans - hið ofurhlýja ár 2014 munaði þó ekki nema 0,3 stigum. 

Af þessu virðist mega ráða að sjórinn mildar mjög veðurfar hér á landi - og ekki síst á kuldaskeiðum. Trúlega hefur það alltaf verið þannig. En við getum líka farið að velta okkur upp úr fleiru. - Kuldi á sér fleiri en eina ástæðu. Við gætum gróflega talað um þrjár tegundir - ekki þó alveg ótengdar - (i) almenna kulda, (ii) norðanáttarkulda, og (iii) hafískulda. Fjallað hefur verið um kuldategundir þessar áður á hungurdiskum - og við teygjum ekki lopann frekar í þessum pistli.

Svo er það framtíðin? Ekkert vitum við um hana frekar en venjulega, en yrði það ekki að teljast töluverð veðurfarsbreyting ef sjórinn færi að halda hitanum á Íslandi niðri á ársgrundvelli (eins og við borð lá í Grímsey 2014)? Hvers konar veðurlag yrði það eiginlega? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segir Trausti, að sjórinn mildi mjög veðurfar hér á landi. Það má allt eins segja að hann kæli mjög veðurfarið. Það fyrrnefnda á þá við veturinn en hið síðara um sumarið. Þetta kallast víst eyjaloftslag ef ég man rétt. Meginlandsloftslag er það þegar sjórinn hefur lítil áhrif á veðurfar, eða svo segja menntaskólafræðin.
Það er auðvitað spurning hvort er betra og hvað fólki finnst. Persónulega vildi ég hafa meiri hita á sumrin og því má vera kaldara á veturna fyrir mér. Því get ég ekki tekið undir með þér um að sjórinn "mildi" veðurfarið hér á landi.
Ísland er ekki það norðarlega að ef hér væri ekki sjór allt í kringum landið þá ríkti hér heimskautakuldi. Við höfum Þrándheim sem dæmi um borg á sömu breiddargráðu og Reykjavík. Þar er oft kalt á vetrum en yfirleitt hlýtt á sumrin. Þannig væri eflaust einnig hér ef landið væri ekki eyja.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 25.7.2016 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 1787
  • Frá upphafi: 2348665

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1566
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband