Illviðrafjöldi - erfið tímaröð

Breytingar á illviðra- eða stormatíðni er eitt þeirra atriða sem mikið er í veðurfarsumræðunni. Í reynd er mjög erfitt að búa til áreiðanlegar tímarraðir sem sýna breytileika þessa veðurþáttar. Ritstjóri hungurdiska reynir mikið - og telur sig svosem hafa náð nokkrum árangri nokkra áratugi aftur í tímann - en þegar lengra er sótt verður ísinn mjög háll og erfiður yfirferðar. 

En við lítum til gamans á eina tilraunina. Taldir eru saman þeir dagar á ári þegar vindhraði hefur náð stormstyrk (meir en 20 m/s) á fjórðungi veðurstöðva eða meira. Þessi röð er nú í hættu vegna fækkunar mannaðra stöðva - en mjög góð von er þó til þess að splæsa megi hana saman við samsvarandi röð sem fæst úr sjálfvirku mælingunum (sem eru þrátt fyrir allt áreiðanlegri) - líta má á þann samanburð síðar (leyfi þrek ritstjórans það). 

En hér er mynd. Hún nær allt aftur til 1912. Taka verður fram að ekki er hægt að bera tölur fyrri hluta tímabilsins og þess síðari saman á jafnréttisgrundvelli.

stormdagafj_1912-2015a

En við setjum þetta samt svona upp okkur til skemmtunar. Góð vissa er fyrir því að sveiflurnar frá því um 1960 séu raunverulegar - lágmarkið þá er raunverulegt. Lágmarkið á þessari öld er það líka. Síðustu tvö árin hafa aftur á móti verið fremur illviðrasöm - en ná samt ekki hámarkinu mikla í kringum 1990. 

Trúlega eru dagarnir vantaldir fyrir 1955. Mikil skil eru í gögnum árið 1949. Fyrir þann tíma (bláu súlurnar) er trúlegt að margfalda þurfi dagafjöldann með tveimur til að raunhæfur samanburður fáist - og fyrir 1925 er mjög lítið á tölurnar að treysta. En við sjáum þó töluverðar sveiflur á þessu fyrra tímabili. Við höfum þó á þessu stigi enga hugmynd um hvort margföldunarstuðullinn er 2 - eða eitthvað annað. 

Það er ekki að sjá að beinlínis sé samband á milli illviðrafjölda og hita - en á áreiðanlega hluta línuritsins eru rólegustu tímabilin jafnframt þau hlýjustu. Aftur á móti er eitthvað samband á milli illviðratíðninnar og loftþrýstings - því lægri sem loftþrýstingurinn er því fleiri eru illviðrin (að jafnaði) - sömuleiðis fylgjast ársmeðalvindhraði, þrýstióróavísir og illviðratíðni líka allvel að - á áreiðanlega tímabilinu. 

Um þrýstióróa, meðalvindhraða og samband þeirra var fjallað í pistli 26. janúar síðastliðinn og öðrum daginn eftir - óróavísirinn fiskar þó sum illviðri betur en önnur - rétt eins og veiðarfæra er vísa. Það mál látum við liggja á milli hluta - eða bíða betri tíma. 

En í raun bendir ekkert til þess að hnattræn hlýnun hafi hingað til haft áhrif á stormatíðni hér á landi - en haldið verður áfram að rannsaka málið - kannski þangað til menn komast að því að allt er í voða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt. Ég er hissa á að leiðindaárið 1995 skuli ekki skora hærra. Annan eins vetur hefur maður ekki lifað á norðanverðu landinu, með illviðri og snjókomu svo vikum skipti frá janúar til mars. Restin af því ári hlýtur að hafi verið tiltölulega rólegur, fyrir utan illviðrakaflann seinast í október. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 16.3.2016 kl. 10:42

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvað minnið bregst manni! Ég man snjóavetur 1951 og sólar laust sumar 1969. Að öðru leyti hefur íslensk veðrátta farið mjúkum höndum um mig.

Ragnhildur Kolka, 16.3.2016 kl. 20:42

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Hjalti. Leiðindi eru misjöfn - 1995 var snjóa-, snjóflóða- og hríðarbyljaár. Verstu veðrin það árið koma vel fram á listunum - ef við aukum kröfur til þess að dagur komist með á listann hækkar 1995 í samanburðinum. - Mikið snjóaði 1951 - sérstaklega norðan- og austanlands og sumrið 1969 er í flokki leiðinlegra rigningasumra. 

Trausti Jónsson, 16.3.2016 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 516
  • Frá upphafi: 2343278

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband