Smánöldur vegna fellibyls

Fyrir nokkrum dögum myndaðist fellibylur suður af Asóreyjum og hlaut nafnið Alex. Þær fréttir berast út að hann sé sá fyrsti sem myndast á Atlantshafi í janúar síðan 1938 - og það var sá eini þangað til. Listinn sem vitnað er til nær aftur til 1851. Þótt bæði þessi veður (1-1938 og Alex nú) falli undir hefðbundnar skilgreiningar fellibyljamiðstöðvarinnar á fyrirbrigðinu (og hún neyðist því til þess að telja þau með í fellibyljaflokknum) er það að mati ritstjóra hungurdiska (og fleiri kverúlanta) afskaplega óheppilegt. - Þetta eru miklir talningaspillar og jafnvel ruglumræðuvaldar.

Fellibyljir eiga mismunandi uppruna - mismundandi ferli stuðla að myndun þeirra. Þegar aðvaranir takast á við hvern einstakan þeirra kann eðlisuppruninn að vera aukaatriði - á því byggja reglur og ákvörðun fellibyljamiðstöðvarinnar - hún er viðvaranastöð. Fyrir umræðu um veðurfar og veðurfarsbreytingar gegnir allt öðru máli - þar er mikilvægt að myndunarferlin séu aðskilin í tölulegum samantektum. Alls ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hnattræn hlýnun (eða ámóta breytingar) hafi sömu áhrif á hina mismunandi myndunarhætti fellibylja. Að telja Alex með í sömu hjörð og hina hreinræktuðu fellibylji hitabeltisins getur ekki verið eðlilegt og beinlínis ruglar umræðuna.

Það er síðan óvenjuleg kokhreysti að telja öruggt að allir kynbræður Alex síðan 1851 séu þekktir - og bróðirinn sé aðeins einn. Fellibyljamiðstöðin gerir það væntanlega ekki - segir aðeins að ekki séu fleiri á skrá. En - í kjölfarið fylgir skriða frétta um einstakan atburð. - Fyrir svo utan það að hvorki vindhraði né lágur loftþrýstingur Alex eru neitt til að gera veður út af á þessu svæði - að því leyti er þetta það sem kallað er „ekkifrétt“.

Talningarkerfi fellibyljamiðstöðvarinnar er einkennabyggt (morfólógiskt) en það sem ritstjóri hungurdiska vill heldur nota er upprunabyggt (ontogenískt). Einkennabyggð kerfi henta aðvörunum - en hin upprunabyggðu veðurfarsumræðunni.

Þetta er auðvitað algjört nöldur - og ritstjórinn greinilega kominn á nölduraldursstigið á þroskabrautinni. En - reynum að halda uppi ákveðnu hreinlæti í umræðunni.

Þeir sem vilja vita eitthvað meira um þetta geta reynt að finna búta úr bók sem heitir Hurricanes of the North Atlantic: Climate and Society eftir James B. Elsner og A. Birol Kara. Þar er ítarlega fjallað um upprunabyggða flokkun og dæmi gefin um áhrif slíkrar túlkunar á fellibyljasöguna. Bókin er að hluta til opin á vefnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Auðvitað er Alex einstakur ekkert líkur fellibyljum með konunöfnum,sem hafa valdið hörmungum t.d. í Filippseyjum og Indónesíu.Fávís um þessi fyrirbæri,varð mér um og ó þegar menn fóru að velta fyrir sér hugsanlegum flóðbylgjum hér af þeirra völdum.- En svo ólíkt veðravítinu,líkti fyrrverandi bankastjóri (BNA?) Alan Greenspan ástandinu á fjármálamörkuðum eftir alheimskreppuna 2008,að hún væri Tsunami-risaflóðbylgja. Ætti ég val kysi ég hana fremur!! Ætlaði alltaf að óska þér Gleðlegs Nýárs! 

Helga Kristjánsdóttir, 17.1.2016 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 41
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 532
  • Frá upphafi: 2343294

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 484
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband