Aðalkuldinn er hinumegin

Þó hiti sé nú í meðallagi (þriðjudag 10. nóvember) og muni trúlega heldur lækka áfram næstu daga er hinn eiginlegi vetur varla kominn á okkar slóðir. Það er auðvitað tilviljun - því hann er þarna einhvers staðar - og gæti þess vegna verið hér. Hann er heldur ekki endilega lengi á leiðinni - fái hann tækifæri til. 

Fyrra kortið sem við lítum á í dag sýnir veðrahvolfsástandið á norðurslóðum - eins og bandaríska veðurstofan segir það verða síðdegis á fimmtudaginn 12. nóvember.

w-blogg111115a

Ísland er alveg neðst á þessu korti, en norðurskautið rétt ofan miðju. Kaldir, bláir litir eru nærri einráðir - eins og vera ber þegar komið er fram í nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - en þykktin er sýnd í litum. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - meðalþykkt í nóvember yfir Íslandi er um 5280 metrar, við mörk grænu og bláu litanna. 

Eins og sjá má er fimmtudagsþykktin íslenska rétt undir meðallagi. Bláu litatónarnir á þessum kortum eru sex. Fyrstu tveir, þeir ljósustu eru haustlitir, hiti er í kringum frostmark - og frost ekki mjög mikið í þeim næstljósasta - það er fyrst við þriðja lit (þykkt minni en 5160 metrar) sem eitthvað fer að bíta. Fyrir utan kalda tungu vestan Grænlands er sáralítið af mjög köldu lofti á svæðinu - hérna megin norðurskautsins.

Öðru máli gegnir lengra í burtu - við sjáum meira að segja í fjólubláan lit efst á kortinu. Fyrirstöðuhæðin austur af Svalbarða flækist mjög fyrir hringrás kulda um heimskautasvæðið - það tekur tíma að losna við hana.

Kuldinn gæti komið til okkar á tvennan hátt - annað hvort myndi hæðarhryggur úr suðvestri stugga við kalda draginu við Vestur-Grænland þannig að það þvingaðist yfir jökulinn - norðanáttin vestan við dragið næði þá til Íslands - ekki ofan af Grænlandi - heldur til suðurs fyrir austan það. Í framtíðarsýn sumra spáa á það að gerast á þriðjudag í næstu viku. Þette er auðvitað of langur tími til þess að við getum gert okkur mikla grillu út af því fyrr en þá nær dregur. 

Norðanáttin sem spáð er fram til þess tíma er upprunnin í fölbláu litunum - norðanátt jú, en ekki köld. Hinn möguleikinn á innreið vetrarins hér á landi er að allt norðurhvelskerfið snúi sér - en það tekur enn lengri tíma.

Síðara kortið gildir á sama tíma og það fyrra - og sýnir það sama nema hvað undir er miklu stærra svæði.

w-blogg111115b

Þótt kortið sé ættað frá evrópureiknimiðstöðinni sýnir það nokkurn veginn það sama og hitt á því svæði sem sameiginlegt er. Hér sjáum við - ef vel er rýnt í kortið að heimskautaröstin (eða strangt tekið hes hennar) liggur hringinn í kringum blá svæði myndarinnar - grænu svæðin eru mjóslegin og jafnhæðarlínur þéttar. 

Fjöldi lægðardraga (háloftabylgna) hreyfist austur í námunda við röstina. Þróun þeirra ræður miklu um framhaldið - við getum talið 6 til 8 bylgjur á hringnum - einhverjar þeirra munu rísa og dæla þar með hlýju lofti norður (og köldu suður) - jafnvel til okkar. 

En svo langt sem þessar spár ná - 10 daga fram í tímann - eigum við allan tímann að vera norðan rastar - ekkert hlýtt loft - en hvort eitthvað kalt kemur heldur er ekki gott að sjá. 

Ein eða tvær djúpar lægðir eiga að fara hjá norðanverðum Bretlandseyjum næstu dagana - ameríska spáin gerir meira úr þeim fyrir okkur heldur en evrópureiknimiðstöðin - fari svo fylgir einhver haustnæðingur - evrópureiknimiðstöðin gerir minna úr. 

En málið er það að þótt hann kólni - er vetur konungur varla mættur á svæðið - hann er að sinna öðrum viðskiptavinum handan hafs - einhverjir fulltrúar leppríkja hans sýna sig þó í boðinu - en ekki hann sjálfur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 486
  • Sl. viku: 2247
  • Frá upphafi: 2348474

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1968
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband