Skammgóður vermir?

Nú virðist hlýrra loft stefna til okkar úr austri - þess gætir strax á morgun (sunnudag 23. ágúst) hátt í lofti, við veðrahvörfin - kannski sjást einhver háský - en ætti að hafa náð niður í flestar sveitir á mánudaginn. Að vísu getur verið að það fljóti alveg ofan á sjávarlofti norðan, austan og sunnan við land. - Svo er nokkur úrkoma á undan - og hún kælir. 

Kortið hér að neðan sýnir stöðuna um hádegi á mánudag. Það er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar, heildregnar línur sýna þykktina, en litir hita í 850 hPa-fletinum - en hann er á mánudag í um 1400 metra hæð.

w-blogg230815a

Það er 5540 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir miðju landi - frá suðri til norðurs. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og hefur varla orðið öllu meiri í sumar. Talsvert hlýrra loft er austur við Noreg - en það kemst ekki hingað. 

Útlit er nú fyrir að allstór hluti landsins muni njóta hlýinda á þriðjudag og miðvikudag. Bjartsýnar spár gera ráð fyrir því að hiti muni sums staðar komast yfir 20 stig - slíkt væri vel þegið. En við skulum samt bíða með að fagna árangri áður en honum hefur verið náð - það kann aldrei góðri lukku að stýra.

Svo er hitt að kalda loftið í norðurhöfum gæti gripið til mótaðgerða - reiknimiðstöðvar telja slíkt líklegt. Næsta kort sýnir spá um vind í 100 metra hæð um hádegi á fimmtudag, 27. ágúst. 

w-blogg230815c

Örvar sýna vindstefnu, en litir vindhraða. Hér eru komin upp mikil átök á Grænlandssundi - þar er kalt loft að þrengja sér suður um - mikilli úrkomu er spáð norðanlands í þessu átakaveðri - en enn er langt í það og gott rými fyrir vitleysur.

Hljóðið er þannig í dag að síðan nái kuldinn aftur undirtökunum og ryðjist suður yfir landið - hér að neðan má sjá sunnudagsspána.

w-blogg230815b

Á fyrra hitakortinu var 8 stiga hiti í 850 hPa yfir landinu, hér má sjá -8 stiga frost. - Mikil umskipti ef rétt reynast. Við förum þó ekkert að reikna með því að sinni að þessi spá rætist. 

Svo er höfuðdagurinn á laugardag - um það leyti verða oft breytingar á veðurlagi á norðurhveli - lægðin í heiðhvolfinu fer að láta á sér kræla eftir sumarhvíldina og kuldapollar heimskautaauðnanna fara að taka höndum saman. Töluverðum óróa er spáð um mestallar norðurslóðir næstu vikuna - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hvaða vesældómur er í hæðum yfir grænlandi koma og fara. endast varla daginn samhvæmt spám. kanski vill trausti ekki sterka hæð yfir grænlandi sem myndi eflaust dæla köldu lofti yfir okkur slæmt fyrir kornið á ökrunum. eflaust er það með veðrið og stjórmálaflokka við fáum það veður sem við eigum skilið íslendíngar eru ornir grálindir í skapi nöldrandi yfir öllu veðrið ber keim af því

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 23.8.2015 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 102
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1851
  • Frá upphafi: 2348729

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1622
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband