Norðlægur áfram

Ekki er nokkur breyting á veðurlagi í hendi næstu vikuna. En lítum á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á þriðjudag (28. júlí).

w-blogg270715a

Þetta er býsna líkt því sem verið hefur - nema hvað kuldapollur dagsins kemur vestan yfir Grænland - og lendir því yfir hlýjum sjó áður en hann fer að hafa áhrif hér. Ekki að það muni svo miklu því ekki er hann líklegur til að rífa upp hlýtt, suðrænt loft á sinni leið - frekar að hann komi í veg fyrir að það komist hingað.

En - sunnanátt fyrir austan land fær tækifæri til að koma hlýrra lofti en verið hefur til norðurs austan við landið - hugsanlega gæti það nýst okkur síðar - en er sýnd veiði en ekki gefin. Hlý norðanátt?

En kuldapollurinn gengur til austurs fyrir sunnan land - kortið hér fyrir neðan sýnir spána sem gildir síðdegis á fimmtudag 30. júlí.

w-blogg270715b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim getum við séð að áttin er austlæg yfir landinu og jú, vindurinn virðist vera að bera ívið hlýrra loft (ljósgrænan lit) í átt til landsins. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - og miklu hlýrra loft er á kortinu langt fyrir norðaustan land. Þar er þykktin meiri en 5580 metrar - algjör lúxus miðað við græna litinn sem umlykur landið. 

En - því miður segja spár að kuldapollurinn haldi velli - hann fari ekki mikið lengra en kortið sýnir og haldi þar með hlýrra lofti í skefjum. En þarna erum við komin fjóra daga fram í tímann - og spár óvissari úr því.

Við ljúkum pistlinum með því að líta á hæðar, þykktar og þykktarvikameðaltal næstu tíu daga - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ekki er það efnilegt - frekar en venjulega.

w-blogg270715c

Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga (fram til 5. ágúst). Að meðaltali er spáð norðaustanátt í háloftunum - langt bil er á milli jafnhæðarlína og það þýðir að líklega verður áttin eitthvað breytileg frá degi til dags. Daufar strikalínur sýna meðalþykktina. Þeir sem treysta sér til að fylgja þeim munu sjá að risastór poki lágrar (lítillar) þykktar umlykur bæði Ísland og Grænland.

Litirnir sýna svo þykktarvikin - þau eru langt undir meðallagi við landið - meira þó fyrir sunnan land en norðan. Í miðju fjólubláa svæðinu er talan -117 metrar. Hún þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er 5 til 6 stig undir meðallagi árstímans. Sjórinn sér reyndar til þess að vikin verða ekki svona stór í neðstu lögum - en skúrasælt verður á svæðinu.

Vikin eru heldur minni yfir Íslandi, kringum -3 stig sunnanlands, en ívið minni nyrðra. 

Kuldi í háloftum að sumarlagi er ávísun á síðdegisskúrir - en kannski verður veðrið ekki sem verst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Þar höfum við það, Norðurpóllinn er fluttur til Íslands, og er ekkert á förum.

Stefán Þ Ingólfsson, 27.7.2015 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 1762
  • Frá upphafi: 2348640

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1543
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband