Gæftaleysi og meðalvindhraði vetrarins (það sem af er)

Ekki er gott að segja hvernig veturinn skorar á illviðrakvarðanum þegar allt hefur verið gert upp, en þegar er ljóst að meðalvindhraði hefur verið með hæsta móti á landinu. Þeir sem sækja til sjávarins virðast sammála um óvenjulegt gæftaleysi og sömuleiðis er þreytuhljóð að heyra víða úr sveitum - þar sem austan- og norðaustanbelgingurinn hefur verið að gera mönnum lífið leitt. Það eru margar hliðar á veðrinu.

En meðalvindhraðatölur eru háar. Þegar tekin eru meðaltöl yfir stór landsvæði og marga mánuði segja tölurnar einar og sér ekki svo mikið - við verðum að kvarða þær í mikið og lítið, hyggja að hæstu og lægstu gildum.

w-blogg130314 

Á myndinni má sjá þrjár tilraunir til vindmetings meðaltals desember, janúar og febrúar frá 1950 til 2014. Það er desember árið áður (1949) sem telst með 1950 og svo framvegis. Lóðrétti ásinn sýnir metra á sekúndu, en sá lárétti árin.

Gráu súlurnar sýna meðalvindhraða allra mannaðra stöðva. Ekki er víst að það úrval sé sambærilegt allan tímann - en látum gott heita. Þarna má sjá að 2014 skýst hærra upp heldur en öll önnur ár allt aftur til 1993 og í allri röðinni eru aðeins fjögur tilvik þar sem vindhraði er meiri en nú. Það er 1975, 1989, 1992 og 1993 (hæst) - og svo er 1991 jafnhvasst og nú.

Rauði ferillinn sýnir reiknaðan þrýstivind á Íslandssvæðinu, sunnan frá 60 gráðum til 70 gráða norðurbreiddar og milli 10 og 30 gráða vesturlengdar. Til reikningsins eru notuð gögn frá evrópureiknimiðstöðinni og amerísku endurgreiningunni. Taka verður skýrt fram að líkönin eru ekki sambærileg allan tímann og samanburður óviss. En við ímyndum okkur samt að hér sé um góða vísbendingu að ræða. Hér lendir 2014 á toppnum og síðan (í röð að ofan) 1957, 1994, 1996 og 2002. Þótt óvissan sé talsverð - er 2014 þrátt fyrir allt á toppnum.

Græni ferillinn er styttri en hinir og nær aðeins aftur til 1995. Á bakvið hann er meðalvindhraði á sjálfvirkum útnesjastöðvum. Við reynum að teygja okkur út á miðin umhverfis landið. Hér er 2014 líka á toppnum, ómarktækt ofan við 2002 og 1999.

Vindurinn hefur mikið belgt sig í vetur. Ekki er ótrúlegt að við þurfum að fara að minnsta kosti 20 ár aftur í tímann til að finna ámóta - og það voru verstu árin frá 1950.

Mars, það sem af er, lækkar meðaltölin lítillega. Taka varð færslu gærdagsins út af sömu ástæðu og venjulega - enda lesa nær engir færslur sem eru eldri en sólarhringur hvort eð er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Undur og stórmerki þá er það ekki Stórhöfða að kenna eða þakka að meðaltalsvindhraði vetrarins á Ísland sé svona hár. Ef einkvað er þá er þetta einn af hæglátustu vetrum á Stórhöfða. Þrátt fyrir eitt og eitt fávirði, og toppvindhviðu.

Sennilega er Stórhöfðinn kominn úr liði mannaðra stöðva. Getur það ekki skekkt svona línurit, Trausti?

Pálmi Freyr Óskarsson, 13.3.2014 kl. 05:01

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Trausti.

Ég hef lengi haft mjög gaman að færslunum hjá þér og reynt að lesa þær allar, þótt ég þykist nú ekki alltaf skilja hvað um er talað!

Mér skilst á þér að nokkrar af síðustu færslum hafi verið fjarlægðar af þér, vegna (geri ég ráð fyrir) ummæla sem birtust við færslurnar. Ég hef ekki sjálfur séð þessi ummæli, en veit af reynslunni að mönnum getur hitnað í hamsi.

En mér þykir það miður ef færslur þínar hverfa. Þær eru góðar og gagnlegar og synd að ekki sé hægt að ganga að þeim síðar. Margir aðrir bloggarar eru með ritstjórnarstefnu þar sem þeir fjarlægja sumt og banna annað. Væntanlega kostar það meiri vinnu, en ég hef reynslu af því að umræða getur orðið furðu vitræn ef bloggarar halda uppi strangri ritstjórnarstefnu.

Ég bið þig að endurskoða þá stefnu að fjarlægja færslur og taka í þess stað upp einhverja ritstjórnarstefnu sem gerir blogg þitt að vettvangi gagnlegra umræðna og, ekki síður, sögulegrar heimildar.

Bestu kveðjur, Binni.

Brynjólfur Þorvarðsson, 13.3.2014 kl. 08:03

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti.

Fyrir nokkrum árum stóð ég frammi fyrir því, að annað hvort hætta alveg skrifum hér á blogginu, eða taka upp ákveðna ritstjórnarstefnu.  Ég valdi síðari kostinn.

Ég breytti stillingum bloggsins þannig að ég þarf að samþykkja athugasemdir. Áhrifin létu ekki á sér standa. Umgengnin um athugasemdakerfið snarbatnaði.  Þessa ritstjórnarstefnu má sjá hér.

Þar sem þetta virkaði svona vel hjá mér, þá vil ég benda þér á þennan möguleika. Hér á Moggablogginu eru allmargir sem nota þessa aðferð.

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 13.3.2014 kl. 19:26

4 identicon

Auðvitað verður Trausti sjálfur að skýra ritskoðunartilburði sína, en það er ljóst að útblástursrör flautaþyrilsins sem geysist um kommentakerfi hungurdiska hefur eitthvað með færsluhvörfin að gera. En hér er umrædd færsla og mestur hluti ummæla:

"Nýtt landsdægurhámark (ekki svo merkilegt það)

Um leið og háloftavindar snúast til suðlægra og jafnvel vestlægra átta að vetrarlagi aukast mjög líkur á háum landshámarkshita. Síðastliðna nótt (aðfaranótt þriðjudags) fór hiti á Dalatanga í 15,6 stig og er það hæsti hiti sem vitað er um á landinu þann 11. mars. Gamla metið (14,5 stig) var sett á Akureyri árið 1953 - fyrir 61 ári. Þetta er fyrsta nýja landsdægurhámarkið á þessu ári - hins vegar eru ný landsdægurlágmörk orðin tvö það sem af.

Í venjulegu ári má búast við 3 til 5 landsdægurmet af hvorri tegund falli - en nýjum metin eru þó í raun mjög mismörg frá ári til árs. Á síðustu 15 árum hafa 132 landsdægurhámörk fallið - 8,8 á ári - talsvert umfram væntingar. Á sama tíma hafa aðeins 62 landsdægurlágmörk falið - sé eingöngu miðað við athuganir í byggð - rétt um helmingur á við hámörkin, 4,1 á ári. Frá 1993 fjölgaði stöðvum mjög á hálendinu og hafa þær stöðvar smám saman verið að hreinsa upp landsdægurmet. Séu hálendisstöðvarnar teknar með í lágmarksdægurmetatalningunni reynast 108 slík met hafa fallið á síðustu 15 árum, eða 7,2 á ári. Í tölunum er ekki talið með þegar met fellur hvað eftir annað sama almanaksdaginn.

Munurinn á 8,8 hámarksmetum og 4,1 lágmarksmetum á ári skýrist af tvennu. Annars vegar hafa mikil hlýindi verið ríkjandi hér á landi - en það hefur líka áhrif að hámarkshitamælingar voru framan af gerðar á mun færri stöðvum heldur en lágmarksmælingarnar. Það eitt og sér eykur líkur á hámarksmetum lítillega umfram lágmarksmetin.

Nú sitja eftir aðeins 5 landsdægurhámarksmet frá 19. öld (enn gætu fáein í viðbót leynst í gögnum), en 24 landsdægurlágmarksmet standa enn frá sama tíma.

Eins og oft hefur komið fram segja einstök landsdægurmet ekkert um það hvort tíðarfar er kalt eða hlýtt. Þess má t.d. geta að enn stendur eitt landsdægurhámark sem sett var í mars 1918 - seint á frostavetrinum mikla [Seyðisfjörður 14,7 stig þann 17.

Það verður að teljast tilviljun að 133 hámarksdægurmet hafa fallið síðustu 15 árin í Reykjavík - nánast það sama og á landinu í heild. En ekki hafa fallið nema 8 lágmarksdægurmet á sama tíma. Hér er vart um aðrar skýringar að ræða heldur en hlýnandi veðurfar.

Í Reykjavík stendur enn 21 dægurhámark frá 19. öld, en hvorki meira né minna en 179 dægurlágmörk.

Á Akureyri eiga síðustu 15 árin 101 hámarksdægurmet - en dægurlágmarksmetin eru á sama tíma aðeins 8 eins og í Reykjavík. Hámarksmælingar voru stopular á Akureyri fyrir 1935 en samt sitja enn 8 dægurhámörk frá 19. öld á stóli. Dægurlágmörk sem enn lifa frá sama tíma eru 52 á Akureyri - væru trúlega fleiri ef stöðin hefði ekki naumlega misst af frostavetrinum mikla 1880 til 1881 en frá þeim vetri lifa enn 36 dægurlágmörk í Reykjavík."

Athugasemdir:

Þetta landshámkark var á sjálvirku stöðinni en kvikasilfrið sýndi bara 12,6. Í mínum huga er ekki um neitt landshámark að ræða! En Akureyrarmetið var heiðarlegt kvikasilfursmet.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.3.2014 kl. 01:37

Kvikasilfurshámarkið á Dalatanga þ.11. var reyndar 15,0 stig (kl.9) en ekki 12,6 (það var kl.18) - og þar með ofar Akureyrarsilfurstölunni frá 1953. Nýtt met ríkir - hvora mæligerðina sem miðað er við.

Trausti Jónsson, 12.3.2014 kl. 02:13

Áhugavert - sambærilega þróun skrifuðum við um á loftslag.is fyrir nokkrum árum (Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum) - en hlutfall hitameta og kuldameta í Bandaríkjunum á fyrsta áratugi þessarar aldar var 1/2,04 - en hér virðist það vera 1/2,14 síðastliðin 15 ár.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.3.2014 kl. 08:59

Þar með ét ég þetta ofan í mig með mjög glöðu geði en villa mín sýnir hve bagalegt það er að Veðurstofan skuli vera hætt að sýna á vefsíðu sinni hámarks og lagmarkshita mönnuðu stöðvanna. Flott met!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.3.2014 kl. 12:10

Það er auðvitað bara broslegt að nefndarmaður í Vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem ritað hefur tvær lærðar skýrslur um meinta óðahlýnun á Íslandi á þessari öld skuli enn vera að reyna að telja landsmönnum trú um "hlýnandi veðurfar" á Íslandi.

Komið hefur fram að árið 2013 er kaldasta árið á þessari öld á Íslandi og þegar menn skoða yfirlit yfir meðalhita sjálfvirkra stöðva í byggð á Íslandi - tímabilið 1995 til 2013 - má greinilega sjá að leitnin er í átt til kólnunar frá aldamótum 2000 (http://trj.blog.is/blog/trj/image/1216840/)

Þetta kemur reyndar heim og saman við greinilega leitni í kólnunarátt um heim allan frá aldamótum. (http://www.woodfortrees.org/plot/rss/from:2001/to:2004.05/plot/rss/from:2011/to:2014.05/plot/rss/from:2001/trend)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.3.2014 kl. 18:56

Og dæmi nú hver sem vill...

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 21:07

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En voru svo ekki tvær athugasemdir í viðbót? Ein frá frá Pálma í Vestmannaeyjum og svo aftur ein frá Hilmari?

Ég held annars að síðuhaldari verði bara að hafa sína hentisemi með það hvernig hann meðhöndlar óviðeigandi athugasemdir. Sú aðferð að henda út bloggfærslum er nýstárleg og kannski gerð í þeirri von að menn þroskist að lokum, en kannski er lítil von til þess. Hvað er þetta t.d í 1. setningu athugasemdar hér á undan: „útblástursrör flautaþyrilsins“

Emil Hannes Valgeirsson, 13.3.2014 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 24
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 515
  • Frá upphafi: 2343277

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 467
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband