Nógu slæmt - en sleppum samt við það versta

Mikið illviðri gekk í dag (mánudag 10. mars) yfir landið vestan- og norðanvert, fyrst af suðaustri og suðri en síðan suðvestri og jafnvel vestri. Tíu-mínútna meðalvindhraði fór í 40 m/s á veðurstöðinni Kolku nærri Blöndulóni og á fáeinum stöðvum öðrum yfir 32 m/s. Mestu hviður voru yfir 50 m/s. Bráðabirgðatalning sýnir að stormur var á meir en 30% veðurstöðva.

Þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi) hefur veðrið enn varla náð hámarki á Ströndum og á stöku stað við norðurströndina - en vonandi fer þar ekki illa.

Lægðin sem veldur veðrinu grynnist ört og treðst milli Vestfjarða og Grænlands. Hún varð ekki alveg jafndjúp og snörp og reikningar bentu til um tíma auk þess sem hún fór aðeins vestar en áður hafði verið gert ráð fyrir. Við sluppum þar með sennilega við allra versta veðrið. 

w-blogg110314a 

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl. 6 að morgni þriðjudags 11. mars. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þykkt er mörkuð með strikalínum en þriggja stunda þrýstibreyting með litum. Loftvog stígur svo ört milli Vestfjarða og Grænlands að kvarðinn springur, í hvíta blettinum stígur þrýstingur mest 21 hPa á þremur klukkustundum. Jafnþrýstilínurnar liggja nærri því hver ofan í annarri - og engin fjöll að plata. Við viljum ekki fá yfir okkur lægðarbakhlið af þessu tagi.

Við sjáum að það er 5280 metra jafnþykktarlínan sem liggur um Faxaflóa - þannig að ekki fylgir kuldi sem heitið getur. Næsta lægð virðist ekki vera í fasa við háloftabylgjuna sem ætti að gefa henni fóður - en eitthvað samsull verður samt úr annað kvöld (þriðjudag) en vonandi ekki hvasst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Frekar rólegur mánudagur á Stórhöfða í dag, eða 28,4 m/s. og hviða 34,0 m/s.

Ég var að sjá merkilega frétt á Pressan.is í kvöld sem vakti athygli minnar um hitamet í Danmörku. Æ!!!!! nú er ég sennilega að efna til ófriðar í páfadómi.

Pálmi Freyr Óskarsson, 11.3.2014 kl. 03:03

2 identicon

Það virðist hafa orðið hvassast hér á tiltölulega þröngu svæði á Norðurlandi vestra. Á Bergsstöðum fór 10 mín. meðalvindhraði á athugunartíma upp í 31 m/s á miðnætti. Eitthvað var vindur minni á Sauðárkróksflugvelli en hvasst líka á Nautabúi. Sama má segja um Sauðanesvita við Siglufjörð.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 08:40

3 identicon

Merkilegt! Hér niðrí bæ varð maður varla var við þetta veður. Smá rok milli 13-17 en eftir það lægði og varð ágætis veður, þó svo að smávindur hafi verið (hlýtt og fínt).

Svo er fínasta veður í dag og sól og hiti í efri byggðum. Snjórinn sem kom fyrir tveim dögum eða svo er næstum horfinn og klakinn allur að fara!

Ef þetta er vont veður þá bíð ég ekki í það þegar eitthvað verður virkilega að veðri.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 14:56

4 identicon

Við þetta má því bæta að það var hlýjast 15 stig á Dalatanga í nótt og tæp 13 stig á Sauðanesvita.

Einhvern tíma hefðu nú menn glaðst yfir slíkum tölum!!

Skyldi vera að loksins sé farið að hlýna hér á landi?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 1581
  • Frá upphafi: 2350208

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband