Ýmislegt smálegt um jafnaðarmánuðinn janúar 2014

Nýliðinn janúar verður að teljast jafnaðarmánuður bæði hvað hita og loftþrýsting varðar. Hitaspönn mánaðarins, það er munur á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita í byggð á landinu var aðeins 26,5 stig.

Við getum notað orðið „aðeins“ í þessu sambandi vegna þess að það þarf að fara aftur til janúarmánaðar ársins 1990 til að finna viðlíka (26,1 stig) og aftur til 1947 til að finna lægri tölu (23,8 stig). Vafasamt er reyndar að hægt sé að bera 1947 og 2014 saman vegna þess að hámark og lágmark var mælt á mun færri stöðvum 1947 en nú er gert - sérstaklega hámarkið.

Hæsti hiti í byggð í mánuðinum var 10,1 stig (Skaftafell þ. 24.) en sá lægsti mældist -16,4 stig (á Kálfhóli á Skeiðum þann 11.) Við sleppum hálendisstöðvum vegna þess að séu þær teknar með náum við ekki samanburði nema um 15 ár aftur í tímann.

Janúarhámarkið hefur ekki verið svona lágt síðan 1994, þá mældist hæsti hiti mánaðarins 9,4 stig (á Seyðisfirði). Byggðarlágmarkið hefur ekki verið svona hátt síðan 1990, þá mældist lægsti hitinn í mánuðinum -16,1 stig á Brú á Jökuldal.

Munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki var líka lítill í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík var spönnin nú 12,0 stig. Hún var jafnlítil í janúar 1987 - en annars aldrei að minnsta kosti frá 1924. Á Akureyri var spönnin nú 12,7 stig sem er miklu minna heldur en minnst er vitað um áður (16,3 stig í janúar 1990). Samfelldar útgildamælingar á Akureyri ná aftur til 1936 (nokkur ár á stangli fyrir þann tíma).

Staðalvik dagameðaltala er líka fádæma lítið á þessum tveimur stöðvum, aðeins 1,41 stig í Reykjavík (næstminnst 1950, 1,99 stig) og 1,70 stig á Akureyri (næstminnst 2,25 stig 1974). Þessi samanburður nær aftur til 1949. Reikningarnir fyrir árið í ár teljast til fljótaskriftarreikninga og tölurnar óstaðfestar.  

Loftþrýstingur í nýliðnum janúar var langt undir meðallagi. Hann var síðast lægri en nú 1993 - en reyndar ámóta lágur í janúar 2009. Þrátt fyrir þetta var lægsti þrýstingur sem mældist í mánuðinum ekkert sérstaklega lágur - en það er ekki oft sem hæsti þrýstingur janúarmánaðar hefur verið lægri en nú. Reyndar aðeins fjórum sinnum frá upphafi samfelldra mælinga á fleiri en einum stað, 1873.

Hæsti þrýstingur janúar í ár mældist í Bolungarvík þann 29., 1014,9 hPa. Lægsti hámarksþrýstingur sem vitað er um í janúar hér á landi er 1006,0 hPa 1974. Hin þrjú tilvikin eru frá 1990, 1887 og 1930.  

Vindhraði var yfir meðallagi í janúar - en ekki er ótrúlegt að áttfesta hafi verið meiri en að meðaltali. Sagt verður frá því síðar teljist ástæða til.

Febrúar fer af stað í svipuðum dúr. Þykktinni er spáð á milli 5200 og 5300 metra næstu tíu daga - mikill jöfnuður þar. Sé sú spá rétt þýðir það að hvorki verður hlýtt né kalt - og austanáttunum er líka spáð framhaldslífi allan þennan tíma, mishvössum að vísu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er jafnan erfitt fyrir leikmenn að skilja "lært" mál. Þetta tal Trausta um lágþrýsting er t.d. illskiljanlegt flestum. Er hér ekki að vera að tala um lægðasvæði yfir landinu með tilheyrandi vindi (og yfirleitt úrkomu sem reyndar var ekki raunin í síðasta mánuði)?

Ég túlka það svo a.m.k. Það kemur einnig fram í veðurlýsingu Veðurstofunnar á janúarmánuði sem birtist á vefnum þeirra (vedur.is) nú fyrr í dag.

Þar kemur fram að meðalloftþrýstingur í Reykjavík hafi verið 987,9 hPa sem er 12,4 hPa undir meðallagi. Meðalþrýstingur var nánast jafnlágur í janúar 2009 en hefur annars ekki orðið svona lágur í janúar síðan 1993.

Þetta gerði það að verkum að vindhraði á landinu var um 0,4 m/s yfir meðallagi janúarmánaða.

Þrátt fyrir þetta lágþrýstisvæði nú í janúar var úrkoma undir meðallagi vestan- og norðvestanlands.

Úrkoman mældist t.d. 64,2 mm í Reykjavík og er það um 15% minna en í meðalári.

Ég tel þessa litlu úrkomu vera höfuðástæðu þess að ekki hefur tekist að bræða klakann hér á suðvesturhorninu en ekki einhver "jafnaðarmánuður" hvað hita varðar, eða lítill munur á "hæsta hámarki og lægsta lágmarki" eins og Trausti vill meina!

Rok og rigning (en það síðarnefnda vantaði í nýliðnum mánuði) þíðir klakann best en ekki hitinn einn og sér!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 3.2.2014 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1514
  • Frá upphafi: 2348759

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1320
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband