Illviðrið í Danmörku og víðar

Í dag (mánudaginn 28. október) gerði mikið illviðri um England sunnanvert, við Norðursjó sunnanverðan, í Danmörku og Suður-Svíþjóð - og kannski líka í Eystrasaltslöndum.

Þegar þetta er skrifað er danska veðurstofan (DMI) nánast búin að gefa út heilbrigðisvottorð á mestu vindhviðu sem mælst hefur þar í landi. Mesta hviðan sem hún nefnir á vef sínum er 53,5 m/s. Það er mjög mikið. Við sjáum reyndar alloft hærri tölur hér á landi - en þá með fjallalandslag til aðstoðar bæði til að styrkja vindstrengi og rífa þá sundur í skrúfvinda. En við bíðum frétta af því hvort hviðan danska hefur mælst í löglegri 10 metra hæð eða í einhverju stórmastri eða vindmyllu (líklegt).

Við skulum nota tækifærið og líta á 500 hPa hæðar- og þykktargreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi. Kortið batnar ekki mikið við stækkun - en rýnum í það.

w-blogg291013

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd með litum. Mörkin milli grænu og gulu litanna er sett við 5460 metra. Þykktin breytir um lit á 60 metra bili og jafnhæðarlínurnar eru dregnar jafnþétt.

Svo kemur mun erfiðara efni. Þeir sleppi sem vilja - takk fyrir innlitið.

Við tökum í fyrsta lagi eftir því hvað fyrirferð háloftalægðardragsins sem ber lægðina er lítil. Þetta er mjög stutt bylgja (og fer ógnarhratt yfir). Í öðru lagi sést vel hvernig fleygur af hlýju lofti stingur sér inn til móts við bylgjuna, jafnþykktarlínurnar eru mun gisnari heldur en jafnhæðarlínurnar. Slíkt fyrirkomulag er ávísun á mikinn vind þegar bæði hæð og þykkt hallast á sama veg. (Bæði svið hallast til norðvesturs). Því gisnari sem jafnþykktarlínurnar eru og því þéttari jafnhæðarlínur því meiri verður sjávarmálsvindurinn.

Það er hægt að telja út á þessu korti hversu mikill vindauki við sjávarmál fæst út úr mun hæðar- og þykktarbratta yfir Danmörku - en það nennir auðvitað enginn að telja, það þarf þá líka að vita nákvæmlega hversu hver breiddargráða er löng á kortinu. Einhverjir eiga kannski hentuga tommustokka til að mæla lengdir á skjánum. Lægðin er þar að auki svo lítil um sig að viðbúið er að við sjáum versta vindstrenginn alls ekki á þessu korti - jafnvel ekki þeir sem stunda prjónaskap eða útsaum.

Við sjáum hér á landi öðru hvoru illviðri sem ganga fyrir þessu sama - gisnu (samvísandi) þykktarsviði í miklum hæðarbratta. Séu þykktar- og hæðarsvið jafnbrött (samvísandi) eyðist vindur við sjávarmál - sé þykktarbratti meiri heldur en hæðarbrattinn (enn samvísandi) snýst vindur við sjávarmál í öfuga átt miðað við háloftavindinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þessi veðri fylgir núna þrumuveður og mikil rigning, væntanlega tengist það lækkandi hitastigi þessa stundina. Þetta er núna klukkan 04:18 CET (danskur tími). Hvað mesta vindin varðar þá er þetta samkvæmt hefðbundnum mælingum. Í nágrenni við mig fauk all mikið af trjám niður. Ég vonast til þess að sjá betur á morgun hversu mikill sá skaði varð. Í Þýskalandi sem er hérna 960 metra frá mér (styðsti punktur) er svipaða sögu að segja og þar dó einn þegar hann varð fyrir fallandi tré.

Rafmangstruflanir áttu sér stað og rafmangsleysi í Kolding og nágrenni að auki. Tjón er umtalsvert í allri Danmörku, sem dæmi þá flettist byggingarklæðning af hótelbyggingu sem er verið að laga núna í Aabenraa (Hotel Europa Aabenraa). Það lenti á vegi þar sem talsverð umferð á sér stað. Þar varð umtalsvert tjón, ekki bara af því þegar þessi klæðning fór af húsinu heldur einnig þegar umrædd klæðning lenti á götunni og nærliggjandi húsum.

Ég ætla að skrifa bloggfærslu um þetta veður á morgun og setja inn myndir sem ég tók í gær (28-Október-2013) og síðan á morgun (29-Október-2013) af því tjóni sem þetta veður olli.

Jón Frímann Jónsson, 29.10.2013 kl. 03:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 1754
  • Frá upphafi: 2348632

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1535
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband