Sýndarsnjór í Esju og víðar suðvestan- og vestanlands

Að undanförnu hefur oft snjóað langt niður eftir fjöllum suðvestanlands (og auðvitað til sjávarmáls víða fyrir norðan). Spurningin er hins vegar hvernig samkeppni ákomu og bráðnunar hefur verið að undanförnu. Engar mælingar eru gerðar á snjódýpt á fjöllum. Hugsanlegt er þó að þeir sem stunda ákveðin fjöll reglulega viti eitthvað þar um.

Esjan blasir við úr norðurgluggum ritstjórnarskrifstofa hungurdiska. Að sjá er sáralítill sem enginn snjór neðan 500 metra í fjallinu og engan snjó er að sjá í suðurhlíðum Akrafjalls - frá sama sjónarhóli. Ofar í fjallinu virðist hins vegar vera meiri snjór og hefur lítið gefið sig undanfarnar vikur.

Áður hefur verið minnst á sýndarsnjóhulu harmonie-veðurspárlíkansins á þessum vettvangi. Í líkaninu er bókhald um snjómagn eins og líkanið reiknar á klukkustundarfresti. Næsta öruggt er að ekki er alveg rétt reiknað en samt er gaman að fylgjast með tölunum.

Við lítum fyrst á kort sem sýnir reiknað snjómagn á landinu suðvestanverðu á morgun, þriðjudaginn 28. maí.

w-blogg280513a

Tölurnar sýna snjómagn í kílóum vatns á fermetra, samsvarar millimetrum í úrkomu. Til að reikna snjódýptina sjálfa þarf auk þessa að vita hver eðlismassi snævarins er - hann þekkjum við ekki og er óþarfi að giska. Grá og hvít svæði sýna hvar snjór liggur - á hvítu svæðunum er hann meiri en 200 kg á fermetra.

Við sjáum að hæsta talan á Esjunni er 563 kg/fermetra, í Bláfjöllum 373 og 250 í Hengli. Rétt er að taka fram að þessi fjöll eru í líkaninu öll aðeins lægri heldur en þau raunverulegu. Við Skjaldbreið (eða á Skriðunni) er öllu meiri snjór og mun meiri á Þórisjökli.

En við skulum líka líta á sýndarsnjó í líkaninu 9. apríl, fyrir um það bil 6 vikum.

w-blogg280513b

Við sjáum fljótlega að gráu og hvítu svæðin eru umfangsmeiri heldur en á efri myndinni. Snjó hefur almennt leyst. En þarna er talan á Esjunni 494 kg/fermetra - tæpum 70 kg/fermetra minni heldur en er á korti morgundagsins. Séu allar tölurnar á kortunum tveimur bornar saman kemur í ljós að snjór hefur aukist á háum fjöllum - en annars minnkað. Í Bláfjöllum hefur hann minnkað um nærri 100 kg/fermetra og enn meira í Hengli (sennilega er líkanhengillinn talsvert lægri en sá raunverulegi).

Svo sýnist sem Snæfellsjökull hafi bætt mestu á sig af öllum fjöllum kortsins, rúmlega 400 kg/fermetra (nærri 20%).

Nú er hið venjulega ástand það að há fjöll halda áfram að safna snjó langt fram eftir vori - mun lengur heldur en sú lægri. Trúlega er „Snæfellsjökulfjall“ líkansins að bæta á sig langt fram í maí í venjulegu árferði (hinn raunverulegi jökull vonandi lengur). Það er hins vegar misjafnt í hvaða hæð jafnvægið er á þessu ákveðna sex vikna tímabili vorsins. Kannski er það nú ívið neðar en að meðaltali?

Þrátt fyrir sannfærandi reikninga skulum við ekki af þeim einum draga þá ályktun að snjór hafi í raun og veru aukist í Esju undanfarnar sex vikur. Ritstjórinn vill ekki að þessi pistill breytist í „frétt“ um að bætt hafi í snjó ofan á Esju undanfarinn mánuð. Til að fullyrða um það þarf mælingar á staðnum og vitna verður í aðrar heimildir en fréttir úr sýndarheimum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð sýndarvísindi hjá Trausta eins og fyrri daginn :)

"Næsta öruggt er að ekki er alveg rétt reiknað en samt er gaman að fylgjast með tölunum", segir Trausti réttilega um enn eitt spálíkanið hjá Veðurstofunni.

Við skulum heldur ekkert vera að fullyrða um það að "snjór hafi í raun og veru aukist í Esju undanfarnar sex vikur" þrátt fyrir að sýndarsnjólíkanið segi til um það, sem og ásýnd Esjunnar "úr norðurgluggum ritstjórnarskrifstofa hungurdiska" :)

Að sama skapi fullyrðum við ekkert um snjóalög á Akureyrarvelli 1. maí 2013 í samanburði við fyrri "óðahlýnunarár": http://www.visir.is/enn-snjor-fyrir-nordan/article/2013130509816

En þrátt fyrir vísindalega efahyggju í sýndarheimum spálíkana vefst ekki fyrir Trausta að fullyrða: "Það er ekkert enn sem bendir til þess að það sé farið að kólna á jörðinni. Við vonum enn að sumarið verði sem best."(sic) (http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1300055/)

Á sama tíma og Trausti hvikar ekki frá kolefnistrúnni berast fréttir utan úr heimi - en þar eru líka stundaðar vísindarannsóknir: "Vísbendingar fjögurra af fimm hnattrænum mæligildum um að hitastig fari kólnandi": http://joannenova.com.au/2013/03/has-the-world-started-cooling-hints-from-4-of-5-global-temperature-sets-say-it-might-have/

-0,05°C leitni frá 2005 m.v. áratug (RSS); -0,6°C leitni frá 2005 m.v. áratug (NCDC); -0,6°C leitni frá 2005 m.v. áratug (GISTEMP); +0,1°C leitni frá 2005 m.v. áratug (UAH); -0,6°C leitni frá 2005 m.v. áratug (NCDC)-0,10°C leitni frá 2005 m.v. áratug (HadCrut4)

En Trausti og aðrir innmúraðir talsmenn íslensku kolefniskirkjunnar vita auðvitað betur. ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.5.2013 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 195
  • Sl. sólarhring: 359
  • Sl. viku: 1511
  • Frá upphafi: 2349980

Annað

  • Innlit í dag: 170
  • Innlit sl. viku: 1373
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband