Nótt og dagur (af uppeldislegum ástæðum)

Já, við uppeldi verður stundum að horfa á erfiðu orðin, þau eru stundum erfiðari heldur en hugtökin sjálf sem þau lýsa. Þeir sem vilja líta undan gera það auðvitað - hér er engu ofbeldi beitt og því síður andlegum refsingum.

Orðið er skynvarmaflæði. Þetta orð hefur oft verið nefnt á hungurdiskum áður þannig að þeir sem hafa verið þaulsetnastir í ræktinni taka það léttilega. Skynvarmi er eins og nafnið bendir til sá varmi sem við finnst með skynfærunum. Enginn kvarði er á skynjuninni - hún getur blekkt en samt vitum við yfirleitt hvort það er heitt eða kalt sem við finnum. Skynvarmi kemst nálægt því að vera mælanlegur með hitamæli.

Skynvarmi flæðir sífellt milli lofts og yfirborðs - hvert sem það nú er, sjór, land eða húð. En er það yfirborðið sem hitar loftið eða loftið sem hitar yfirborðið?

Nútíma veðurspálíkön gera tilraun til að skera úr um hvort er. En þau fara ekki alltaf rétt með því þau vita of lítið um. Yfirborðshiti sjávar er e.t.v. nærri lagi vegna mælinga úr gervinhöttum og skipum, en hiti jarðaryfirborðs er erfiðari. Til dæmis skiptir höfuðmáli hvort snjór er á jörð eða ekki. Ef mælingar eða athuganir eru ekki fyrir hendi verður að giska á snjóhuluna.

Samevrópska harmonie-líkanið svonefnda býr sjálft til snjóhulu og heldur utan um búskap hennar. Ekki tekst alltaf jafnvel til - en í vetur hefur þó verið talsvert vit í sýndarsnjóhulu líkansins en það hefur þróast nokkuð í meðförum reiknimeistara Veðurstofunnar.

Við lítum á reikninga líkansins um skynvarmaflæði, annars vegar kl. 4 á aðfaranótt laugardags en hins vegar kl. 15 síðdegis á laugardag. Fyrra kortið er flæðið að nóttu. Mælieiningin er wött á fermetra. Kortin batna talsvert séu þau stækkuð.

w-blogg250513a

Græni liturinn sýnir þau svæði þar sem flæðið er úr lofti til jarðar. Svæðin eru óregluleg - styrkur flæðisins ræðst mest af lofthita og vindhraða, því meiri sem vindurinn er því greiðara gengur að koma á snertingu milli loftsameinda og yfirborðs og að koma í veg fyrir að jafnvægi geti skapast. Hlýtt loft hefur líka meira að gefa heldur en kalt. Streymi frá lofti til yfirborðs er hér talið neikvætt. Hæsta talan á grænu svæðunum er 214 (mínus) í Vopnafirði. Þar hlýnar yfirborðið mest (loftið kólnar mest). Einnig má taka eftir því að norðurhluti jöklanna stóru er dekkri heldur en suðurhlutinn. Þarna er loftið tiltölulega hlýtt í niðurstreymi og kólnar þar af leiðandi mikið.

Yfir sjónum eru tölurnar víðast jákvæðar - sjórinn er enn að gefa eftir varma til loftsins. Langhæsta jákvæða talan er langt úti af Vestfjörðum 209 wött á fermetra. Þar er streymir kalt norðanloft til suðurs með nokkrum ákafa (sjá vindörvarnar). Greinilegt er að líkanið sér straumaskilin við sunnanverða Austfirði vel. Við Suðausturland er nokkurn veginn jafnvægi milli lofthita og sjávarhita. Sjórinn undan Austfjörðum er mun kaldari heldur en loftið sem yfir hann streymir og kælir það.

En lítum líka á síðdegisástandið. Það er mjög ólíkt yfir landi.

w-blogg250513b

Munurinn á kortunum tveimur er minni yfir sjónum. Heldur hefur bætt í norðaustanáttina úti af Vestfjörðum auk þess sem loftið hefur kólnað (ekki sýnt). Loftið úti af Austfjörðum hefur líka kólnað og dökkgrænu svæðin því dregist saman.

Yfir landi er nú mikið af rauðum svæðum og blettum. Þar hefur sólin hitað yfirborð landsins svo um munar. Þó mismikið. Vestanlands og sunnan liggja borðalaga svæði frá suðvestri til norðausturs. Þar má sjá áhrif skýja eða úrkomu. Landsyfirborðið kólnar fljót þegar ský dregur fyrir sól. Blettirnir norðaustanlands sýna snjóhuluna í líkaninu. Þar sem er autt nær sólin að hita landið svo um munar, en snjórinn endurvarpar sólargeislunum og landið getur ekki hitað loftið. Snjórinn kælir það hins vegar dag og nótt. Ritstjórinn veit ekki hvort líkanið gerir greinarmun á gömlum og nýjum snjó, sennilega ekki. Sé snjórinn nýr er endurskin hans talsvert meira heldur en ef hann er margra vikna gamall. Hér væri möguleiki á endurbótum. Hæstu tölurnar yfir landi eru um 230 wött á fermetra.

Hér hefur ekkert verið minnst á bróður skynvarmans - dulvarmann - við sinnum honum síðar - ef gott færi gefst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1677
  • Frá upphafi: 2349637

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1519
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband