Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar

Hér að neðan má finna nokkra sundurlausa fróðleiksmola um veður á sumardaginn fyrsta. Aðallega er miðað við tímabilið 1949 til 2012. Þetta er vægast sagt þurr upptalning en sumum veðurnördum finnst einmitt best að naga þurrkað gagnaroð.

Aðrir hafa helst gaman af þessu með því að fletta samhliða í kortasafni Veðurstofunnar en þar má finna einfölduð hádegiskort sumardagsins fyrsta á sérstökum síðum (fletta þarf milli áratuga).

Meðalvindhraði var minnstur 1955, 2,0 m/s. Langhvassast varð 1992, 15,8 m/s. Næsthvassast var 1960.

Þurrast var 1996 og 1978. Að morgni þessara daga mældist úrkoma á landinu hvergi meiri en 0,5 mm. Úrkomusamast var hins vegar 1979 en þá mældist úrkoma á 98 prósentum veðurstöðva á landinu. Ámóta úrkomusamt var 2009 en þá mældist úrkoma meira en 0,5 mm á 96 prósentum veðurstöðva.

Kaldasti dagurinn í hópnum var 1949 (meðalhiti -7,3 stig). Landsmeðalhitinn var hæstur 1974 (7,7 stig) og litlu lægri 1976 (7,6 stig). Meðalhámark var hæst 1974 (11,1 stig) og litlu lægra (10,8 stig) 2005. Lægst varð meðalhámarkið dagana köldu 1949 (-4,5 stig) og 1967 (-3,1 stig). Landsmeðallágmarkið var lægst sömu ár, 1949 (-9,7 stig) og 1967 (-7,8 stig). Hæst var landsmeðallágmarkið (hlýjasta aðfaranóttin) 1974 (6,0 stig).

Lægsti lágmarkshiti á mannaðri veðurstöð á sumardaginn fyrsta á tímabilinu 1949 til 2013 mældist 1988, -18,2 stig (Barkarstaðir í Miðfirði), en hæsti hámarkshiti þessa góða dags mældist 1976, 19,8 stig (Akureyri). Á sumardaginn fyrsta 1949 fór hiti hvergi á landinu yfir frostmark, hæsta hámark dagsins var -0,2 stig. Þetta er með ólíkindum. Sumardagurinn fyrsti 1951 var litlu skárri því þá var hæsti hámarkshitinn nákvæmlega í frostmarki.

Meðalskýjahulan var minnst 1981 (aðeins 1,8 áttunduhlutar). Það var bjartur dagur - en býsnakaldur. Skýjahulan var mest 1959 (7,9 áttunduhlutar) - mörg önnur ár fylgja skammt á eftir.

Loftþrýstingur var hæstur 1970 (1041,6 hPa) en lægstur 2006 (980,6 hPa).

Algengast er að vindur sé af norðaustri á sumardaginn fyrsta (miðað við 8 vindáttir), á 64 ára tímabilinu hefur sú vindátt ríkt 21 sinni. Norðvestanátt var sjaldgæfust (eins og venjulegt er), ríkti aðeins einu sinni (1968).

Í þarsíðasta pistli var minnst á lægsta morgunhita í Stykkishólmi á sumardaginn fyrsta - við höfum upplýsingar allt aftur til 1846. Þessi kaldasti morgunn var árið 1876 (-11,8 stig). Hlýjasti morgunninn var 1935 (9,8 stig). Næsthlýjast var 1896 (9,1 stig).

Ameríska endurgreiningin segir að þrýstisviðið yfir landinu hafi verið flatast 1958 (vindur hægastur), en langbrattast 1992 (hvassast). Sama dag var hvassast á veðurstöðvunum og hittir endurgreiningin hér vel í. Þrýstivindur var af austsuðaustri, en á veðurstöðvunum var meðalvindátt rétt norðan við austur. Það er núningur sem er meginástæða áttamunarins.

Sé litið á 500 hPa-flötinn segir endurgreiningin hæðarbrattann hafa verið mestan 1960, af vestnorðvestri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 2343325

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 370
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband