Illviðrametingur ársins 2012 (í flokki útbreiðslu)

Hér er metist um mesta illviðri ársins. Í upphafi leiksins verður að vera á hreinu að hér er aðeins um eina tegund metings að ræða - útfrá meðalvindhraða og talningu hvassviðra á sjálfvirkum veðurstöðvum. Ekkert er miðað við tjón - hvort sem það fellst í beinu tjóni vegna foks eða þá í óbeinu t.d. vegna fjárskaða, samgöngu- eða rafmagnstruflana - snjóflóða o.s.frv.

En lítum fyrst á mælikvarða sem fenginn er þannig að talið er klukkustund eftir klukkustund hversu hátt hlutfall allra sjálfvirkra stöðva mælir mesta 10-mínútna vindhraða klukkustundarinnar meiri en 17 m/s - ekki svo flókið - er það? Hér er mynd.

w-blogg311212

Myndin er dálítið subbuleg - enda er henni kastað upp í skyndi. Lárétti ásinn byrjar 1. janúar 2012 og endar síðdegis þann 30. desember. Daufar tölur sýna klukkustundir frá áramótum og merki sett á 740 klukkustunda fresti. Þessi merking hittir ekki nákvæmlega á mánaðamót - en nægilega vel. Þarna má til hægðarauka einnig sjá upphafsstafi mánaðanna.

Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallið: 100X[Fjöldi sjálfvirkra stöðva sem mælt hafa meira en 17 m/s]/[heildarfjöldi stöðva]. Útkoman er í prósentum. Því útbreiddara sem illviðri er því hærra nær það á kvarðanum.

Myndin sýnir að hlutfallið var iðulega yfir 20 prósent í janúar og fram í miðjan mars en síðan er 20% súla í maí, mjög hár toppur í september og hæsti toppur ársins um mánaðamótin október/nóvember. Að þessu tali er illviðrið fyrstu dagana í nóvember það langversta á árinu hvað vind varðar. Fáeinar aðrar dagsetningar eru settar á myndina.

Sama má gera fyrir meðalvindhraða klukkustunda, eins má telja hver heildarsumma hvers dags er. Verst var veðrið á landinu 2. nóvember kl. 11 en þá var hvassviðri á landinu á tæplega 63% stöðva. Meðalvindhraðinn var mestur klukkustund fyrr, eða kl. 10, 17,7 m/s.

Annar nóvember var einnig hvassasti dagur ársins, meðalvindhraði var 16,1 m/s, næsthvassastur var 10. janúar með 14,1 m/s. Ef við leggjum saman prósentur hverrar klukkustundar yfir heilan dag gætum við mest fengið út 2400 stig (24X100). Annar nóvember er þar líka með langhæstu tölu ársins, 1250 stig og janúar er í öðru sæti með 913 stig. Fyrsti nóvember er síðan í þriðja sæti meðalvindhraða og stiga. Það er svo 10. september sem mer fjórða sætið - það er mjög hátt miðað við árstíma.

En dagurinn í gær - er hann ekki með? Jú, hann er með en nær ekkert sérstaklega hátt - enda var illviðrið tiltölulega bundið við ákveðinn landshluta. En það veður mun skora mjög hátt þegar snjóflóðamenn búa til sína lista - ábyggilega það versta í allmörg ár. Þar fór saman eitruð blanda mikils vindhraða og óvenjumikils snævar. Sömuleiðis lendir það hátt á rafmagns- og símatruflanamælingum.

Illviðrametingur er því langt í frá einhlítur.

Í framhjáhlaupi var einnig litið á hinn enda vindhraðarófsins. Hægasta klukkustund ársins var kl. 6 að morgni 26. júní (meðalvindhraði 1,4 m/s) og hægasti dagurinn var 18. júlí (meðalvindhraði 2,5 m/s).

Nú líður að áramótum og komið að þökkum til áhugasamra lesenda og annarra þeirra sem eytt hafa tíma á hungurdiskum á liðnu ári. Eitthvað verður nuddað áfram á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 341
  • Sl. viku: 1601
  • Frá upphafi: 2350228

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 1474
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband