Enn er óvissa um jólaveðrið

Í pistli í fyrradag var fjallað um óvissu í margra daga veðurspám, þá var vika til jóla og spár rokkandi til og frá með mjög djúpa (eða ekki svo djúpa) lægð fyrir sunnan og suðaustan land. Og enn hafa spárnar ekki náð ákveðinni festu. Til að sjá þetta skulum við líta á breytingu spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um veður á aðfangadagskvöld milli tveggja síðustu spátíma. Kortið sýnir jafnþrýstilínur við sjávarmál úr spánni frá hádegi á fimmtudag, en litafletir mismun þeirrar spár og næstu á undan - frá miðnætti sama dags.

w-blogg201212a

Kortið sýnir norðanvert Atlantshaf - Ísland er rétt ofan við miðja mynd, Spánn neðst til hægri - en Baffinsland efst til vinstri. Kortið batnar sé það stækkað og þá má sjá tölu við suðurströnd Íslands, 20,6 hPa, inni í stórum bláum flekki. Hér er þrýstingurinn á þessum stað 1004 hPa, en var 983 hPa í næstu spá á undan. Hér er gert ráð fyrir norðaustanstrekkingi, en hvassara verður úti fyrir Suðausturlandi.

Í heild má sjá að þrýstikerfið sem ríkir frá Grænlandi austur til Mið-Evrópu er mun austar í þessari spá heldur en þeirri næstu á undan. Nú verðum við að hafa í huga að vel má vera að næsta spá hér á eftir (reiknuð frá miðnætti aðfaranótt fimmtudags) bakki aftur með kerfið - en þó er varla hægt að segja að einhverjum stöðugleika sé náð fyrr en tvær til þrjár spár í röð hætti með tuga hPa hringl frá einum spátíma til annars.

En hvað veldur þessum gríðarmikla breytileika? Um það er ekkert hægt að fullyrða nema þetta venjulega - bylgjustaða á norðurhveli er mjög laus í rásinni. Kortið að neðan sýnir stöðuna um hádegi á föstudag (21. desember).

w-blogg201212b

Hér er Ísland rétt neðan við miðja mynd en hún nær um meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 30°N. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litakvarða (hann sést skýrt sé myndin stækkuð), þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 hPa. Ísland er á myndinni vel inni á grænu (og tiltölulega hlýju) svæði.

Hér er landið enn undir vernd fyrirstöðuhæðar fyrir norðan og norðaustan land, kuldapollur er yfir Eystrasalti. Aðalkuldinn er norður í Íshafi og yfir Síberíu fjólublár litur). Svarta örin ofarlega til vinstri bendir á mikinn hrygg norður og vestur af Alaska. Sé hann skoðaður nánar sést að þar skerast jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mjög. Vestan við hrygginn streymir mjög hlýtt loft norður fyrir 70. breiddarstig og myndar allmikla fyrirstöðuhæð sem næstu daga á að hreyfast í átt til Baffinslands.

Rúmmál kuldans yfir norðurslóðum breytist lítið frá degi til dags - ef stuggað er við honum á einum stað verður hann að hörfa eitthvað annað. Það mun nýja fyrirstaðan einmitt gera - hvert fer kuldinn þá? Einn möguleiki er að hann ryðjist í átt til okkar - en það er ekki víst. En hann gæti breytt stöðunni hér við land og það er einmitt það sem „jólaspárnar“ hafa ekki gert upp við sig.

Framrás á köldu lofti hefur mikil áhrif á lægðaþróun. Nýjasta spáin gerir helst ráð fyrir því að framherjar kuldans verði aðeins á undan lægðinni - þannig að hún hörfi til austurs frá því sem áður var spáð. En munið að hungurdiskar spá engu um jólaveðrið - en ræða spár á frjálslegan hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 45
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 443
  • Frá upphafi: 2343356

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 397
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband