Vetrarbyrjun

Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu hófst vetur á laugardaginn var. Októbermánuður hefur síðustu daga rétt svo hangið í meðaltalinu 1961 til 1990, en er vel fyrir neðan meðallag síðustu 10 ára. Síðustu dagarnir eru ekki hlýindalegir.

w-blogg301012

Kortið sýnir spá um ástandið í 500 hPa-fletinum síðdegis á þriðjudag (30. október). Undanfarna viku eða svo höfum við verið inni á valdasvæði mikillar hæðar sem á kortinu er komin vestur til Nýfundnalands. Lægðarbeygja hefur á kortinu tekið við af hæðarbeygju og Ísland er komið vel norður fyrir heimskautaröstina. Hes hennar nær á kortinu alveg niður í 500 hPa eða neðar þar sem hámarksvindur við grænu örina á kortinu er um 50 m/s. Við veðrahvörf - en þar á röstin yfirleitt heima er vindur hins vegar enn meiri eða um 80 m/s.

Svörtu línurnar sýna að vanda hæð 500 hPa-flatarins en rauðdregnu strikalínurnar marka þykktina. Þykktin er hitamælir neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Tölurnar sýna dekametra (1 dam = 10 metrar). Meðalþykkt um þetta leyti árs er milli 5300 og 5350 metrar. Bláa örin á kortinu bendir á 5100 metra jafnþykktarlínuna. Hún er tíður gestur hér á vetrum og er ekki fjarri því að marka það svæði sem frost er á allan sólarhringinn. Þetta er rúmum 200 metrum lægra en meðaltalið, það þýðir að hiti er um 10 stigum undir meðallagi.

Að þessu sinni rétt snertir 5100 metra línan Vestfirði en hlýr sjór bætir sífellt í þykktina og þegar kortið gildir segir evrópureiknimiðstöðin að hitunin úti af Vestfjörðum samsvari um 200 til 300 Wöttum á fermetra. Það þýðir að samfellt aðstreymi af köldu lofti þarf til þess að þykktin haldist svona neðarlega.

En þetta skot mjög lágrar þykktar stendur ekki lengi því hlýrra loft (rauða örin) sækir að úr austri. Það gengur þó ekki greiðlega fyrir sig og ástandið markast af hvössum norðanvindi næstu daga. Um síðir á hlýtt loft að sækja að úr vestri - en ekki fyrr en kuldapollur sem á kortinu er yfir Vestur-Grænlandi verður kominn hjá (svarta örin). Það mun að sögn verða á föstudag. Röstin á síðan að ganga aftur austur fyrir land á sunnudag.

Norðanskotið sem á að standa næstu daga er nokkuð samsett að því er virðist. Ekki er gott að segja t.d. hvort hægari kaflar gangi yfir landið á milli meginvindstrengjanna. Sömuleiðis er ekki langt í hlýrra loft austurundan og sjór er hlýr þannig að það gæti komið kafli með slyddu frekar en snjókomu á Norðausturlandi - en áhugasamir fylgjast auðvitað með spám Veðurstofunnar. Munið að hungurdiskar spá engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Getur einhver bent mér á tengill sem sýnir vindhraða á veðurstöðvum þar sem sem fellibylurinn Sandy fer yfir.

Pálmi Freyr Óskarsson, 30.10.2012 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 362
  • Sl. sólarhring: 491
  • Sl. viku: 1678
  • Frá upphafi: 2350147

Annað

  • Innlit í dag: 322
  • Innlit sl. viku: 1525
  • Gestir í dag: 313
  • IP-tölur í dag: 301

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband