Af tveimur hlýindaskeiðum

Öll veðurnörd og fáeinir aðrir vita að áratugurinn 1931 til 1940 var mjög hlýr hér á landi. Lengi vel gerðist ekkert sem ógnaði veldi hans en í kringum aldamótin hrökk eitthvað til og við höfum nú notið hlýindasyrpu sem fyrir tuttugu árum hefði verið talin með ólíkindum. Hlýindin hafa haft ýmsar afleiðingar í náttúru landsins - og jafnvel haft áhrif á mannlífið. En hungurdiskar skeyta lítt um slíkt (er þó ekki sama). Framtíðin er alltaf hulin og engin trygging fyrir hlýju áframhaldi - en svo er einnig  möguleiki að enn eigi eftir að bæta um betur.

En við skulum nú líta á töflu sem sýnir meðalhita þessara tveggja tímabila, 1931 til 1940 og 2001 til 2010 á 25 veðurstöðvum víðs vegar um land. Gætt er að því að meðaltölin séu reiknuð á sama hátt á tímabilunum tveimur. Í sumum tilvikum hafa raðir nálægra stöðva verið sameinaðar - það er alltaf nokkur vandi. Að öðru leyti hefur lítið verið fiktað í tölunum - þær eru að miklu leyti óháðar innbyrðis. Þó ekki alveg - en ritgerð um það verður að bíða betri tíma.

En lítum á töfluna. Tölur eru til gamans með tveimur aukastöfum - en enginn skyldi taka mark á slíkri nákvæmni - hún er ekki svo mikil. Einingin er að sjálfsögðu °C.

 s3140s0110mism
Reykjavík4,995,500,51
Stykkishólmur4,284,750,47
Lambavatn4,454,900,45
Kvígindisdalur4,144,460,32
Bolungarvík3,874,110,24
Hlaðhamar3,273,23-0,04
Blönduós3,593,860,27
Hólar í Hjaltadal3,273,610,34
Grímsey3,093,670,58
Akureyri4,074,400,33
Reykjahlíð2,292,810,52
Grímsstaðir1,401,660,26
Raufarhöfn3,123,520,40
Vopnafjörður3,534,010,48
Nefbjarnarstaðir3,123,600,48
Seyðisfjörður4,464,700,24
Teigarhorn4,314,20-0,11
Hólar í Hornafirði4,995,390,40
Fagurhólsmýri5,235,550,32
Kirkjubæjarklaustur5,165,470,31
Vík í Mýrdal5,796,270,48
Stórhöfði5,475,870,40
Sámsstaðir5,135,610,48
Hæll4,214,700,49
Eyrarbakki4,715,150,44
meðalt4,084,440,36

Við sjáum að tímabilið 2001 til 2010 er að jafnaði 0,3 til 0,4 stigum hlýrra en það gamla. Tvær stöðvar skera sig úr. Annars vegar Teigarhorn en hins vegar Hlaðhamar í Hrútafirði - þar er eldra tímabilið örlítið hlýrra en það síðasta. Nú mætir freistarinn auðvitað á svæðið og segir að þessar tvær stöðvar verði auðvitað að leiðrétta með valdi. - Freistingin er mikil, en þó er betra að sjóða áður saman einhverjar afsakanir fyrir þeirri breytni. Í þessu tilviki eru afsakanirnar auðfundnar - en hvort þær eru réttar þarfnast yfirlegu.

Nú má fara á flot og velta vöngum yfir hnattrænni hlýnun, orsökum hennar og tímalegum framgangi.  Tímabilin má bera saman á fleiri vegu - kannski gerum við það á næstunni - en ljóst er þó að áhugamenn um slík samanburðarfræði eru fáir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef áhuga!  Óneitanlega er hlýnunin ekki eins gassaleg þegar miðað er við 31-40. Tímabilið 61-90 er himnasending fyrir þá sem vilja gera veg hlýnunarinnar sem mestan. Línuritið verður svo fallega bratt

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 06:59

2 identicon

Þakkir fyrir enn eina snilldarfærsluna Trausti.

"Við sjáum að tímabilið 2001 til 2010 er að jafnaði 0,3 til 0,4 stigum hlýrra en það gamla."(!)

Þessi einföldu, ísköldu, sannindi hafa engu að síður kallað á kolefnisblæti dauðans hjá ráðamönnum þjóðarinnar og ofurskattlagningu á eldsneyti. Ístöðulitlir gervivísindamenn hoppa með, hristir og hrærðir yfir duttlungum náttúrunnar - en ekki Trausti.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 24.10.2012 kl. 07:06

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér kemur þó fram það sem sumir hafa alls ekki viljað viðurkenna að hlýindi síðustu ára eru meiri en þau voru á hinum margrómuðu hlýju árum á síðustu öld. Svo verður að sjálfsögðu hafa í huga að tímabilið 31-40 er valið af því að það er hlýjasta tímabil síðustu aldar.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.10.2012 kl. 08:34

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Munurinn er einna mestur í Reykjavík. Er hugsanlegt að þéttbýlið og skógrækt eigi þar hlut að máli?

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 10:34

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Spurning Gunnars í #4 er áhugaverð.  Þeir sem hafa áhuga á skógrækt vita vel hve góð áhrif hún hefur á veðrið.  Hinir sömu kunna líka vel að meta öll hlý tímabil eins og undanfarin ár og vona að ekki verði lát á þeim hlýju vindum sem hafa leikið um okkur hér á Fróni.

Ágúst H Bjarnason, 24.10.2012 kl. 11:51

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hitaröðin fyrir Reykjavík er ekki mjög áræðanleg miðað við aðra staði vegna færslu Veðurstofunnar. Best annars að Trausti svari þessu nánar.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.10.2012 kl. 12:33

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Varðandi skóg og lofthita:

http://www.bugardur.is/static/files/Jardraekt/SkjolbeltiogKorn.pdf

 Um skjólbelti: "Íslenskar mælingar hafa staðfest hitastigshækkun á bilinu 0,5-2°C"

 --- --- ---

http://saga.bondi.is/wpp/almhand.nsf/id/20131E2D6A3277BF002569BA005645C8

"Lofthiti

Minni uppgufun frá jarðvegi og plöntum ásamt minni loftskiptum við kaldari loftmassa leiða til hækkunar hitastigs í skjóli (Olesen, 1979).

Á skýldum svæðum hækkar lofthiti um 0,5-2°C og nær hækkunin til svæðis sem spannar tuttugufalda hæð skjólgjafans. Á sólríkum dögum getur hitaaukningin orðið enn meiri eða allt að 5 °C.


Hækkun hitastigsins á daginn er hlutfallslega meiri en meðalhitastigshækkunin vegna hitalækkunar sem verður að nóttu til. Einnig má benda á að hitahækkunin er meiri fyrri part sumars en seinni (Sigfús Ólafsson, 1978). Hár hiti að degi og lágur að nóttu telst heppilegur fyrir efnisöflun plantna. Það eflir næringarnámið að deginum en dregur úr öndunartapi að nóttu (Óli Valur Hansson, 1983)".

 --- --- ---

Ágúst H Bjarnason, 24.10.2012 kl. 15:17

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt hjá Emil að hitaröðin frá Reykjavík - eins og hún notuð hér bætir litlu við vitnisburð annarra stöðva í samanburði tímabilanna. Staðsetning stöðvarinnar á árunum 1931 til 1945 var óheppileg - á norðursvölum á þaki Landssímahússins.

Trausti Jónsson, 25.10.2012 kl. 00:26

9 identicon

Trausti Jónsson, 25.10.2012 kl. 00:26

Þegar skekkjumörkin nálgast að vera suð/noise (0,3°C) hlýtur að vakna upp spurning um áreiðanleika mælitækja/mæliaðferða. Var t.a.m. staðsetningu fleiri stöðva en Rek breytt á tímabilinu? Eru sömu mælar notaðir í báðum tilfellum eða mismunandi tegundir? Hver er uppgefin nákvæmni mælitækja o.sv.frv?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.10.2012 kl. 15:10

10 Smámynd: Trausti Jónsson

Engin stöðvanna var eins á báðum tímabilunum. Þær eru hins vegar margar - og auk þess hafa breytingar ekki orðið á sama tíma á stöðvunum (nema reikniaðferðin sem hér er búið að leiðrétta fyrir). En munurinn á tímabilunum tveimur fellst heldur ekki aðeins í ársmeðalhitanum heldur í fleiri atriðum sem e.t.v. verða rifjuð upp á næstunni - . Það er bara erfitt að halda mjög löngum þræði í miðli eins og bloggið er.

Trausti Jónsson, 26.10.2012 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 495
  • Sl. viku: 2244
  • Frá upphafi: 2348471

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1965
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband