Spár um merkilegt veður (eru ekki endilega réttar)

Enn ber svo við að von er á hlýju lofti norður yfir Grænland. Ekki er þó víst að hlýindanna gæti í byggðum þar í landi - en samt er aldrei að vita. Við notum tækifærið og njótum öfganna sem ríkja vestan við okkur - úr hæfilegri fjarlægð. Hafa verður í huga að tölvuspár eru alls ekki alltaf réttar þótt þær virðist langoftast sannfærandi - en afbrigðilegir hlutir gerast ekki nema að þeir gerist hvað sem líður spám.

En við lítum á fáein kort. Það fyrsta sýnir mættishita í veðrahvörfunum yfir N-Atlantshafi eins og hann var í dag (fimmtudag kl.18). Mættishiti er einnig nefndur þrýstileiðréttur hiti og sýnir hversu hlýtt loft yrði ef það væri flutt úr sinni hæð niður undir sjávarmál (í 1000 hPa-flötinn).

Kortið er ágæt ágiskun um lögun veðrahvarfanna hverju sinni en mættishiti þar er líka bærilegur mælikvarði á stöðugleika loftsins undir hverjum stað. Óstöðugt loft fylgir gjarnan lágum veðrahvörfum - bólstraský eru algeng. Undir háum veðrahvörfum er loft stöðugra og mest ber á breiðuskýjum, blikum og flákum - jafnvel þokuskýjum í allra neðstu lögum.

Á kortum sem þessum má einnig glöggt sjá bratta veðrahvarfanna og jafnvel brot í þeim. Á kortinu sjást brotin best þar sem koma saman litir sem ekki eru næstu nágrannar á litakvarðanum. Þar er oft mikil ókyrrð sem farþegar í millilandaflugi verða varir við - þótt reynt sé að nota ámóta kort til að forðast slíkt.

En hér er fyrsta kortið - það sýnir ástandið síðdegis í dag - fimmtudag.

w-blogg270712a

Kortið nær sunnan frá Spáni og norðvestur til Baffinslands - Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Rauður hringur sýnir eins konar kjarna hlýja loftsins austur af Nýfundnalandi. Allar tölur eru í Kelvingráðum - með því að draga 273 frá fæst hitinn í °C. Myndin skánar talsvert við smellastækkun og tölurnar verða læsilegri á litakvarðanum.

Hæsta talan innan rauða hringsins er 279K (=106°C). Síðdegis á morgun á hlýi kjarninn að fara yfir Suður-Grænland - þá á þykktin yfir Nassarsuaq að fara yfir 5650 metra - en í mikilli rigningu sé eitthvað að marka spána. Norðvestur af Skotlandi er hins vegar kuldapollur sem fer í hringi um sjálfan sig. Þar er mættishiti veðrahvarfanna ekki nema 300K (=27°C). Það þýðir að ekki þarf mikið til að miklar skúradembur falli.

Ísland er hér undir tiltölulega lágum veðrahvörfum og í dag var ekki langt í skúrademburnar þótt þeirra hafi lítið gætt - miklu minna en í gær (miðvikudag).

Síðari veðrahvarfamyndin sýnir ástandið eins og það reiknast kl. 6 á sunnudagsmorgun (29. júlí).

w-blogg270712c

Hlýi kjarninn er nú kominn til Norðaustur-Grænlands. Mættishitinn þar er yfirleitt um 350K (80°C). Við sjáum reyndar töluna 400K en hún er ekki marktæk vegna þess að reikningarnir sem liggja til grunvallar kortinu finna ekki veðrahvörfin í einum punkti vegna bylgjubrots yfir Stáníngölpunum eða þar um kring og reikniforritið grípur þess í stað mættishita í föstum fleti - 16 km hæð eða þar um bil ö til að setja á kortið. - En 350 stigin eru væntanlega nærri lagi.

Þarna er kuldapollurinn enn á svipuðum slóðum en á því miður að teygja anga sína til Íslands eftir helgina og stugga hlýjasta loftinu frá landinu. Ekki á af Bretum að ganga í ótíðinni þótt næstu dagana rigni mest í Skotlandi - en heldur minna syðst á Englandi þar sem rignt hefur í mestallt sumar.

En við horfum á tvö kort til viðbótar - þetta eru úrklippur sem ekki batna að ráði við stækkun. Satt best að segja sjást tölurnar á kortunum ekki oft á okkar norðlæga breiddarstigi og er ástæða til að halda að reikningarnir séu að gera ívið of mikið úr hitanum - en það kemur fljótt í ljós hvor svo sé.

Fyrst er það hefðbundið þykktarkort. Jafnþykktarlinur eru hér svartar og heildregnar - einingin er dekametrar (1 dam = 10 m). Því meiri sem þykktin er því hærri er hitinn í neðri hluta veðrahvolfs. Mesta þykkt sem vitað er um með vissu hér á landi er 5660 metrar - það var í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 og trúlega líka í hitabylgjunni í júní 1939 þegar íslandsmet í hita var sett og enn stendur. Þýskur háloftamælingaflokkur var þá í Reykjavík.

w-blogg270712d

Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í kringum 1500 metra hæð yfir sjávarmáli). Innsta jafnþykktarlínan við strönd Grænlands er 5660 metrar (metþykktin okkar) og þar er sýndur 18 stiga hiti í 850 hPa. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í þeim fleti er rúm 12 stig. Rétt er að taka fram að Grænland sjálft á þátt í því hversu hár hitinn er - og tölur yfir 15 stigum í 850 eru algengari við Grænlandsströnd heldur en hér á landi.

Mikill þykktarbratti er til austurs, línan sem strýkur Vestfirði sýnir 5580 metra - en sú sem kemur við ystu nes eystra er ekki nema 5440 metrar, 140 metrar á milli. Mikill norðanstrengur er yfir landinu, 20 til 25 m/s í um 5 km hæð.

Síðasta kortið hnykkir á óvenjulegu ástandi í 850 hPa - búið er að reikna hitann þar niður í 1000 hPa - mættishita.

w-blogg270712e

Mættishiti yfir Austfjörðum er um 16°C, um 22°C yfir Vestfjörðum og nær mest 30°C í hvítu blettunum yfir Grænlandsfjöllum. Hér er líklegt að líkanið ofreikni - en 25°C svæðið er býsna stórt. Því miður á kuldapollurinn við Skotland að trufla framsókn þessa lofts til Íslands - þannig að hér á landi gerist svosem ekki neitt.

Hlýindin í 700 hPa (rúmlega 3 km hæð) eru líka óvenjuleg - þar er spáð meir en 6 stiga hita en það er svipað og mest hefur mæst yfir Keflavíkurflugvelli. Í 500 hPa er því spáð að hiti verði jafnvel hærri en -10 stig, á sama róli og hæst hefur nokkru sinni mælst yfir Keflavík.

En höfum enn í huga að spár eru spár. Það er þó gagnlegt að líta á tilvik af þessu tagi því þau stimpla inn þann kvarða sem alltaf er nauðsynlegur þegar lesið er úr veðurkortum. Til að meta það sem er óvenjulegt í náttúrunni þarf maður að vita hvað er venjulegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 507
  • Frá upphafi: 2343269

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 459
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband