Hversu lágur getur loftþrýstingur orðið í júlí hér á landi?

Nú er ljóst að gamalt lágþrýstimet júlímánaðar hér á landi hefur verið slegið. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldi 22. júlí) er nákvæm tala ekki alveg á hreinu en trúlega verður hún á bilinu 972 til 973 hPa. Þetta er rétt neðan við gamla metið, 974,1 hPa, sem sett var í Stykkishólmi 1901. Ekki er munurinn mikill - en samt.

En í framhaldi af þessu vaknar sú spurning hversu langt niður loftþrýstingur getur farið niður í júlímánuði. Greiningar reiknimiðstöðva benda til þess að þrýstingur í þessari lægð hafi lægstur orðið um 966 hPa - en hún er nú farin að grynnast. Hún hefði auðvitað getað orðið svona djúp yfir íslenskri veðurstöð. 

Oft er gott að líta á þrýstinginn sem sambland tveggja þátta, annars vegar hæð veðrahvarfanna en hins vegar meðalhita veðrahvolfsins. Mjög náið samband er á milli veðrahvarfahæðar og hæðar 500 hPa-flatarins - liggi veðrahvörfin óvenju lágt má gera ráð fyrir því að hæð 500 hPa-flatarins sé einnig mjög lág. Þykktin - en hún kemur oft við sögu hér á hungurdiskum mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - oftast er mjög gott samband á milli hennar og hita veðrahvolfsins alls.

Lítum á hæð og þykkt við lægðarmiðjuna um hádegi í dag á korti.

w-blogg230712

Hér eru öll tákn eins og venjulega. Jafnhæðarlinur eru svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur rauðar og strikaðar. Tölurnar eru dekametrar (1 dam = 10 metrar). Iðan (kemur okkur ekki við í umræðu dagsins) er bleiklituð. Þar sem hæðin er lægst er lægðarmiðja og þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar er mikill vindur í 500 hPa (ekki endilega við jörð).

Innsta jafnhæðarlínan á myndinni sýnir 5280 metra og liggur í kröppum hring um lægðarmiðjuna. Þar yfir eru mjög lág veðrahvörf. Ekki er ólíklegt að í miðju lægðarinnar sé flatarhæðin um 5250 metrar. Á þessu korti er ekki mikil samsvörun milli hæðar- og jafnþykktarlina - það þýðir að enn er bylgjan í heild ekki búin að ná jafnvægi. Það er þó eftirtektarvert að ekki er að sjá að vindur kringum lægðarmiðjuna sé að ná í hlýrra loft en það sem þegar er í henni.

Nú kemur smáreikningur - þeir sem ekki telja sig þola hann eða hafa einfaldlega ekki áhuga geta því yfirgefið samkomuna - eða laumast til að lesa svarið við spurningunni í fyrirsögn pistilsins í lokamálsgreininni - alveg neðst.

Við vitum að þykktin er mismunur hæðar 500 hPa og 1000 hPa-flatanna. Sá mismunur er 5520 metrar við lægðarmiðjuna. Við sáum að hæð 500 hPa er 5250 og getum því auðveldlega reiknað hæð 1000 hPa-flatarins. Hún er 5250 - 5520 = -270 metrar. Mínustalan táknar að flöturinn reiknast í 270 metrum undir yfirborði jarðar. Þrýstingur við sjávarmál er því lægri en þúsund hPa. Auðvelt er að breyta metrum í hPa ef við munum að þrýstingur fellur um 1 hPa á hverjum 8 metrum. Deilum 8 í 270 og fáum út 33,75 eða nokkurn veginn 34. Reiknistykkinu lýkur með því að draga 34 frá 1000 (til að komast að sjávarmáli). Útkoman er 966 - sem er þrýstingurinn í lægðarmiðjunni.

Lægsta 500 hPa-hæð sem vitað er um hér við land í júlí er um 5210 metrar - um 40 metrum lægri heldur en hún er minnst á kortinu. Það eitt og sér gefur 5 hPa (40 deilt með 8). Ef 5210 hæðarmetrar hitta fyrir 5520 metra þykkt í framtíðarlægð yrði miðjuþrýstingur hennar um 961 hPa. Ef svo ólíklega tekst til að 5210 metrarnir hittu fyrir 5580 metra þykkt yrði afkvæmið 954 hPa í miðju. Við sjáum á kortinu að stefnumót við 5580 metra geigaði ekki nema um 700 km að þessu sinni.

Síðan er ekki ólíklegt að 5210 metrar séu ekki allra lægsta hugsanlega hæð í júlí.

Svarið um lægsta hugsanlega loftþrýsting í júlí gæti því verið á bilinu 953 til 956 hPa. Erfiðleikarnir við að slá metið frá 1901 benda þó til þess að þetta sé samt eitthvað mjög ólíklegt. Mjög erfitt er að segja til um hvort hlýnandi veðurfar auki eða minnki líkur á stefnumótum lágra hæðarflata og mikillar þykktar í júlí. Hlýnun færir jafnþykktarlínur að meðaltali til norðurs - þannig að 5580 metra línan ætti að sjást oftar og lengur við Ísland en nú er. En hvernig fer með kuldapolla norðurslóða? Því virðist enginn geta svarað enn sem komið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 33
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 2343344

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband