Kuldinn enn óþægilega nærri

Við lítum enn á norðurhvelskort 500 hPa hæðar og þykktar. Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á laugardag (30. júní) kl. 12 á hádegi.

w-blogg290612

Ör bendir á Ísland rétt neðan við miðja mynd. Við sjáum annars mestallt norðurhvel norðan við 30. breiddarstig og enn sunnar í neðri hornunum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hvasst er þar sem línurnar eru þéttar og vindur blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Hvergi er þó mjög hvasst á þessu korti - helst yfir Vestur-Evrópu þar sem lægðir leika lausum hala eins og að undanförnu.

Kortið skýrist og batnar talsvert við stækkun sem má framkalla með því að smella endurtekið á það.

Litafletirnir marka þykktina, einnig í dekametrum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænna og gulbrúnna lita eru við 5460 metra. Á sumrin viljum við helst ekki vera neðar. En því er ekki að heilsa á þessu korti, það er 5340 metra jafnþykktarlínan sem strýkst við norðausturströndina. Undir þeirri þykkt er hætt við næturfrosti í björtu veðri. - Það viljum við auðvitað ekki.

En enn kaldara er í miðju kuldapollsins austan Grænlands. Hann reikar þar stefnulítið um - en kemst vonandi ekki nær. Enn snarpari kuldapollur er við austanverða Síberíuströnd - og er sem stendur að fjarlægjast okkur. Mikil og hlý hæð er yfir kanadísku heimskautaeyjunum, þar fréttist í dag af 10 til 15 stiga hita til landsins og þar sem bjart er vinnur sólin á hafísnum.

Við sjáum líka hlýindin yfir Bandaríkjunum, þar er þykktin jafnvel meiri en 5820 metrar. Á þeim slóðum er talsverð dægursveifla í þykktinni. Hún er því enn meiri síðdegis. En mesta þykkt á kortinu er (eins og algengast er) yfir Írak, Íran og Pakistan, yfir 5900 metrar.

Evrópa er tvískipt - vestast er óttalegur kuldi miðað við árstíma og eins í Skandinavíu. Mun hlýrra er í Miðevrópu.

En hvað um framhaldið? Í þessari spásyrpu evrópureiknimiðstöðvarinnar (frá því kl. 12 á fimmtudag 28. júní) á þykktin ekki að fara upp fyrir 5460 metra hér á landi fyrr en eftir viku - en auðvitað er engu að treysta um spár svo langt fram í tímann.

Engar lægðir eiga að koma hér nærri næstu daga - en samspil kalda loftsins og sólarinnar geta e.t.v keyrt upp síðdegisskúrir sums staðar á landinu. Undanfarna daga hafa spár stundum gert talsvert úr úrkomu á mánudag - þriðjudag. Í gær sagði bandaríska gfs líkanið að rigna myndi 60 til 70 mm á tveimur dögum í Reykjavík - en í dag segir sama spá að úrkoman verði aðeins 2 mm. Spásyrpa sú sem kortið að ofan er úr gefur 20 mm á tveimur dögum í Reykjavík u.þ.b. á mánudag.

Svona óskaplega ósammála geta spár orðið - en engin afstaða er hér tekin frekar en venjulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 339
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 1913
  • Frá upphafi: 2350540

Annað

  • Innlit í dag: 256
  • Innlit sl. viku: 1705
  • Gestir í dag: 242
  • IP-tölur í dag: 242

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband