Hæðin þraukar

Háþrýstisvæðið mikla og hlýja sem nú (mánudag 28. maí) er í námunda við landið virðist eiga að þrauka áfram - út vikuna eða jafnvel lengur. Spurningin er hins vegar hversu lengi það verður okkur til gagns.

Hlýjasti kjarni hæðarinnar færist vestur á bóginn og kólnar heldur. Í dag var þykktin í námunda við landið í kringum 5550 metrar en það er óvenjumikið í maí. Fram á miðvikudag fellur þykktin um 60 til 80 metra, meira austanlands. Hverjir 20 metrar jafngilda gróflega 2 stigum þannig að 3 til 5 stiga kaldara loft verður yfir landinu á miðvikudaginn heldur en var í dag (mánudag)  

Þetta er þó ekki alveg svona slæmt og það hljómar því sannleikurinn er sá að við höfum ekki fengið að njóta hitans fyrir ofan okkur að fullu. Kólnunin verður meiri ofan við okkur heldur en hér í neðra. Auk þess er dægursveifla mjög stór þar sem sólar nýtur, hæglega 12 til 15 stig. Þannig að falli þykktin ekki mikið neðar en 5460 metra getur hiti enn farið í 20 stig eða svo þar sem vel stendur á - sólskin og rétt vindátt. En sjávarloftið er og verður svalt - alveg sama hvað þykktartölur segja.

En við skulum líta á 500 hPa hæðar- og þykktarspá sem gildir á miðvikudaginn 30. maí. Spáin er frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg290512

Ísland er rétt neðan við miðju kortsins, Grænland til vinstri og Skandinavía til hægri. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en litafletir sýna þykktina. Hvoru tveggja er í dekametrum. Mörkin á milli grænu og gulu litanna liggur við 5460 metra, en við 5280 metra skiptir yfir í bláa liti. Í kuldapollinum sem er yfir Barentshafi er smáblettur sem sýnir lægri þykkt heldur en 5160 metra. Hana viljum við alls ekki - og helst engan bláan lit.

Í dag (mánudag) var hæðin sem þarna er yfir Grænlandi sunnan við land og Ísland vel inni í dökkgulum lit. Eftir því sem jafnhæðarlínur eru þéttari því hvassara er. Talsverður vindstrengur af norðnorðvestri er milli Jan Mayen og Grænlands. Þar er lægðardrag sem þýtur til suðurs og fer hér hjá á fimmtudaginn, vonandi án teljandi kólnunar (en samt). Á föstudaginn mun það valda leiðinda kuldakasti og snjókomu á heiðum og fjöllum Suður-Noregs og talsvert kólnar líka í Danmörku.

Þegar lægðardragið er komið framhjá Íslandi getur hæðin aftur þokast nær og gerir það í þeim spám sem nú eru nýjastar. Fari svo kemur ný hlý stroka niðurstreymis af Grænlandi yfir okkur undir næstu helgi og bætir í þykktina.

Annars er það algengast í stöðum sem þessari að hæðin hörfar smám saman vestar eftir því sem fleiri köld lægðardrög strjúkast við austurhlið hennar. En hún virðist ætla að þrauka fram yfir það næsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 297
  • Sl. sólarhring: 445
  • Sl. viku: 1613
  • Frá upphafi: 2350082

Annað

  • Innlit í dag: 266
  • Innlit sl. viku: 1469
  • Gestir í dag: 263
  • IP-tölur í dag: 253

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband