Enn um dægursveiflu

Fyrir nokkru litum við á kort sem sýndi skynvarmaskipti lofthjúps og yfirborðs jarðar/hafs. Við skulum endurtaka þann leik - í lærdómsskyni.

w-blogg220412a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 3 aðfaranótt sunnudags 22. apríl. Ísland er á miðju korti - hvítt að mestu en einnig má sjá litla græna bletti. Hafið umhverfis landið er að mestu leyti rautt eða bleikt.

Þegar loft á leið yfir yfirborð lands eða sjávar streymir varmi á milli. Sé yfirborðið hlýrra heldur en loftið hitnar loftið að neðan en sé yfirborðið kaldara kólnar loftið. Á mestöllu því svæði sem kortið sýnir er sjór að hita loft. Smáblettur er norður af Vestfjörðum þar sem varmaflæðið er meira en 100 Wött á fermetra. Þetta er talsvert lægri tala heldur en það sem algengt var í vetur.

Á kortinu eru einnig svartar línur sem sýna mun á yfirborðshita og hitans í 925 hPa-hæð, það er í milli 600 og 700 metra yfir sjávarmáli. Sé loftið mjög vel blandað er eðlilegt að 6 til 7 stiga munur sé á hita við sjávarmál og í 925 hPa. Í rauða blettinum reiknast munurinn 15,3 stig - miklu meiri en vænta má. Þetta hlýtur að þýða að mikið uppstreymi sé yfir sjónum á þessum slóðum. Væntanlega er kalt hafísloft að flæða út yfir mun hlýrri sjó. Þetta kælir auðvitað sjávaryfirborðið hægt og bítandi.

Grænu blettirnir yfir landi sýna aftur á móti svæði þar sem loft tapar varma til yfirborðs sem kólnað hefur í útgeislun í bjartviðri. Athyglisvert gult svæði er austan við land. Þar kemur loft úr norðaustri yfir kaldari sjó. Það skilar um hríð varma til sjávar (um 5 til 10 W á fermetra) en fer aftur að hirða varma úr hlýrri sjó milli Færeyja og Íslands. Einnig má sjá að kalda loftið Austfirði hlýnar þegar það kemur út yfir hlýrri sjó við Suðausturland, þaðan liggur langur slóði til suðvesturs. Varmaflæðið er mest undan Hornafirði, um 80 Wött á fermetra.

En við lítum einnig á kort sem sýnir þetta sama að deginum, kl. 15 á sunnudag.

w-blogg220412b

Ástandið yfir sjónum hefur ekki breyst mikið en landið er orðið rjótt og sællegt. Á Skógarströnd reiknast varmaflæði frá sólheitu landinu til loftsins yfir 250 Wött á fermetra. Við skulum ekki taka sérstaklega mikið mark á nákvæmri lögun jafnflæðilína.

En hér verður að hafa í huga að hér er aðeins einblínt á einn þátt varmabúskaparins, skynvarmaflæðið. Fleira kemur við sögu. Dulvarmi berst á milli yfirborðs og lofts við uppgufun vatns og þéttingu vatnsgufu. Ekki má heldur gleyma geislunarvarma. En við látum hér staðar numið að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Trausti. Takk fyrir þennan pistil, sem vakti athygli mína. Ekki vegna þess að ég hafi nokkurt vit á veðurfræði, heldur vegna þess að þú hefur örugglega einhverja fróðleiksmola handa okkur líka, um hvers vegna ekki er ís á Öskjuvatni núna. Það væri fróðlegt að heyra þitt sjónarhorn á því.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.4.2012 kl. 07:14

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég veit því miður ekki mikið um Öskjuvatn. Unnið er úr gögnum þessa dagana þannig að einhver svör gætu fengist fljótlega.

Trausti Jónsson, 23.4.2012 kl. 01:26

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Trausti. Ég held þú vitir meir en þú telur þig hafa leyfi til að segja. Ég hef þá trú á þér og þinni næmni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.5.2012 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 219
  • Sl. sólarhring: 303
  • Sl. viku: 1793
  • Frá upphafi: 2350420

Annað

  • Innlit í dag: 147
  • Innlit sl. viku: 1596
  • Gestir í dag: 142
  • IP-tölur í dag: 141

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband