Af afbrigðilegum aprílmánuðum - síðari hluti, austan- og vestanáttir

Við höldum áfram þar sem frá var horfið fyrir nokkrum dögum og lítum nú á mestu vestan- og austanáttamánuðina. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Hér verður að taka fram að þrýstingur er miklu oftar hærri fyrir norðan heldur en sunnanlands. Í þeim 134 aprílmánuðum sem hér eru til athugunar hefur þrýstimunurinn aðeins 17 sinnum gefið til kynna að vestanáttir hafi verið ríkjandi.

Mest var austanáttin samkvæmt þessu máli í apríl 1961. Fyrri hluti mánaðarins var óhagstæður, m.a. gerði mikið hríðarveður um miðjan mánuð en eftir það var tíð talin hagstæð. Í hríðinni tepptust bílar með 70 til 80 manns í tvo sólarhringa á Holtavörðuheiði. Það hefur verið minnisstætt þeim sem í lentu.

Í öðru sæti er apríl 1944. Þá segja heimildir tíð hafa verið hagstæða lengst af. Talsverður hafís var við Norðurland - en fréttaflutningur af honum mun hafa verið bannaður á stríðsárunum. Apríl 1882 er í þriðja sætinu - frægur hretamánuður. Þá gerði þann mesta af mörgum slæmum sandbyljum sem gengu yfir Rangárvelli á 19. öld og lagði jarðir í eyði.

Vestanáttin var mest í apríl 1938. Þá var tíð talin hagstæð. Mikið snjóflóð féll þó á fjárhús í Öxnadal. Vestanátt var einnig mikil í apríl 1980 í hagstæðri tíð. Í þriðja sætinu er apríl 1982 einnig með hagstæða tíð - nema hvað undir lokin gerði mikið hret sem stóð fram í maí. Af nýlegri mánuðum má nefna apríl í fyrra, 2011. Hann er í sjöunda vestanáttarsætinu.

2. Styrkur áttanna eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Í þessum flokki nær apríl 1961 einnig efsta austanáttarsætinu og í næstu sætum koma apríl 1951 og 1963. Vestanáttin var mest í apríl 1980, næstmest 1982 og 1987 er í þriðja sæti (og 2011 í fjórða).

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan, austan, og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Eins er farið að með vestlægu áttirnar.

Hér skipta apríl 1944 og 1961 um sæti, austanáttin var mest 1944. Apríl 1885 er í þriðja sæti, þá var ökklasnjór á sumardaginn fyrsta í Reykjavík. Apríl 1938 er hér enn mesti vestanáttaraprílmánuðurinn, 1980 í öðru sæti og apríl 1946 í því þriðja.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Austanáttin er mest í apríl 1961 og apríl 1944 er í öðru til þriðja sæti ásamt apríl 1996. Ætli þeir tveir fyrrnefndu verði ekki að teljast mestu austanáttarmánuðirnir. Vestanáttaraprílmánuðirnir raðast eins og áður, 1938 í fyrsta sæti og síðan koma 1980 og 1982.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum.

Það eru aðeins þrír aprílmánuðir sem skila austlægri átt í 5 km hæð, mest var hún 1923 og síðan koma 1998 og 1926. Austanáttirnar í apríl 1961 og 1944 hafa sum sé verið frekar grunnar.

Tengsl vestanáttarinnar uppi og niðri eru heldur betri því apríl 1980 lendir í öðru sæti og 1938 er í því þriðja. Mestur vestanáttarmánaða í háloftunum er apríl 1967 og apríl 1906 í því fjórða, báðir með leiðindatíð, sérstaklega sá síðarnefndi. Þá gerði eitt versta útsynningsveður sem vitað er um í apríl snemma í mánuðinum og síðan ofsalega snarpt norðanveður undir lokin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 32
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 523
  • Frá upphafi: 2343285

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 475
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband