Grænland hlífir (- að mestu)

Þótt vetur sé farinn að láta undan síga suður í löndum ríkir hann enn með óskertum styrk á norðurslóðum. Hér á landi telst mars til vetrarmánaða og er stundum kaldastur þeirra, í Reykjavík að meðaltali einu sinni á hverjum sjö árum. Ekkert er vitað um það hvernig fer að þessu sinni. Hlýindi hafa ríkt í febrúar og ekki er spáð miklum kuldum næstu daga - en samt kólnar lítillega. En þessa dagana er mjög stutt á milli mikilla kulda og mikilla hlýinda. Við lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gildir kl. 18 á miðvikudag. Það er reiknað í reiknimiðstöðinni í Reading á Englandi.

 w-blogg290212

Svartar (gráar) heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, rauðar strikalínur sýna þykktina og bleiklitaðar klessur og borðar sýna lægðaiðu. Þykktin segir til um það hver hiti er í neðri hluta veðrahvolfs, af jafnhæðarlínunum má ráða vindátt og vindstyrk, vindur blæs samsíða línunum með meiri hæð til hægri. Vindur er því meiri eftir því sem jafnhæðarlínur eru þéttari.

Margt er eftirtektarvert á þessu korti. Við sjáum þykkt ofan við 5520 metra þekur allstórt svæði í Vestur-Evrópu. Í dag (þriðjudaginn 28. febrúar) lá við hitametum bæði í Skotlandi og í Danmörku, þau voru þó ekki slegin. Eins og sjá verður líka hlýtt á þessum slóðum á morgun (miðvikudag) - en þar sem vindur er ekki mikill er ólíklegt að þessi mikla þykkt nýtist í hitamet.

Vestan Grænlands er hins vegar mjög öflugur kuldapollur (Stóri-Boli). Við miðju hans er þykktin innan við 4740 metra. Þetta gæti orðið lægsta tala vetrarins á þessum slóðum. Í kvöld var -39 stiga frost í Syðra-Straumfirði og -20 stig í höfuðstað Grænlands, Nuuk. Við megum líka taka eftir því að jafnþykktarlínurnar eru mjög þéttar yfir hábungu Grænlands. Þetta má túlka svo að Grænlandsjökull hindri framsókn kuldans til austurs og hlífi okkur þar með við að hann leggist af fullum þunga til okkar. Reyndar sleppur eitthvað yfir jökulinn sunnanverðan - en líka kemst eitthvað suður fyrir. Ekki þó úr miðju kuldapollsins.

Þetta (ekki mjög svo) kalda loft sækir að þegar kortið gildir (kl. 18), þykktin yfir landinu er komin niður í 5160 metra en var í dag (þriðjudag) um 5250 metrar - lækkar sum sé um 90 metra til morguns, 4 til 5 stig á venjulegum hitamæli. Undir svo lítilli þykkt má reikna með frosti - og að úrkoma verði snjór. Reyndar er allsnörpum éljabakka spáð upp að landinu á miðvikudagskvöld - vilji menn fá nánari tímasetningu er bent á vef Veðurstofunnar.

Miðja kuldapollsins er á leið til norðvesturs - út af kortinu en fer síðan í allkrappan hring á 4 til 5 dögum.

Suðvestur í hafi er bylgja, hún er nokkuð uppvafin (sést af iðudreifingunni í kringum hana) en jafnframt er áberandi hversu mikið misgengi jafnþykktar- og jafnhæðarlína er við hana. Lægðabeygja (auðvitað) er á hæðarlínum en hæðarbeygja á þykktarlínum. Mynstur sem þetta þykir efnilegt - enda á lægðin að dýpka mikið á fimmtudag og síðan á hún að senda hlýindagusu til Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þekkja veðurfræðingar mögulegar breytingar á veðurmunstri á Íslandi ef Grænlandsjökull (allt að 2000 m þykkur) bráðnaði mest allur sökum loftslagshlýnunnar ?? sem sumir telja að muni gerast fyrr en síðar.

Vissulega má búast við hlýrra meðaltalsveðri vegna loftslagshlýnunar, en hvað með t.d. aðgengi vetrarkuldapolla frá heimskautasvæðum Kanada að Íslandi, lægðabrautir o.fl ?

Skafti (IP-tala skráð) 2.3.2012 kl. 11:20

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég minnist fáeinna greina sem hafa fjallað um þetta. Í ljós kemur að hyrfi Grænlandsjökull myndi bylgjumynstur á norðurslóðum breytast - meira að segja langt í burtu. Ég held þó að lítið sé hægt að fullyrða um hverjar þessar breytingar yrðu nákvæmlega og þá ekki heldur um afleiðingarnar hér á landi. Einhver þessara greina birti vangaveltur um hita - bæði í hinum nýju innsveitum Grænlands og hér á landi. Mig minnir að niðurstöðurnar hafi verið furðulíkar hefðbundnum rigningasumrum. Þegar talað er um að Grænlandsjökull hverfi verður þó að hafa í huga að fleiri fjöll eru á Grænlandi heldur en jökullinn sjálfur. Austurströndin er nærri því samfelldur 1500 til 3000 metra hár fjallgarður - eitthvað gerir hann einn og sér - sem og háfjöllin á Vestur-Grænlandi. En þetta eru áhugaverðar vangaveltur.

Trausti Jónsson, 3.3.2012 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband