Mesta furða - að veðrið skuli ekki vera verra

Í dag (mánudag) var fagurt veður víða á landinu - á milli lægða. Þótt skammvinnt skak eigi að fylgja lægð morgundagsins (þriðjudags) er hún heldur aumingjaleg miðað við árstíma - rétt eins og sú sem fór hjá á sunnudag. Við lítum nú á þessa slöppu stöðu og hvað það er helst sem ógnar henni.

w-blogg210212a

Kortið er frá evrópureiknimiðstöðinni og sýnir hæð 500 hPa-flatarins um hádegi á miðvikudag (22. febrúar). Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.

Hér er búið að krota með ljótum örvum ofan í (fagurt?) kort reiknimiðstöðvarinnar. Ein örin virðist byrja yfir Norður-Afríku og liggur síðan austur um til Kóreu. Hún birtist síðan aftur við vesturströnd Kanada heldur þaðan áfram þvert um Norður-Ameríku, út á Atlantshaf og norðaustur til Skotlands og Finnlands. Örin á að sýna nokkurn veginn hvar heimskautaröstin mikla á að halda sig þegar kortið gildir. Reyndar má sjá að röstin (þéttu jafnhæðarlínurnar) sveiflast í raun norður og suður fyrir þá rás sem örin er sett í, m.a má sjá flatan hrygg suðvestan Íslands. Með góðum vilja mætti halda áfram austur um Rússland og Síberíu (punktalínan).

Kuldapollurinn mikli yfir Túnis er mjög öflugur og veldur afleitu veðri á þeim slóðum. Það er ekki svo óvenjulegt að röstin hringist meira en einn hring og lendi þannig úr fasa við sjálfa sig eins og hér má sjá.

En vel vel er að gáð má sjá annan hring (gulbrúnan) hringa sig um snarpan kuldapoll undan Norðvesturgrænlandi og má greina nokkrar bylgjur (eða smálægðir) á „braut“ utan um pollinn. Hann er hins vegar nánast kyrrstæður. Síðustu dagana hafa hvorki bylgjurnar í norðlæga hringnum né kuldapollurinn sjálfur komið nærri meginröstinni (grænu línunni) og bylgjum hennar. Á milli þessara hringja er einskonar hlutlaust svæði - og þótt hvasst hafi verið sunnan við sumar þeirra lægða sem hér hafa farið hjá hefur það hvassviðri ekki náð hingað né hvassviðri sem nyrðri hringurinn hefur magnað.

Það er helst á fimmtudaginn að þessi tvö kerfi geti náð saman - rétt sem snöggvast, en reiknimiðstöðvar greinir þó á um það. Við skulum líta aðeins nánar á miðvikudaginn og horfa á kort hirlam-líkansins á sama tíma og kortið að ofan. Lítill munur er á þessum tveimur kortum - en á neðra kortinu fáum við að sjá þykktina líka.

w-blogg210212b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Hér sést betur hvernig bil er á milli meginrastarinnar og þeirrar minni (og lægri) rastar sem fylgir hringnum í kringum kuldapollinn. Á kortið hefur verið settur inn ferhyrningur og má greinilega sjá að inni í honum eru jafnþykktarlínurnar ekki nærri því eins þéttar og til sitt hvorrar hliðar. Svo getur farið að kerfin tvö missi hvort af öðru. Verði svo gerist lítið með lægðina sem hér á að koma á fimmtudaginn, en nái kerfin saman er ansi mikið illviðrisfóður á ferðinni.

Evrópureiknimiðstöðin segir á þessari stundu (um miðnætti á mánudagskvöld) að stefnumótið verði frekar meinlaust. Miðjur kerfanna virðast alla vega ekki eiga að ná saman. Ameríska reiknimiðstöðin gerir heldur meira úr. 

En það er samt furða að þrjár til fimm lægðir skuli nær tíðindalaust fara framhjá landinu í hverri viku í febrúar - illskeyttasta lægðamánuði ársins. Stendur slíkt ástand lengi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þetta, Trausti! Stórfróðlegt að sjá hvernig stórkerfið stýrir smákerfunum.

Þorsteinn Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 21.2.2012 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 19
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 417
  • Frá upphafi: 2343330

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 375
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband