Hlýjasta loftið fer hjá

Þau óvenjulegu hlýindi sem hafa verið yfir landinu í dag - mánudag og verða yfir Austurlandi fram eftir þriðjudegi (8. nóvember) virðast því miður ekki ætla að skila sér með jafn óvenjulegum hætti niður á veðurstöðvar landsins. Staðbundin hitamet nóvembermánaðar hafa þó allnokkur fallið og þegar þetta er skrifað (um miðnætti aðfaranótt þess 8.) eiga þau eftir að falla á fleiri stöðvum. Hlýtt loft verður áfram yfir landinu - sérstaklega því austanverðu - næstu daga.

Á miðnætti (aðfaranótt 8. nóvember) var frostmark yfir Keflavíkurflugvelli í nærri 3 km hæð, langt ofan við hæstu fjöll á landinu. Það er svipað og það hefur hæst orðið áður í mælingum í nóvember. Enn hlýrra hefur trúlega verið austar. Tölvuspár minnast þar á 6 stiga hita í þessari hæð - en við tökum þeim tölum með varúð. Á miðnætti var hiti á öllum láglendisveðurstöðvum landsins 10 stig eða meira nema á litlu svæði frá Hornafirði og austur á sunnanverða Austfirði. Það er ekki algengt í nóvember.

Hitaskilin sem fóru á undan hlýja loftinu í dag voru óvenjuleg að því leyti að þau bjuggu til þrumuveður á Suðurlandi. Erfitt er að segja nákvæmlega hvernig á þrumuveðrinu stóð þótt nokkrar mislíklegar skýringar komi til greina. Rýna þarf nánar í gögn til að skera úr um það hvað var á seyði í þetta skipti. Þrumuveður samfara hitaskilum eru sjaldgæf - algengari þó á sumrin heldur en á vetrum.

Á Snæfellsnesi norðanverðu var gríðarlegt úrhelli - sennilega tengt sama fyrirbrigði og bjó til þrumuveðrið. Klukkustundarúrkoma mældist mest 19,8 mm í Grundarfirði og litlu minni í Ólafsvík. Úrkomuákefð af þessu tagi myndi trúlega valda umferðaröngþveiti í Reykjavík. Ákefðin í Reykjavík varð mest 4,3 mm á klukkustund (milli kl. 14 og 15). Þetta er svipað og mesta ákefð sem mælst hefur áður á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík í nóvember - en höfum í huga að mæliröðin er ekki löng.

Víða hefur verið mjög hvasst á landinu. Á Hólmsheiði rétt ofan Reykjavíkur fór vindur í 29 m/s í kringum miðnætti. Það eru 11 gömul vindstig. Vindhviða fór ar í 40 m/s. Ekki var nærri því eins hvasst við Veðurstofuna en þar fóru hviður þó yfir 30 m/s og sömuleiðis á Reykjavíkurflugvelli. Reynslan sýnir að tjón fer að verða á fastamunum (eins og t.d. húsþökum) víða um bæinn ef vindhviður fara yfir 40 m/s. Lausamunir fjúka við minni vindhraða.

Viðbót 8.8. kl.10. Pistlinum fylgir nú viðhengi sem sýnir mesta vindhraða á sjálfvirkum veðurstöðvum í veðrinu. Hann nær til kl.9 að morgni þess 8. Hugsanlegt er að einhverjar stöðvar nái hámarki veðursins síðar um daginn.

Viðbót 8.8. kl.11. Hámarkshiti næturinnar var 20,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Svo sýnist sem það sé nýtt dægurmet og hefði dugað í landsnóvembermet þar til í hitabylgjunum tveimur í nóvember 1999. Því miður er sjálfvirka stöðin á Skjaldþingsstöðum ekki tengd sem stendur.

Viðbót 8.8. kl.22. Ný stöðvamet nóvembermánaðar eru komin í sérstakt viðhengi. Í listanum eru einungis þær stöðvar sem athugað hafa í meir en þrjú ár. Nokkrar stöðvar sem athugað hafa tíu ár eða meira settu ný nóvembermet. Á sumum stöðvum komu metin fyrir nokkrum dögum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 399
  • Frá upphafi: 2343312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 361
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband