Samkeppni hlýinda og skíts?

Nú virðist hlýtt loft eiga að koma nær okkur heldur en verið hefur um nokkurt skeið, en gallinn er sá að það fer aðallega framhjá. Nokkrar tilraunir verða gerðar næstu daga til að koma hlýindunum hingað - en mikill skítur verður óþægilega nærri - við sleppum þó vonandi við það versta af því tagi.

w-blogg220711a

Kortið er úr smiðju hirlam-líkansins danska og sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum og þykktina eins og spáð er kl. 18 á morgun, föstudag 22. júlí. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. 

Á kortinu er hæðarhryggur við  Ísland og er hann á leiðinni austur. Milli Labrador og Suður-Grænlands er myndarleg háloftalægð og hreyfist hún til austnorðausturs og kemur inn á Grænlandshaf á laugardag. Annað lægðasvæði er yfir Evrópu og er þar leiðindaveður á stóru svæði og frekar kalt. Við sjáum að 5520 metra þykktarlínan er þar yfir og 5460 pollur er yfir Stóra-Bretlandi. Það er ansi kalsamt á þessum slóðum síðari hluta júlímánaðar.

Aftur á móti er mikill fleygur af mjög hlýju lofti yfir Finnlandi og vestur um Svíþjóð. Í Finnlandi hefur verið 25 til 30 stiga hiti í nokkra daga, en líklega kólnar þar eitthvað þegar kuldapollurinn sækir að.

Eins og fastir lesendur hungurdiska hafa fylgst með hefur þykktin hér við Ísland lengst af verið á bilinu 5400 til 5460 metrar í júlí - og stundum neðar. Þetta er lélegt í júlí, enda hefur daglegur landshámarkshiti verið að sveima um á bilinu 18 til 21 stig og mest komist í 22,7 stig.

Hugsanlegt er að við fáum að sjá ívið hærri tölur næstu daga. Á kortinu er 5520 metra jafnþykktarlínunni (rauð strikalína) spáð við Vesturland annað kvöld. Ég hef sett þrjár rauðar örvar á kortið til að sýna að hlýrra loft er í framrás á mjóu belti milli hæðarhryggjarins og lægðarinnar vestan við. Þar má m.a. sjá 5700 metra línuna í framrás austur af Nýfundnalandi. Eins og staðan er núna megum við þakka fyrir að 5580 línan nái um skamma stund til landsins á laugardag eða sunnudag - en fer fljótt hjá. Verst er að þessu fylgir mikið skýjaþykkni þannig að sólin kemst ekki mikið að til að ná upp hámarkshitanum. En þetta er góð tilraun.

Við sjáum að þykktarlínurnar liggja nokkuð sammiðja í kringum háloftalægðina. Það þýðir að hún krafsar ekki til sín mikið kaldara loft en hún ber nú þegar. Blái hringurinn er ekki fjarri 5400 metra jafnþykktarlínunni og afmarkar kaldasta loftið. Lægðin og kuldinn hreyfast nú sammiðja í átt til okkar. Baráttan næstu daga stendur annars vegar á milli þess hlýja lofts sem lægðarhringrásin skrapar upp í jaðri sínum og blæs síðan til okkar og hinsvegar kalda hringsins sem nálgast.

Þessi barátta hlýja og kalda loftsins nær hámarki upp úr helginni og framan af næstu viku. Ekki er alveg útséð um það hvernig fer. Þegar þetta er skrifað eru fleiri spár á því að kalda loftið nái undirtökunum - eins og alltaf hingað til í sumar. Strögglið við að hrista 5400 metra þykktarlínuna af okkur heldur þá áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef svo heldur fram sem horfir, að kuldapollurinn yfirgefi okkur ekki næstu vikurnar, þá hefði maður haldið að afleiðingarnar gætu verið að vetur leggðist snemma að, eða hvað?

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 22.7.2011 kl. 06:41

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Við vonum bara að ef þessi kuldapollur fer yfir okkur að hann haldi bara áfram á greiðri leið til austurs og hann setjist ekki að fyrir austan land. Það kemur ekki í ljós fyrr en um miðja viku.

Trausti Jónsson, 23.7.2011 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 404
  • Frá upphafi: 2343317

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 365
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband