Enn um aprílmánuð og háloftin (nördapistill)

Ég verð var við það að mörgum finnast þessir háloftapistlar hungurdiska harðir undir tönn - en látum slag standa með von um að þeir þrautseigari í hópi lesenda átti sig. Hina bið ég forláts - ég veit að þetta er á jaðri þess boðlega.

Í pistli í gær var fjallað um háloftaástandið í þeim aprílmánuði sem nú er að líða og hversu mjög það víkur frá því sem venjulegt er. Til að upplýsa það aðeins betur birtast hér tvær myndir.

w-c20v2-trvk-h500

Hér má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi í apríl á láréttum ás, en meðalhita aprílmánaðar í Reykjavík á þeim lóðrétta. Háloftatölurnar eru fengnar úr merkri háloftaendurgreiningu bandarískri sem nær nú aftur til 1871. Fyrir 1947 er ekki hægt að bera hæðartölur úr greiningunni saman við háloftaathuganir en eftir það er greiningin góð. Eldri gögn sýnast líkja furðuvel eftir veðurathugunum við sjávarmál. Gæðin versna þó eftir því sem aftar dregur og verður að hafa það í huga þegar horft er á gögnin.

Þrátt fyrir að punktarnir á myndinni hér að ofan séu dreifðir um stórt svæði er þó greinileg fylgni milli hæðarinnar (lárétti ásinn) og hitans í Reykjavík. Hlýju mánuðirnir eru t.d. allir ofarlega til hægri. Köldu punktarnir eru óþægari, langverstur þó apríl 1876 - kaldasti apríl í Reykjavík, meðalhiti var -1,9 stig, hefði átt að vera +3,5 miðað við ágiskaða hæð 500 hPa-flatarins í þessum mánuði. Ekki gott samræmi það.

Meginvillan í greiningunni á 19. öld virðist vera sú að giskað er á of háan 500 hPa-flöt og raunveruleg hæð í þessum ákveðna mánuði hefur væntanlega verið nokkru lægri - punkturinn því lengra til vinstri á myndinni. Reiknaður fylgnistuðull er 0,39, ef 19. öldinni er sleppt alveg hækkar fylgnistuðullinn i 0,50 - umtalsverð bót.

Ég hef einnig giskað á stöðu núverandi aprílmánaðar - hann virðist ætla að vera nærri 2 stigum hlýrri heldur en 500 hPa hæðin giskar á.

w-c20v2-trvk-delta

Á hinni myndinni hefur hæðinni verið skipt út fyrir þykkt. Við sjáum að samband þykktarinnar og hitans er miklu betra heldur en samband hæðar og hita, fylgnistuðullinn er kominn upp í 0,83. Sýnir það vel hversu góð endurgreiningin er - því hitinn í Reykjavík er ekkert notaður í greiningunni. Apríl 1876 er enn nokkuð einmana neðst en lítið þyrfti að færa punktinn til vinstri til þess að hann komist inn í aðalsveiminn kringum línuna. Við sjáum að hitinn hækkar um 0,4 stig fyrir hvern dekametra í þykkt í mánaðarmeðaltalinu.

Ég hef sett bókstafinn X þar nærri sem apríl í ár virðist ætla að lenda. Hann er ofan við fylgnilínuna, talsvert hlýrri en hann „ætti“ að vera, en ekkert út úr myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 246
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 1562
  • Frá upphafi: 2350031

Annað

  • Innlit í dag: 219
  • Innlit sl. viku: 1422
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 210

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband