Enn um hina mögnuðu árstíðasveiflu

Ég er óforbetranlegur áhugamaður um árstíðasveifluna eins og ákafir lesendur hungurdiska hafa e.t.v. orðið varir við. Það er býsna merkilegt að árlega skuli skiptast á lítil ísöld og ákaft hlýskeið.

Hér á landi er árstíðasveifla hita þó frekar lítil miðað við það sem gerist á meginlöndunum en sveifla loftþrýstings er stór og önnur heldur algengast er. En við lítum nú á árstíðasveiflu tveggja veðurþátta, annars vegar úrkomunnar en hins vegar meðalvindhraða.

Sveifla meðalvindhraðans er svo eindregin að ekki þarf mjög mikið magn gagna til að hún markist greinlega á blað. Hér hef ég miðað við meðalvindraða á landinu öllu frá 1949 til 2007. Úrkoman er erfiðari viðfangs. Mjög mikið suð er í árstíðasveiflu úrkomumagns, úrkoman fellur oft ákaflega í stuttan tíma hverju sinni. Árstíðasveiflan sést þó vel í 10 til 20 ára gögnum sé aðeins litið á mánuðina 12. Í ljós kemur að hún er oftast mest í október, en er einnig mikil á þorra eða góu.

Hins vegar þarf mjög langar raðir til að sveiflan sjáist í meiri smáatriðum heldur en þetta, t.d. frá degi til dags. Til eru tvær mjög langar úrkomuraðir hér á landi. Í Stykkishólmi var byrjað að mæla haustið 1856 og sáralítið vantar upp á að mælt hafi verið á hverjum degi síðan. Hin röðin er frá Djúpavogi/Teigarhorni. Einnig vantar lítið í þá röð. Hér lítum við á Stykkishólm.

Til að auðvelda lestur myndarinnar er hún látin ná yfir eitt og hálft ár, tímabilið janúar til júní sést tvisvar. Með þessu móti sjást áramótin betur.

w-arstidasv_r_og_f

Rauði ferillinn sýnir meðalvindhraðann. Hann er dásamlega samhverfur um miðjan janúar. Vindasamasti dagur ársins er hér 13. janúar. Skaðaveður eru þá einnig í hámarki. Hægastur er 1. ágúst - um verslunarmannahelgina. Ef önnur tímabil væru undir hliðrast þessar nákvæmu dagsetningar væntanlega eitthvað til.

Grái ferillinn er úrkomuákefðin, hún er að meðaltali mest 12. október og ámóta ákafir dagar eru einnig rúmum mánuði síðar og aftur um miðjan febrúar. Athyglisvert er óljóst lágmark í kringum áramótin. Þessu ber alveg saman við ámóta lágmark í afli vestanvindabeltisins yfir Íslandi á sama tíma. Um það hafa hungurdiskar fjallað áður.

Úrkomuákefðin er minnst 14. maí. Annað lágmark er 18. júlí. Á milli þessara tíma virðist úrkoma ívið meiri. Spurning hvort það er tilviljun, en munum að um 150 tölur liggja að baki hvers daggildis. Hæstu dagarnir innan þessa litla „hámarks“ eru 12. júní og 29. júní. Úrkoman fer að aukast áberandi eftir miðjan ágúst. Síðar höldum við áfram að kanna árstíðasveifluna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 1752
  • Frá upphafi: 2348630

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1533
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband