Vorblíða á þorra

Í dag (27.1. 2011) minnti veður á landinu einna helst á hægan apríldag. Samanburður af þessu tagi er þó erfiður vegna þess að enn er sól lágt á lofti og lítið ber á dægursveiflu hitans en hún er orðin mjög eindregin þegar kemur fram í apríl. Við getum litið á eitt háloftakort til að sjá blíðuna frá því sjónarhorni. Myndin er fengin af brunni Veðurstofunnar og spáin gildir á miðnætti (27.1. 2011 kl.24).

w-h500-hirl-2701112-12t

Ég hef bætt nokkrum kennimerkjum á kortið. Svörtu, heildregnu línurnar eru hæð 500 hPa flatarins, þær eru merktar í dekametrum. Rauðu línurnar sýna 500/1000 hPa þykktina (meðalhita milli 500 og 1000 hPa flatanna í dekametrum). L-in og H-ið eru venjuleg hæðar- og lægðarmerki.

Við sjáum fyrirstöðuhæðina við Skotland. Hún er að gefa eftir og á þegar þetta er skrifað virðist hún ekki ætla að ná í þann liðsauka sem hún þarf til að endurreisast. Í fyrradag var hæðin í henni miðri yfir 5700 metrar, en er nú komin niður í 5630 m. Mjög hlýtt er þó enn í hæðinni, þykktin vel yfir 5400 metrum.

Vestan við Grænland er mjög öflugur kuldapollur, angi úr þeim sem ég kallaði Stóra-Bola í bloggi fyrir tveimur dögum. Hæðin í honum miðjum er um 4750 metrar og þykktin ekki nema um 4800 metrar. Dálítil háloftalægð er sunnan Nýfundnalands og lægðarbylgja (B) vestur af Íslandi. Afskorin kuldapollur (lægð) er við Portúgal, sú hreyfist ekki mikið, en báðar hinar lægðirnar og lægðardragið hreyfast hratt til norðausturs.

Líta má á bylgjuna, lægðina við Nýfundnaland og við Baffinsland sem bylgjuinnlegg í Stóra-Bola, Nýfundnalandsbylgjan og Grænlandsstrandarbylgjan eru báðar mjög stuttar og það er almenn regla að stuttar bylgjur berast mun hraðar yfir heldur en langar. Báðar bylgjurnar eru því á mikilli ferð.

Það er önnur regla að lægðir týna snúningi á leið til norðurs ef viðbótarsnúningur er ekki til á lager á leið hennar. Þetta hljómar heldur einkennilega svo ekki sé meira sagt. Tæknilega nafnið á þessum veðurfræðilega snúningi er iða. Ég vildi aðeins lauma henni að svo menn hefðu séð orðið. - Ekki meira um hana - í bili.

Eitt almennt atriði til viðbótar vil ég nefna um háloftabylgjur. Vindhraði er oftast mestur í bylgjudalnum. Þar er hann mun meiri en hraði sjálfrar bylgjunnar. Vindurinn æðir í gegnum hana. Bylgjuhraðinn er oftast nefndur því afspyrnuleiðinlega nafni fasahraði. Nafnið er svo leiðinlegt að lítil hætta er á því að því sé ruglað saman við vindhraðann og er þá ákveðnum tilgangi náð. Eftir því sem bylgjan lengist minnkar fasahraði hennar (yfirleitt).

Þótt bylgjurnar tvær, sú við Nýfundnaland og sú við Austur-Grænland sýnist svipaðar á hæðarkortinu (svörtu línurnar) er þykktarmynstrið sem er þeim samfara mjög ólíkt. Norðaustur af Nýfundnalandi hef ég sett bókstafina hl- í rauðu. Þar sjáum við að þykktarlínur liggja nærri því þvert á hæðarlínurnar. Þar er loft mjög riðið (sjá pistil um riðalægðir), aðstreymið er hlýtt. Framan við bylgjuna ryður vindurinn hlýju lofti (þykku) til norðausturs, þar sem ruðningurinn hækkar 500 hPa flötinn á undan bylgjunni. Þar með breytast hæðarlínurnar mjög hratt og það getur haft áhrif á hreyfingu og framtíð bylgjunnar sjálfrar.

Jafnþykktarlínurnar nærri Íslandi eru miklu nær því að vera samsíða jafnhæðarlínunum. Þó má greina að kalt loft er þar í framrás, enda mun kólna til morguns (föstudag). Ég hef sett bókstafinn k  í bláu þar sem kalda aðstreymið sést. Við sjáum að býsna mikill vindur er í 5 km hæð yfir landinu, hann er reyndar enn meiri í meginröstinni sem er nærri veðrahvörfum. - En hann nær ekki til jarðar. ´

Nú kemur erfiðasti kaflinn í dag - þeir sem nenna ættu að renna í gegnum hann - en ég kem vonandi til með að tyggja þetta aftur og aftur í framtíðarpistlum þar til einhverjir skilja: Ef þykktin á kortinu væri sú sama alls staðar væri þrýstisvið við jörð nákvæmlega eins og hæðarsviðið, vindur niður undir jörð væri því hinn sami og er uppi. Ef þykktin fylgdi öllum hæðarlínum nákvæmlega væri þrýstisviðið við jörð algjörlega flatt. Ef við lítum enn á kortið sést að ekki er fjarri því að svo sé í dag á litlu svæði kringum Ísland. Þó eru þykktarlínurnar aðeins gisnari heldur en hæðarlínurnar. Þess vegna var suðvestanátt í dag. Hefðu þykktarlínurnar verið nákvæmlega jafnþéttar hefði enginn þrýstivindur verið á svæðinu. Ef þykktarlínurnar hefðu verið þéttari en hæðarlínurnar hefði vindur við jörð verið af norðaustri en ekki suðvestri.

Nú - pistill um vorblíðu á þorra snerist þegar allt kom til alls upp í svæsna háloftabylgjusúpu. Ég vona bara að engum verði illt af henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tengdafaðir minn varð sjötugur í gær (þann 27.) og hann hefur ekki upplifað aðra eins blíðu á afmælisdegi sínum fyrr, eins og var hér á Reyðarfirði. Fólk sem ég hitti á förnum vegi, talaði um að það væri eins og vor í lofti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 00:58

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Guð blessi gróðurhúsaáhrifin

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 01:00

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Í blaði má lesa þessa frásögn:

„Menn frjósa til bana í París, járnbrautarlestir fenna suður við Svartahaf, hnésnjór á götunum i Rómaborg, skíðafæri í Jerúsalem, og 20—30 gr. frost í Winnipeg. Svona er nú veðrið í góðu löndunum þennan fyrsta vetur aldarinnar. En hérna norður við heimskautabauginn, er jörð alauð á þorranum, tún grænka, vegir eru lagðir, og jarðabætur unnar. Fólkið er alveg hissa á góðviðrinu.“

Hvar og hvenær var þetta skrifað? Jú, í Þjóðviljanum unga 10. apríl 1901 undir fyrirsögninni Ekki fer jeg vestur í vor.

Trausti Jónsson, 28.1.2011 kl. 01:25

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Trausti:

Hér væri kannski ráð að útskýra muninn á veðri og loftslagsbreytingum eða hvað?

En varðandi þennan mun, geturðu t.d. útskýrt þennan breytileika út frá sveiflum í NAO vísitölunni?

Höskuldur Búi Jónsson, 28.1.2011 kl. 10:46

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hér langar mig til að bæta við smá prívatinnleggi úr því menn minnast á afmæli. Á síðasta afmælisdegi mínum, 10. okt. var það allra besta veður í Reykjavík sem komið hefur á þeim degi frá því ég fór að muna eftir mér. Það var sól að mestu og hitinn fór í 14,6 stig og var 14,1  kl. 15 á athugunartíma. Þennan dag fór ég með frænda mínum um Kópavogsdal. Það var hægur vindur, ekkert ''rok''. Þetta var eins og fínasti sumardagur. Þetta reyndist líka vera síðasti sumardagurinn. En það var verulega magnað að upplifa þetta svo seint í dagatalinu og algerlega einstætt og þetta er sá afmælisdagurinn minn sem mér verður eflaust minnsstæðastur. Afmæli eru aldrei merkileg en veðrið getur átt það til að vera alveg stórmerkilegt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.1.2011 kl. 12:21

6 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Enn og aftur, mjög forvitnileg grein frá þér. Bíð spenntur eftir áframhaldinu.

Sumarliði Einar Daðason, 28.1.2011 kl. 12:22

7 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Það er sem vor  sé í lofti, ekki skal að ég  held þakka það ríkisstjórninni, heldur er um að ræða breytt veðurfar vegna gróðurhúsáhrifa.

Guðmundur Júlíusson, 28.1.2011 kl. 21:10

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Já - NAO það er ágætt að minnst er á það í sjónarhólssamhenginu. Fyrir rúmum 20 árum lenti ég um skeið í hringiðu alþjóðlegra veðurfarsrannsókna. Á þeim árum var sérlega mikið rætt um NAO enda höfðu NAO-vísar aldrei verið jafnháir áður svona mörg ár í röð. Auðvitað var gripið til hnattrænnar hlýnunar til skýringar á þessari óvæntu hegðan - heiðarlegustu vísindamenn höfðu að vísu vaðið fyrir neðan sig en játuðu samt að þetta kynni að vera í takt við hlýnunina. Undir áramót 1995/96 hrökk NAO-vísirinn í lag, sló það nokkuð á ályktunargleðina. Fyrir rúmu ári gerðist það hins vegar að NAO-vísar urðu lægri en lengi, lengi hafði verið. Þá var helst talað um að hnattræn hlýnun hafi líklega engin áhrif á NAO - nema að vera kunni að þessi neikvæðu gildi séu einmitt það sem búast má við með auknum gróðurhúsaáhrifum. Vísindamenn hafa þó enn flestir vaðið réttu megin og gæta að sér - sumir þeirra eldri munu enn vera með ógróin brunasár eftir hágildatíðina um 1990. Það sést einmitt óvíða betur en í NAO-umræðunni hversu sjónarhólsáhrifin eru oft ískyggileg. Það má hins vegar vel vera að hnattræn hlýnun hafi áhrif á NAO - ekki veit ég um það og auðvitað í fína að velta vöngum og búa til kenningar - það er einmitt gaman. Fyrir nokkru skrifaði ég langan, almennan fróðleikspistil um NAO á vef Veðurstofunnar og tengi hér við hann.

Trausti Jónsson, 29.1.2011 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 22
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 420
  • Frá upphafi: 2343333

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 378
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband