Veðurfarsskeið og merkimiðar

Veðurfars- og jarðsaga eru yfirfljótandi af nöfnum alls konar tímaskeiða. Sum þessara nafna koma og fara en önnur festast í sessi, allt eftir stöðu þekkingar á hverjum tíma eða jafnvel óútskýrðu samkomulagi sem aldrei hefur þó verið samþykkt af einum eða neinum.

Einna fastastar í sæti hafa verið hinar gömlu skiptingar jarðsögunnar í tímabil, öll eru þau löng en mislöng, sum reyndar svo löng að erfitt er að hugsa sér lengdina. Þrátt fyrir festu og íhaldssemi varðandi nöfn á jarðsöguskeiðum hefur stundum reynst nauðsynlegt að hnika til skilgreindri byrjun eða enda tímabila. Þannig hefur upphaf Ólígósen jarðsöguskeiðsins (fyrir um 30 milljónum ára) hnikast til frá því sem áður var talið sem og mörkin milli plíósen og pleistósen hafa sigið á hlið með nýjum upplýsingum. Með pleistósen er kallað að ísöld hafi byrjað og þar með kvarterskeið tekið við af tertíer. Nafnið tertíer sést nær aldrei notað núorðið. Ekki hefur það þó verið bannað.

Ég fjalla e.t.v. um þessi skeið síðar, en ætla hér að nefna nokkur óformlegri undirskeið svonefnds nútíma - sumir vilja skrifa það með stóru N, en ég geri það ekki hér. Nútími hefur þá tæknilegu merkingu að hann hefst með enda síðasta jökulskeiðs. Við skulum segja að það hafi verið í lok Yngra-Dryas kuldakastsins [Holtasóleyjarskeiðs] fyrir um 11400 árum síðan. Nútími nefnist á útlendum málum Holocene, fyrri stofn orðsins mun merkja heill eða allur, en sá síðari nýlegur.

Í norðanverðri Evrópu hefur nútíma gjarnan verið deilt á fimm skeið að svokölluðum Blytt-Sernanderhætti. Sú skipting byggðist upphaflega á lagskiptingu mýra á því svæði. Hún hefur verið mikið notuð hérlendis. Skeiðin fimm eru: Pre-boreal (for-birkiskeið) frá 11400 árum til 10500 ára fyrir okkar tíma, boreal (birkiskeiðið fyrra) frá 10500 árum til 7800 ára, atlantica (mýrarskeiðið fyrra) frá 7800 árum til 5700 ára, sub-boreal (birkiskeiðið síðara) frá 5700 til 2600 árum og sub-atlantica (mýrarskeiðið síðara) frá 2600 árum til okkar tíma.  

Reynt var að fella flestar breytingar á veðurfari á nútíma inn í kerfið en eftir því sem upplýsingar hafa aukist hefur það viljað riðlast og sumar kennslubækur telja það úrelt. Það er t.d. til þess tekið að mýramyndun á Bretlandseyjum sem skiptingin styðst mjög við sé fremur tengd landnýtingu (áníðslu?) heldur en að veðurfarsbreytingar eigi þar alla sök.

Hér á landi hefur þessi skipting gefist bærilega en minna og minna er vitnað í hana í erlendum fræðiritum. En hefur eitthvað komið í staðinn? Svarið er bæði játandi og neitandi. Ég held að ekkert hafi verið fastsett í þeim efnum og fjölmargir merkimiðar eru í gangi. Það ástand veitir talsvert frjálsræði, t.d. get ég bullað meir um þetta mál en ella væri, en aftur á móti sér maður ýmis skeið verða til, fyrst óformlega en síðan breytast þau í rammasannleika sem getur hamlað útsýni.

Grófasta skipting nútíma sem virðist nú höfð uppi við er sú að forbirkiskeiðinu (pre-boreal) er haldið sem merki á þeim tíma sem hiti hækkaði mest af afloknu Yngra-Dryas. Það tekur yfir á að giska 2000 ár og inn því eru að minnsta kosti tvö kuldaköst. Síðan tekur við svokallað bestaskeið (climatic optimum) sem stendur þar til fyrir um 4500 til 4000 árum síðan. Þá bráðnuðu stórjöklar á Íslandi.

Við enda bestaskeiðs kólnaði, hastarlega segja sumir og jöklun hófst á ný. Upphaflega var hugtakið litla-ísöld notað á allan tímann frá lokum bestaskeiðs til okkar tíma, en nafninu var stolið og hefur síðan verið notað nýjasta kuldatímabilið sem sumir segja að hafi byrjað um 1350, aðrir um 1200 og enn aðrir um 1600. Við getum fjallað um það síðar.

Vel má vera að fleira birtist úr veðurfarssögunni á þessu bloggi.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sumir eru byrjaðir að tala um nýtt jarðsögutímabil, t.d. hafa jarðfræðingar frá háskólanum í Leicester (og fleiri) hafa komið með þá tillögu að nýtt jarðsögutímabil sé hafið á Jörðinni, en pistill eftir þá birtist í tímaritinu Environmental Science & Technology. Anthropocene skeiðið er það nafn sem sumir vilja kalla skeiðið, kannski hægt sé að kalla það skeið hins nýja manns ?

Annars má lesa nánar um pælingar varðandi þetta "nýja" skeið hér.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.9.2010 kl. 09:26

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Anthropocene hef ég óformlega kallað mannskepnuskeiðið. Fyrir margtlöngu var talað um að það hafi hafist við upphaf iðnbyltingar eða síðar (1750 til 1850), en síðan yfirtók bandaríski vísindamaðurinn William Ruddiman hugtakið. Hann heldur því fram að mannkynið hafi verið farið að hafa áhrif á veðurfar strax fyrir 8000 árum með umtalsverðum breytingum á landnotkun. Hún hafi í fyrstu breytt metanbúskapi lofthjúpsins en síðar, með aukinni eyðingu skóga hafi einnig komið fram áhrif á magn koltvísýrings (CO2), dregið hafi úr eðlislægri minnkun þess á hlýskeiðum með þeim afleiðingum að minna hafi kólnað eftir því sem á núverandi hlýskeið hefur liðið og að næst jökulskeiði sem hefði með réttu átt að hefjast fyrir um 4000 árum væri ekki enn hafið. Núverandi, nýleg, aukning á koltvísýringi, metan og fleiri gróðurhúsalofttegundum hafi síðan slegið jökulskeiðinu á frest um þúsundir ára. Um þetta má m.a. lesa í stórskemmtilegri bók Ruddiman: Plows, Plagues, and Petroleum: How Humans Took Control of Climate, sem út kom 2005. Áður (2003) hafði hann ritað ítarlega grein í Climatic Change tímaritið: Climatic Change 61 (3): 261–293, þar sem hann kynnti hugmynd sína fyrir vísindaheiminum. Það er talinn aðalgalli við kenninguna að sé hún rétt þýði það að næmi lofthjúpsins gagnvart breytingum í magni gróðurhúsalofttegunda sé meiri en almennt er talið. En ein stærsta óvissan í hugmyndum um hnattræna hlýnun af mannavöldum er einmitt næmið.

Trausti Jónsson, 29.9.2010 kl. 11:06

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lítið sem ekkert hefur nú verið skrifað á íslensku og fyrir almenning um þessi veðurfarsskeið eins og þau birtust á Íslandi, einna helst smámunir eftir Þorleif Einarsson. Ekki heldur um ísöldina frá veðurfarslegu sjónarmiði. Það veitti nú ekki af að einhver gerði þetta og kæmi með allt það nýjasta sem vitað er um. Fyrir hálfri öld var skrifað meira fyrir almenning á Íslandi um jarðfræði og veðurfræði en nú er. Mest gaman væri ef einhver skrifaði aðgengilega bók um veðurfarssögu Íslands þann skamma tíma sem landið hefur verið til.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.9.2010 kl. 11:12

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir þennan fróðleik Trausti. Við höfum einmitt nýlega skrifað um næmni loftslags (jafnvægissvörun loftslags) á loftslag.is, þar kemur m.a. fram:

Loftslagslíkön spá því að lægri mörk hækkunar hitastigs verði a.m.k. að meðaltali um 1.65°C , en efri mörk eru mun breytilegri eða að meðaltali um 5.2°C . Besta mat á jafnvægissvörun loftslags er talið vera um 3°C og líklegt hámark um 4,5°C.

En það er þó ekki tengt þessum pælingum Ruddiman beint, en nánar er hægt að lesa um það hér.

Ég tek undir með Sigurði að það mætti fjalla nánar um veðurfarsskeið eins og þau birtust á Íslandi. Persónulega væri ég til í að vita meira um t.d. miðaldarhlýnunina á Íslandi, hversu mikið hærra var hitastig talið vera þá miðað við núna.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.9.2010 kl. 11:39

5 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er allt ágætt og fróðlegt og í samræmi við það sem ég lærði fyrir mörgum árum, en nú virðast sárafáir vita, að núverandi loftslag er í rauninni afar kalt, sé miðað við tímann frá lokum síðasta jökulskeiðs. Bórealski tíminn var ekki aðeins afar hlýr, heldur gufaði meira upp úr höfunum auk þess að hlýtt loftið gat tekið til sín miklu meiri raka. Sahara og aðrar eyðmerkur voru þá grónar, jafnframt því að Ísland var jöklalaust að kalla. Gröf frá Loftslag.is sýna, að yfirborð sjávar, að frátöldu landrisi og landsigi var um það bil það sama og nú. Ég ræddi þetta raunar í Þjóðmálagreininni „Að flýta ísöldinni“. Málið er, að þeir sem hæst hafa um „ógnia“ sem stafi að jarðarbúum ef eitthvað smávegs hlýnar aftur virðast langflestir alls ekki vita, að hér er aðeins um smávægilega „endurhlýnun“ að ræða, ekki „hýnun“, eins og það væri eitthvað alveg voðalegt. Dálítil endurhlýnun jarðar væri öllum fyrir bestu, mönnum, dýrum, fuglum, fiskum og öllu því sem þrífst á jörðinni. Mesti óvinur alls lífs er kuldinn. Hlýan er vinur alls sem lifir.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.9.2010 kl. 13:34

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur, fyrri loftslagsbreytingar og hlýrri skeið, útiloka ekki í sjálfu sér að hitastig sé að hækka núna vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda. Það þýðir ekki að hunsa allar rannsóknir sem benda til þess bara af því að við vitum að einhvern tíma var hlýrra.

Þegar rætt er um hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingar er gott að líta á stóru myndina. Hvað vitum við með nokkurri vissu?

Í fyrsta lagi, þá sýna mælingar að Jörðin er að hlýna. Í sumar mældist t.d. hlýjasta 12 mánaða tímabil frá því mælingar hófust og það stefnir jafnvel í að árið í heild verði eitt af þeim hlýjustu frá upphafi mælinga. Þessi aukna hlýnun sést m.a. í beinum mælingum á hitastigi um allan heim, svo og í ýmsum náttúrulegum þáttum, samanber t.d. hop jökla, bráðnun hafíss á Norðurskautinu, vorkoman er almennt fyrr á ferð og mælingar sýna fram á hækkandi sjávarstöðu.

Í öðru lagi, þá er ljóst að aukinn styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu er af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis. Þessi aukni styrkur hefur verið mældur með beinum mælingum síðan 1958, og einnig með óbeinum mælingum enn lengra aftur í tímann, sem benda til þess að styrkur koldíoxíðs hafi ekki verið eins hár og núna í allavega 650 þúsund ár. Rannsóknir benda til að aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hnattrænt hitastig og þar með loftslag.

Það þykir því nokkuð ljóst að hlýnunin heldur áfram miðað við núverandi losun koldíoxíðs...það er það sem rannsóknir benda til, hvað sem Vilhjálmi kann að sýnast um það.

Sjá nánar hér.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.9.2010 kl. 13:54

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég nenni satt að segja ekki að byrja á allri þessari „umræðu“ hér. Hitt er þó ljóst, að ef brölt mannanna getur orðið til að seinka því að allt að þriggja kílómetra þykkur jökull leggist yfir Norðvestur- Evrasíu og Norður- Ameríku eiga allir að auka „útblásturinn“ af alefli.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.9.2010 kl. 14:04

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta er hættulegur hugsunarháttur byggður á vankunnáttu Vilhjálmur og kemur okkur ekkert áfram í umræðunni um loftslagsmál.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.9.2010 kl. 14:08

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Vilhjálmur hefur mikið haldið því á lofti að eyðimerkur og þá sérstaklega Sahara, grói upp vegna aukinnar hlýnunar og aukins raka sem af hlýnuninni leiðir. Sjálfur hef ég trú á að þetta geti átt við sumsstaðar og annarstaðar ekki. En hvaða skoðun hafa fræðimenn á þessu?

Emil Hannes Valgeirsson, 29.9.2010 kl. 20:38

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Smá innlegg vegna Sahara:

The Guardian, Friday 16 September 2005

 http://www.guardian.co.uk/science/2005/sep/16/highereducation.climatechange

Global warming could significantly increase rainfall in Saharan Africa within a few decades, potentially ending the severe droughts that have devastated the region, a new study suggests.

The discovery was made by climate experts at the Royal Meteorological Institute in De Bilt, the Netherlands, who used a computer model to predict changes in the Sahel region - a wide belt stretching from the Atlantic to the horn of Africa that includes Ethiopia, Somalia and Djibouti.

Global warming will heat the land more than the sea, leading to changes in air pressure and weather. When the Netherlands team simulated this effect and combined it with warming caused by the expected rises in greenhouse gas emissions between 1980 and 2080, they found Sahel rainfall in the July to September period jumped 1-2mm a day.

Some scientists suspected that global warming might increase rainfall in the region, causing the so-called greening of the Sahara, but these are the biggest predicted increases so far.

Writing in the journal Geophysical Research Letters, the scientists say the increased rainfall could "strongly reduce the probability of prolonged droughts".

Reindert Haarsma, who led the research, said: "We were surprised that it was such a big rainfall signal. There is a lot of uncertainty in this kind of prediction but it is possible the Sahara region could benefit from climate change."

Sediments from the region suggest the semi-arid Sahel region, which borders the southern edge of the Sahara desert, was filled with lakes and lush vegetation as recently as 5,500 years ago. Countries in the Sahel have suffered unpredictable swings in rainfall, leading to severe drought between the 1970s and 1990s.

The cause of the droughts remains a mystery: some blame climate change and others say it is down to farmers destroying surface vegetation. Satellite images suggest vegetation in the region has recovered significantly over the last 15 years, pushing the southern Sahara into retreat.

Professor Haarsma cautioned against reading too much into the new results. The computer models were simple and did not include confounding factors like vegetation.

Peter Cox, of the Centre for Ecology and Hydrology in Dorset, said: "This looks like an interesting study. However, the conclusion that Sahellian rainfall will increase under climate change must be considered as highly uncertain. Models differ in their predictions, with about as many showing decreases in rainfall as increases."

 ------------------------

http://news.nationalgeographic.com/news/2009/07/090731-green-sahara.html

http://www.medindia.net/news/Climate-Changes-And-Increased-Rainfall-Greening-the-Sahara-Desert-Becoming-Green-Due-to-Climate-Change-55735-1.htm

 http://news.bbc.co.uk/2/hi/sci/tech/2267652.stm

Ágúst H Bjarnason, 29.9.2010 kl. 21:21

11 Smámynd: Trausti Jónsson

Vonandi get ég síðar fjallað um Saharaeyðimörkina og þroska Hadley-hringrásarinnar, en hún er mesta og stærsta hringrásareining veðrahvolfs. Þessi fyrirbrigði eru nátengd. Sömuleiðis fæ ég vonandi tækifæri til þess síðar að fjalla um vatnsgufumálið - sem leynir mjög á sér - en á fleiri vegu en flestir halda.

Trausti Jónsson, 29.9.2010 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 507
  • Frá upphafi: 2343269

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 459
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband