Aftur hlýtt eftir nokkra svala daga

Óvenjuhlýtt er hér á landi í dag (laugardag 16. september) - og var víða í gær líka. Nýtt landsdægurmet hefur þegar verið sett í dag, (í annað sinn í þessum mánuði). Ef einhver frekari tíðindi verða getum við þeirra í lok dags á fjasbókardeildinni. 

Fyrrihluti septembermánaðar hefur almennt verið hlýr, meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana var 10,0 stig og 9,4 á Akureyri. Reykjavíkurhitinn er +1,9 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990 og +0,2 ofan meðallags síðustu tíu ára og situr í 7. sæti af 17 á aldarlistanum. Á 141-árslistanum er hitinn í Reykjavík í 26.sæti. 

Úrkomu hefur verið óvenjumisskipt um landið - og óreglulega. Í Reykjavík er hún um 2/3 hlutar meðaltals, en í meðallagi nyrðra. Sólskinsstundir í Reykjavík eru vel umfram meðallag.

Í pistli á hungurdiskum fyrir 3 árum (16. september 2014) skilgreindi ritstjórinn eitthvað sem hann kallaði haustpunkta og síðan haustsummu. Hún var reiknuð þannig að daglegur landsmeðalhiti í byggð var dreginn frá tölunni 7,5 (haustpunktar dagsins - mínustölum sleppt), síðan var á hverjum degi reiknuð summa þessa mismunar (haustsumma). Haustið taldi hann komið þegar summan næði tölunni 30. Að meðaltali (1949 til 2014) gerðist það 16. september - en sveiflast mjög til frá ári til árs - og nokkuð frá einu tímabili til annars. Þetta er nokkuð ströng skilgreining þannig séð - ekki þarf marga mjög kalda daga til að haustið detti inn. Það hefur ekki gerst núna, summan stendur í aðeins 2 punktum.

En lítum á stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða síðdegis á morgun, sunnudag 17. september.

w-blogg160917a

Hér má sjá óvenjuhlýja hæð austan við land. Hún stendur að vísu ekki lengi við og heldur kaldara loft sækir að úr vestri eftir helgina. 

Fellibylurinn Jose er enn á sveimi í Þanghafinu eða þar í grennd og þreytir félaga vora í veðurspám vestra. Honum er ýmist spáð á land (varla þó af fellibylsstyrk) eða að hann falli inn í hakkavél vestanvindabeltisins. Reiknilíkön hafa ýmist verið að fletja hann þar út eða búa til úr leifum hans mjög öfluga lægð. Fjórði möguleikinn er að hann veslist bara upp þarna austur af og hverfi smám saman. Enn er ekki nokkur leið að segja hver þessara fjögurra helstu möguleika verður ofan á - eða þá einhver enn annar. 

Viðbót í dagslok:

Laugardagur 16. september varð sérlega hlýr á landsvísu - fjórðihlýjasti dagur ársins. Landsdægurmet féll og auðvitað aragrúi dægurmeta á einstökum stöðvum. Septembermánaðarmet féllu á allmörgum stöðvum, þar á meðal á Hornbjargsvita (sjálfvirkar frá 1995 og áður mannaðar frá 1946), í Bjarnarey, á Fagradal, Breiðdalsheiði og Öxi, svo aðeins séu nefndar stöðvar þar sem athugað hefur verið lengur en í 10 ár. Ekki hefur heldur mælst meiri hiti í september á sjálfvirkri stöð á Seyðisfirði.

Á fáeinum stöðvum varð hámarkshitinn jafnhár eða hærri en nokkru sinni á árinu [Seyðisfirði, Raufarhöfn, Fonti, Brúðardal, Þórdalsheiði, Kollaleiru, Eskifirði, Dalatanga Skjaldþingsstöðum, Fagradal, Oddsskarði, Sandvíkurheiði, Öxi og Breiðdalsheiði].


Bloggfærslur 16. september 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 507
  • Frá upphafi: 2343269

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 459
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband