Júní kaldari en maí?

Nei, hér er ekki verið að spá neinu um að júní verði kaldari en maí. Það er hins vegar þannig að líkur á því að júní sé kaldari en maí eru mun meiri þegar maí er óvenjuhlýr heldur en þegar hann er kaldur - eða í meðallagi. 

Við spyrjum því hvort þetta hafi gerst. Svarið er já, og líkurnar eru mestar norðaustanlands - eftir hlýjan maí. 

Á landsvísu verður að fara aftur til ársins 1946 til að finna dæmi um svona hegðan hitafarsins. Munurinn var hins vegar ómarktækur, landsmeðalhiti í maí reiknaðist þá 7,4 stig, en 7,3 í júní. Árið 1928 var munurinn aðeins meiri, meðalhiti í maí reiknaðist 7,4 stig, en 7,0 í júní. 

Það er varla hægt að segja að þetta hafi komið fyrir í Reykjavík - að vísu nefnir meðalhitalistinn ártölin 1845 og 1851. Maí 1845 reiknast „óeðlilega“ hlýr í Reykjavík, meðalhiti 10,0 stig - á mörkum þess trúverðuga, en júníhitinn það ár á að hafa verið 9,4 stig. 

Árið 1851 er trúverðugra, þá var meðalhiti í maí í Reykjavík 7,2 stig, en ekki nema 6,3 í júní. Þetta sama ár var maí hlýrri en júní í Stykkishólmi (6,0 og 5,9 stig), á Akureyri (6,7 og 6,2 stig), á Siglufirði (5,9 og 5,6 stig) og í Hvammi í Dölum (4,9 og 4,4 stig). 

Í Stykkishólmi var maí hlýrri en júní bæði 1928 og 1946 eins og á landinu í heild - (og 1851) en ekki oftar. Þetta ástand er algengara á Akureyri, auk 1928 og 1946 (og 1851) koma líka upp árin 1890, 1961 og svo 1991. 

Á Egilsstöðum gerðist þetta 1991 og 1998. Vestur á Fjörðum (Bolungarvík) eru enn 1928 og 1946 nefnd. Í uppsveitum Suðurlands kemur aðeins upp árið 1890 (eins og á Akureyri) - en ekki er vitað um nein dæmi þess að maí hafi verið hlýrri en júní í Vestmannaeyjum. 

Ekkert dæmi er um það að júní hafi verið kaldari en maí á þessari öld. 

Landsmeðalhiti maímánaðar nú var 7,4 stig. Meðalhiti í júní hefur 30 sinnum verið lægri en þetta. Við notum gögn aftur til 1874, 143 ár. Væri júníhitinn algjörlega óháður hita í maí ættu líkur á því að júní nú verði kaldari en maí að vera rúm 20 prósent. - Það er þó ekki alveg svo - við dveljum nú á hlýskeiði - mjög kaldir mánuðir eru nú ólíklegri en þeir voru fyrir öld og meira - en alls ekki útilokaðir. Ætli líkurnar séu ekki nær því að vera 8 til 10 prósent heldur en rúmlega 20 - það er samt umtalsvert. 

Líkur á því að þetta gerist á einhverri stöð um landið norðaustanvert eru meiri en þetta - en minni suðvestanlands. Listi yfir öll þekkt tilvik fortíðar er í textaviðhengi. 

Við bíðum auðvitað spennt. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 4. júní 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 30
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 521
  • Frá upphafi: 2343283

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 473
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband