Í leit að vorinu 4

Í síðasta pistli komumst við að því að mánuðurinn forni, harpa (auk fyrstu viku skerplu) má kannski teljast sérstök árstíð, létum við meðalloftþrýsting ráða árstíðaskiptingu. - Við horfum aftur á sömu mynd, en bætum svonefndum óróavísi við á línuritið. Óróavísirinn segir okkur hversu mikið loftþrýstingur breytist að meðaltali frá degi til dags. 

Óróinn er einskonar mælikvarði á það hversu snarpur „lægðagangur“ er við landið. Hann er allvel tengdur þrýstingnum, lægðum fylgja að jafnaði snarpari þrýstibreytingar heldur en hæðum. - Þó koma mánuðir á stangli þegar þrýstingur er lágur án þess að þrýstiórói sé það. 

Við vitum af reynslu að vetrarlægðir eru öflugri en þær sem ásækja okkur að sumarlagi. Það kemur því ekki á óvart að þrýstióróinn er miklu meiri að vetri en sumri - en hversu miklu meiri?

Sjávarmálsþrýstingur og þrýstiórói

Það sýnir rauði ferillinn á myndinni - og kvarðinn til hægri. Kvarðinn til vinstri og grái ferillinn eru óbreyttir frá pistli gærdagsins. 

Hér sjáum við að óróinn er svipaður frá áramótum og fram í miðjan þorra, um 9 hPa, en þá fer að draga úr honum. Þetta er um svipað leyti og þrýstingur fer að hækka. Í fyrri hluta apríl er hann kominn niður í milli 7 og 8 hPa en fellur þá snögglega á tveimur vikum niður fyrir 6. Síðan dregur hægt úr - án þess að áberandi þrep sjáist. 

Það gerist greinilega eitthvað - lægðagangur minnkar mjög rækilega í kringum sumardaginn fyrsta. Hér er hávetur til miðs þorra, þá taka útmánuðir við og síðan sumarástand strax frá sumardeginum fyrsta. Þrýstiórói vex ekkert við þrýstifallið í maílok - það tengist því einhverju öðru en lægðagangi. 

Þrýstióróavorið? Það stendur eiginlega bara frá 15. til 25. apríl. 


Í leit að vorinu 3

Vorkoma er meira en að hiti hækki með hækkandi sól. Fleira gerist í veðrinu - efni í langan bókarkafla eða heila bók. Hringrás lofthjúpsins breytist - bæði nær og fjær. Vestanvindabeltið slaknar, austanáttin lætur á sér kræla í heiðhvolfinu. Meginlönd og höf bregðast misjafnt við hækkandi sól - sem aftur raskar vindáttum. - Og andardráttur landsins okkar, Íslands, er annar að sumri heldur en vetri. 

Margar þessar breytingar hafa verið raktar á pistlum hungurdiska í gegnum árin - það efni er allt aðgengilegt. Á dögunum var hér fjallað um hækkun meðalhita á vorin. Þar skar einn vendipunktur sig úr - eftir „flatan“ vetrarhita tekur hann skyndilega til við að hækka í vikunni kringum 1. apríl. Á landsvísu hækkar hiti um 2 stig milli mars og apríl, um 3,5 stig milli apríl og maí og svo 3,0 stig milli maí og júní. Hækkunin milli júní og júlí er svo um 1,8 stig að meðaltali. 

Þennan gang hitans sáum við vel í vorpistli sem birtur var hér á hungurdiskum á dögunum. Þar var því gert skóna að það væri í kringum 25. maí sem aðeins fer að hægja á hlýnuninni og henni væri að mestu lokið við upphaf hundadaga. Stungið var upp á því að vetri lyki 1. apríl, þá hæfist vor og stæði annað hvort til 25. maí (þá slær á hraða hitahækkunarinnar) eða til upphafs hundadaga (þegar hitaflatneskja hins stutta sumars tekur við). 

En við munum nú í nokkrum pistlum líta á fleiri atriði vorbreytinga. Eitt í senn. Ef til vill ekki áhugavert fyrir nema fáa - en hafi að minnsta kosti einn lesandi áhuga er ritstjórinn ánægður (jú, hann hefur sjálfur áhuga).

Meðalsjávarmálsþrýstingur fyrri hluta árs

Línuritið sýnir breytingu meðalsjávarmálsþrýstings á Íslandi fyrri hluta árs. Kjarni vetrarins einkennist af nokkurri flatneskju, en hún stendur ekki nema í um það bil 7 til 8 vikur, frá því snemma í desember þar til fyrstu daga febrúarmánaðar. 

Lægstur er þrýstingurinn í þorrabyrjun - á miðjum vetri að íslensku tali. Svo fer að halla til vors, tveimur mánuðum áður en meðalhiti tekur til við sinn hækkunarsprett. 

Þrýstihækkunin heldur síðan áfram jafnt og þétt, en í kringum sumardaginn fyrsta virðist herða á henni um stutta stund þar til hámarki er náð í maí. Þetta hámark er flatt og stendur í um það bil 5 vikur. Mánuðinn hörpu eða þar um bil. Harpa er eiginlega sérstök loftþrýstiárstíð, rétt eins og desember og janúar eru það - og þrýstihækkun útmánaða. 

Í maílok fellur þrýstingurinn - ekki mikið, en marktækt - og þrýstisumarið hefst. - Það stendur fram að höfuðdegi. Árstíðirnar eru því fimm, vetrarsólstöður, útmánuðir, harpa, sumar og haust.

En hver er ástæða þessarar árstíðaskiptingar? Það er afarflókið mál - kannski upplýsist það að einhverju leyti í framhaldspistlum sem fyrirhugaðir eru - hafi lesendur þrek til að fylgjast með. 


Bloggfærslur 12. apríl 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband